Óþekktur

Gísla saga Súrssonar

 

SAGA Egmont

1. kafli

Það er upphaf á sögu þessari að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri réð fyrir Noregi og var þetta á ofanverðum hans dögum. Þorkell hét maður; hann var kallaður skerauki; hann bjó í Súrnadal og var hersir að nafnbót. Hann átti sér konu er Ísgerður hét og sonu þrjá barna; hét einn Ari, annar Gísli, þriðji Þorbjörn, hann var þeirra yngstur, og uxu allir upp heima þar.

Maður er nefndur Ísi; hann bjó í firði er Fibuli heitir á Norðmæri; kona hans hét Ingigerður en Ingibjörg dóttir. Ari, sonur Þorkels Sýrdæls, biður hennar og var hún honum gefin með miklu fé. Kolur hét þræll er í brott fór með henni.

Maður hét Björn hinn blakki og var berserkur; hann fór um land og skoraði á menn til hólmgöngu ef eigi vildu hans vilja gera. Hann kom um veturinn til Þorkels Sýrdæls; Ari, sonur hans, réð þá fyrir búi. Björn gerir Ara tvo kosti, hvort hann vill heldur berjast við hann í hólmi þeim er þar liggur í Súrnadal og heitir Stokkahólmur eða vill hann selja honum í hendur konu sína. Hann kaus skjótt að hann vill heldur berjast en hvorttveggja yrði að skömm, hann og kona hans; skyldi þessi fundur vera á þriggja nátta fresti.

Nú líður til hólmstefnu framan. Þá berjast þeir og lýkur svo að Ari fellur og lætur líf sitt. Þykist Björn hafa vegið til landa og konu. Gísli segir að hann vill heldur láta líf sitt en þetta gangi fram, vill hann ganga á hólm við Björn.

Þá tók Ingibjörg til orða: "Eigi var eg af því Ara gift að eg vildi þig eigi heldur átt hafa. Kolur, þræll minn, á sverð er Grásíða heitir og skaltu biðja að hann ljái þér því að það fylgir því sverði að sá skal sigur hafa er það hefur til orustu."

Hann biður þrælinn sverðsins og þótti þrælnum mikið fyrir að ljá.

Gísli bjóst til hólmgöngu og berjast þeir og lýkur svo að Björn fellur. Gísli þóttist nú hafa unnið mikinn sigur og það er sagt að hann biður Ingibjargar og vildi eigi láta góða konu úr ætt ganga og fær hennar. Nú tekur hann allan fjárhlut og gerist mikill maður fyrir sér. Því næst andast faðir hans og tekur Gísli allan fjárhlut eftir hann. Hann lét drepa þá alla sem með Birni höfðu fylgt.

Þrællinn heimti sverð sitt og vill Gísli eigi laust láta og býður hann fé fyrir. En þrællinn vill ekki annað en sverð sitt og fær ekki að heldur. Þetta líkar þrælnum illa og veitir Gísla tilræði; var það mikið sár. Gísli heggur í móti með Grásíðu í höfuð þrælnum svo fast að sverðið brotnaði en hausinn lamdist og fær hvortveggji bana.

2. kafli

Hér eftir tekur Þorbjörn við fé öllu því er átt hafði faðir hans og bræður tveir. Hann býr í Súrnadal að Stokkum. Hann biður konu þeirrar er Þóra hét og var Rauðs dóttir úr Friðarey og fékk hennar. Þeirra samfarir voru góðar og eigi langar áður en þau gátu börn að eiga. Dóttir þeirra er nefnd Þórdís og var hún elst barna þeirra. Þorkell hét sonur þeirra hinn elsti, annar Gísli, Ari hinn yngsti og vaxa allir upp heima þar. Fundust eigi fremri menn þar í nánd þeirra jafnaldrar. Ara var fóstur fengið með Styrkári, móðurbróður sínum en þeir Þorkell og Gísli voru heima báðir.

Bárður hét maður; hann bjó þar í Súrnadal; hann var ungur maður og hafði nýtekið við föðurarfi sínum.

Kolbjörn hét maður er bjó á Hellu í Súrnadal; hann var ungur maður og hafði nýtekið við föðurarfi sínum.

Það töluðu sumir menn að Bárður fíflaði Þórdísi Þorbjarnardóttur; hún var bæði væn og vitur. Þorbirni hugnaði það illa og kveðst ætla ef Ari væri heima að þá myndi eigi vel gefast.

Bárður kvað ómæt ómaga orð, "og mun eg fara sem áður." Með þeim Þorkatli var vingott og var hann í bragði með honum en Gísla var óþokkað um tal þeirra sem föður hans.

Það er sagt einn tíma að Gísli ræðst í ferð með þeim Bárði og Þorkatli. Hann fór á miðja vega til Grannaskeiðs, svo heitir þar er Bárður bjó, og þá er minnst von var heggur Gísli Bárð banahögg. Þorkell reiddist og kvað Gísla illa gert hafa en Gísli bað bróður sinn sefast, "og skiptum við sverðum og haf þú það sem betur bítur;" hann brá á glens við hann.

Nú sefast Þorkell og sest niður hjá Bárði en Gísli fer heim og segir föður sínum og líkaði honum vel. Aldrei varð síðan jafnblítt með þeim bræðrum og ekki þá Þorkell vopnaskiptið og eigi vildi hann he ima þar vera og fór til Hólmgöngu-Skeggja í eyna Söxu, hann var mjög skyldur Bárði, og var hann þar. Hann eggjar mjög Skeggja að hefna Bárðar, frænda síns, en ganga að eiga Þórdísi, systur sína.

Nú fara þeir til Stokka, tuttugu saman, og er þeir komu á bæinn mælir Skeggi til mægða við Þorbjörn, "en til samfara við Þórdísi, dóttur þína."

En Þorbjörn vildi eigi gifta honum konuna. Það var talað að Kolbjörn væri í þingum við Þórdísi. Þótti Skeggja sem hann ylli er hann gat eigi fengið ráðið og fer til fundar við Kolbjörn og býður honum hólmgöngu í eynni Söxu. Hann kveðst koma mundu og sagðist eigi verður að eiga Þórdísi ef hann þyrði eigi að berjast við Skeggja. Þeir Þorkell og Skeggi fóru heim í Söxu og biðu þar hólmstefnunnar við annan mann og tuttugasta.

Og er liðnar voru þrjár nætur fór Gísli og hittir Kolbjörn og spyr hvort hann er búinn til hólmstefnunnar. Kolbjörn svarar og spyr hvort hann skal það til ráðsins vinna.

"Það skaltu eigi segja," segir Gísli.

Kolbjörn segir: "Svo hyggst mér að eg muni eigi það til vinna að berjast við Skeggja."

Gísli biður hann mæla allra manna armastan, "og þótt þú verðir allur að skömm þá skal eg nú þó fara."

Nú fer Gísli við tólfta mann í eyna Söxu. Skeggi kom til hólmsins og segir upp hólmgöngulög og haslar völl Kolbirni og sér eigi hann þar kominn né þann er gangi á hólminn fyrir hann.

Refur hét maður er var smiður Skeggja. Hann bað að Refur skyldi gera mannlíkan eftir Gísla og Kolbirni, "og skal annar standa aftar en annar og skal níð það standa ávallt þeim til háðungar".

Nú heyrði Gísli í skóginn og svarar: "Annað munu húskarlar þínir vinna þarfara og máttu hér þann sjá er þorir að berjast við þig."

Og ganga þeir á hólm og berjast og heldur skildi hvor fyrir sig. Skeggi hefur sverð það er Gunnlogi hét og heggur með því til Gísla og gall við hátt. Þá mælti Skeggi:

1

Gall Gunnlogi,

gaman vas Söxu.

Gísli hjó í móti með höggspjóti og af sporðinn skildinum og af honum fótinn og mælti:

2

Hrökk hræfrakki

hjók til Skeggja.

Skeggi leysti sig af hólmi og gekk ávallt við tréfót síðan. En Þorkell fór nú heim með Gísla bróður sínum og var nú mjög vel í frændsemi þeirra og þykir Gísli mikið hafa vaxið af þessum málum.

3. kafli

Bræður tveir eru nefndir; hét annar Einar en annar Árni, synir Skeggja úr Söxu; þeir bjuggu á Flyðrunesi, norður frá Þrándheimi. Þeir eflast að liði eftir um vorið og fara í Súrnadal til Kolbjarnar og bjóða honum tvo kosti, hvort hann vill heldur fara með þeim og brenna inni Þorbjörn og sonu hans eða láta þar líf. Hann kjöri heldur að fara.

Fara þeir nú þaðan sex tugir manna og koma á Stokka um nótt og bera eld að húsum. En þau voru öll í svefni í skemmu einni, Þorbjörn og synir hans og Þórdís. Þar voru inni sýruker tvö í því húsi. Nú taka þeir Gísli hafurstökur tvær og drepa þeim í sýrukerin og verjast svo eldinum og slökkva svo þrisvar þar fyrir þeim eldinn og þá eftir fengu þeir Gísli brotið vegginn og komast svo á brott, tíu saman, og fylgdu reyk til fjalls og komust svo brott úr hunda hljóðum; en tólf menn brunnu þar inni. En þeir þykjast öll þau inni hafa brennt er til komu.

En þau Gísli fara uns þau koma í Friðarey til Styrkárs og eflast þaðan að liði og fá fjóra tugi manna og koma á óvart til Kolbjarnar og brenna hann inni við tólfta mann; selja nú lönd sín og kaupa sér skip og voru á sex tugir manna og fara á brott með allt sitt og koma við eyjar þær er Æsundir heita og liggja þar til hafs.

Nú fara þeir þaðan á tveimur bátum fjórir tugir manna og koma norður til Flyðruness. Þeir bræður, Skeggjasynir, voru þá á leið komnir við níunda mann að heimta landskyldir sínar. Þeir Gísli snúa til móts við þá og drepa þá alla; Gísli vó þrjá menn en Þorkell tvo. Eftir það ganga þeir til bæjar og taka þaðan á brott mikið fé. Gísli hjó þá höfuð af Hólmgöngu-Skeggja því að hann var þá þar hjá sonum sínum.

4. kafli

Síðan fara þeir til skips og láta í haf og eru úti aukið hundrað dægra og koma að hafi vestur í Dýrafjörð á syðri strönd í ós þann er Haukadalsós heitir.

Tveir menn eru nefndir og bjó á sinni ströndinni hvor, Þorkatlar tveir. Annar bjó á Saurum í Keldudal á hinni syðri strönd, þar var Þorkell Eiríksson, en annar bjó á nyrðri strönd í Alviðru, hann var kallaður Þorkell auðgi. Þorkell fór fyrstur virðingarmanna til skips og hitti Þorbjörn súr því að hann var svo kallaður síðan hann varðist með sýrunni. Öll lönd voru þá ónumin á hvorritveggja strönd. Nú keypti Þorbjörn súr land á hinni syðri strönd, á Sæbóli í Haukadal. Þar gerði Gísli bæ og búa þar síðan.

Bjartmar hét maður er bjó í Arnarfirði inni í botni en kona hans hét Þuríður og var Hrafns dóttir af Ketilseyri úr Dýrafirði en Hrafn var sonur Dýra er fjörðinn nam. Þau áttu sér börn: hét dóttir þeirra Hildur, hún var elst barna þeirra; Helgi hét sonur þeirra, Sigurður og Vestgeir.

Vésteinn hét Austmaður einn er út kom um landnám og vistaðist með Bjartmari. Hann gengur að eiga Hildi, dóttur hans. Og er þau höfðu eigi lengi ásamt verið, gátu þau tvö börn að eiga; Auður hét dóttir þeirra en Vésteinn sonur.

Vésteinn austmaður var Végeirsson, bróðir Vébjarnar Sygnakappa. Bjartmar var son Áns rauðfels Grímssonar loðinkinna, bróður Örvar-Odds, Ketilssonar hængs sonar Hallbjarnar hálftrölls. Móðir Áns Rauðfelds var Helga dóttir Áns bogsveigis.

Vésteinn Vésteinsson gerðist fardrengur góður, þó átti hann bú í Önundarfirði undir Hesti þá er hér var komið sögunni; kona hans hét Gunnhildur, Bergur hét sonur hans og Helgi.

Nú eftir þetta andast Þorbjörn súr og Þóra kona hans. Nú tekur Gísli og Þorkell bróðir hans við búinu en þau Þorbjörn og Þóra voru í haug lögð.

5. kafli

Þorbjörn hét maður og var kallaður selagnúpur; hann bjó í Tálknafirði að Kvígandafelli; Þórdís hét kona hans en Ásgerður dóttir. Þessarar konu biður Þorkell Súrsson og getur hana að eiga en Gísli Súrsson bað systur Vésteins, Auðar Vésteinsdóttur, og fékk hana; búa nú báðir saman í Haukadal.