Bækur eftir Tracy Chevalier:

Stúlka með perlueyrnalokk

Neistaflug

Hefur þú lesið bækur eftir Tracy Chevalier?

Þetta er bók sem ætti að lesast af öllum bókmenntaunnendum hvers kyns sem þeir eru og á hvaða aldri sem þeir eru og jafnvel þeir sem ekki lesa nema eina bók á ári ættu að velja þessa

- Morgunblaðið

Þessi skáldsaga er sannkallaður gimsteinn

- Time Magazine

Hrífandi skáldsaga ... fallega skrifuð frásögn sem endusspeglar fágun málverksins

- The Wall Street Journal

Sagan um Griet er frábærlega gerð og svo vel úthugsuð á alla kanta að auðvelt er að mæla með henni fyrir hvern sem er

- Alt For Damnerne

Neistaflug

Lundúnir 1792. Eftir að bróðir Jems deyr á æskuslóðunum í Dorsetskíri flyst fjölskyldan til borgarinnar. Þar kynnist Jem pörustúlkunni Maggý, sirkuslífinu í Lambeth og hinum seiðmagnaða nágranna sínum, skáldinu og róttæklingnum William Blake. Á meðan blóðugar fréttir berast yfir Ermasundið af byltingunni í Frakklandi takast Jem og Maggý á við andstæður sveitar og borgar, fátækt og ríkidæmi, gæfu og auðnuleysi – og því sem leynist þar á milli.

Í Neistaflugi galdrar Tracy Chevalier fram einstæða mynd af horfnum heimi, margbrotnum örlögum og vegferðinni frá bernsku til þroska. Hjartnæm saga eftir höfund metsölubókarinnar Stúlka með perlueyrnalokk.

Stúlka með perlueyrnalokk

© Tracy Chevalier, 2007

Bókin heitir „Girl with a Pearl Earring“ á frummálinu.

© Katrin Agency, 2013

Íslensk útgáfa: JENTAS ehf., 2013

Þýðing: Anna María Hilmarsdóttir

© kápa: Katrin Agency, 2012

Hönnun kápu: Jentas ehf.

ISBN 978-9979-64-211-4 (epub)

Samningar er varða verk höfundar, þýðingu, kápu og útlit texta og notendarétt á þeim eru í eigu © Katrin Agency.

www.jentas.is

www.isfolkid.is

www.galdrameistarinn.is

JENTAS gefur bókina út á íslensku og dönsku.

Öll réttindi áskilin.

Bók þessa, eða hluta af henni, má ekki afrita með neinum hætti, hvorki með ljósmyndun, prentun, hljóðritun né á annan hátt, án skriflegs leyfis útgefanda.

1664

Móðir mín hafði ekki sagt mér að þau kæmu. Hún sagði eftir á að hún hefði ekki viljað að þau sæju að ég væri taugaóstyrk. Ég var hissa því að ég hélt að hún þekkti mig vel. Í augum ókunnugra gat ég virst róleg. Ég grét ekki þegar ég var barn. Aðeins móðir mín tók eftir að ég stífnaði í kjálkanum og glennti upp stór augun.

Ég var að skera niður grænmeti í eldhúsinu þegar ég heyrði raddir fyrir utan dyrnar hjá okkur – kvenrödd, sem var skær eins og fægt látún, og karlmannsrödd, lága og dimma eins og viðurinn í borðinu sem ég vann við. Raddir sem var sjaldgæft að heyrðust heima hjá okkur. Þær fengu mig til að hugsa um dýrindis teppi, bækur, perlur og skinn.

Ég var fegin að ég hafði skrúbbað útidyratröppurnar duglega áður.

Rödd móður minnar – suðupottur, drykkjarkanna – nálgaðist frá forstofunni. Þau voru að koma inn í eldhúsið. Ég ýtti blaðlaukunum, sem ég hafði verið að skera, á sinn stað, lagði síðan hnífinn á borðið, þurrkaði hendurnar í svuntuna og þrýsti vörunum saman til að gera þær sléttar.

Móðir mín birtist í dyragættinni og varaði mig við með augnaráðinu. Á bak við hana varð konan að beygja höfuðið vegna þess að hún var svo hávaxin, hærri en maðurinn sem kom inn á eftir henni.

Öll fjölskylda mín, jafnvel faðir minn og bróðir, var lág vexti.

Konan leit út eins og hún hefði verið úti í vindi þótt kyrrt væri þennan dag. Línhettan hennar var skökk og hún sló óþolinmóð frá sér smáa, ljósa lokka sem höfðu sloppið undan henni og héngu niður á ennið eins og býflugur. Hún hefði þurft að lagfæra á sér kragann sem var ekki eins stífur og hann átti að vera. Hún fletti grárri skikkjunni af öxlunum og ég sá að undir dökkbláum kjólnum var hún með barni. Það kæmi um árslok eða fyrr.

Andlit konunnar var egglaga, stundum geislandi, stundum dauflegt. Augun voru tveir ljósbrúnir hnappar, litur sem ég hafði sjaldan séð með ljósu hári. Hún gerði sig líklega til að horfa fast á mig en gat ekki fest augun á mér heldur hvörfluðu þau um herbergið.

„Þetta er þá stúlkan,” sagði hún snögglega.

„Þetta er dóttir mín, Griet,” svaraði móðir mín. Ég kinkaði kolli kurteislega til mannsins og konunnar.

„Nú. Hún er ekki mjög stór. Er hún sterk?” Þegar konan sneri sér við til að líta á manninn festist felling á skikkj-unni hennar í skaftinu á hnífnum sem ég hafði verið að nota svo að hann datt af borðinu og þeyttist yfir gólfið.

Konan hrópaði upp yfir sig.

„Catharina,” sagði maðurinn rólega. Hann sagði nafn hennar eins og hann væri með kanil í munninum. Konan þagnaði og reyndi að stilla sig.

Ég gekk fram og tók hnífinn upp, hreinsaði blaðið í svuntuna mína áður en ég lagði hann aftur á borðið. Hnífurinn hafði strokist við grænmetið. Ég setti gulrótarbita aftur á sinn stað.

Maðurinn fylgdist með mér, augun grá eins og hafið. Hann var langleitur með skarpa drætti og einbeittur á svip, öfugt við eiginkonu sína sem flökti eins og kertalogi. Hann var ekki með skegg og það gladdi mig því að það gerði hann sviphreinan. Hann hafði svarta yfirhöfn á öxlunum, var í hvítri skyrtu og með dýrindis hálslín úr blúndu. Hatturinn þrýsti niður hárinu sem var rautt eins og regnblautur múrsteinn.

„Hvað varstu að gera hér, Griet?” spurði hann.

Ég var hissa á spurningunni en hafði vit á að láta á engu bera. „Að skera grænmeti, herra. Í súpuna.”

Ég raðaði ávallt grænmeti í hring þannig að hver grænmetistegund var eins og bökusneið. Sneiðarnar voru fimm: rauðkál, laukur, blaðlaukur, gulrætur og næpur. Ég hafði mótað hverja sneið með hnífsblaði og búið til hring úr gulrótum í miðjunni.

Maðurinn drap fingri létt á borðið. „Er því raðað í þeirri röð sem það fer út í súpuna?” spurði hann og virti fyrir sér hringinn.

„Nei, herra.” Ég hikaði. Ég gat ekki útskýrt af hverju ég raðaði grænmetinu eins og ég gerði. Ég raðaði því bara eins og mér fannst að það ætti að vera en ég þorði ekki að segja það við heldri mann.

„Ég sé að þú hefur aðskilið hvíta grænmetið,” sagði hann og benti á næpurnar og laukinn. „Og það appelsínu-gula og rauðfjólubláa er ekki hlið við hlið. Hvers vegna?” Hann tók upp rifrildi af káli og gulrótarbita og hristi í hend-inni eins og teninga.

Ég leit á móður mína sem kinkaði kolli svo lítið bar á.

„Litirnir slást þegar þeir eru hlið við hlið, herra.”

Hann lyfti brúnum eins og hann hefði ekki búist við slíku svari. „Og eyðirðu miklum tíma í að raða grænmetinu áður en þú býrð til súpuna?”

„Ó, nei, herra,” svaraði ég vandræðaleg. Ég vildi ekki að hann héldi að ég væri hyskin.

Ég sá hreyfingu út undan mér. Agnes, systir mín, gægð-ist inn fyrir dyrastafinn og hristi höfuðið þegar ég svaraði. Ég sagði ekki oft ósatt. Ég leit niður.

Maðurinn sneri höfðinu örlítið og Agnes hvarf. Hann lét gulrótarbitann og kálið detta, hvort á sína sneið. Hluti af kálinu lenti í lauknum. Mig langaði að teygja höndina og ota því á sinn rétta stað. Ég gerði það ekki en hann vissi að mig langaði til þess. Hann var að reyna mig.

„Nóg komið af masi,” sagði konan. Henni gramdist athyglin sem hann veitti mér en það var ég sem hún leit á með vanþóknun. „Á morgun þá?” Hún leit á manninn áður en hún strunsaði út úr herberginu og móðir mín á eftir henni. Maðurinn leit aftur á grænmetið sem átti að fara í súpuna, kinkaði svo til mín kolli og fór á eftir konunni.

Þegar móðir mín kom inn aftur sat ég við græn-

metishringinn. Ég beið þess að hún segði eitthvað. Hún setti í herðarnar eins og í vetrarkulda þó að það væri sumar og heitt í eldhúsinu.

„Þú átt að byrja hjá þeim á morgun sem vinnustúlka. Ef þú stendur þig vel færðu greiddar átta stúfur á dag. Þú átt að búa hjá þeim.”

Ég klemmdi saman varirnar.

„Ekki horfa svona á mig, Griet,” sagði móðir mín. „Við megum til nú þegar faðir þinn getur ekki lengur unnið.”

„Hvar eiga þau heima?”

„Á Oude Langendijck, við Molenpoort.”

„Í pápistahverfinu? Eru þau kaþólsk?”

„Þú mátt koma heim á sunnudögum. Þau féllust á það.”

Móðir mín hvelfdi lófana yfir næpurnar og jós þeim ásamt káli og lauk ofan í vatnspottinn sem beið á eldinum. Bökusneiðarnar sem ég hafði vandað mig svo mikið við að búa til voru ónýtar.

Ég klifraði upp stigann til föður míns. Hann sat innst á loftinu við gluggann þar sem birtu brá á andlit hans. Það var næst því sem hann komst nú til að sjá.

Faðir minn hafði verið flísamálari og fingurnir voru enn bláblettaðir af því að mála ástarguði, meyjar, hermenn, skip, börn, fiska, blóm og dýr á hvítar flísar, gljáhúða þær, brenna og selja. Dag einn sprakk brennsluofninn, þá missti hann augun og atvinnuna. Hann var heppinn – tveir menn dóu.

Ég settist við hlið hans og tók í hönd hans.

„Ég heyrði það,” sagði hann áður en ég kom upp orði. „Ég heyrði allt.” Heyrnin hafði örvast þegar sjónin hvarf.

Mér datt ekkert í hug að segja sem hljómaði ekki ásakandi.

„Mér þykir þetta leitt, Griet. Ég hefði viljað reynast þér betur.” Dældirnar þar sem augun höfðu verið, þar sem læknirinn hafði saumað saman húðina, virtust sorgmæddar. „En hann er góður herramaður og sanngjarn. Hann mun koma vel fram við þig.” Hann minntist ekkert á konuna.

„Hvernig geturðu verið viss um það, faðir minn? Þekkirðu hann?”

„Veistu ekki hver hann er?”

„Nei.”

„Manstu eftir málverkinu sem við sáum í ráðhúsinu fyrir nokkrum árum, sem van Ruijven sýndi þegar hann hafði keypt það? Það var útsýni yfir Delft frá hliðunum til Rotterdam og Schiedam. Himinninn þakti stóran hluta myndarinnar og sólin skein á sumar byggingarnar.”

„Og það var sandur í málningunni svo að múrsteinarnir og þökin sýndust gróf,” bætti ég við. „Og það voru langir skuggar á vatninu og örsmátt fólk á ströndinni næst okkur.”

„Já, einmitt,” augnatóftir föður míns stækkuðu eins og hann væri enn með augu og gæti aftur virt fyrir sér málverkið.

Ég mundi vel eftir því, mundi að ég hafði hugsað að ég hefði oftsinnis staðið á nákvæmlega þessum stað en aldrei séð Delft með augum málarans.

„Var þessi maður van Ruijven?”

„Eigandi málverksins?” faðir minn hló lágt. „Nei, nei, barnið mitt, ekki hann. Þetta var málarinn. Vermeer. Þetta var Johannes Vermeer og eiginkona hans. Þú átt að gera hreint í vinnustofu hans.”

Móðir mín bætti línhettu, kraga og svuntu við þá fáu hluti sem ég ætlaði að taka með mér svo að ég gæti þvegið til skiptanna daglega og væri alltaf hrein og strokin. Hún gaf mér líka útskorinn kamb úr skjaldbökuskel. Amma mín hafði átt hann og hann var of fínn fyrir vinnukonu að bera. Hún lét mig einnig fá bænakver sem ég gæti lesið þegar ég hefði þörf fyrir að flýja kaþólskuna í kringum mig.

Þegar við tókum saman eigur mínar sagði hún mér ástæðu þess að ég ætti að vinna hjá Vermeer. „Þú veist að nýi húsbóndinn þinn er formaður gildis heilags Lúkasar og var það þegar faðir þinn lenti í slysinu í fyrra?”

Ég kinkaði kolli, enn þá í uppnámi yfir því að ég ætti að vinna fyrir svo mikinn listamann.

„Gildisbræðurnir hjálpa sínum mönnum af fremsta megni.

Manstu eftir kassanum sem faðir þinn gaf í peninga vikulega í mörg ár? Þeir peningar fara til iðnmeistara sem hafa þörf fyrir þá eins og við höfum nú. En þeir duga ekki nema að litlu leyti, skilurðu, sérstaklega núna þegar Frans er orðinn lærlingur og engir peningar koma inn. Við höfum engin önnur ráð. Við þiggjum ekki ölmusu ef við komumst af án þess. Þá frétti faðir þinn að nýi húsbóndinn þinn væri að leita að stúlku til að þrífa vinnustofuna sína án þess að færa nokkuð úr stað. Hann lagði inn nafn þitt því að hann taldi að þar sem Vermeer væri formaður og af því að honum var kunnugt um aðstæður okk-ur væri líklegt að hann reyndi að koma til hjálpar.”

Ég íhugaði vandlega það sem hún sagði. „Hvernig er hægt að gera hreint í herbergi án þess að færa nokkuð úr stað?”

„Auðvitað verður þú að færa til hluti en þú verður að finna aðferð til að setja þá aftur á sinn stað á nákvæmlega sama hátt svo að það líti út fyrir að engu hafi verið raskað. Eins og þú gerir fyrir föður þinn nú þegar hann sér ekki.”

Eftir að faðir minn lenti í slysinu höfðum við lært að setja hlutina þar sem hann gat verið viss um að finna þá. Eitt var þó að gera þetta fyrir blindan mann, allt annað fyrir mann með augu listmálarans.

Agnes sagði ekkert við mig eftir heimsóknina. Þegar ég lagðist í rúmið við hlið hennar um kvöldið þagði hún þótt hún sneri ekki í mig baki. Hún lá og starði upp í loftið. Þegar ég hafði slökkt á kertinu var svo dimmt að ég sá ekki handa minna skil. Ég sneri mér að henni.

„Þú veist að ég vil ekki fara. Ég verð.”

Þögn.

„Við þurfum á peningunum að halda. Við höfum ekk-ert nú þegar faðir okkar getur ekki unnið.”

„Átta stúfur á dag eru ekki miklir peningar.” Agnes var rám eins og hún væri með köngulóarvef í hálsinum.

„Það dugir fyrir brauði ofan í fjölskylduna. Og ögn af osti. Það er ekki svo lítið.”

„Ég verð alein. Þið skiljið mig eftir eina. Fyrst Frans, síðan þú.”

Agnes hafði tekið það enn nær sér en við hin þegar Frans fór árið áður. Þau höfðu alltaf slegist eins og hundur og köttur en hún var ekki mönnum sinnandi í marga daga eftir að hann fór. Hún var tíu ára og yngst okkar systkinanna þriggja og aldrei áður hafði hún upplifað það að Frans eða ég værum ekki heima.

„Foreldrar okkar verða hér. Og ég kem í heimsókn á sunnudögum. Auk þess kom það ekkert á óvart að Frans fór.” Við höfðum vitað það í mörg ár að bróðir okkar færi í læri þegar hann yrði þrettán ára. Faðir okkar hafði lagt hart að sér til að greiða lærlingsgjaldið og talaði endalaust um að Frans mundi læra meira um iðnina og þegar hann kæmi til baka mundu þeir setja á stofn flísaverkstæði saman.

Nú sat faðir okkar við gluggann og talaði aldrei um framtíðina.

Eftir slysið hafði Frans komið heim í tvo daga. Hann hafði ekki heimsótt okkur síðan. Síðast þegar ég sá hann hafði ég farið í verksmiðjuna í hinum enda bæjarins þar sem hann var lærlingur. Hann virtist úrvinda af þreytu og var með ótalmörg brunasár á handleggjunum eftir að draga flísar úr brennsluofninum. Hann sagði mér að hann ynni frá því í dögun og svo langt fram eftir að stundum væri hann jafnvel of þreyttur til að borða. „Faðir okkar sagði mér aldrei að þetta væri svona slæmt,” tuldraði hann gremjulega. „Hann sagði alltaf að lærlingstíminn hefði mótað sig.”

„Kannski er það rétt,” svaraði ég. „Hann gerði hann að því sem hann er nú.”

Þegar ég var á förum morguninn eftir fikraði faðir minn sig út á tröppur og þreifaði sig áfram eftir veggnum. Ég faðmaði móður mína og Agnesi. „Sunnudagurinn kemur fyrr en varir,” sagði móðir mín.

Faðir minn rétti mér eitthvað sem var vafið inn í vasa-klút. „Til að minna þig á heimilið,” sagði hann. „Á okkur.”

Það var sú flís hans sem ég hélt mest upp á. Flestar af flísunum sem við vorum með heima voru á einhvern hátt gallaðar – brotið upp úr þeim, þær voru skakkt skornar eða þá að myndin var óskýr vegna þess að brennsluofninn hafði verið of heitur. En þessa flís hafði faðir minn geymt sérstaklega handa okkur. Það var einföld mynd af tveimur litlum mann-eskjum, dreng og lítið eitt eldri telpu. Þau voru ekki að leika sér eins og gjarnan á flísum. Þau voru bara á göngu og líktust okkur Frans þegar við gengum saman – faðir okkar hafði greinilega haft okkur í huga þegar hann málaði hana.

Drengurinn var lítið eitt á undan telpunni en hafði snúið sér við til að segja eitthvað. Svipurinn var grallaralegur og hárið úfið. Telpan hafði línhettuna sína eins og ég bar mína, ekki eins og flestar stúlkur sem bundu löfin saman undir hökunni eða aftur á hnakka. Ég vildi helst hafa hvíta línhettu með breiðu uppbroti sem lá þétt að andlitinu og huldi alveg hár mitt. Hliðarnar löfðu í horn niður með andlitinu, sitt hvorum megin, svo að frá hlið var ekki hægt að sjá svipbrigði mín. Ég stífaði línhettuna með því að sjóða hana með kartöfluhýði.

Ég gekk að heiman með eigur mínar bundnar í svuntu. Það var enn árla dags – nágrannar okkar helltu úr vatnsfötum á tröppurnar sínar og götuna fyrir framan húsin sín og skrúbbuðu. Nú kæmi í hlut Agnesar að gera það auk margra annarra skylduverka minna. Hún hefði minni tíma til að leika sér í götunni og fram með síkjunum. Líf hennar var líka að breytast.

Fólk kinkaði til mín kolli og horfði forvitnislega á mig ganga hjá. Enginn spurði hvert ég væri að fara eða kallaði til mín vingjarnleg orð. Þau þurftu þess ekki – þau vissu hvað gerðist hjá fjölskyldum þegar maðurinn varð að hætta að vinna. Um það yrði spjallað síðar – Griet litla orðin vinnu-stúlka, faðir hennar lítilsvirðir fjölskyldu sína. Þau mundu samt ekki hlakka yfir því. Það sama gæti hæglega hent þau.

Ég hafði gengið þessa götu alla mína ævi en aldrei áður hafði ég verið mér svo meðvituð um að ég sneri baki í heimili mitt. Þegar ég var komin út á enda og beygði úr augsýn fjölskyldu minnar átti ég þó svolítið auðveldara með að ganga öruggum skrefum og líta í kringum mig. Morgunn-inn var enn þá svalur, hvítgrá skýjaslæða lá lágt á himni og breiddi úr sér yfir Delft eins og lak, sumarsólin ekki enn orðin nógu heit til að brenna hana burt. Það sló grænni slikju á hvítan bjarmann sem speglaðist í síkinu þegar ég gekk hjá. Með hækkandi sól yrði síkið dökkt á litinn eins og mosi.

Frans, Agnes og ég sátum oft við síkið og hentum út í það ýmsum hlutum – steinvölum, spýtum, einu sinni brotinni flís – og gerðum okkur í hugarlund á hverju þeir mundu lenda á botninum – ekki fiskum heldur ímynduðum verum með mörg augu, hreistur, hendur og fitjar. Frans fann upp skemmtilegustu skrímslin. Agnes var hræddust. Ég batt ávallt endi á leikinn, hafði of mikla tilhneigingu til að sjá hlutina í sínu rétta ljósi til að geta ímyndað mér það sem ekki var til.

Fáeinir bátar voru á síkinu og flutu í átt að markaðs-torginu. Það var þó ekki markaðsdagur en þá var síkið svo þéttskipað að ekki sást í vatn. Einn bátur var á leið með fljótafisk á sölubás á Jeronymousbrú. Annar risti vatnið djúpt, hlaðinn múrsteinum. Maðurinn sem stjakaði bátnum kallaði til mín kveðju. Ég kinkaði einungis kolli og leit niður svo að hliðin á línhettunni huldi andlit mitt.

Ég gekk brú yfir síkið og beygði inn á opið markaðs-torgið sem var þegar farið að iða af fólki sem átti leið yfir það þvert og endilangt í mismunandi erindagjörðum – kaupa kjöt í kjötskálanum eða brauð hjá bakaranum, fara með timb-ur til vigtunar í vigthúsinu. Börn voru í sendiferðum fyrir foreldra sína, lærlingar fyrir meistara sína, vinnustúlkur fyrir heimili. Það glumdi í steininum þegar hestar og vagnar fóru yfir. Hægra megin við mig var ráðhúsið, með gullskreyttri framhlið og hvítum marmaraandlitum sem störðu niður frá steinunum yfir miðjum gluggunum. Vinstra megin við mig var Nýja kirkjan þar sem ég hafði verið skírð sextán árum áður. Hár og mjór turninn fékk mig til að hugsa um fuglabúr úr steini. Faðir minn hafði einu sinni farið með okkur þarna upp. Ég mundi aldrei gleyma útsýninu yfir Delft sem breiddi úr sér fyrir neðan okkur, öllum mjóu múrsteinshúsunum, bröttu, rauðu þökunum, grænu skurðunum og borgarhliðinu. Þetta var um eilífð greypt í hugskot mitt, örsmátt en þó svo nákvæmt. Ég spurði þá föður minn hvort allar hollenskar borgir litu svona út en hann sagðist ekki vita það. Hann hafði aldrei komið til annarrar borgar, ekki einu sinni Haag en þangað var tveggja klukkustunda gangur.

Ég gekk út á mitt torgið. Þar höfðu steinarnir verið lagðir í átthyrnda stjörnu inni í hring. Hver armur stjörnunn-ar vísaði í áttina að mismunandi bæjarhlutum Delftar. Fyrir mér var þetta miðja bæjarins og miðja lífs míns. Við systkinin höfðum leikið okkur í þessari stjörnu frá því að við vorum orðin nógu gömul til að hlaupa á markaðinn. Í leiknum, sem okkur fannst mest gaman að, valdi eitt okkar arm á stjörnunni og annað okkar nefndi hlut – stork, kirkju, hjólbörur, blóm – og við hlupum í þá átt sem armurinn vísaði og leituðum að slíkum hlut. Þannig höfðum við rannsakað mestalla Delft.

Í eina átt höfðum við þó aldrei farið. Ég hafði aldrei komið í pápistahverfið þar sem kaþólikkarnir bjuggu. Það var ekki nema tíu mínútna gangur heiman frá mér að húsinu þar sem ég átti að vinna, það tók jafnlangan tíma að fá suðuna upp í vatnspotti, en ég hafði aldrei gengið fram hjá því.

Ég þekkti enga kaþólikka. Þeir voru ekki ýkja margir í Delft og enginn í götunni okkar eða í búðunum sem ég fór í. Við forðuðumst þá ekki en þeir héldu sig út af fyrir sig. Þeir voru umbornir í Delft en ætlast var til að þeir flíkuðu ekki trúarskoðunum sínum opinberlega. Þeir héldu guðsþjónustur sínar á lítið áberandi stöðum sem litu ekki út eins og kirkjur utan frá.

Faðir minn hafði unnið með kaþólikkum og sagði mér að þeir væru ekkert öðruvísi en við nema þá helst að þeir væru ekki eins hátíðlegir. Þeir hefðu gaman af að borða, drekka, syngja og skemmta sér. Hann sagði þetta eins og hann öfundaði þá næstum því.

Nú gekk ég út frá þeim armi stjörnunnar sem vísaði á pápistahverfið og yfir torgið hægar en allir aðrir því að ég var ófús að yfirgefa það sem ég þekkti svo vel. Ég gekk brúna yfir síkið og beygði til vinstri upp Oude Langendijck.

Vinstra megin við mig lá síkið samhliða götunni og skildi hana frá markaðstorginu.

Við hornið á Molenpoort sátu fjórar telpur á bekk við opnar dyr á húsi. Þær höfðu raðað sér upp eftir stærð, frá þeirri elstu, sem leit út fyrir að vera á aldur við Agnesi, til þeirrar yngstu sem var líklega svona fjögurra ára. Önnur telpan í miðjunni hélt á barni í kjöltunni – stóru barni sem var sjálfsagt farið að skríða og færi bráðlega að ganga.

Fimm börn, hugsaði ég. Og eitt á leiðinni.

Sú elsta blés sápukúlur með hörpuskel sem fest var á rör, mjög líkt því sem faðir minn hafði búið til handa okkur. Hinar hoppuðu upp og sprengdu kúlurnar þegar þær komu í ljós. Telpan með barnið í kjöltunni gat ekki athafnað sig mikið, náði bara fáeinum þó að hún sæti við hlið þeirrar sem blés kúlurnar. Sú yngsta úti á enda var lengst frá og minnst og átti enga möguleika á að ná í kúlurnar. Sú næstyngsta var fljótust, þaut eftir kúlunum og skellti lófunum saman utan um þær. Hún var bjarthærðari en hinar telpurnar fjórar. Hár hennar var rautt eins og þurr múrsteinsveggurinn á bak við hana. Sú yngsta og telpan með barnið voru báðar með ljóst, hrokkið hár eins og móðir þeirra en sú elsta hafði sama dökkrauða litinn og faðir hennar.

Ég horfði á telpuna með skærrauða hárið dangla í kúlurnar og sprengja þær rétt áður en þær lentu á rökum, gráum og hvítum flísunum sem voru lagðar í raðir, horn í horn, fyrir framan húsið. Hún verður erfið, hugsaði ég. „Það er eins gott að þú náir þeim áður en þær lenda á stéttinni,” sagði ég. „Annars þarf að skrúbba flísarnar aftur.”

Elsta telpan tók rörið frá andlitinu. Átta augu störðu á mig með sama augnaráðinu svo að enginn vafi lék á að þær voru systur. Ég sá svipmót foreldranna í þeim – grá augu hér, ljósbrún augu þar, ávöl andlit, óþreyjufullar hreyfingar.

„Ertu nýja vinnustúlkan?” spurði sú elsta.

„Okkur var sagt að fylgjast með þegar þú kæmir,” skaut sú skærrauðhærða inn í áður en ég gat svarað.

„Cornelia, farðu og náðu í Tanneke,” sagði sú elsta við hana.

„Farðu, Aleydis,” skipaði Cornelia í staðinn þeirri yngstu sem starði á mig stórum, gráum augum en hreyfði sig ekki.

„Ég skal fara.” Sú elsta hlýtur að hafa litið svo á að koma mín væri þrátt fyrir allt mikilvæg.

„Nei, ég skal fara.” Cornelia rauk upp og hljóp á undan eldri systur sinni og skildi mig eftir eina með hljóðlátu telpunum tveimur.

Ég horfði á spriklandi barnið í fangi telpunnar. „Er þetta bróðir þinn eða systir?”

„Bróðir,” svaraði telpan dúnmjúkri röddu. „Hann heitir Johannes. Þú mátt aldrei kalla hann Jan.” Þetta síðasta sagði hún eins og það væri algengt viðkvæði.

„Einmitt. Og hvað heitir þú?”

„Lisbeth. Og þetta er Aleydis.” Sú yngsta brosti til mín. Þær voru báðar snyrtilega klæddar í brúna kjóla með hvítar svuntur og línhettur.

„Og eldri systir þín?”

„Maertge. Þú mátt aldrei kalla hana Mariu. Amma okkar heitir Maria. Maria Thins. Þetta er hennar hús.”

Barnið fór að kjökra. Lisbeth hossaði því á hnénu.

Ég leit upp eftir húsinu. Það var vissulega tilkomumeira en húsið okkar en ekki eins og ég hafði óttast. Það var tveggja hæða, auk háalofts, en í okkar var bara ein hæð og háaloftið lítið. Þetta var endahús og Molenpoort var hand-an við hornið svo að það var örlítið breiðara en hin húsin í götunni. Það var ekki eins aðþrengt og mörg húsanna í Delft sem voru byggð þétt saman í mjóum múrsteinsröðum meðfram síkjunum og skorsteinar þeirra og stallþök spegluðust í grænu vatninu. Gluggarnir á fyrstu hæð þessa húss voru mjög háir og á annarri hæð voru þrír gluggar nálægt hver öðrum en ekki tveir eins og á öðrum húsum í götunni.

Turninn á Nýju kirkjunni hinum megin síkisins sást frá húsinu framanverðu. Einkennilegt útsýni fyrir kaþólska fjölskyldu, hugsaði ég. Kirkja sem þau mundu aldrei stíga fæti inn í.

„Ert þú þá vinnustúlkan?” heyrði ég sagt á bak við mig.

Konan sem stóð í dyragættinni var breiðleit með bóluör eftir veikindi. Nefið var þrútið og óreglulegt að lögun og þykkar, samanþrýstnar varirnar mynduðu lítinn munn. Augun voru ljósblá eins og hún geymdi himininn í þeim. Hún var í grábrúnum kjól og hvítri skyrtu, línhettan var bundin þétt um höfuðið og svuntan hennar var ekki eins hrein og mín. Hún stóð í dyragættinni svo að Maertge og Cornelia urðu að troða sér fram hjá henni og horfði á mig ögrandi með kross-lagða handleggi.

Henni stendur nú þegar ógn af mér, hugsaði ég. Hún mun kúga mig ef ég leyfi henni það.

„Ég heiti Griet,” sagði ég og horfði róleg á hana á móti. „Ég er nýja vinnustúlkan.”

Konan færði þungann yfir á hina mjöðmina. „Best þú komir þá inn,” sagði hún eftir skamma stund. Hún færði sig inn í skuggsælan ganginn svo að hægt var að fara um dyrnar.

Ég steig inn fyrir þröskuldinn.

Það voru málverkin sem voru mér minnisstæðust frá þeirri stundu að ég steig inn í forstofuna í fyrsta sinn. Ég nam staðar fyrir innan dyrnar, hélt fast um pinkilinn minn og góndi. Ég hafði áður séð málverk en aldrei svona mörg í einu herbergi. Ég taldi ellefu. Stærsta málverkið var af tveimur mönnum, hálfnöktum, að glíma. Ég kannaðist ekki við að það væri saga úr Biblíunni og velti fyrir mér hvort viðfangsefnið væri kaþólskt. Önnur málverk voru af kunnuglegri hlutum – hraukar af ávöxtum, landslag, skip á sjónum, mannamyndir. Þau virtust vera eftir marga listmálara. Ég velti fyrir mér hver þeirra væru eftir nýja húsbónda minn. Ekkert þeirra var eins og ég hefði búist við af honum.

Seinna komst ég að því að þau voru öll eftir aðra listmálara – hann geymdi sjaldan málverk sín í húsinu þegar hann hafði lokið við þau. Hann var bæði listaverkasali og listmálari og það héngu málverk næstum í hverju herbergi, meira að segja þar sem ég svaf. Þau voru yfir fimmtíu alls en það var þó breytilegt þar sem hann keypti þau og seldi.

„Komdu nú, engin ástæða til að hangsa og gapa.” Konan hraðaði sér eftir löngum gangi sem lá eftir húsinu endilöngu. Ég elti og svo beygði hún snögglega inn í herbergi til vinstri. Á veggnum beint á móti dyrunum hékk málverk sem var stærra en ég. Það var af Kristi á krossinum og í kringum hann voru María mey, María Magdalena og Jóhannes skírari. Ég reyndi að stara ekki en ég var agndofa yfir stærðinni og myndefninu. „Kaþólikkar eru ekki svo ólíkir okkur,” hafði faðir minn sagt. En við höfðum engar svona myndir í húsum okkar, kirkjum eða nokkurs staðar. Nú mundi ég hafa þessa mynd fyrir augum á hverjum degi.

Ég átti alltaf eftir að hugsa um þetta herbergi sem krossfestingarstofuna. Mér leið aldrei vel þar inni.

Málverkið kom mér svo á óvart að ég tók ekki eftir konunni í horninu fyrr en hún tók til máls. „Jæja, stúlka mín,” sagði hún, „þú hefur víst ekki séð neitt þessu líkt áður.” Hún sat í hægindastól og reykti pípu. Tennurnar sem bitu um munnstykkið voru orðnar brúnar og fingurnir með blekblettum. Að öðru leyti var hún tandurhrein – svartur kjóllinn, blúndukraginn, stíf, hvít línhettan. Þótt hrukkótt andlitið væri hörkulegt virtist ljósbrúnum augunum skemmt.

Útlit þessarar gömlu konu bar með sér að hún mundi lifa alla.

Hún er móðir Catharinu, datt mér allt í einu í hug. Það var ekki bara augnliturinn og grár, hrokkinn hárlokkur-inn sem hafði sloppið undan línhettunni eins og hjá dóttur-inni. Framkoma hennar bar þess vott að hún var vön því að hugsa um aðra sem voru dugminni en hún – hugsa um Catharinu. Ég skildi nú hvers vegna farið hafði verið með mig til hennar en ekki dóttur hennar.

Þótt hún virtist horfa á mig án sérstakrar athygli var augnaráð hennar athugult. Þegar hún pírði augun gerði ég mér ljóst að hún vissi hvað ég var að hugsa. Ég sneri höfðinu svo að línhettan hyldi andlit mitt.

Maria Thins tottaði pípuna og hló lágt. „Það er rétt, stúlka mín. Geymdu hugsanir þínar með sjálfri þér hérna. Svo að þú átt að vinna fyrir dóttur mína. Hún er ekki heima núna, fór út að kaupa inn. Hún Tanneke sýnir þér húsið og útskýrir fyrir þér hvað þér ber að gera.”

Ég kinkaði kolli. „ Já, frú.”

Tanneke, sem hafði staðið við hlið gömlu konunnar, strunsaði fram hjá mér. Ég elti, augu Mariu Thins brenndu sig inn í bakið á mér. Ég heyrði hana aftur hlæja lágt.

Tanneke fór fyrst með mig í eldhúsið, þvottahúsið og tvær stórar geymslur innst í húsinu. Úr þvottahúsinu var farið út í lítinn húsagarð og þar hékk heilmikið af hvítum þvotti til þerris.

„Fyrst þarf að strjúka þetta tau,” sagði Tanneke. Ég sagði ekkert þótt mér sýndist þvotturinn ekki vera orðinn nógu hvítur í hádegissólinni.

Hún fór aftur með mig inn og benti á gat í gólfinu á annarri geymslunni. Það lá stigi niður úr því. „Þú átt að sofa þarna,” sagði hún. „Hentu dótinu þínu þangað núna. Þú getur svo komið þér fyrir seinna.”

Treg lét ég pinkilinn minn detta niður í dimma holuna og hugsaði um steinana sem Agnes, Frans og ég höfðum hent í síkið til að leita uppi skrímslin. Vöndullinn minn féll með dynk á moldargólfið. Mér leið eins og ég væri eplatré sem missti ávöxt sinn.

Ég elti Tanneke aftur eftir ganginum þar sem gengið var inn í öll herbergin – miklu fleiri herbergi en heima hjá okkur. Við hliðina á krossfestingarstofunni, þar sem Maria Thins sat, framar í húsinu, var lítið herbergi með barnarúmum, næturgögnum, litlum stólum og borði, á því voru ýmsir leirmunir, kertastjaki, ljósaskæri og flíkur, allt í einum haug.

„Telpurnar sofa hérna,” tuldraði Tanneke, ef til vill skammaðist hún sín fyrir alla óreiðuna.

Hún fór aftur út á ganginum og opnaði dyr inn í stórt herbergi. Birtan flæddi inn um gluggana á framhliðinni og yfir rauðar og gráar gólfflísarnar. „Stóra stofan,” tuldraði hún. „Húsbóndinn og húsmóðirin sofa hér.”

Yfir rúminu þeirra héngu græn silkitjöld. Í herberg-inu voru önnur húsgögn – stór skápur, greyptur íbenviði, hvítviðarborði hafði verið komið fyrir út við gluggana og nokkrir spænskir leðurstólar í kringum það. En aftur voru það málverkin sem höfðu áhrif á mig. Fleiri héngu í þessu herbergi en annars staðar. Ég taldi nítján í hljóði. Flest voru af mönnum – sem virtust tilheyra báðum fjölskyldum. Þarna var líka málverk af Maríu mey og eitt af konungunum þremur að tilbiðja Jesúbarnið. Bæði málverkin gerðu mig órólega.

„Þá förum við upp.” Tanneke fór á undan upp brattan stigann og lagði fingur á varir. Ég klifraði upp eins hljóðlega og ég gat. Efst uppi leit ég í kringum mig og sá lokaðar dyr. Á bak við þær var þögn sem ég vissi að var hann.

Ég stóð og einblíndi á hurðina. Ég þorði ekki að hreyfa mig ef dyrnar skyldu opnast og hann kæmi út.

Tanneke hallaði sér að mér og hvíslaði: „Þú átt að gera hreint þarna inni. Unga húsmóðirin útskýrir það fyrir þér seinna. Og þessi herbergi –” hún benti á dyr innst á ganginum – „eru herbergi húsmóður minnar. Ég ein fer þangað inn til að gera hreint.”

Við læddumst niður. Þegar við vorum aftur komn-ar niður í þvottahúsið sagði Tanneke: „Þú átt að sjá um þvottana fyrir heimilið.” Hún benti á gríðarmikla fatahrúgu – þvotturinn hafði safnast upp hjá þeim. Ég yrði að hafa fyrir því að vinna það upp. Það er vatnsgeymir í eldhúsinu en það er best að þú sækir vatn í þvottinn í síkið – það er nógu hreint í þessum hluta bæjarins.”

„Tanneke,” sagði ég lágum rómi, „hefur þú séð um þetta allt sjálf? Eldað, þrifið og þvegið fyrir allt heimilið?”

Ég hafði valið réttu orðin. „Og líka keypt inn.” Tann-eke færðist öll í aukana af stolti yfir eigin dugnaði. „Unga húsmóðirin sér þó auðvitað um innkaupin að mestu en hún vill ekki koma nálægt hráu kjöti og fiski þegar hún er með barni. Og það er oft,” bætti hún við hvíslandi. „Þú átt að fara í kjötskálann og líka á fiskmarkaðinn. Það verður meðal skyldustarfa þinna.”