SAGA Egmont
Fljótsdæla saga
Cover image: Shutterstock
Copyright © 1997, 2020 Óþekktur and SAGA Egmont
All rights reserved
ISBN: 9788726225570
1. e-book edition, 2020
Format: EPUB 2.0
All rights reserved. No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.
SAGA Egmont www.saga-books.com – a part of Egmont, www.egmont.com
Þorgerður hét kona. Hún bjó í Fljótsdal austur. Hún var ekkja af hinum bestum ættum og hafði þá fé lítið. Þar bjó hún sem nú heitir á Þorgerðarstöðum. Frændur Þóris vildu að hann staðfesti ráð sitt og fengi sér forystu og fýstu að hann bæði Þorgerðar, sögðu forgang góðan í því ráði. Þórir fékk þessarar konu og skyldi boð vera að Hrafnkelsstöðum á mánaðar fresti. Var Ásbirni boðið til boðs.
Glúmur hét maður er bjó í Fljótsdal fyrir vestan þar sem nú heitir á Glúmsstöðum. Þuríður hét kona hans og var Hámundardóttir, kynjuð sunnan úr Þjórsárdal. Þau áttu sér eina dóttir þá er Oddbjörg hét. Þær mæðgur fóru í fjós einn morgun snemma. Nautamaður var í fjósi en Glúmur lá í rekkju sinni. En þá er þær komu heim að bænum var hlaupin skriða á bæinn og þar Glúmur inni orðinn og allur lýður sá er á bænum var nema þessir þrír menn. Eftir þessi tíðindi lætur Þuríður færa bæinn yfir ána, hóti ofar en áður var. Hún bjó þar lengi. Sá bær heitir nú síðan á Þuríðarstöðum. Þessi tíðindi spurðust í Hrafnkelsdal. Þuríður var hin vitrasta kona og skörungur mikill. Fæddi hún upp meyna með mikilli virkt. Var hún og allra kvenna vænst og best mennt.
Og er Ásbirni komu orð bróður síns, hann tekur því vel og býður að sér vinum sínum, ríður vestan yfir heiði og kemur á Þuríðarstaði þess erindis að hann biður Oddbjargar sér til eiginkonu og það var ráðið, fór við það ofan til boðsins að hann flutti þetta brúðarefni með sér. Sjá veisla fór vel fram og var all fjölmenn. Eftir boðið ríður Ásbjörn vestur yfir heiði með konu sína heim á Aðalból. Voru góðar samfarir þeirra.
Þau Þórir og Þorgerður voru ásamt til þess að þau gátu son og dóttir. Hét hann Hrafnkell en hún Eyvör. Hún var gefin Hákoni á Hákonarstöðum er nam Jökulsdal. En þau Ásbjörn og Oddbjörg áttu fjórar dætur og komust öngvar úr barnæsku. En síðast áttu þau son er Helgi hét. Hann óx upp með föður sínum og var hinn efnilegasti maður. Þeir frændur uxu upp þar í héraðinu jafnsnemma og var þeirra fjögurra vetra munur.
Þeir bræður sátu langa hríð í ríki sínu og var gott samþykki þeirra meðan þeir lifðu báðir og varð Þórir sóttdauður. En eftir hann tók fé og mannaforráð kona hans og Hrafnkell son hans, þó að hann væri ungur að aldri, með umsjá Ásbjarnar. Helgi óx upp á Aðalbóli með föður sínum. Hafði hann alla hluti til þess að hann þótti betur menntur en aðrir menn bæði að yfirlitum og skapsmunum.
Oddur hét maður. Hann hafði þar land numið. Bæði var hann blindur og gamall í þann tíð. Hann átti son einn er Ölviður hét. Hann tók fjárforráð eftir föður sinn. Ölviður var mikill maður vexti, allra manna málgastur, ósvinnur og óvinsæll, heimskur og illgjarn, og í öllu ójafnaðarmaður. Hann var aðdráttarmaður mikill að búinu bæði af fjörðum neðan og af fjöllum ofan.
Það bar til á einu sumri að Ölviður bjó ferð sína upp í Fljótsdalshérað til grasa, allt fram að jöklum. Og í þessari ferð ganga hrossin frá þeim Ölvið ofan eftir Fljótsdal en hann leitar og hans menn ofan eftir heiðum hrossanna og finnur eigi. Og er hann kemur fyrir botninn á Hrafnkelsdal þá sjá þeir stóðhross mörg ofan í dalinn er Ásbjörn átti. Ölviður bað þá taka hrossin og færa upp á föng sín. Mönnum hans þótti það óráðlegt að taka hross Ásbjarnar, sögðu það eigi vel dugað hafa við föður hans.
Ölviður kvaðst eigi vilja vera óbirgur á fjöllum uppi fyrir eign annarra manna "og hirði eg aldrei hver á og skal taka hross að vísu."
Og svo gerðu þeir og eru síðan lagðar klyfjar á hrossin og gengu þau heim á Oddsstaði með. Og eftir það sendir hann hrossin vestur yfir heiði og voru þau til ger allóþokkulega.
Og er hrossin komu aftur þá ríður Ásbjörn austur yfir heiði og kemur á Oddsstaði. Hann drap á dyr og bað Ölvið út ganga. Hann gerir svo og heilsar vel Ásbirni. Ásbjörn spurði hvern óskunda hann ætti honum að gjalda. En Ölviður kvaðst honum ekki illt eiga að gjalda.
"Það ætlaði eg," sagði Ásbjörn, "því að eg þykist ómeinn við aðra. Skal eg þetta vel í höndum hafa ef þú vilt þess máls á unna sem öðrum þykir rétt nema þú viljir heldur að við semjum með okkur."
Ölviður kveðst eigi vita að um þetta væri að málþarfa og kvaðst engis máls vilja á unna "þykir mér það jafnskaplegt að hver vor bónda sé eigi óbirgur fyrir annars eign. Mun eg og gera alla jafna um þetta mál þó að þér hafið heldur mannaforráð en vér. Og mun þér mál þykja bóta fyrir þetta mál áður eg bæti þér þetta eða öðrum þó að eg geri þeim slíkt."
Ásbjörn segir að honum mundi það eigi vel gefast. Reið hann heim við svo búið og er heima þau misseri.
Og er leið fram að vorþingi þá reið Ásbjörn ofan í Fljótsdalshérað og stefndi Ölviði til vorþings til Kiðjafells, þessi þingstöð er á hálsinum milli Skriðudals og Fljótsdals, og sótti þar hrossamálið. Þar urðu öngvir menn til varnar og lýkur Ásbjörn sektarorði við Ölvið, reið við það heim að hans, háði féránsdóm. Síðan ríður Ásbjörn á Oddsstaði og tekur Ölvið höndum í rekkju, leiddu hann út og drápu þegar. Ásbjörn kvaðst svo leiða skyldu smámönnum að veita bóndum ágang. Skipti Ásbjörn þá fénu við konu hans. Tók hún lausafé og búsbirgðir. Hann tók bústaðinn undir sig og fékk þar forráðsmann fyrir. En hann situr á Aðalbóli um hríð og hlýtur þar nú frá að hverfa um sinn.
Þiðrandi hét maður. Hann bjó á þeim bæ er í Njarðvík heitir. Hún liggur milli Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar. Þiðrandi átti mannaforráð um Njarðvík og upp í hérað að Selfljóti. Selfljót gengur fyrir austan úr heiðinni milli Gilsárteigs og Ormsstaða og svo fellur það ofan í Lagarfljót. Þetta gætir fyrir ofan reitinn en Lagarfljót fyrir vestan og er það kölluð Útmannasveit. Þetta var þá hundrað bónda eign og sjötigu. Þiðrandi var ríkur maður og þó vinsæll því að hann var hægur við sína undirmenn. Hann var sterkur og mikill vexti og haukur að hug. Hann bjó lengi og var gagnveitull. Og þá er hann var gamall maður var hann kallaður Þiðrandi hinn gamli. Og var hann og svo því að menn segja það að hann hefði sex vetur hins fjórtánda tigar. Hann var þá þó enn hress maður. Hann var virkur að fé og gekk hann þá jafnan að er húskarlar gáfu lítinn gaum að.
Það var einn vetur um brundtíð að húskarlar hans voru rónir á sjó að leita fiska en sumir að heyvi að hann gengur til hrútahúss síns þess er innan garðs var. Á því kvöldi komu allir fyrri heim en hann. Menn spyrja hvar hann mundi vera. Konur sögðu að hann hefði gengið til hrútahúss síns. Nú er hans leitað þangað. Situr hann fyrir utan garðinn þar hjá húsinu. Menn spyrja hví hann færi eigi heim. Hann segir sér gönguna óhæga verið hafa en kvað þá þó lítið um hafa batnað og sagði hrút einn hafa lostið sundur í sér lærlegginn. Var hann við þetta heim borinn og ger hvíla hans. Og eftir þetta lýstur í verkjum og blæs lærið mjög og þetta leiðir hann til bana.
Hann átti eftir tvo sonu. Hét hinn eldri Ketill en Þorvaldur hinn yngri. Hvortveggi þeirra bræðra var mikill vexti. Þorvaldur var manna sjálegastur, hljóður og fáskiptinn. Hann var hinn mesti samsmaður um flesta hluti. En Ketill var manna sterkastur í það mund. Hann var ljótur maður og þó höfðinglegur, dökkur og mikilúðlegur. Hann var manna hægastur hversdaglega en hann var þögull og fálátur snemma og var kallaður Þrum-Ketill. Gallar stórir voru á hans skapsmunum. Sumir kölluðu það meinsemd. Það kom að honum í hverjum hálfum mánuði að skjálfti hljóp á hans hörund svo að hver tönn í hans höfði gnötraði og hrærði hann upp úr rúminu og varð þá að gera fyrir honum elda stóra og leitað honum allra hæginda þeirra er menn máttu veita. Þessum hroll og kulda fylgdi bræði mikil og eirði hann þá öngvu því er fyrir varð, hvort sem var þili eða stafur eða menn, svo þó að eldar væru þá óð hann. Þá gekk hann undan húsum þili eða dyrabúning ef fyrir varð og gekk þetta á hverjum þeim degi er að honum kom og urðu menn þá alla vega að vægja til við hann sem máttu. En þá er af honum leið var hann hægur og stjórnsamur. Þetta kom og til mikils honum og mörgum öðrum þá er á leið ævi hans.
Systir þeirra bræðra hét Hallkatla dóttir Þiðranda hins gamla. Hún var gift Geiti Lýtingssyni er bjó í Krossavík norður í Vopnafirði. Geitir var vinsæll maður en forgangur Hallkötlu var einkar góður. Þau áttu tvo sonu. Hét hinn eldri Þorkell en Þiðrandi hinn yngri. Hann hafði nafn afa síns. Þessir bræður voru báðir vel menntir og þó sinn veg hvor. Þorkell var jarpur á hár, dökkur maður, lágur og þreklegur og kallaður manna minnstur þeirra sem þá voru, manna skjótlegastur og hvatastur sem raun bar á, því að hann átti oft við þungt að etja og bar sig í hvert sinn vel. Þiðrandi Geitisson var manna mestur og sterkastur. Fannst eigi sá maður í þann tíma er sæmilegri væri. Er og svo sagt að hann hafi hinn fjórði maður verið best menntur á öllu Íslandi, en annar maður er til nefndur Kjartan Ólafsson, hinn þriðji Höskuldur Þorgeirsson Ljósvetningagoða, en hinn fjórði Ingólfur Þorsteinsson er kallaður var Ingólfur hinn væni. Segja fróðir menn að öngvir hafi með slíkri menntan skapaðir verið á öllu Íslandi sem þessir fjórir menn og er svo mikið af sagt ásjónu þessara manna að margar konur fengu eigi haldið skapi sínu ef litu fegurð þeirra. Og það er alþýðurómur að þar eftir færi önnur menntan þeirra.
Hróar hét maður. Hann bjó á þeim bæ er að Hofi hét. Það er í Fljótsdalshéraði fyrir vestan Lagarfljót og fyrir utan Rangá en fyrir austan Jökulsá. Þessi sveit hefir tekið viðnefni af Hróari og heitir Hróarstunga. Hann fékk og viðnefni af Tungunni og var kallaður Tungugoði. Barnlaus maður var hann og átti mergð fjár. Hann var þá gamall maður.
Þess er getið að Hróar gerir heimanför sína norður til Vopnafjarðar. Hann kemur að kvöldi í Krossavík hina ytri. Geitir Lýtingsson tók við honum vel og ágætlega og bauð honum þar að sitja meðan hann vildi. Hróar Tungugoði er þar þrjár nætur.
Eftir það biður hann reka að hesta þeirra félaga og kvaðst þá vilja lýsa yfir erindum sínum "og er eg til þess hingað kominn að eg býð heim til fósturs Þiðranda syni þínum og ef þú vilt þetta þá gef eg honum eftir minn dag fé og staðfestu og ríki. En Þorkell taki þitt mannaforráð eftir þinn dag. Þykir mér þú því að eins mína ferð góða gera ef eg fæ þetta sem eg beiði. Mun okkur þá að þessum manni vera mikil styrkur að hann er sonur þinn en fóstri minn og erfingi."
Geitir kvaðst eigi nenna né vilja drepa hendi við svo miklum sæmdum.
Fer nú Þiðrandi austur með Hróari í Tungu og gerir Hróar til hans hvað öðru betur. Hefur Þiðrandi þar litla stund áður verið að það máttu allir sjá að Hróar unni honum mikið og þar út í frá alþýða manns, svo var hann vinsæll, og það hélst honum til dauðadags.
Var þá Þiðrandi sex vetra gamall er hann fór til fósturs úr Krossavík. Þorkell var þá tíu vetra.
Þeir bræður í Njarðvík sömdu eigi öll mál með sér um fjárfar. Ketill vildi einn ráða öllu svo að Þorvaldur var að öngvu kvaddur. En Þorvaldi leiddist það brátt og beiddi að þeir mundu skipta fé og mannaforráði.
En Ketill bað hann skipta þegar hann vildi og kvaðst honum unna við sig alls fjár að helmingi "en mannaforráð er lítið og nenni eg eigi skipta því eg ann þess öngum nema mér."
Þorvaldur þóttist jafnt eiga hvorttveggja þó að hann næði eigi "en séð hef eg það fyrir löngu að þú vilt mig flestu appella. Þykir mér sem sénn muni minn kostur að eg muni slíkt hljóta að hafa sem þú skefur mér af fé en þó skulum við skilja að sinni þó að þú gerir minn harðan. En vita skaltu það að eg þykist að helmingi eiga þó að eg fái eigi svo búið."
Síðan leitaði Ketill að fémunum og skiptir öllu fé í helminga við Þorvald bæði kvikfé og lausafé og öllu því er innan veggja var nema goðorði. Því skipti hann eigi.
Eftir það fór Þorvaldur á burt með alla eigu sína upp um heiði. Hann byggði lendur sínar þær sem hann hafði hlotið en seldi kvikfé að leigu.
Skip stóð uppi í Fljótsdalshéraði við hin eystri fjöll þar sem heitir Unaós. Þorvaldur fær vöru og ræður sig í þetta skip og fór utan. Og er þeir koma í haf byrjaði þeim lítt og velktust úti lengi sumars og að áliðnu sumri fá þeir veður stór og ákaflega hríð. Þessi veður leiða þá úr hafi og sigla að Hjaltlandi um nótt. Þar voru útfiri mikil og sigla þeir í boða og brjóta skipið í spón og týndist fé allt en menn komust lífs á land. Þorvaldur kom á land sem aðrir menn. Var hann í íslenskum klæðum. Öngvan hlut rak upp af fé Þorvalds nema eitt spjót mikið. Tók hann það í hönd sér. Hann var tvær nætur við ströndina og beið ef nokkuð ræki upp af hans varnaði og vill það ekki verða að þau mörk finnist að Þorvaldur ætti. Sýnist honum það ráð að sitja þar eigi lengur birgðalaust. Er það einn dag að hann gengur í burt.
Fyrir Hjaltlandi réð þá jarl einn sá er Björgólfur hét. Hann var þá gamall maður. Það sýnist Þorvaldi að snúa þangað að er jarl réð fyrir. Hann settist utarlega um kvöldið en um morguninn gekk hann fyrir jarl. Sjá jarl var vinsæll af alþýðu en var þó þá óglaður. Hann kvaddi vel jarlinn. Hann tók því vel. Jarl spurði hver hann væri.
Hann kvaðst vera íslenskur maður, leysingi einn af smám ættum, nýkominn úr skipbroti, auralaus maður "veitið mér, herra, veturvist því að eg vil gjarna með yður vera."