Óþekktur

Egils saga

 

SAGA Egmont

1. kafli

Úlfur hét maður, sonur Bjálfa og Hallberu, dóttur Úlfs hins óarga. Hún var systir Hallbjarnar hálftrölls í Hrafnistu, föður Ketils hængs. Úlfur var maður svo mikill og sterkur, að eigi voru hans jafningjar, en er hann var á unga aldri, lá hann í víkingu og herjaði. Með honum var í félagsskap sá maður, er kallaður var Berðlu-Kári, göfugur maður og hinn mesti afreksmaður að afli og áræði; hann var berserkur. Þeir Úlfur áttu einn sjóð báðir, og var með þeim hin kærsta vinátta.

En er þeir réðust úr hernaði, fór Kári til bús síns í Berðlu; hann var maður stórauðugur. Kári átti þrjú börn; hét sonur hans Eyvindur lambi, annar Ölvir hnúfa; dóttir hans hét Salbjörg; hún var kvenna vænst og skörungur mikill; hennar fékk Úlfur; fór hann þá og til búa sinna. Úlfur var maður auðugur bæði að löndum og lausum aurum; hann tók lends manns rétt, svo sem haft höfðu langfeðgar hans, og gerðist maður ríkur.

Svo er sagt, að Úlfur var búsýslumaður mikill. Var það siður hans að rísa upp árdegis og ganga þá um sýslur manna eða þar er smiðir voru og sjá yfir fénað sinn og akra, en stundum var hann á tali við menn, þá er ráða hans þurftu. Kunni hann til alls góð ráð að leggja, því að hann var forvitri. En dag hvern, er að kveldi leið, þá gerðist hann styggur, svo að fáir menn máttu orðum við hann koma; var hann kveldsvæfur. Það var mál manna, að hann væri mjög hamrammur; hann var kallaður Kveld-Úlfur.

Þau Kveld-Úlfur áttu tvo sonu; hét hinn eldri Þórólfur, en hinn yngri Grímur. En er þeir óxu upp, þá voru þeir báðir miklir menn og sterkir, svo sem faðir þeirra var. Var Þórólfur manna vænstur og gjörvilegastur; hann var líkur móðurfrændum sínum, gleðimaður mikill, ör og ákafamaður mikill í öllu og hinn mesti kappsmaður; var hann vinsæll af öllum mönnum. Grímur var svartur maður og ljótur, líkur föður sínum, bæði yfirlits og að skaplyndi; gerðist hann umsýslumaður mikill; hann var hagur maður á tré og járn og gerðist hinn mesti smiður; hann fór og oft um vetrum í síldfiski með lagnarskútu og með honum húskarlar margir.

En er Þórólfur var á tvítugs aldri, þá bjóst hann í hernað. Fékk Kveld-Úlfur honum langskip. Til þeirrar ferðar réðust synir Berðlu-Kára, Eyvindur og Ölvir, - þeir höfðu lið mikið og annað langskip, - og fóru um sumarið í víking og öfluðu sér fjár og höfðu hlutskipti mikið. Það var nokkur sumur, er þeir lágu í víking, en voru heima um vetrum með feðrum sínum. Hafði Þórólfur heim marga dýrgripi og færði föður sínum og móður. Var þá bæði gott til fjár og mannvirðingar. Kveld-Úlfur var þá mjög á efra aldri, en synir hans voru rosknir.

2. kafli

Auðbjörn hét þá konungur yfir Firðafylki. Hróaldur hét jarl hans, en Þórir sonur jarlsins.

Þá var Atli hinn mjói jarl; hann bjó á Gaulum. Hans börn voru þau Hallsteinn, Hólmsteinn, Hersteinn og Sólveig hin fagra.

Það var á einu hausti, að fjölmennt var á Gaulum að haustblóti. Þá sá Ölvir hnúfa Sólveigu og gerði sér um títt; síðan bað hann hennar, en jarlinum þótti manna munur og vildi eigi gifta hana.

Síðan orti Ölvir mörg mansöngskvæði um hana. Svo mikið gerði Ölvir sér um Sólveigu, að hann lét af herförum, og voru þá í herförum Þórólfur og Eyvindur lambi.

3. kafli

Haraldur, sonur Hálfdanar svarta, hafði tekið arf eftir föður sinn í Vík austur; hann hafði þess heit strengt að láta eigi skera hár sitt né kemba, fyrr en hann væri einvaldskonungur yfir Noregi; hann var kallaður Haraldur lúfa. Síðan barðist hann við þá konunga, er næstir voru, og sigraði þá, og eru þar langar frásagnir; síðan eignaðist hann Upplönd. Þaðan fór hann norður í Þrándheim og átti þar margar orustur, áður hann yrði einvaldi yfir öllum Þrændalögum.

Síðan ætlaðist hann að fara norður í Naumudal á hendur þeim bræðrum, Herlaugi og Hrollaugi, er þá voru konungar yfir Naumudal. En er þeir bræður spurðu til ferðar hans, þá gekk Herlaugur í haug þann með tólfta mann, er áður höfðu þeir gera látið þrjá vetur. Var síðan haugurinn aftur lokinn. En Hrollaugur konungur veltist úr konungdómi og tók upp jarls rétt og fór síðan á vald Haralds konungs og gaf upp ríki sitt. Svo eignaðist Haraldur konungur Naumdælafylki og Hálogaland; setti hann þar menn yfir ríki sitt.

Síðan bjóst Haraldur konungur úr Þrándheimi með skipaliði og fór suður á Mæri, átti þar orustu við Húnþjóf konung og hafði sigur; féll þar Húnþjófur. Þá eignaðist Haraldur konungur Norðmæri og Raumsdal.

En Sölvi klofi, sonur Húnþjófs, hafði undan komist, og fór hann á Sunnmæri til Arnviðar konungs og bað hann sér fulltings og sagði svo:

"Þótt þetta vandræði hafi nú borið oss að hendi, þá mun eigi langt til, að sama vandræði mun til yðvar koma, því að Haraldur, ætla eg, að skjótt mun hér koma, þá er hann hefir alla menn þrælkað og áþjáð, sem hann vill, á Norðmæri og í Raumsdal. Munuð þér hinn sama kost fyrir höndum eiga, sem vér áttum, að verja fé yðvar og frelsi og kosta þar til allra þeirra manna, er yður er liðs að von, og vil eg bjóðast til með mínu liði móti þessum ofsa og ójafnaði; en að öðrum kosti munuð þér vilja taka upp það ráð, sem Naumdælir gerðu, að ganga með sjálfvilja í ánauð og gerast þrælar Haralds. Það þótti föður mínum vegur að deyja í konungdómi með sæmd heldur en gerast undirmaður annars konungs á gamals aldri. Hygg eg, að þér muni og svo þykja og öðrum þeim, er nokkurir eru borði og kappsmenn vilja vera."

Af slíkum fortölum var konungurinn fastráðinn til þess að safna liði og verja land sitt. Bundu þeir Sölvi þá samlag sitt og sendu orð Auðbirni konungi, er réð fyrir Firðafylki, að hann skyldi koma til liðs við þá. En er sendimenn komu til Auðbjarnar konungs og báru honum þessa orðsending, þá réðst hann um við vini sína, og réðu honum það allir að safna liði og fara til móts við Mæri, sem honum voru orð til send. Auðbjörn konungur lét skera upp herör og fara herboð um allt ríki sitt; hann sendi menn til ríkismanna að boða þeim til sín.

En er sendimenn konungs komu til Kveld-Úlfs og sögðu honum sín erindi og það, að konungur vill, að Kveld-Úlfur komi til hans með alla húskarla sína, Kveld-Úlfur svarar svo:

"Það mun konungi skylt þykja, að eg fari með honum, ef hann skal verja land sitt og sé herjað í Firðafylki; en hitt ætla eg mér allóskylt að fara norður á Mæri og berjast þar og verja land þeirra. Er yður það skjótast að segja, þá er þér hittið konung yðvarn, að Kveld-Úlfur mun heima sitja um þetta herhlaup og hann mun eigi herliði safna og eigi gera sína þá heimanferð að berjast móti Haraldi lúfu, því að eg hygg, að hann hafi þar byrði nóga hamingju, er kon-ungur vor hafi eigi krepping fullan."

Fóru sendimenn heim til konungs og sögðu honum erindislok sín, en Kveld-Úlfur sat heima að búm sínum.

4. kafli

Auðbjörn konungur fór með lið sitt, það er honum fylgdi, norður á Mæri og hitti þar Arnvið konung og Sölva klofa, og höfðu þeir allir saman her mikinn. Haraldur konungur var þá og norðan kominn með sínu liði, og varð fundur þeirra fyrir innan Sólskel; var þar orusta mikil og mannfall mikið í hvorratveggju liði. Þar féllu úr Haralds liði jarlar tveir, Ásgautur og Ásbjörn, og tveir synir Hákonar Hlaðajarls, Grjótgarður og Herlaugur, og margt annað stórmenni, en af liði Mæra Arnviður konungur og Auðbjörn konungur. En Sölvi klofi komst undan á flótta og var síðan víkingur mikill og gerði oft skaða mikinn á ríki Haralds konungs og var kallaður Sölvi klofi. Eftir það lagði Haraldur konungur undir sig Sunnmæri.

Vémundur, bróðir Auðbjarnar konungs, hélt Firðafylki og gerðist þar konungur yfir. Þetta var síð um haustið, og gerðu menn það ráð með Haraldi konungi, að hann skyldi eigi fara suður um Stað á haustdegi. Þá setti Haraldur konungur Rögnvald jarl yfir Mæri hvoratveggju og Raumsdal og sneri norður aftur til Þrándheims og hafði um sig mikið fjölmenni.

Það sama haust veittu synir Atla heimför að Ölvi hnúfu og vildu drepa hann. Þeir höfðu lið svo mikið, að Ölvir hafði enga viðstöðu og komst með hlaupi undan. Fór hann þá norður á Mæri og hitti þar Harald konung, og gekk Ölvir til handa honum og fór norður til Þrándheims með konungi um haustið, og komst hann í hina mestu kærleika við konung og var með honum lengi síðan og gerðist skáld hans.

Þann vetur fór Rögnvaldur jarl hið innra um Eiðsjó suður í Fjörðu og hafði njósnir af ferðum Vémundar konungs og kom um nótt, þar sem heitir Naustdalur, og var Vémundur þar á veislu. Tók þar Rögnvaldur jarl hús á þeim og brenndi konunginn inni með níu tigum manna. Eftir það kom Berðlu- Kári til Rögnvalds jarls með langskip alskipað, og fóru þeir báðir norður á Mæri. Tók Rögnvaldur skip þau, er átt hafði Vémundur konungur, og allt það lausafé, er hann fékk. Berðlu-Kári fór þá norður til Þrándheims á fund Haralds konungs og gerðist hans maður.

Um vorið eftir fór Haraldur konungur suður með landi með skipaher og lagði undir sig Fjörðu og Fjalir og skipaði þar til ríkis mönnum sínum; hann setti Hróald jarl yfir Firðafylki.

Haraldur konungur var mjög gjörhugall, þá er hann hafði eignast þau fylki, er nýkomin voru í vald hans, um lenda menn og ríka búendur og alla þá, er honum var grunur á, að nokkurrar uppreistar var af von, þá lét hann hvern gera annað hvort, að gerast hans þjónustumenn eða fara af landi á brott, en að þriðja kosti sæta afarkostum eða láta lífið, en sumir voru hamlaðir að höndum eða fótum. Haraldur konungur eignaðist í hverju fylki óðul öll og allt land, byggt og óbyggt, og jafnvel sjóinn og vötnin, og skyldu allir búendur vera hans leiglendingar, svo þeir, er á mörkina ortu, og saltkarlarnir og allir veiðimenn, bæði á sjó og landi, þá voru allir þeir honum lýðskyldir.

En af þessari áþján flýðu margir menn af landi á brott, og byggðust þá margar auðnir víða, bæði austur í Jamtaland og Helsingjaland og Vesturlönd, Suðureyjar, Dyflinnar skíði, Írland, Norðmandí á Vallandi, Katanes á Skotlandi, Orkneyjar og Hjaltland, Færeyjar. Og í þann tíma fannst Ísland.

5. kafli

Haraldur konungur lá með her sinn í Fjörðum; hann sendi menn þar um land á fund þeirra manna, er eigi höfðu komið til hans, er hann þóttist erindi við eiga.

Konungs sendimenn komu til Kveld-Úlfs og fengu þar góðar viðtökur; þeir báru upp erindi sín, sögðu að konungur vildi, að Kveld-Úlfur kæmi á fund hans. "Hann hefir," sögðu þeir, "spurn af, að þú ert göfugur maður og stórættaður; muntu eiga kost af honum virðingar mikillar; er konungi mikið kapp á því að hafa með sér þá menn, að hann spyr, að afreksmenn eru að afli og hreysti."

Kveld-Úlfur svarar, sagði, að hann var þá gamall, svo að hann var þá ekki til fær að vera úti á herskipum. "Mun eg nú heima sitja og láta af að þjóna konungum."

Þá mælti sendimaður: "Láttu þá fara son þinn til konungs; hann er maður mikill og garplegur. Mun konungur gera þig lendan mann, ef þú vilt þjóna honum."

"Ekki vil eg," sagði Grímur, "gerast lendur maður, meðan faðir minn lifir, því að hann skal vera yfirmaður minn, meðan hann lifir."

Sendimenn fóru í brott, en er þeir komu til konungs, sögðu þeir honum allt það, er Kveld-Úlfur hafði rætt fyrir þeim. Konungur varð við styggur og mælti um nokkurum orðum, sagði, að þeir myndu vera menn stórlátir, eða hvað þeir myndu fyrir ætlast.

Ölvir hnúfa var þá nær staddur og bað konung vera eigi reiðan. "Eg mun fara á fund Kveld-Úlfs, og mun hann vilja fara á fund yðvarn, þegar er hann veit, að yður þykir máli skipta."

Síðan fór Ölvir á fund Kveld-Úlfs og sagði honum, að konungur var reiður og eigi myndi duga, nema annar hvor þeirra feðga færi til konungs, og sagði, að þeir myndu fá virðing mikla af konungi, ef þeir vildu hann þýðast, sagði frá mikið, sem satt var, að konungur var góður mönnum sínum, bæði til fjár og metnaðar.

Kveld-Úlfur sagði, að það var hans hugboð - "að vér feðgar munum ekki bera gæfu til þessa konungs, og mun eg ekki fara á fund hans; en ef Þórólfur kemur heim í sumar, þá mun hann auðbeðinn þessar farar og svo að gerast konungs maður. Segðu svo konungi, að eg mun vera vinur hans og alla menn, þá er að mínum orðum láta, halda til vináttu við hann. eg mun og halda hinu sama um stjórn og umboð af hans hendi sem áður hafði eg af fyrra konungi, ef konungur vill, að svo sé, og enn síðar sjá, hversu semst með oss konungi."

Síðan fór Ölvir aftur til konungs og sagði honum, að Kveld-Úlfur myndi senda honum son sinn, og sagði, að sá var betur til fallinn, er þá var eigi heima. Lét konungur þá vera kyrrt; fór hann þá um sumarið inn í Sogn, en er haustaði, bjóst hann að fara norður til Þrándheims.

6. kafli

Þórólfur Kveld-Úlfsson og Eyvindur lambi komu um haustið heim úr víking. Fór Þórólfur til föður síns.

Taka þeir feðgar þá tal sín í milli; spyr Þórólfur eftir, hvað verið hefir í erindum þeirra manna, er Haraldur sendi þangað. Kveld-Úlfur sagði, að konungur hafði til þess orð sent, að Kveld-Úlfur skyldi gerast maður hans eða sonur hans annar hvor.

"Hvernig svaraðir þú?" kvað Þórólfur.

"Eg sagði svo sem mér var í hug, að eg myndi aldrei ganga á hönd Haraldi konungi, og svo mynduð þið gera báðir, ef eg skyldi ráða. Ætla eg, að þær lyktir muni á verða, að vér munum aldurtila hljóta af þeim konungi."

"Þá verður allmjög á annan veg," sagði Þórólfur, "en mér segir hugur um, því að eg ætla mig skulu af honum hljóta hinn mesta frama, og til þess er eg fastráðinn að fara á fund konungs og gerast hans maður, og það hefi eg sannspurt, að hirð hans er skipuð afreksmönnum einum. Þykir mér það allfýsilegt að koma í þeirra sveit, ef þeir vilja við mér taka. Eru þeir menn haldnir miklu betur en allir aðrir í þessu landi. Er mér svo frá sagt konungi, að hann sé hinn mildasti af fégjöfum við menn sína og eigi síður þess ör að gefa þeim framgang og veita ríki þeim, er honum þykja til þess fallnir. En mér spyrst á þann veg til um alla þá, er bakverpast vilja við honum og þýðast eigi hann með vináttu, sem allir verði ekki að manna; stökkva sumir af landi á brott, en sumir gerast leigumenn. Þykir mér það undarlegt, faðir, um svo vitran mann sem þú ert og metnaðargjarnan, er þú vildir eigi með þökkum taka vegs emd þá, er konungur bauð þér. En ef þú þykist vera forspár um það, að vér munum hljóta af konungi þessum ófarnað og hann muni vilja vera vor óvinur, hví fórstu eigi þá til orustu í móti honum með konungi þeim, er þú ert áður handgenginn? Nú þykir mér það ósæmilegast að vera hvorki vinur hans né óvinur."

"Eftir gekk það," kvað Kveld-Úlfur, "er mér bauð hugur um, að þeir myndu engir sigurför fara, er börðust við Harald lúfu norður á Mæri. En slíkt sama mun það vera satt, að Haraldur mun verða að miklum skaða mínum frændum. En þú, Þórólfur, munt ráða vilja athöfnum þínum. Ekki óttast eg það, þóttú komir í sveit með hirðmönnum Haralds, að eigi þykir þú hlutgengur eða jafn hinum fremstum í öllum mannraunum. Varast þú það, að eigi ætlir þú hóf fyrir þér eða keppist við þér meiri menn; en eigi muntu fyrir vægja að heldur."

En er Þórólfur bjóst á brott, þá leiddi Kveld-Úlfur hann ofan til skips, hvarf til hans og bað hann vel fara og bað þá heila hittast.

7. kafli

Björgólfur hét maður á Hálogalandi; hann bjó í Torgum; hann var lendur maður, ríkur og auðugur, en hálfbergrisi að afli og vexti og kynferð. Hann átti son, er hét Brynjólfur; hann var líkur föður sínum. Björgólfur var þá gamall og önduð kona hans, og hafði hann selt í hendur öll ráð syni sínum og leitað honum kvonfangs. Brynjólfur átti Helgu, dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Bárður er nefndur sonur þeirra; hann var snemma mikill og fríður sýnum og varð hinn mesti atgervismaður.

Það var eitt haust, að þar var gildi fjölmennt, og voru þeir Björgólfur feðgar í gildinu göfgastir menn; þar var hlutaður tvímenningur á öftnum, sem siðvenja var til. En þar að gildinu var sá maður, er Högni hét; hann átti bú í Leku; hann var maður stórauðigur, allra manna fríðastur sýnum, vitur maður og ættsmár og hafði hafist af sjálfum sér. Hann átti dóttur allfríða, er nefnd er Hildiríður. Hún hlaut að sitja hjá Björgólfi. Töluðu þau margt um kveldið; leist honum mærin fögur. Litlu síðar var slitið gildinu.

Það sama haust gerði Björgólfur gamli heimanför sína og hafði skútu, er hann átti, og á þrjátigi menn; hann kom fram í Leku, og gengu þeir heim til húss tuttugu, en tíu gættu skips. En er þeir komu á bæinn, þá gekk Högni á mót honum og fagnaði vel, bauð honum þar að vera með sínu föruneyti, en hann þekktist það, og gengu þeir inn í stofu. En er þeir höfðu afklæðst og tekið upp yfirhafnir, þá lét Högni bera inn skapker og mungát. Hildiríður bóndadóttir bar öl gestum.

Björgólfur kallar til sín Högna bónda og segir honum, að - "erindi er það hingað, að eg vil, að dóttir þín fari heim með mér, og mun eg nú gera til hennar lausabrullaup."

En Högni sá engan annan sinn kost en láta allt svo vera sem Björgólfur vildi. Björgólfur keypti hana með eyri gulls, og gengu þau í eina rekkju bæði. Fór Hildiríður heim með Björgólfi í Torgar. Brynjólfur lét illa yfir þessi ráðagerð.

Þau Björgólfur og Hildiríður áttu tvo sonu; hét annar Hárekur, en annar Hrærekur.

Síðan andast Björgólfur; en þegar hann var út hafinn, þá lét Brynjólfur Hildiríði á brott fara með sonu sína; fór hún þá í Leku til föður síns, og fæddust þar upp synir Hildiríðar; þeir voru menn fríðir sýnum, litlir vexti, vel viti bornir, líkir móðurfrændum sínum; þeir voru kallaðir Hildiríðarsynir. Lítils virti Brynjólfur þá og lét þá ekki hafa af föðurarfi þeirra. Hildiríður var erfingi Högna, og tók hún og synir hennar arf eftir hann og bjuggu þá í Leku og höfðu auð fjár; þeir voru mjög jafnaldrar, Bárður Brynjólfsson og Hildiríðarsynir. Þeir feðgar, Brynjólfur og Björgólfur, höfðu lengi haft finnferð og finnskatt.

Norður á Hálogalandi heitir fjörður Vefsnir. Þar liggur ey í firðinum og heitir Álöst, mikil ey og góð; í henni heitir bær á Sandnesi. Þar bjó maður, er Sigurður hét; hann var auðgastur norður þar; hann var lendur maður og spakur að viti. Sigríður hét dóttir hans og þótti kostur bestur á Hálogalandi; hún var einbirni hans og átti arf að taka eftir Sigurð, föður sinn.

Bárður Brynjólfsson gerði heimanferð sína, hafði skútu og á þrjá tigu manna; hann fór norður í Álöst og kom á Sandnes til Sigurðar. Bárður hefur uppi orð sín og bað Sigríðar. Því máli var vel svarað og líklega, og kom svo, að Bárði var heitið meyjunni. Ráð þau skyldu takast að öðru sumri. Skyldi þá Bárður sækja norður þangað ráðið.

8. kafli

Haraldur konungur hafði það sumar sent orð ríkismönnum þeim, er voru á Hálogalandi, og stefndi til sín þeim, er áður höfðu eigi verið á fund hans. Var Brynjólfur ráðinn til þeirrar ferðar og með honum Bárður, sonur hans. Fóru þeir um haustið suður til Þrándheims og hittu þar konung. Tók hann við þeim allfeginsamlega. Gerðist þá Brynjólfur lendur maður konungs. Fékk konungur honum veislur miklar, aðrar en áður hafði hann haft; hann fékk honum og finnferð, konungssýslu á fjalli og finnkaup. Síðan fór Brynjólfur á brott og heim til búa sinna, en Bárður var eftir og gerðist konungs hirðmaður.

Af öllum hirðmönnum virti konungur mest skáld sín; þeir skipuðu annað öndvegi. Þeirra sat innst Auðunn illskælda; hann var elstur þeirra, og hann hafði verið skáld Hálfdanar svarta, föður Haralds konungs. Þar næst sat Þorbjörn hornklofi, en þar næst sat Ölvir hnúfa, en honum hið næsta var skipað Bárði; hann var þar kallaður Bárður hvíti eða Bárður sterki. Hann virtist þar vel hverjum manni; með þeim Ölvi hnúfu var félagsskapur mikill.

Það sama haust komu til Haralds konungs þeir Þórólfur Kveld-Úlfsson og Eyvindur lambi, sonur Berðlu-Kára. Fengu þeir þar góðar viðtökur; þeir höfðu þangað snekkju, tvítugsessu, vel skipaða, er þeir höfðu áður haft í víking; þeim var skipað í gestaskála með sveit sína.

Þá er þeir höfðu þar dvalist, til þess er þeim þótti tími til að ganga á fund konungs, gekk þar með þeim Berðlu-Kári og Ölvir hnúfa. Þeir kveðja konung.

Þá segir Ölvir hnúfa, að þar er kominn sonur Kveld-Úlfs - "sem eg sagði yður í sumar, að Kveld-Úlfur myndi senda til yðvar; munu yður heit hans öll föst; megið þér nú sjá sannar jartegnir, að hann vill vera vinur yðvar fullkominn, er hann hefir sent son sinn hingað til þjónustu við yður, svo skörulegan mann sem þér megið nú sjá. Er sú bæn Kveld-Úlfs og allra vor, að þú takir við Þórólfi vegsamlega og gerir hann mikinn mann með yður."

Konungur svarar vel máli hans og kveðst svo gera skyldu - "ef mér reynist Þórólfur jafnvel mannaður sem hann er sýnum fulldrengilegur."

Síðan gerðist Þórólfur handgenginn konungi og gekk þar í hirðlög, en Berðlu-Kári og Eyvindur lambi, sonur hans, fóru suður með skip það, er Þórólfur hafði norður haft. Fór þá Kári heim til búa sinna og þeir Eyvindur báðir. Þórólfur var með konungi, og vísaði konungur honum til sætis milli þeirra Ölvis hnúfu og Bárðar, og gerðist með þeim öllum hinn mesti félagsskapur.

Það var mál manna um Þórólf og Bárð, að þeir væru jafnir að fríðleik og á vöxt og afl og alla atgervi. Nú er Þórólfur þar í allmiklum kærleikum af konungi og báðir þeir Bárður.

En er veturinn leið af og sumar kom, þá bað Bárður sér orlofs konung að fara að vitja ráðs þess, er honum hafði heitið verið hið fyrra sumar. En er konungur vissi, að Bárður átti skylt erindi, þá lofaði hann honum heimferð. En er hann fékk orlof, þá bað hann Þórólf fara með sér norður þangað; sagði hann, sem satt var, að hann myndi þar mega hitta marga frændur sína göfga, þá er hann myndi eigi fyrr séð hafa eða við kannast. Þórólfi þótti það fýsilegt, og fá þeir til þess orlof af konungi, búast síðan, höfðu skip gott og föruneyti, fóru þá leið sína, er þeir voru búnir. En er þeir koma í Torgar, þá senda þeir Sigurði menn og láta segja honum, að Bárður mun þá vitja ráða þeirra, er þeir höfðu bundið með sér hið fyrra sumar. Sigurður segir, að hann vill það allt halda, sem þeir höfðu mælt; gera þá ákveðið um brullaupsstefnu, og skulu þeir Bárður sækja norður þangað á Sandnes.

En er að þeirri stefnu kom, þá fara þeir Brynjólfur og Bárður og höfðu með sér margt stórmenni, frændur sína og tengdamenn. Var það sem Bárður hafði sagt, að Þórólfur hitti þar marga frændur sína, þá er hann hafði ekki áður við kannast. Þeir fóru, til þess er þeir komu á Sandnes, og var þar hin prúðlegasta veisla. En er lokið var veislunni, fór Bárður heim með konu sína og dvaldist heima um sumarið og þeir Þórólfur báðir. En um haustið koma þeir suður til konungs og voru með honum vetur annan.

Á þeim vetri andaðist Brynjólfur. En er það spyr Bárður, að honum hafði þar arfur tæmst, þá bað hann sér heimfararleyfis, en konungur veitti honum það; og áður þeir skildust, gerðist Bárður lendur maður, sem faðir hans hafði verið, og hafði af konungi veislur allar, þvílíkar sem Brynjólfur hafði haft. Bárður fór heim til búa sinna og gerðist brátt höfðingi mikill; en Hildiríðarsynir fengu ekki af arfinum þá

9. kafli

Haraldur konungur bauð út leiðangri miklum og dró saman skipaher, stefndi til sín liði víða um land; hann fór úr Þrándheimi og stefndi suður í land. Hann hafði það spurt, að her mikill var saman dreginn um Agðir og Rogaland og Hörðaland og víða til safnað, bæði ofan af landi og austan úr Vík, og var þar margt stórmenni saman komið og ætlar að verja land fyrir Haraldi konungi.

Haraldur konungur hélt norðan liði sínu; hann hafði sjálfur skip mikið og skipað hirð sinni. Þar var í stafni Þórólfur Kveld-Úlfsson og Bárður hvíti og synir Berðlu-Kára, Ölvir hnúfa og Eyvindur lambi, en berserkir konungs tólf voru í söxum. Fundur þeirra var suður á Rogalandi í Hafursfirði; var þar hin mesta orusta, er Haraldur konungur hafði átt, og mikið mannfall í hvorratveggju liði. Lagði konungur framarlega skip sitt, og var þar ströngust orustan. En svo lauk, að Haraldur konungur fékk sigur, en þar féll Þórir haklangur, konungur af Ögðum, en Kjötvi hinn auðgi flýði og allt lið hans, það er upp stóð, nema það, er til handa gekk.

Eftir orustuna, þá er kannað var lið Haralds konungs, var margt fallið, og margir voru mjög sárir. Þórólfur var sár mjög, en Bárður meir, og enginn var ósár á konungsskipinu fyrir framan siglu, nema þeir, er eigi bitu járn, en það voru berserkir. Þá lét konungur binda sár manna sinna og þakkaði mönnum framgöngu sína og veitti gjafir og lagði þar mest lof til, er honum þótti maklegir, og hét þeim að auka virðing þeirra, nefndi til þess skipstjórnarmenn og þar næst stafnbúa sína og aðra frambyggja. Þá orustu átti Haraldur konungur síðasta innan lands, og eftir það fékk hann enga viðstöðu, og eignaðist hann síðan land allt. Konungur lét græða menn sína, þá er lífs var auðið, en veita umbúnað dauðum mönnum, þann sem þá var siðvenja til.

Þórólfur og Bárður lágu í sárum; tóku sár Þórólfs að gróa, en Bárðar sár gerðust banvæn. Þá lét hann kalla konung til sín og sagði honum svo:

"Ef svo verður, að eg deyja úr þessum sárum, þá vil eg þess biðja yður, að þér látið mig ráða fyrir arfi mínum."

En er konungur hafði því játað, þá sagði hann:

"Arf minn allan, vil eg, að taki Þórólfur, félagi minn og frændi, lönd og lausa aura. Honum vil eg og gefa konu mína og son minn til uppfæðslu, því að eg trúi honum til þess best allra manna."

Hann festir þetta mál sem lög voru til að leyfi konungs. Síðan andast Bárður, og var honum veittur umbúnaður, og var hann harmdauði mjög. Þórólfur varð heill sára sinna og fylgdi konungi um sumarið og hafði fengið allmikinn orðstír.

Konungur fór um haustið norður til Þrándheims. Þá biður Þórólfur orlofs að fara norður á Hálogaland að vitja gjafar þeirrar, er hann hafði þegið um sumarið að Bárði, frænda sínum. Konungur lofar það og gerir með orðsending og jartegnir, að Þórólfur skal það allt fá, er Bárður gaf honum, lætur það, að sú gjöf var ger með ráði konungs og hann vill svo vera láta. Gerir konungur þá Þórólf lendan mann og veitir honum þá allar veislur þær, sem áður hafði Bárður haft, fær honum finnferðina með þvílíkum skildaga, sem áður hafði haft Bárður; konungur gaf Þórólfi langskip gott með reiða öllum og lét búa ferð hans þaðan sem best. Síðan fór Þórólfur þaðan ferð sína, og skildust þeir konungur með hinum mesta kærleik.

En er Þórólfur kom norður í Torgar, þá var honum þar vel fagnað; sagði hann þá fráfall Bárðar og það með, að Bárður hefði gefið honum eftir sig lönd og lausa aura og kvonfang það, er hann hafði áður átt; ber fram síðan orð konungs og jartegnir.

En er Sigríður heyrði þessi tíðindi, þá þótti henni skaði mikill eftir mann sinn. En Þórólfur var henni áður mjög kunnugur, og vissi hún, að hann var hinn mesti merkismaður og það gjaforð var allgott. Og með því að það var konungs boð, þá sá hún það að ráði og með henni vinir hennar að heitast Þórólfi, ef það væri föður hennar eigi í móti skapi. Síðan tók Þórólfur þar við forráðum öllum og svo við konungssýslu.

Þórólfur gerði heimanför sína og hafði langskip og á nær sex tigu manna og fór síðan, er hann var búinn, norður með landi; og einn dag að kveldi kom hann í Álöst á Sandnes; lögðu skip sitt til hafnar; en er þeir höfðu tjaldað og um búist, fór Þórólfur upp til bæjar með tuttugu menn.

Sigurður fagnaði honum vel og bauð honum þar að vera, því að þar voru áður kunnleikar miklir með þeim, síðan er mægð hafði tekist með þeim Sigurði og Bárði. Síðan gengu þeir Þórólfur inn í stofu og tóku þar gisting.

Sigurður settist á tal við Þórólf og spurði að tíðindum. Þórólfur sagði frá orustu þeirri, er verið hafði um sumarið suður á landi, og fall margra manna, þeirra er Sigurður vissi deili á. Þórólfur sagði, að Bárður, mágur hans, hafði andast úr sárum þeim, er hann fékk í orustu. Þótti það báðum þeim hinn mesti mannskaði. Þá segir Þórólfur Sigurði, hvað verið hafði í einkamálum með þeim Bárði, áður en hann andaðist, og svo bar hann fram orðsendingar konungs, að hann vildi það allt haldast láta, og sýndi þar með jartegnir. Síðan hóf Þórólfur upp bónorð sitt við Sigurð og bað Sigríðar, dóttur hans. Sigurður tók því máli vel, sagði, að margir hlutir héldu til þess: sá fyrstur, að konungur vill svo vera láta, svo það, að Bárður hefði þess beðið, og það með, að Þórólfur var honum kunnugur og honum þótti dóttir sín vel gift; var það mál auðsótt við Sigurð; fóru þá fram festar og ákveðin brullaupsstefna í Torgum um haustið.

Fór þá Þórólfur heim til bús síns og hans förunautar og bjó þar til veislu mikillar og bauð þangað fjölmenni miklu. Var þar margt frænda Þórólfs göfugra. Sigurður bjóst og norðan og hafði langskip mikið og mannval gott. Var að þeirri veislu hið mesta fjölmenni.

Brátt fannst það, að Þórólfur var ör maður og stórmenni mikið; hafði hann um sig sveit mikla, en brátt gerðist kostnaðarmikið og þurfti föng mikil. Þá var ár gott og auðvelt að afla þess, er þurfti.

Á þeim vetri andaðist Sigurður á Sandnesi, og tók Þórólfur arf allan eftir hann; var það allmikið fé.

Þeir synir Hildiríðar fóru á fund Þórólfs og hófu upp tilkall það, er þeir þóttust þar eiga um fé það, er átt hafði Björgólfur, faðir þeirra.

Þórólfur svarar svo: "Það var mér kunnugt of Brynjólf og enn kunnara um Bárð, að þeir voru manndómsmenn svo miklir, að þeir myndu hafa miðlað ykkur það af arfi Björgólfs, sem þeir vissu, að réttindi væru til. Var eg nær því, að þið hófuð þetta sama ákall við Bárð, og heyrðist mér svo, sem honum þætti þar engi sannindi til, því að hann kallaði ykkur frillusonu."

Hárekur sagði, að þeir myndu vitni til fá, að móðir þeirra var mundi keypt - "en satt var það, að við leituðum ekki fyrst þessa mála við Brynjólf, bróður okkarn; var þar og með skyldum að skipta. En af Bárði væntum við okkur sæmdar í alla staði; urðu og eigi löng vor viðskipti. En nú er arfur þessi kominn undir óskylda menn okkur, og megum við nú eigi með öllu þegja yfir missu okkarri. En vera kann, að enn sé sem fyrr sá ríkismunur, að við fáum eigi rétt af þessu máli fyrir þér, ef þú vilt engi vitni heyra, þau er við höfum fram að flytja, að við séum menn aðalbornir."

Þórólfur svarar þá stygglega: "Því síður ætla eg ykkur arfborna, að mér er sagt móðir ykkur væri með valdi tekin og hernumin heim höfð."

Eftir það skildu þeir þessa ræðu.

10. kafli

Þórólfur gerði um veturinn ferð sína á fjall upp og hafði með sér lið mikið, eigi minna en níu tigu manna. En áður hafði vandi á verið, að sýslumenn höfðu haft þrjá tigu manna, en stundum færra; hann hafði með sér kaupskap mikinn. Hann gerði brátt stefnulag við Finna og tók af þeim skatt og átti við þá kaupstefnu; fór með þeim allt í makindum og í vinskap; en sumt með hræðslugæði.

Þórólfur fór víða um mörkina; en er hann sótti austur á fjallið, spurði hann, að Kylfingar voru austan komnir og fóru þar að finnkaupum, en sums staðar með ránum. Þórólfur setti til Finna að njósna um ferð Kylfinga, en hann fór eftir að leita þeirra og hitti í einu bóli þrjá tigu manna og drap alla, svo að engi komst undan, en síðan hitti hann saman fimmtán eða tuttugu. Alls drápu þeir nær hundrað manna og tóku þar ógrynni fjár og komu aftur um vorið við svo búið. Fór Þórólfur þá til bús síns á Sandnes og sat þar lengi. Um vorið lét hann gera langskip mikið og á drekahöfuð, lét það búa sem best, hafði það norðan með sér.

Þórólfur sópast mjög um föng þau, er þá voru á Hálogalandi, hafði menn sína í síldveri og svo í skreiðfiski; selver voru og nóg og eggver; lét hann það allt að sér flytja. Hann hafði aldregi færra frelsingja heima en hundrað; hann var ör maður og gjöfull og vingaðist mjög við stórmenni, alla þá menn, er honum voru í nánd; hann gerðist ríkur maður og lagði mikinn hug á um skipa búnað sinn og vopna.

11. kafli

Haraldur konungur fór það sumar á Hálogaland, og voru gerðar veislur í móti honum, bæði þar er hans bú voru, og svo gerðu lendir menn og ríkir bændur.

Þórólfur bjó veislu í móti konungi og lagði á kostnað mikinn. Var það ákveðið, nær konungur skyldi þar koma. Þórólfur bauð þangað fjölda manns og hafði þar allt hið besta mannval, það er kostur var. Konungur hafði nær þrjú hundruð manna, er hann kom til veislunnar, en Þórólfur hafði fyrir fimm hundruð manna. Þórólfur hafði látið búa kornhlöðu mikla, er þar var, og látið leggja bekki í og lét þar drekka, því að þar var engi stofa svo mikil, er það fjölmenni mætti allt inni vera; þar voru og festir skildir umhverfis í húsinu.

Konungur settist í hásæti; en er alskipað var hið efra og hið fremra, þá sást konungur um og roðnaði og mælti ekki, og þóttust menn finna, að hann var reiður. Veisla var hin prúðlegasta og öll föng hin bestu; konungur var heldur ókátur og var þar þrjár nætur, sem ætlað var.

Þann dag, er konungur skyldi brott fara, gekk Þórólfur til hans og bað, að þeir skyldu fara ofan til strandar; konungur gerði svo; þar flaut fyrir landi dreki sá, er Þórólfur hafði gera látið, með tjöldum og öllum reiða. Þórólfur gaf konungi skipið og bað, að konungur skyldi svo virða sem honum hafði til gengið, að hann hafði fyrir því haft fjölmenni svo mikið, að það væri konungi vegsemd, en ekki fyrir kapps sakir við hann. Konungur tók þá vel orðum Þórólfs og gerði sig þá blíðan og kátan; lögðu þá og margir góð orð til, sögðu sem satt var, að veislan var hin vegsamlegasta og útleiðslan hin skörulegasta og konungi var styrkur mikill að slíkum mönnum; skildust þá með kærleik miklum.

Fór konungur norður á Hálogaland, sem hann hafði ætlað, og sneri aftur suður, er leið á sumarið; fór þá enn að veislum, þar sem fyrir honum var búið.

12. kafli

Hildiríðarsynir fóru á fund konungs og buðu honum heim til þriggja nátta veislu. Konungur þekktist boð þeirra og kvað á, nær hann myndi þar koma. En er að þeirri stefnu kom, þá kom konungur þar með lið sitt, og var þar ekki fjölmenni fyrir, en veisla fór fram hið besta; var konungur allkátur.

Hárekur kom sér í ræðu við konung, og kom þar ræðu hans, að hann spyr um ferðir konungs, þær er þá höfðu verið um sumarið. Konungur sagði slíkt, er hann spurði, kvað alla menn hafa sér vel fagnað og mjög hvern eftir föngum sínum.

"Mikill munur," sagði Hárekur, "mun þess hafa verið, að í Torgum mundi veisla fjölmennust."

Konungur sagði, að svo var.

Hárekur segir: "Það var vís von, því að til þeirrar veislu var mest aflað, og báruð þér, konungur, þar stórlegar gæfur til, er svo snerist, að þér komuð í engan lífsháska. Fór það sem líklegt var, að þú varst vitrastur og hamingjumestur, því að þú grunaðir þegar, að eigi myndi allt af heilu vera, er þú sást fjölmenni það hið mikla, er þar var saman dregið. En mér var sagt, að þú létir allt lið þitt jafnan með alvæpni vera eða hafðir varðhöld örugg bæði nótt og dag."

Konungur sá til hans og mætli: "Hví mælir þú slíkt, Hárekur, eða hvað kanntu þar af að segja?"

Hann segir: "Hvort skal eg mæla í orlofi, konungur, það er mér líkar?"

"Mæltu," segir konungur.