Óþekktur

Króka-Refs saga

 

SAGA Egmont

Króka-Refs saga

1. kafli

Á dögum Hákonar konungs Aðalsteinsfóstra bjó út á Íslandi í Breiðafirði á bæ þeim er að Kvennabrekku heitir maður sá er Steinn hét. Kona hans hét Þorgerður. Hún var Oddleifsdóttir, systir Gests af Barðaströnd. Steinn var auðigur maður og hinn besti bóndi og þá gamall mjög.

Son áttu þau er Refur hét. Hann var mikill vexti á unga aldri, vænn að yfirliti og ódællegur. Engi maður vissi afl hans. Hann var eldsetinn og öngva hafði hann aðra iðn fyrir starfi en veltast fyrir fótum mönnum er þar gengu. Mikið mein þótti þeim hjónum á þessu, að þeirra son skyldi svo lítt vilja siðu nema annarra manna. Hann var af flestum mönnum fífl kallaður.

Maður er nefndur Þorbjörn, auðigur og ódæll og vígamaður mikill og hinn mesti ójafnaðarmaður. Hann hafði búið í öllum landsfjórðungum. Höfðingjar og öll alþýða höfðu þenna mann brott gervan, hver úr sínum landsfjórðungi, fyrir sakir ójafnaðar og vígaferlis. Öngan mann hafði hann fé bættan. Rannveig hét kona hans. Hún var heimsk og harðráð og það var kallað að Þorbjörn mundi hafa unnið nokkurum óhöppum færra ef hún hefði hann eigi fram æstan. Þorbjörn hafði nú keypt land það er að Sauðafelli heitir. Margir menn kvíddu mjög við komu hans, þeir er áður höfðu spurt til Þorbjarnar.

Skammt var á millum bæja þeirra Steins og Þorbjarnar og féll þar á ein í millum sú er skildi lönd þeirra. En er Þorbjörn hafði búið þar um stund þá tók fénaður hans að leggjast í land Steins því að hann átti margt ganganda fjár.

Eitthvert sinn kom Steinn að máli við Þorbjörn búa sinn og mælti: "Þanninn er farið að þú hefir búið í grennd við mig tvo vetur og hefir okkar verið í milli heldur vel en illa en þú ert kallaður maður ekki vinsæll af alþýðu. Hefi eg önga raun af þér haft né þinni eign allt hingað til. En nú leggst fé þitt í engjar mínar og beitast þær. Nú vil eg að þú látir skipast við mína umræðu og látir betur geyma fjárins en hér til hefir verið. Kann og vera, þar sem eg er engi skröksmaður, að til verði einnhver að trúa mínum orðum þeir er þig deili málum. Má eg þá slíkt fram bera að eigi hefir þú mér sýnt ójafnað eða mitt með röngu ágirnst."

Þorbjörn kvað þann öngan verið hafa að jafnhógværlega og viturlega hefði við hann um talað, lést það ætla ef fleiri hefðu svo um talað það ábóta þætti vant, að hann mundi færri stökkivíg gert hafa: "Skal og að vísu batna við þína umræðu."

Eftir það skiljast þeir. Lætur Þorbjörn svo vel skipast við umræðu Steins að fé hans gerir honum aldrei mein.

2 kafli

Nú líða svo stundir þar til að Steinn tekur sótt. Hann lýsir yfir því að hann mundi eigi fleiri sóttir taka og kvað sér þessa mundu einhlíta til bana.

Hann mælti þá við Þorgerði konu sína: "Það vildi eg að þú seldir land þitt eftir dauða minn og færir vestur á Barðaströnd til Gests bróður þíns. Segir mér svo hugur um að Þorbjörn muni ekki rór í byggðinni við þig þó að vel haf fallið á með okkur. Varir mig að honum þyki nú dælla land þitt til beitingar en þá er eg var við."

Eftir það andast Steinn.

Nú nennir Þorgerður eigi að lóga landinu því að henni sýndist það fagurt og að flestu gott. Og er eigi liðu langar stundir versnaði fjárvarðveislan Þorbjarnar. Gengur nú fé hans í engjum Þorgerðar nótt með degi. Svo gerist að þessu mikill gangur að það bítur upp alla töðuna og var það tvo vetur að búfénu varð frá að lóga fyrir heyleysi. Þorgerður ræddi oft um við Þorbjörn að hann skyldi féið betur varðveita og stoðar það ekki. Nú leitast hún um ef nokkurir vilji land hennar kaupa en engi lést fús að sitja svo nær Þorbirni. Var því landið ekki selt.

Þess er við getið að sá maður var þar í héruðum er Barði hét, manna minnstur. Hann var kallaður Barði hinn litli. Allra manna var hann frástur og ekki hljóp hann minna en hinn besti hestur. Hann var skyggn og glöggþekkinn. Hann hafði fjárgeymslu á sumrum. Hann var tryggur og trúr um alla hluti. Þenna mann fann Þorgerður á vorþingi og spyr ef hann vilji ráðast til hennar fjár að gæta, lést honum mundu kaup fá svo honum hugnaði. Hún lýsti og því fyrir honum að hann mundi oftar þurfa og ekki minnur að geyma fjár Þorbjarnar við misgöngum, sagði honum ljúft og leitt hvað þar var til vanda garða á millum.

Barði svarar: "Ekki mundi eg heldur kjósa mig annarstaðar en með þér að vera, þanninn sem þú segir þar frá. Vex mér það ekki í augu að verja land þitt við beit annarra manna."

Fer nú Barði heim með Þorgerði og tekur til fjárgæslu. Hann gerir sér skála tvo, annan við fjall en annan á fitjum ár er þar fellur í millum húsa. Hann hefir þar náttból einart og varðar svo fé Þorbjarnar land Þorgerðar að það kemur aldrei yfir ána. Stendur hann á bakkanum og ver þaðan fénu. Aldrei gengur hann yfir ána.