Bækur eftir Tracy Chevalier:

Stúlka með perlueyrnalokk

Neistaflug

Hefur þú lesið bækur eftir Tracy Chevalier?

Þetta er bók sem ætti að lesast af öllum bókmenntaunnendum hvers kyns sem þeir eru og á hvaða aldri sem þeir eru og jafnvel þeir sem ekki lesa nema eina bók á ári ættu að velja þessa

- Morgunblaðið

Þessi skáldsaga er sannkallaður gimsteinn

- Time Magazine

Hrífandi skáldsaga ... fallega skrifuð frásögn sem endusspeglar fágun málverksins

- The Wall Street Journal

Sagan um Griet er frábærlega gerð og svo vel úthugsuð á alla kanta að auðvelt er að mæla með henni fyrir hvern sem er

- Alt For Damerne

Stúlka með perlueyrnalokk

Sögusviðið er Delft árið 1664. Griet ræðst sem þjónustustúlka á barnmargt heimili hollenska listmálarans Johannesar Vermeers. Líf hennar vandast þegar Vermeer fær hana til að sitja fyrir hjá sér. Höfundur leiðir lesandann með sér inn í heim málverksins, á svo töfrandi hátt að tilfinningin verður næstum ljúfsár.

Þessi hrífandi saga er byggð á einu þekktasta málverki Vermeers sem er einnig þekkt undir nafninu Stúlka með túrban. Sagan hefur farið sigurför um heiminn og verið kvikmynduð af með Scarlett Johannson og Colin Firth í aðalhlutverkunum.

Neistaflug

© Tracy Chevalier, 2007

Bókin heitir „Burning Bright“ á frummálinu.

© Katrin Agency, 2013

Íslensk útgáfa: JENTAS ehf., 2013

Þýðing: Sölvi Björn Sigurðsson

© kápa: Katrin Agency, 2012

Hönnun kápu: Jentas ehf.

ISBN 978-9979-64-212-1 (epub)

Samningar er varða verk höfundar, þýðingu, kápu og útlit texta og notendarétt á þeim eru í eigu © Katrin Agency.

www.jentas.is

www.isfolkid.is

www.galdrameistarinn.is

JENTAS gefur bókina út á íslensku og dönsku.

Öll réttindi áskilin.

Bók þessa, eða hluta af henni, má ekki afrita með neinum hætti, hvorki með ljósmyndun, prentun, hljóðritun né á annan hátt, án skriflegs leyfis útgefanda.

I

MARS 1782

EITT

Það var eitthvað niðurlægjandi við að bíða í kerru á annasamri götu í Lundúnum, umkringdur aleigu sinni, forvitinni alþýðunni til sýnis. Jem Kellaway sat uppvið stafla af Windsor-stólum sem faðir hans hafði smíðað fyrir fjölskylduna mörgum árum fyrr og horfði agndofa á hvernig gangandi vegfarendur grömsuðu opinskátt í innihaldi kerrunnar. Hann hafði litla reynslu af svo fjölskrúðugu sjónarspili ókunnugra – sæist gestkomandi fólk í þorpinu þeirra í Dorsetskíri var talað um það dögum saman – og hann átti því ekki að venjast að vera svo berskjaldaður fyrir augngotum þeirra og starsýni. Hann hnipraði sig saman bakvið fjölskyldureyturnar og reyndi að láta lítið á sér bera. Jem, stæltur strákur með blá, djúpstæð augu í langleitu andliti og rauðbirkið hár sem krullaðist bakvið eyrun, vakti svosem ekki mikla athygli sjálfur, og það voru fremur eigur fjölskyldunnar en hann sem fólk starði á. Par nokkurt stoppaði meira að segja til að þreifa eins og þau væru hjá ávaxtasalanum að skoða hvaða perur væru safaríkastar – konan strauk yfir faldinn á náttkjól sem stóð út úr rifnum poka en karlinn brá fingri yfir tannblaðið í einni af sögum Thomasar Kellaway, eins og til að kanna í henni bitið. Jafnvel þegar Jem kallaði „hey!“ tók maðurinn sér góðan tíma í að leggja hana frá sér.

Fyrir utan stólana var megnið af innihaldi kerrunnar verkfæri sem faðir Jems notaði við vinnu sína: viðargjarðir til að sveigja tré í bakstykki og handföng Windsor-stólanna sem hann sérhæfði sig í, partar úr smíðisbekk þar sem fæturnir voru renndir, ásamt heilu safni af sögum, öxum, meitlum og nöfrum. Raunar var fyrirferðin í verkfærum Thomasar Kellaway slík að fjölskyldan hafði þurft að skiptast á um að ganga meðfram kerrunni þessa viku sem það tók að komast frá Piddletrenthide til Lundúna.

Vagninum, sem þau höfðu ferðast í undir stjórn herra Smarts, heimamanns frá Piddle-dal sem reyndist búa yfir óvæntri ævintýramennsku, var nú lagt fyrir framan Hringleikahús Astleys. Thomas Kellaway hafði aðeins haft óljósan grun um hvar hann gæti fundið Philip Astley og enga hugmynd um hversu stór London í raun og veru var, en gert ráð fyrir því að líkt og heima í Dorchester væri nóg að koma sér fyrir í borginni miðri til að finna hringleikahúsið þar sem Sirkus Astleys var til húsa. Sem betur fer var Sirkus Astleys vel þekktur í Lundúnum og þeim fljótt vísað að stórri byggingu við enda Westminster-brúar, með uppmjóu, hringlaga timburþaki og inngangi skreyttum fjórum súlum. Gríðarstór hvítur fáni blakti upp úr þaksúlunni, með áletruninni HRINGLEIKAHÚS í svörtu öðrum megin og ASTLEYS í rauðu hinum megin.

Jem reyndi eftir mætti að leiða hjá sér forvitið fólkið á götunni og beindi augum sínum þess í stað að nálægri ánni sem herra Smart hafði ákveðið að ganga meðfram til að „sjá soldið af London“, og að Westminster-brúnni sem lá hvelfd yfir ána og slengdi sér í átt að fjarlægri þyrpingu borgarturna og spírölum Westminster Abbey. Engin af ánum sem Jem þekkti frá Dorset – hvorki Frome sem var á stærð við sveitaslóða eða Piddle sem var bara lækur til að stökkva yfir – átti nokkuð sameiginlegt með Thames, breiðum farvegi straumþungrar leðju sem gekk fram og aftur í takt við fjarlæg sjávarföllin. Bæði áin og brúin voru tepptar af umferð – bátar á Thames, vagnar, kerrur og gangandi vegfarendur á brúnni. Jem hafði aldrei séð svo margt fólk samtímis, jafnvel ekki á markaðsdegi í Dorchester. Hann var svo sleginn út af laginu af iðandi kösinni að smáatriðin festust ekki í sinni.

Þótt freistandi væri að stíga niður af vagninum og ganga til herra Smarts að árbakkanum dirfðist hann ekki að skilja við Maisie og móður sína. Maisie Kellaway starði furðulostin í kringum sig og blakti vasaklút fyrir vitum sér. „Drottinn minn, hvílíkur hiti – og það í mars!“ sagði hún. „Það var ekki svona heitt heima, var það, Jem?“

„Það verður svalara á morgun,“ lofaði Jem. Þótt Maisie væri tveimur árum eldri en hann fannst Jem oft eins hún væri yngri systir sem þarfnaðist verndar frá tvísýnu heimsins – jafn lítil og sú tvísýna var nú í Piddle-dalnum. Verk hans yrði erfiðara hér.

Anne Kellaway horfði niður með ánni líkt og Jem hafði gert, starandi á dreng sem réri rösklega á árabát. Andspænis honum sat hundur, másandi í hitanum; hann var eini farmur drengsins. Jem vissi hvað lék um huga móður hans þar sem hún fylgdi eftir látbrögðum drengsins: bróðir hans, Tommy, sem hafði haft dálæti á hundum og aldrei sést svo í þorpinu að ekki fylgdi honum að minnsta kosti einn hundur.

Tommy Kellaway hafði verið myndarlegur strákur með þvílíka tilhneigingu til dagdrauma að foreldrar hans höfðu ekki vitað sitt rjúkandi ráð. Það varð snemma ljóst að hann yrði aldrei stólasmiður því timbur og möguleikar þess voru honum algjörlega framandi og hann var áhugalaus um verkfærin sem faðir hans reyndi að kenna honum á. Nafrinum hætti hann að snúa í miðju kafi og hægði svo á rennibekknum að hann stoppaði á meðan hann starði í eldinn eða fjarskann – eiginleiki sem hann erfði frá föður sínum án meðfylgjandi hæfileika til að koma sér aftur að verki.

Þrátt fyrir að vera svo einskisnýtur að eðlisfari – upplag sem Anne Kellaway var tamast að leiða hjá sér – þá elskaði móðir hans hann meira en önnur börn sín, án þess að geta sagt til um ástæðuna. Kannski fannst henni hann bjargarlausari og því þarfnast hennar meira. Hann var sannarlega góður félagsskapur og vakti henni dýpri hlátur en nokkrum öðrum var unnt. En hlátur hennar hafði dáið morgun einn sex vikum fyrr þegar hún kom að Tommy undir perutrénu bakatil í fjölskyldugarðinum. Hann hafði klifrað þangað upp eftir síðustu sumarperunni sem hékk af kerskni í grein utan seilingar, jafnvel þótt þau vissu að kuldinn hefði eyðilagt bragð hennar. En trjágreinin hafði gefið sig og drengurinn hrapað og hálsbrotnað. Hvass sársauki nísti brjóst Anne Kellaway í hvert sinn sem hún hugsaði til hans; hún fann til hans núna, þar sem hún fylgdist með drengnum og hundinum í bátnum. Fyrsta bragðskyn hennar af Lundúnum fékk ekki eytt honum.

TVÖ

Thomas Kellaway fann hvort tveggja til smæðar og hugleysis þar sem hann skaust milli hárra súlnanna framan við hringleikahúsið. Hann var lágvaxinn og grannur maður, með snöggklippt, þétthrokkið hár líkast feldi á terríer-hundi. Koma hans þeytti upp litlu ryki í svo stórbrotnum inngangi. Þar sem hann skildi við fjölskylduna sína og gekk inn í anddyrið skynjaði hann bæði tómleika og drunga, þótt frá nálægri dyragætt bærist hvort tveggja hófadynur og svipuhögg. Hann gekk á hljóðið og kom inn í sjálft leikhúsið þar sem hann stóð nú á áhorfendapöllunum og starði upp á sviðið. Þónokkur hross brokkuðu þar um en knaparnir stóðu fremur en sátu á hnakknum. Í miðjunni stóð ungur maður og lét bresta í svipu um leið og hann kallaði fram skipanir. Þótt Thomas Kellaway hefði séð þessa sömu sýningu í Dorchester aðeins mánuði fyrr var honum engu minna starsýnt en áður. Ef eitthvað var virtist jafnvel undraverðara að knaparnir væru færir um að endurtaka slíkar brellur. Eitt skipti gat eins verið hundaheppni; tvö gáfu ótvíræða hæfileika til kynna.

Timburstúka og efrisvalir höfðu verið smíðaðar kringum sviðið með sætum og stæðarými. Yfir öllu saman hékk gríðarstór þriggja hæða ljósakróna neðan úr hvelfdu þaki með opnanlegum fögum sem hleyptu inn enn meiri birtu.

Thomas Kellaway fylgdist ekki lengi með knöpunum því þar sem hann stóð á bekkjunum gekk til hans maður og spurði hann hvað hann vildi.

„Ég þarf að finna hann herra Astley, herra, ef hann má vera að,“ svaraði Thomas Kellaway.

Maðurinn sem hann beindi orðum sínum að var aðstoðarsirkusstjóri Philips Astley. John Fox var með sítt yfirvaraskegg og þungbúin augu sem oftast nær voru hálflokuð og opnuðust aldrei til fulls nema þegar stórslys bar að höndum – en þau höfðu verið mörg og áttu enn eftir að verða fleiri á löngum sirkusferli Philips Astley. Í augum Johns Fox var koma Thomasar Kellaway í hringleikahúsið ekki stórslys og því tók hann svipbrigðalaust á móti Dorset-manninum, lygn til augnanna. Hann var vanur því að fólk spyrði eftir yfirmanni hans. Hann bjó líka yfir óskeikulu minni, nokkuð sem er ómetanlegt í fari aðstoðarmanns, og mundi eftir Thomasi Kellaway frá því í Dorchester mánuði fyrr. „Ef þú ferð út og bíður,“ sagði hann, „býst ég við að á endanum komi hann að hitta þig.“

Gáttaður á syfjulegri ásjónu og daufyrtu svari Johns Fox tölti Thomas Kellaway aftur til fjölskyldu sinnar við vagninn. Það var nóg á einum degi að hafa komið fjölskyldu sinni til Lundúna; hann hafði hreinlega ekki orku til að koma fleiru í verk.

Enginn hefði getið sér þess til – og allra síst Thomas Kellaway sjálfur – að hann, stólasmiður frá Dorchester, kominn af aldagömlum legg Piddle-dalsbúa, myndi enda í Lundúnum. Fram að fundi hans með Philip Astley hafði allt líf hans verið venjulegt. Hann hafði lært stólagerð af föður sínum og erft vinnustofuna við dauða hans. Hann giftist dóttur útskurðarmanns sem jafnframt var besti vinur föður hans, og ef frá voru taldar fumkenndar þreifingar þeirra hjóna í rúminu var samband þeirra eins og systkina. Þau bjuggu í Piddletrenthide, þorpinu sem þau höfðu bæði alist upp í, og áttu þrjá syni – Sam, Tommy og Jem – og dótturina Maisie. Thomas fór á Fimmbjöllurnar til að drekka tvö kvöld í viku og til kirkju á hverjum sunnudegi, og mánaðarlega til Dorchester. Hann hafði aldrei komið niður að ströndinni sem var tuttugu kílómetra í burtu og ólíkt sumum sem sóttu krána hafði hann aldrei lýst yfir nokkrum áhuga á að sjá dómkirkjurnar sem voru dagleiðir í burtu – Wells, Salisbury eða Winchester – eða sækja heim Poole, Bristol eða Lundúnir. Hann sinnti viðskiptum sínum þegar hann fór til Dorchester, tók við stólapöntunum og keypti efni, og fór síðan aftur heim. Hann vildi heldur koma heim í myrkri en eiga næturstað á gistihúsum kaupmannanna í Dorchester og drekka þar frá sér peningana sína. Í hans augum var slíkt mun hættulegra en að þræða dimma stígi. Hann var indælismaður og aldrei sá háværasti á kránni, hamingjusamastur þegar hann sneri fótstólum í rennibekknum sínum og einbeitti sér að lítilli gróp eða sveigju eða gleymdi sér einfaldlega í verkinu, hugfanginn af áferð, lit eða þéttleika viðarins.

Svona lifði hann lífi sínu og hafði búist við að lifa því alla tíð, eða allt þar til Ferðareiðsirkus Philips Astley dúkkaði upp í Dorch-ester febrúardag einn árið 1792 og dvaldi þar í nokkra daga, tveim vikum eftir að Tommy Kellaway féll niður úr perutrénu. Hluti af Sirkus Astleys ferðaðist um Vesturhéruðin á leið sinni til Lundúna eftir vetursetu í Liverpool og Dyflinni. Þótt skemmtunin hefði verið rækilega auglýst á plakötum og í dreifiritum og miklum upphrópunum í Western Flying Post, þá var Thomas Kellaway grunlaus um veru fjölleikaknapanna í Dorchester þegar hann kom þangað í venjubundnum erindagjörðum. Hann hafði komið til að skila af sér átta Windsor-stólum með háu baki og dró þá með sér í vagninum ásamt syninum Jem sem var að nema fagið, líkt og Thomas Kellaway hafði gert af föður sínum.

Jem hjálpaði til við að afferma stólana og fylgdist með föður sínum ræða við kúnnann af þeim bræðingi virðingar og sjálfstrausts sem var nauðsynlegur í kaupmennskunni. „Pabbi,“ byrjaði hann þegar viðskiptunum var lokið og Thomas Kellaway hafði stungið umframkrónu í vasa sinn frá ánægðum viðskiptavininum, „getum við farið og horft á sjóinn?“ Á hæð suður af Dorchester mátti sjá glitta í sjóinn átta kílómetra í burtu. Jem hafði klifrað nokkrum sinnum upp á útsýnispunktinn og vonaðist til þess að einn daginn myndi hann koma niður á sjálfa ströndina. Af brattanum ofan Piddle-dals átti hann oft til að píra suður eftir í von um að landslagi lagskiptra hæðanna hefði einhvern veginn verið hnikað til svo í ljós kæmi undurblá vatnsröndin sem vísaði út í víðáttur heimsins.

„Nei vinur, við þurfum að drífa okkur heim,“ svaraði Thomas Kellaway ósjálfrátt en sá síðan eftir því þegar hann sá hvernig dimmdi yfir andliti Jems, eins og herbergi þar sem dregið er fyrir glugga. Þetta rifjaði upp fyrir honum stutt tímabil í hans eigin lífi þegar hann hafði viljað sjá og gera nýja hluti, verða frjáls undan fastmótuðum venjum, þar til ábyrgð og aldur fengu hann til að gangast við rólegu lífi sínu í Piddle. Án efa myndi Jem líka lærast það af sjálfu sér. Í því fólst að verða fullorðinn. Og samt fann hann til með honum.

Hann sagði ekkert fleira. En þegar þeir óku framhjá engjunum við Frome-ána í útjaðri bæjarins, þar sem reist hafði verið hringlaga timburbygging með þaki úr segldúk, þá litu feðgarnir báðir við til að fylgjast með kyndlaþeyturunum lokka fólk inn fyrir; Thomas Kellaway mundi eftir aukakrónunni í vasa sínum og sneri vagninum inn á völlinn. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem hann hafði gert eitthvað ófyrirsjáanlegt og eitt andartak virtist það losa um eitthvað innra með honum, líkt og þegar ís brestur í vorvök.

Þegar feðgarnir sneru heim seint um kvöldið með sögur af sjónarspilinu úr sirkus Philips Astley, sem þeir státuðu nú af persónulegum kynnum við, þá reyndist það Thomas Kellaway auðveldara en ella að mæta bitru augnaráði eiginkonu sinnar, sem áfelldist hann fyrir að skemmta sér á meðan enn rauk af gröf sonar þeirra. „Hann bauð mér vinnu, Anne,“ sagði hann við hana. „Í London. Nýtt líf langt frá …“ Hann kláraði ekki setninguna. Hann þurfti þess ekki – hugur beggja reikaði til grafreitsins litla í Piddletrenthide-kirkjugarðinum.

Honum til undrunar – því sjálfur hafði hann ekki tekið boðinu alvarlega – leit Anne Kellaway beint í augu hans og kinkaði kolli. „Þá það. London skal það vera.“

ÞRJÚ

Kellaway-fjölskyldan beið hálftíma við vagninn áður en Philip Astley birtist þeim í eigin persónu – sjálfur sirkuseigandinn, sýningarstjórinn, húsbóndinn, viðskiptajöfurinn og stórkostlega litríki persónuleikinn, umvafinn óheyrilegu slúðri og seiðmagni í augum bæði sérmenntaðra og sérvitra. Hann klæddist rauðum frakka sem hann hafði borið mörgum árum fyrr sem hershöfðingi í riddaraliðinu; hann var aðskorinn með gylltum hnöppum en aðeins tekinn saman í kraganum svo undan gægðist umtalsverð bumba sem þó var haldið í skefjum af hvítum, samhnepptum mittisjakka. Buxurnar hans voru hvítar, upp úr stígvélunum stóðu leðurhlífar sem náðu upp að hnjám, en það eina við þennan klæðnað sem teljast mátti borgaralegt var svartur hattur sem hann tók stöðugt ofan fyrir konum sem hann þekkti eða langaði til að þekkja. Í fylgd hins sínálæga Johns Fox tölti hann niður tröppur hringleikahússins, stormaði upp að vagninum, tók ofan hattinn fyrir Anne Kellaway, heilsaði eiginmanni hennar með handabandi og kinkaði kolli til Jems og Maisie. „Velkomin, velkomin!“ hrópaði hann, hranalega og fullur kátínu í senn. „Það er mjög gott að hitta þig aftur, herra minn! Þú kannt vonandi að meta Lundúnir eftir ferðina frá Devon?“

„Dorsetskíri, herra,“ leiðrétti Thomas Kellaway. „Við bjuggum nærri Dorsetskíri.“

„Ójá, Dorsetskíri – fínasta hérað. Þú smíðar tunnur þar, ekki rétt?“

„Stóla,“ leiðrétti John Fox lágri röddu. Þetta var ástæða þess að hann fylgdi yfirmanni sínum hvarvetna á hæla – til að hnippa í hann og minna á það rétta þegar við átti.

„Stóla, já, auðvitað. Og hvað get ég gert fyrir ykkur, herra minn og frú?“ Hann kinkaði allt að því vandræðalega kolli til Anne Kella-way, þar sem hún sat teinrétt og einblíndi augunum á herra Smart sem nú var kominn upp á Westminsterbrúna. Hún herpti saman varirnar svo munnurinn líktist reyrðum poka. Öll ásjóna hennar gaf til kynna að hún vildi ekki vera þarna eða hafa neitt með Philip Astley að gera, en það var nokkuð sem hann átti alls ekki að venjast. Vegna frægðar sinnar var hann eftirsóttari félagsskapur en hann kærði sig stundum um, og þessi gagnstæðu viðbrögð komu honum úr jafnvægi svo hann lagði sig þeim mun meira í líma við að endurheimta athyglina. „Segið mér hvers þið óskið og ég mun uppfylla það!“ bætti hann við og sópaði til hendinni án þess að Anne Kellaway veitti því minnstu athygli, enda einblíndi hún enn á herra Smart.

Hún hafði séð eftir ákvörðun þeirra um að flytja frá Dorsetskíri nánast um leið og vagninn lagði upp frá býlinu þeirra, og eftirsjáin hafði dýpkað eftir því sem leið á viku þeirra á veginum, þar sem þau ösluðu gegnum vorleðjuna á leið sinni til Lundúna. Hún fann það nú þar sem hún sat framan við hringleikahúsið án þess að líta á Philip Astley að Lundúnadvölin myndi ekki dreifa huga hennar frá látna syninum eins og hún hafði vonast til; ef eitthvað var leitaði hugur hennar enn meira til hans hér, því dvölin minnti hana á það sem hún reyndi að flýja. Engu að síður myndi hún fyrr kenna eiginmanni sínum og Philip Astley um óhamingju sína, því hún fengi aldrei af sér að áfellast Tommy fyrir að hafa verið slíkt flón.

„Ja, herra,“ hóf Thomas Kellaway mál sitt, „þú bauðst mér til Lundúna og ég hef þegið boðið í mestu vinsemd.“

„Gerði ég það?“ Philip Astley sneri sér að John Fox. „Bauð ég honum hingað, Fox?“

John Fox kinkaði kolli. „Þú gerðir það, herra.“

„Ó, manstu ekki eftir því, herra Astley?“ hrópaði Maisie og hallaði sér fram. „Pabbi sagði okkur allt um það. Hann og Jem fóru á sýninguna þína og á meðan gerði einhver bragð uppi á stól ofan á hesti og stóllinn brotnaði og pabbi lagaði hann fyrir þig á staðnum. Og svo fóruð þið að tala um timbur og húsgögn vegna þess að þú lærðir skápasmíði, er það ekki, herra?“

„Uss, Maisie,“ greip Anne Kellaway fram í og sneri höfðinu eitt andartak frá brúnni. „Ég er viss um að hann vill ekki þurfa að hlusta á allt þetta.“

Philip Astley starði á mjóslegna, fjörmikla sveitastelpuna og hló góðlátlega. „Ja, ungfrú, gott ef mig rámar ekki í slíkan fund núna. En hvað hefur hann að gera með komu ykkar?“

„Þú sagðir pabba að ef hann vildi einhvern tíma koma til London myndirðu hjálpa honum að koma sér fyrir. Svo það var það sem við gerðum, og hér erum við nú.“

„Hérna eruð þið svo sannarlega, Maisie, öllsömul.“ Hann sneri sér að Jem og giskaði á að hann væri svona tólf ára og þarmeð á heppilegum aldri til að sinna erindum fyrir sirkusinn og hjálpa til. „Og hvað heitir þú, vinur?“

„Jem, herra.“

„Hvers kyns stólar eru þetta sem þú ert með þarna á vagninum, Jem?“

„Windsor, herra. Pabbi smíðaði þá.“

„Myndarlegur stóll, Jem, mjög myndarlegur. Gætirðu smíðað nokkra fyrir mig?“

„Að sjálfsögðu, herra,“ sagði Thomas Kellaway.

Philip Astley gjóaði augunum á Anne Kellaway. „Ég tek tólf stykki.“

Anne Kellaway stífnaði upp en lét enn sem hún sæi ekki sirkusmanninn, þrátt fyrir höfðinglega pöntun hans.

„Jæja, Fox, hvaða herbergi eigum við laus í augnablikinu?“ spurði hann. Philip Astley átti dágóðan fjölda húsa í Lambeth, svæðinu í kringum hringleikahúsið, rétt handan Westminster-brúar og hinna eiginlegu Lundúna.

John Fox hreyfði varirnar og ýfði upp á yfirvararskeggið. „Bara nokkur hjá fröken Pelham í Herkúlesarþyrpingunni – en hún velur leigjendur sína sjálf.“

„Jæja, hún velur Kellaway-fjölskylduna – þau verða til fyrirmyndar. Farðu með þau þangað núna, Fox, og taktu nokkra stráka með til að afferma.“ Philip Astley tók enn einu sinni ofan hattinn fyrir Anne Kellaway, kvaddi eiginmann hennar með handabandi og sagði: „Ef þú þarft á einhverju að halda tekur Fox á móti þér. Velkominn til Lambeth!“

FJÖGUR

Maggý Butterfield tók strax eftir komufólkinu. Fátt fór framhjá henni á svæðinu – ef einhver flutti inn eða út kom Maggý og stakk niður nefi sínu í eigur þess, spurði spurninga og safnaði saman upplýsingum til að koma síðar til föður síns. Það var nánast innbyggt í eðli hennar að laðast að léttivagni herra Smarts, sem nú hafði stöðvast við hús númer 12 í Herkúlesarþyrpingunni, og stúdera fjölskylduna sem affermdi hann.

Herkúlesarþyrpingin stóð saman af röð tuttugu og tveggja múrsteinshúsa sem voru römmuð inn af krám í sitthvorum enda, Ananas-kránni og Herkúlesarkránni. Hvert um sig var þrjár hæðir auk kjallara, með litlum forgarði og mun stærri garði bakatil. Gatan sjálf var fjölfarin hjáleið Lambethbúa sem vildu komast yfir Westminsterbrúna án þess að þurfa að þræða eymdarlega, hrörlega slóðana meðfram ánni, frá Lambeth-höll að brúnni.

Húsið númer 12 í Herkúlesarþyrpingunni státaði af axlaháu, svartmáluðu járnhliði með broddfleinum. Forgarðurinn var þakinn rúnnuðum steinvölum og skorinn af hnéháu, hringlaga og snöggklipptu hekki en í miðjunni stóð runni sem einhver hafði lagt mikla natni við að klippa til í kúlu.

Framglugginn var að hálfu skyggður með appelsínugulum gluggatjöldum. Þar sem Maggý nálgaðist sá hún karl og konu ásamt strák og stelpu á hennar aldri bera stóla inn í húsið á meðan lágvaxin kona í fölgulum slopp hringsnerist í kringum þau.

„Þetta er frekar óvenjulegt!“ hrópaði hún. „Mjög svo óvenjulegt! Herra Astley veit fullvel að ég vel sjálf mína leigjendur, og hef alltaf gert. Hann hefur engan rétt til að neyða upp á mig fólk. Heyrirðu það, herra Fox? Alls engan rétt til þess!“ Hún stóð beint í vegi fyrir John Fox sem hafði gengið út úr húsinu með uppbrettar ermar og nokkra sirkusstráka á hælunum.

„Afsakaðu mig, fröken Pelham,“ sagði hann um leið og hann steig framhjá henni. „Ég er bara að framfylgja því sem maðurinn sagði mér að gera. Ég býst við að hann komi fljótlega sjálfur til að útskýra þetta.“

„Þetta er mitt hús!“ hrópaði fröken Pelham. „Ég er húsráðandinn. Hann er bara eigandinn og hefur ekkert með það að gera hvað gerist hérna inni.“

John Fox tók upp kassa með trésögum og virtist sjá eftir að hafa sagt nokkurn skapaðan hlut. Tónninn í rödd fröken Pelham virtist líka fara fyrir brjóstið á hestinum sem beitt var fyrir vagninn, en eigandi hans var kominn inn í húsið ásamt hinum til að hjálpa við að bera upp eigur Kellaway-fjölskyldunnar. Hesturinn hafði staðið auðsveipur, hófsár og undirgefinn eftir vikulanga ferðina til Lundúna, en eftir því sem rödd fröken Pelham óx skræki og styrkur tók hann að ókyrrast og stappa niður fótum.

„Þú stelpa!“ kallaði John Fox á Maggý. „Þú færð penní fyrir að halda hestinum stöðugum.“ Hann hraðaði sér gegnum hliðið og inn í húsið með fröken Pelham kvartandi á hælum sér.

Maggý stóð fúslega upp og tók í taum hestsins, hæstánægð með að fá borgað fyrir útsýnissæti yfir umstanginu. Hún strauk snoppuna á hestinum. „Svona nú, karlinn, gamli sveitahestur,“ muldraði hún. „Hvaðan ertu þá? Frá Jórvík, er það? Lincolnskíri?“ Hún nefndi þessa tvo staði á Englandi sem hún vissi eitthvað um, sem var ákaflega lítið – aðeins það að foreldrar hennar höfðu komið þaðan fyrir tuttugu árum þegar þau fluttust til Lundúna. Maggý hafði aldrei komið út fyrir Lundúnir; raunar fór hún sjaldnast yfir brúna inn í miðbæinn og hafði aldrei verið meira en eina nótt að heiman.

„Dorsetskíri,“ heyrðist einhver segja.

Maggý sneri sér við og brosti við glymnum og sönglandanum í rödd stúlkunnar sem hafði haldið á stólnum sínum inn í húsið en var nú komin út aftur og stóð við hliðina á vagninum. Hún var ekki ófríð, björt í andliti með stór blá augu, þótt yfir öxlunum bæri hún reyndar fáránlega blúnduhettu sem hún hlaut að ímynda sér að yrði smart í borginni. Maggý glotti. Hún þurfti ekki að fylgjast lengi með þessari fjölskyldu til að vita allt sem hún þurfti að vita: Þau voru úr sveitinni, komin til Lundúna af sömu ástæðu og allir – til að eignast betra líf hérna en heima. Sumum tókst þetta, það sönnuðu dæmin. En í önnur skipti – „Hvar er heima þá?“ spurði hún.

„Piddletrenthide,“ svaraði stelpan og teygði á síðasta sérhljóðanum.

Maggý hnussaði. „Piddle-dí-dí, hvílíkt nafn! Aldrei heyrt um það.“

„Það eru þrjátíu hús við Piddle-ána. Það er sko í Piddle-dalnum, nálægt Dorchester. Það var svo fallegur staður.“ Stúlkan brosti við einhverju hinum megin götunnar, líkt og hún kæmi þar auga á Dorchester.

„Og hvað heitirðu, fröken Piddle?“

„Maisie. Maisie Kellaway.“

Dyrnar að húsinu opnuðust og móðir Maisie birtist aftur. Anne Kellaway var hávaxin og beinaber og hafði tekið dökkleitt hárstrýið í hnút aftur á langan hálsinn. Hún leit á Maggý full grunsemda, líkust kaupmanni sem heldur að einhver hafi stolið frá sér. Maggý kannaðist vel við þann svip.

„Vertu ekki að tala við ókunnuga, Maisie,“ skammaðist Anne Kellaway. „Var ég ekki búin að vara þig við London?“

Maggý hristi beislið. „Sjáðu til, frú, Maisie er alveg örugg með mér. Öruggari en sumir.“

Anne Kellaway horfði stíft á Maggý og sagði: „Heyrirðu það, Maisie? Meira að segja heimafólkið segir að hér sé alls konar óþjóðalýður á ferli.“

„Það er rétt. London getur sko verið óþverrastaður,“ stóðst Maggý ekki mátið að segja.

„Hvað þá? Hvers konar óþverrar?“ spurði Anne Kellaway.

Maggý yppti öxlum og var andartak slegin út af laginu. Hún vissi ekki hverju hún átti að svara. Eitt gæti hún auðvitað sagt sem myndi sannarlega ganga fram af konunni, en það fengi Maggý aldrei af sér að segja við Anne Kellaway. „Kannastu við litla stíginn yfir Lambeth-garðinn sem liggur frá ánni yfir vellina upp á Konungsstíg?“

Maisie og Anne Kellaway komu af fjöllum. „Það er ekki langt héðan,“ hélt Maggý áfram. „Bara rétt þarna.“ Hún benti yfir veginn þar sem gresjurnar teygðu sig nær óhindrað að ánni. Í fjarskanum mátti sjá glitta í rauða múrsteinsturna Lambeth-hallarinnar.

„Við vorum bara að koma,“ sagði Anne Kellaway. „Við höfum ekki séð mikið.“

Maggý andvarpaði enda slagkrafturinn á undanhaldi í sögu hennar. „Þetta er bara lítill slóði, mjög góður til að stytta sér leið. Hann var kallaður Ástarstígur um tíma út af –“ Hún stöðvaði mál sitt þar sem Anne Kellaway hristi höfuðið ákaflega og gjóaði augunum á Maisie.

„Jæja, hann var kallaður það,“ hélt Maggý áfram, „en vitiði hvað hann er kallaður núna?“ Hún hikaði. „Hálsstyttingarstígur!“

Mæðgurnar hrylltu sig, sem kallaði fram vægðarlaust bros á Maggý.

„Það er nú ekkert,“ skaut einhver að. „Við erum með Dauðrakattastíg heima í Piddle-dal.“ Strákurinn sem borið hafði einn af stólunum inn í húsið stóð nú í dyragættinni.

Maggý ranghvolfdi augunum. „Dauður köttur, já? Ég býst þá við að þú hafir fundið hann?“

Hann kinkaði kolli.

„Jæja, en ég fann nú dauða manninn!“ hrópaði Maggý sigurreif, þótt um leið fyndi hún magann á sér herpast saman og vildi óska að hún hefði sleppt blaðrinu, ekki síst þar sem strákurinn fylgdist nú grannt með henni eins og hann vissi hvað hún væri að hugsa. En hann gat ekki vitað það.

Anne Kellaway bjargaði henni frá því að þurfa að segja meira. Hún hélt nú dauðahaldi í hliðið og hrópaði upp yfir sig: „Ég vissi að ég hefði aldrei átt að koma til Lundúna!“

„Svona nú, mamma,“ muldraði Maisie eins og hún væri að róa niður barn. „Nú skulum við koma þessu dóti inn fyrir. Hvað með þessa potta?“

Jem lét Maisie um að róa móður þeirra. Hann hafði heyrt nógu oft á leið þeirra til Lundúna hvílíkum kvíða þessir flutningar ollu henni. Hún hafði aldrei látið á slíku bera í Dorsetskíri og skyndileg umbreyting hennar úr ráðvísri sveitakonu í taugatrekktan ferðalang hafði komið honum á óvart. Ef hann veitti henni of mikla athygli fór hann sjálfur að finna fyrir kvíða. Í stað þess kaus hann að virða fyrir sér stelpuna sem hélt um beislið. Hún var fjörmikil að sjá, með svartan flóka og brún augu með löngum augnhárum. Bros hennar var V-laga svo hakan á henni varð eins og á ketti. Það sem vakti mestan áhuga hjá honum var að sjá hryllinginn og eftirsjána sem gagntók andlit hennar þegar hún minntist á dauða manninn; hann var viss um að hún fyndi gallbragð þegar hún kyngdi. Þrátt fyrir kokhreystina fann Jem til með henni. Eftir allt saman var alveg ábyggilega verra að finna dauðan mann heldur en dauðan kött – þótt hann hefði sjálfur átt köttinn og þótt vænt um hann. Hann hafði til dæmis ekki komið að bróður sínum, Tommy; sá vægðarlausi fundur hafði verið eftirlátinn móður hans sem hafði hlaupið inn á vinnustofuna úr garðinum með skelfingarsvip á andlitinu. Kannski útskýrði það kvíða hennar gagnvart öllu síðan þá.

„Hvað eruð þið annars að gera í Herkúlesarþyrpingunni?“ spurði Maggý.

„Herra Astley sendi okkur,“ svaraði Jem.

„Hann bauð okkur til London!“ greip Maisie fram í. „Pabbi lagaði stól fyrir hann og núna er hann kominn til að smíða stóla í London.“

„Minnstu ekki á þennan mann,“ sagði Anne Kellaway og nánast spýtti út úr sér orðunum.

Maggý starði á hana. Fáir báru Philip Astley illa söguna. Hann var auðvitað fyrirferðarmikill, uppvöðslusamur og þvermóðskufullur maður, en hann var líka höfðinglegur og góðhjartaður við alla. Ef honum varð uppsigað við einhvern var hann búinn að gleyma því andartaki síðar. Maggý hafði tekið við óteljandi penníum af honum, oftast fyrir einföld verk eins og að halda hesti kyrrum stutta stund, og hún hafði fengið að koma frítt á sýningar eftir ábendingu Astleys til dyravarðanna. „Hvað hefurðu eiginlega á móti herra Astley?“ spurði hún, reiðubúin að koma honum til varnar.

Anne Kellaway hristi höfuðið, tók pottana upp úr kassanum og stormaði inn í húsið líkt og nafn mannsins hefði tekið á sig líkamlegt ófreski innra með henni. „Hann er einn besti maðurinn sem þú átt eftir að hitta í Lambeth!“ kallaði Maggý á eftir henni. „Ef þú þolir hann ekki muntu aldrei finna þér almennilegan selskap!“ En Anne Kellaway var þegar horfin inn í húsið.

„Eru þetta allir hlutirnir ykkar?“ spurði Maggý og nikkaði í átt að kerrunni.

„Meirihlutinn,“ svaraði Maisie. „Við skildum eitthvað eftir hjá Sam – hann er eldri bróðir okkar. Hann varð eftir. Og – ja – við áttum bróður líka, en hann dó fyrir ekki svo löngu. Svo ég hef bara átt bræður sko, þótt mig langaði alltaf í systur. Átt þú systur?“

„Nei, bara bróður.“

„Við höldum að okkar muni bráðum gifta sig, er það ekki, Jem? Lizzý Miller – hann er búinn að vera með henni í alveg mörg ár.“

„Komdu Maisie,“ greip Jem fram í, tregur til að gera fjölskylduhagina svo opinbera. „Við þurfum að fara með þetta inn.“ Hann tók upp viðargjörð.

„Til hvers er þetta nú?“ spurði Maggý.

„Stólamót. Maður sveigir við í kringum það til að móta stólbök.“

„Hjálparðu pabba þínum að smíða stóla?“

„Já,“ svaraði Jem stoltur.

„Svo þú ert botnreka!“

Jem roðnaði. „Hvað meinarðu?“

„Þjónustufólk er viðrekur, ekki satt, af því það rekur viðinn á eldinn? En þú rekur botninn í stólana þína!“ Maggý skellti upp úr en Jem varð eldrauður í framan. Það hjálpaði ekki til þegar Maisie tók undir hláturinn með klingjandi skríkjum sínum.

Reyndar hvatti systir hans Maggý til að staldra lengur við með því að kalla í átt til hennar þegar þau Jem gengu að húsinu með stólamótin rúlluð upp á handleggina: „Hvað heitirðu?“

„Maggý Butterfield.“

„Ó, svo þú heitir líka Margaret! Er það ekki sniðugt, Jem? Fyrsta stelpan sem ég hitti í London heitir það sama og ég!“

Jem velti því fyrir sér hvernig eitt og sama nafnið gæti átt við tvær jafn ólíkar stúlkur. Þótt Maggý notaði enn ekki lífstykki eins og Maisie var hún íturvaxnari og spengilegri, þrýstin eins og ferskja, en Maisie var mjóvaxin með beinabera ökkla og úlnliði. Þótt þessi Lambeth-stelpa vekti áhuga hans treysti hann henni ekki. Hún gæti jafnvel stolið einhverju, hugsaði hann með sér. Það er eins gott að fylgjast með henni.

Hann skammaðist sín að vísu fyrir að hugsa svona, þótt það kæmi ekki í veg fyrir að hann gægðist út um opinn framgluggann á íbúðinni þeirra nokkrum mínútum seinna til að sannfæra sig um að Maggý væri ekki að gramsa í vagninum þeirra.

Hún var ekki að því. Hún hélt hesti herra Smarts stöðugum og strauk honum um hálsinn um leið og flutningavatn ók hjá. Síðan flissaði hún að fröken Pelham sem var aftur komin út í forgarðinn og lét gamminn geisa um nýju leigjendurna sína. Maggý virtist fyrirmunað að vera kyrr. Hún hoppaði stöðugt af einum fæti á annan og gjóaði augum á gangandi vegfarendur. Gömul kona gekk hjá hrópandi: „Gamalt járn og brotnar glerflöskur! Komið með þær til mín!“ Ung stúlka hélt í gagnstæða átt með fulla körfu af maríulyklum. Karlmaður neri saman tveimur hnífsblöðum og hrópaði yfir glymjandann og skröltið: „Hnífar brýndir, látið brýna hnífa ykkar! Þeir bíta á allt þegar ég er búinn að eiga við þá!“ Hann otaði hnífnum framan í Maggý svo hún vék sér undan og hoppaði aftur um leið og hann skellti upp úr. Hún stóð og horfði á eftir manninum fara, skjálfandi þannig að hesturinn beygði höfuðið til hennar og hneggjaði.

„Jem, opnaðu þennan glugga betur,“ sagði móðir hans fyrir aftan hann. „Mér líkar ekki lyktin af fólkinu sem var hér á undan okkur.“

Jem lauk upp gluggafaginu og Maggý leit upp og kom auga á hann. Þau störðu hvort á annað, eins og til að ögra hinu til að líta undan fyrst. Á endanum þvingaði Jem sig til að stíga aftur úr gluggagættinni.

Þegar eigum Kellaway-fjölskyldunnar hafði verið haganlega komið fyrir fóru allir út á götuna til að kveðja herra Smart. Hann hafði þegar séð nógu mikið af Lundúnum til að geta sagt frá þeim vikum saman á kránni og ætlaði ekki að gista, enda orðinn óþreyjufullur að halda aftur heim til Dorsetskíris. Hann hafði engan áhuga á að dvelja þarna fram í myrkur þegar hann var viss um að djöfullinn tæki á leita á íbúa Lundúna – þótt hann léti ekki þá skoðun sína í ljós við Kellaway-fólkið. Öll voru þau þó treg til að sjá á eftir síðasta hlekknum sem tengdi þau við Piddle-dal og töfðu herra Smart eins og mest þau máttu með spurningum og uppástungum. Jem hélt í hliðina á vagninum meðan faðir hans ræddi hvaða gistiheimili væru nú best á heimleiðinni; Anne Kellaway sendi Maisie til að gramsa eftir fáeinum eplum handa hestinum.

Á endanum lagði herra Smart af stað. „Gangi ykkur vel og Guð blessi ykkur!“ kallaði hann um leið og hann hóf vegferð sína í burt frá húsi númer 12 í Herkúlesarþyrpingunni, muldrandi ofaní barm sér: „Og Guð hjálpi ykkur líka.“ Maisie veifaði vasaklúti á eftir honum, en hann sneri sér ekki við. Þegar vagninn beygði til hægri við endann á götunni og hvarf saman við umferðarþungann fékk Jem hnút í magann. Hann sparkaði í tað sem hesturinn hafði skilið eftir sig og leit ekki upp, þótt hann fyndi að Maggý horfði á sig.

Fáeinum andartökum síðar varð hann var við hárfínan blæ- brigðamun á erli götunnar. Glymjandi hestanna, vagnanna og flutningakerranna var reyndar samur við sig, og það sama átti við um skarkala fisksalanna, eldfærasalanna og kústasalanna, og hrópin í skósólurunum og pottaviðgerðarmönnunum. Þó var eins og andartakskyrrð færðist yfir fólkið á götunni um leið og athygli þess beindist upp eftir Herkúlesarþyrpingunni. Meira að segja fröken Pelham var ekki ósnortin af þessu og heldur ekki Maggý, sem hætti að stara á Jem. Hann leit því upp og beindi augum sínum að manninum sem hún fylgdist með. Hann var miðlungshár og kubbslegur í vexti, með hvítt, kringlótt andlit, þungur á brún með áberandi grá augu og þá fölu ásjónu manns sem eyðir meirihluta tíma síns innandyra. Maðurinn var látlaus til fara, klæddur hvítri skyrtu, svörtum buxum og hnésokkum, og í lítils háttar gamaldags svörtum frakka. Það sem mesta athygli vakti þó í fari hans var rauði hatturinn á höfðinu. Jem hafði aldrei séð þvílíkt höfuðfat fyrr, með háum toppi og uppábrettum börðum og áfastri rósettu öðrum megin, rauðri, hvítri og blárri. Hatturinn var úr ull sem varð til þess að sviti lak niður andlit mannsins í óvenjulegum marshitanum. Hann virtist dálítið meðvitaður í því hvernig hann bar höfuðið, líkt og hatturinn væri nýr eða dýrmætur og hann yrði að passa vandlega upp á hann; líkt og hann vissi að augu allra myndu beinast að honum – eins og Jem tók raunar eftir að þau gerðu.

Maðurinn beygði inn um hliðið á húsinu næst þeirra, gekk upp slóðann, flýtti sér inn og lokaði á eftir sér dyrunum án þess að líta í kringum sig. Þegar hann var horfinn inn var eins og gatan hristi sig eins og hundur að loknum blundi, og allt fór á kreik af endurnýjuðum krafti.

„Sérðu bara, þetta er ástæðan fyrir því að ég þarf að tala strax við herra Astley,“ sagði fröken Pelham við John Fox. „Nógu er nú slæmt að búa við hliðina á uppreisnarmanni, en að vera síðan neydd til að taka inn á sig fólk frá Dorsetskíri – það er hreinlega of mikið!“

Maggý tók til máls. „Dorsetskíri er nú ekki beinlínis París, frú. Ég þori að veðja að þetta Dorsetfólk veit ekki einu sinni hvað bonnet rouge er – er það nokkuð, Jem, Maisie?“

Þau hristu hausinn. Þótt Jem væri Maggý þakklátur fyrir að koma þeim til varnar óskaði hann þess að hún neri þeim ekki vanþekkingunni um nasir.

„Þú þarna, litla ótuktin þín!“ hrópaði fröken Pelham og tók nú í fyrsta sinn eftir Maggý. „Ég vil ekki sjá þig hérna í kring. Þú ert jafnslæm og faðir þinn. Þú skalt láta leigjendurna mína í friði!“

Faðir Maggý hafði eitt sinni selt fröken Pelham blúndu sem hann hélt fram að væri flæmsk en hafði raknað upp eftir nokkra daga og reynst vera komin frá gamalli konu í nágrenninu, í Kennington. Þótt hún hefði ekki látið handtaka hann – af ótta og skömm yfir því að nágrannar hennar kæmust að því að hún hefði látið Dick Butterfield gabba sig – þá notaði fröken Pelham hvert færi sem gafst til að tala illa um hann.

Maggý hló; hún var vön því að fólk baktalaði föður hennar. „Ég læt pabba vita að þú biðjir að heilsa,“ sagði hún glottandi og sneri sér síðan að Jem og Maisie. „Bless í bili.“

„Sjáumst!“ svaraði Jem og fylgdist með henni hlaupa niður götuna og hverfa inn í sundið milli húsanna. Núna þegar hún var farin vildi hann að hún kæmi aftur.

„Myndirðu vera svo vænn, herra,“ sagði Maisie við John Fox, sem var að gera sig kláran til að halda aftur í hringleikahúsið ásamt sirkusdrengjunum, „að segja mér hvað bonnet rouge er?“

John Fox stansaði. „Það myndi vera svona rauðskúfur eins og þú sást á höfði nágranna þíns, ungfrú. Þeir ganga með þá sem styðja byltinguna í Frakklandi.“

„Ó! Við vorum búin að heyra eitthvað um það, er það ekki, Jem? Það var þarna þar sem öllum var hleypt út úr Bastillunni, er það ekki?“

„Það var lóðið, ungfrú. Það hefur lítið með okkur að gera hér innfrá, en sumir vilja sýna hvað þeim finnst um þetta.“

„Hver er þá nágranninn okkar? Er hann franskur?“

„Nei, ungfrú. Þetta myndi vera Willam Blake, borinn og barnfæddur í Lundúnum.“

„Þið látið hann eiga sig, krakkar,“ skaut fröken Pelham að. „Þið viljið ekkert eiga saman við hann að sælda.“

„Hvers vegna ekki?“ spurði Maisie.

„Hann prentar bæklinga með alls konar róttæku bulli í þeim, það er ástæðan. Hann er vandræðagemsi, þessi maður. Svo ég vil ekki sjá neina bonnet rouge í mínum húsum. Er það skilið?“

FIMM

Maggý kom að hitta Kellaway-krakkana viku seinna og beið framan við húsið þar til hún þóttist viss um að allir væru komnir til herbergja sinna. Hún hafði gengið margoft framhjá Herkúlesarþyrpingunni og alltaf gjóað augunum að framglugganum þeirra sem þau höfðu fljótt komist upp á lagið með að loka til að varna göturykinu inngöngu. Tvisvar hafði hún séð Anne Kellaway standa úti í glugganum með hendur á brjósti, horfa niður götuna. Þegar hún kom auga á Maggý roðnaði hún og hörfaði inn í íbúðina.

Í þetta skiptið var enginn að horfa út um gluggann. Maggý ætlaði að fara að kasta steinvölu í gluggann til að ná athygli þeirra þegar Maisie birtist í dyragættinni með bursta og ruslatunnu. Hún opnaði garðhliðið og tæmdi viðarkurl úr tunnunni á götuna með nettri úlnliðshreyfingu, um leið og hún horfði í kringum sig. Þegar hún kom auga á Maggý stífnaði hún upp en flissaði svo: „Daginn, Maggý! Er í lagi að fleygja þessu bara svona á götuna? Ég hef nú séð fólk fleygja verra dóti.“

Maggý hnussaði. „Þú mátt fleygja því í ræsið sem þú vilt. En hvers vegna ættirðu að vilja fleygja þessu viðarkurli? Allir aðrir myndu nota þetta á eldinn.“

„Ó, við eigum nóg – of mikið í rauninni. Ég hendi meirihlutanum af því sem ég sópa upp. Sumt er líka grænt og brennur illa.“

„Selurðu ekki afgangskurlið?“

Maisie virtist gáttuð. „Ætli það.“

„Þið ættuð sko að selja þetta. Það gætu sko margir notað þetta kurl til að kveikja upp í eldinum hjá sér. Þú gætir grætt nokkur penní. Heyrðu – ég skal selja þetta fyrir þig og láta þig hafa sexpens af hverjum skildingi.“

Maisie varð jafnvel enn gáttaðri að sjá, líkt og Maggý talaði allt of hratt. „Kanntu ekki að selja hluti?“ spurði Maggý. „Þú veist, eins og þessi þarna.“ Hún benti á kartöflusala sem hrópaði: „Indælis-kartöflur, viljiði ekki kartöflur!“ og keppti um raustina við mann sem kallaði: „Þið sem eigið aura, kaupið af mér staura!“

„Sérðu? Allir hafa eitthvað að selja.“

Maisie hristi hausinn svo pífurnar á blúnduhettunni þeyttust framan í andlitið á henni. „Við gerðum það ekki heima.“

„Þið um það. En eruð þið búin að koma ykkur fyrir þarna uppi?“

„Næstum. Það þarf aðeins að venjast þessu. Herra Astley fór með pabba og Jem í timburgarð niðurvið ána svo nú geta þeir byrjað á stólunum hans.“

„Má ég koma upp og skoða?“

„Auðvitað máttu það!“

Maisie leiddi hana upp og Maggý hafði hljótt ef fröken Pelham skyldi nú skyndilega birtast. Efst í stiganum lauk Maggý upp öðrum af tvennum dyrum og hrópaði: „Við erum með gest!“

Þegar stelpurnar gengu inn í bakherbergið sem Thomas Kella-way hafði gert að vinnustofu sinni var hann að reka stólfót í mótið. Jem sat við hlið hans og fylgdist með föður sínum vinna. Thomas Kellaway klæddist hvítri skyrtu og sinnepslituðum buxum en var í leðursvuntu yfir sem var öll þakin í rispum. Í stað þess að gretta sig eins og margir gera þegar þeir einbeita sér brosti hann blíðu, næstum kjánalegu brosi. Þegar hann leit loks upp breikkaði bros hans, þótt Maggý þætti engan veginn ljóst að hverju hann brosti. Ljósblá augu hans leituðu í átt til hennar en augnaráðið virtist fremur beinast að einhverju á bakvið hana, líkt og eitthvað hefði fangað athygli hans á ganginum. Hrukkurnar kringum augun léðu honum einskonar angurværð, meira að segja þegar hann brosti.

Jem horfði hins vegar beint á Maggý, í senn ánægður og tortrygginn á svipinn.

Thomas Kellaway velti stólfætinum milli handa sér og sagði: „Hvað segir þú, Maisie?“