Óþekktur

Svarfdæla saga

 

SAGA Egmont

Svarfdæla saga

1. kafli

Það er upphaf að þessari sögu að Haraldur kóngur hinn hárfagri réð fyrir Noregi. Í þann tíma hafði sá maður forræði fyrir Naumudölum er Þorgnýr hét. Hann átti tvo sonu og hét Þórólfur hinn eldri en Þorsteinn hinn yngri. Þeir uxu upp með föður sínum þar til er þeir voru frumvaxta. Þeir voru ólíkir í skaplyndi. Þórólfur var mjög við alþýðuskap, vitur maður og forsjáll, vinsæll og gerðist kaupmaður og fór landa í milli og þótti hinn besti drengur. Hann var ekki mikill maður og vel á sig kominn, vænn að áliti. Þorsteinn var óvær við alþýðu, mikill vexti. Hann byggði eldahús og fékk mikið ástleysi af föður og móður og öllum frændum sínum en Þórólfur fékk því meiri virðing sem hann flutti meira heim. Þorsteinn var því leiðari föður sínum sem hann fágaði þá iðn lengur og ei vildi Þorgnýr láta hann sinn son kalla.

Fór nú svo þar til sem þeir voru rosknir menn. Þá var Þorsteinn svo mikill að hann lá milli setstokka sem hann var langur til. Öskuhaugur var á aðra hönd honum en eldur á aðra hönd og féllu menn um fætur honum.

2. kafli

Þessu næst er það sagt að Þórólfur kom heim í land til föður síns með mikinn fjárhlut og margar gersemar og gerði faðir hans veislu í móti honum með svo marga menn sem honum þótti sinn sómi meiri en áður. Nú fór Þórólfur heim með föður sínum.

Það var síð um kvöld. Gekk hann inn einn saman því honum voru göng kunnig. En leið hans lá um eldhúsið þar Þorsteinn bróðir hans lá í. Í þann tíma dags var Þorsteinn vanur að leggjast til svefns. Þórólfur gengur nú um eldahús. Þorsteinn lá í milli setstokkanna. Þórólfur gekk að og ætlaði trédrumb vera.

En þar barst svo að að hann lá fallinn um Þorstein og hraut á öskuhauginn öðrumegin en Þorsteinn skellti upp, hló og þá mælti Þórólfur: "Til ills höfum vér þig upp dregið er þú hlærð að óförum vorum."

"Djarfur ertu," sagði Þorsteinn, "að þú krytur um þó að þú hafir fallið um fót mér þar sem eg get ei þótt þú farir með eign okkra alla og hafir sem þú eigir. Skaltu það vita að mér þykir þú einn eyða því sem við eigum báðir og kaupir þér með því orðlof og vinsæld."

Þórólfur sagði: "Vittu það fyrir víst að eg vildi gefa minn eyri til og risir þú upp úr fletinu og færir á brott úr þessu húsi."

Þorsteinn sagði: "Seint ætla eg mig fyrirláta húsið fyrir því að ekki fæ eg mér æðri athöfn en liggja hér í fletinu."

Þórólfur sagði: "Það vildi eg að þú gerðir fyrir mín orð og skal eg þér því meiri vera sem eg á meira kosti en aðrir frændur þínir ef þú lætur að orðum mínum."

Þorsteinn sagði: "Engi þökk get eg að föður þínum sé á fleipri þessu en mér lítil því mér er meiri von að hann gjaldi þér fjandskap fyrir því að hann vill mig ei sinn frænda láta kalla fyrir ástleysis sakir við mig."

Þórólfur sagði: "Engu þykir mér varða hvort honum þykir vel eða illa fyrir því að mér þykir ekki undir hvort eg er hér lengur eða skemur. Hinu mun eg heita sem eg skal efna að við þig mun eg aldrei skilja meðan við lifum báðir."

Þorsteinn sagði: "Von þykir mér bróðir að þú munir það efna er þú heitir fyrir því að þú ert reyndur að drengskap. En þó vil eg fyrir skilja um það mál ef við kaupum saman."

"Hvað er það?" segir Þórólfur. "Eg mun til vinna flest það er þú beiðir ef þú gerir nú minn vilja."

Þorsteinn sagði: "Kynlegt mun þér þykja hvers eg beiði. Vil eg einn ráða ef okkur skilur á jafnan."

Þórólfur sagði: "Kynlegs hlutar beiðist þú frændi og þykir mér það meiri vandi en virðing. En þó vil eg það gjarna til vinna að þú mættir sæmdarmaður verða."

"Svo er þó," segir Þorsteinn, "að eg hygg mig það mæla meir í þína þörf en mína og munum við nú þessu kaupa ef þú vilt þessu játa. En grunur er mér á að þú munir þetta ei efna þá mér þykir mestu máli skipta."

Þórólfur sagði: "Ei ætla eg að vanvirða svo orð mín því það hefi eg aldrei gert áður."

"Hversu sem það fer," segir Þorsteinn, "þá munum við nú þessu kaupa."

Hann tekur þá upp hnakk sinn og gengur út með og brýtur í sundur, segir að ei skal konum gagn að verða. Þórólfur gekk til móður sinnar og bað hana kerlaug gera. Hún spurði hvað skyldi.

Þórólfur sagði: "Þorsteinn son þinn rís nú upp úr fletinu og vill hafa kerlaugina."

"Góðu heilli," sagði hún.

Og nú færir hún Þorstein af klæðum, vararvoðarstakki og hökulbrókum þeim er hann var vanur í að vera. Var honum nú þvegið og kembt hár hans og skorið. Kom Þórólfur nú með klæði og bað hann í fara. Klæddist Þorsteinn nú skjótt. Eftir það tók Þórólfur af sér seilamöttul, það var skarlatsmöttull og undir gráskinn, og lagði yfir Þorstein. En er hann stóð upp tók hann honum ei meir en á bróklinda. Tók hann þá af sér skikkjuna og bað hann sjálfan með fara en bað hann fá sér aðra yfirhöfn þó hún væri ei jafngóð. Þórólfur fékk honum þá eina loðkápu og bað hann í fara. Hann steypir yfir sig kápunni og var hún hvorki síð né of stutt. Þá tók Þórólfur af sér sverð og gaf honum. Það var góður gripur og vel búið. Þorsteinn tók við sverðinu og brá þegar, tók blóðrefilinn og dró saman milli handa sér svo uppi lá blóðrefillinn við hjöltin. Þá lét hann aftur hlaupa og var þá úr allur staðurinn.

Seldi hann þá Þórólfi aftur sverðið og bað hann fá sér annað vopn sterkara "og skal mér ekki sneis þessi."

Þórólfur tók við sverðinu og þótti spillt, bað hann þá ganga til vopnakistu sinnar um morguninn og kjósa þar af það vopn er honum þætti vænlegast. Eftir það gengu þeir til borðs og settist Þórólfur næst föður sínum en Þorsteinn á aðra hönd honum. Þorgnýr sér þá bræður og lætur síga brún á nef og kvaddi Þorstein engu en Þórólfur orti orða á hvern mann og var hinn kátasti.

En um morguninn gengu þeir bræður til vopnakistu Þórólfs og fann Þorsteinn þar bolöxi þá er honum þótti við sitt skap vera og færir hana á breiðöxarskaft, gekk síðan til lækjar og hvatti hana. Þessa öxi bar hann síðan að vopni.

3. kafli

Nú eftir þetta sátu þeir með föður sínum um veturinn.

En um vorið spurði Þórólfur Þorstein hvað hann vildi ráða sinna en hann bað Þórólf ráða: "Þykir mér vel að þú sjáir fyrir hið fyrsta sinn er við förum báðir saman."

Bjó Þórólfur þá skip sitt og réð til háseta. Síðan héldu þeir skipi sínu til kaupstaða. Er það ei sagt í hverja þeir héldu en hitt er greint að þeir komu heim að hausti. Tók Þorgnýr við Þórólfi eftir vana virktavel en hann lét sem hann sæi ei Þorstein og ekki höfðu þeir viðmæli á hinum fyrrum misserum síðan hann reis úr fletinu. Þar voru þeir þann vetur og var samt með þeim feðgum, Þorgný og Þorsteini, svo fátt að aldrei mæltust þeir við. Nú lagðist engi mannvirðing á Þorstein meðan svo búið var.

Þá spurði Þórólfur Þorstein bróður sinn hvað hann vildi að hafast um sumarið: "Mér virðist svo sem þér þyki lítið gaman að kaupferðum."

"Rétt getur þú," sagði Þorsteinn, "þykja mér kaupferðir vera manni meir til prýði og ágætis en til hreysti."

Þá sagði Þórólfur: "Hvað skulum við þá fyrir okkur leggja?"

Þorsteinn sagði: "Hugsað hef eg nokkuð til þess. Eg vildi að þú keyptir okkur langskip tvö en þú héldir knerri okkrum í kaupstaði sem þú ert vanur."

"Annað ætla eg fyrri," sagði Þórólfur, "því það skal eg enda sem eg hefi heitið að við þig mun eg aldrei skilja meðan við lifum báðir."

Þorsteinn sagði: "Þetta gerir þú illa því faðir þinn mun svo virða ef þú kemur ei aftur sem eg hafi setið um líf þitt og er það mikill skaði ef þér verður nokkuð en alls engi um mig. En þetta er mikil háskaferð."

Eigi að síður keypti Þórólfur tvö langskip og seldi knörrinn. Héldu þeir þeim í hernað og varð gott til fjár um sumarið, héldu heim um haustið og höfðu fimm skip. Ekki er getið hvar þeir herjuðu. Svo fór fram þrjá vetur og höfðu þeir þá tólf skip og auð fjár.