SAGA Egmont
Kjalnesinga saga
Cover image: Shutterstock
Copyright © 1997, 2020 Óþekktur and SAGA Egmont
All rights reserved
ISBN: 9788726225662
1. e-book edition, 2020
Format: EPUB 2.0
All rights reserved. No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.
SAGA Egmont www.saga-books.com – a part of Egmont, www.egmont.com
Helgi bjóla son Ketils flatnefs nam Kjalarnes millum Leiruvogs og Botnsár og bjó að Hofi á Kjalarnesi. Hann var nytmenni mikið í fornum sið, blótmaður lítill, spakur og hægur við alla. Helgi átti Þórnýju dóttur Ingólfs í Vík er fyrst byggði Ísland. Þeirra synir voru þeir Þorgrímur og Arngrímur. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og hinir vasklegustu menn.
Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau sem hann hafði numið. Hann fékk Þrándi á Þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á Tindsstöðum og þar hverjum sem honum þótti fallið vera.
Maður hét Örlygur. Hann var írskur að allri ætt. Í þann tíma var Írland kristið. Þar réð fyrir Konofogor Írakonungur. Þessi fyrrnefndur maður varð fyrir konungs reiði.
Hann fór að finna Patrek biskup frænda sinn en hann bað hann sigla til Íslands "því að þangað er nú," sagði hann, "mikil sigling ríkra manna. En eg vil það leggja til með þér að þú hafir þrjá hluti. Það er vígð mold að þú látir undir hornstafi kirkjunnar og plenarium og járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan að Íslandi. Þá skaltu sigla vestur fyrir þar til er fjörður mikill gengur vestan í landið. Þú munt sjá í fjörðinn inn þrjú fjöll há og dali í öllum. Þú skalt stefna inn fyrir hið synnsta fjall. Þar muntu fá góða höfn og þar er spakur formaður er heitir Helgi bjóla. Hann mun við þér taka því að hann er lítill blótmaður og hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli er fyrr sagði eg þér frá. Þar skaltu láta kirkju gera og gefa hinum heilaga Kolumba. Far nú vel," sagði biskup, "og geym trú þinnar sem best þóttú verðir með heiðnum."
Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.
Á ofanverðum dögum Konofogors kom skip í Leiruvog. Þar voru á írskir menn. Maður hét Andríður, ungur og ókvongaður, mikill og sterkur. Þar var á kona sú er hét Esja, ekkja og mjög auðig. Sá maður er nefndur Kolli er þar var á skipi með þeim. Helgi tók við þeim öllum. Kolla setti hann niður í Kollafjörð en með því að Örlygur var gamall og barnlaus þá gaf hann upp land og bú og tók Esja við. Settist hún þá að Esjubergi. Allir þessir menn voru kallaðir skírðir en þó var það margra manna mál að Esja væri forn í brögðum. Andríður fór um veturinn til vistar til Hofs. Var þar þá fóstbræðralag og með sonum Helga.
Andríður bað Helga fá sér bústað og kvonfang. Hann hafði auð fjár. Þá var skógi vaxið allt Kjalarnes svo að þar aðeins var rjóður er menn ruddu til bæja eða vega. Braut mikil var rudd eftir holtunum frá Hofi. Þangað riðu þeir Helgi og Andríður um vorið.
Og er þeir komu út á holtið þá mælti Helgi: "Hér við eg Andríður," sagði hann, "gefa þér jörð og að þú reisir hér bæ. Mér þykir sem þeir synir mínir vilji að þér sitjið nær."
Eftir það reisti Andríður bæ í brautinni og kallaði Brautarholt því að skógurinn var svo þykkur að honum þótti allt annað starfameira. Andríður setti þar reisulegt bú saman.
Maður hét Þormóður. Hann bjó í Þormóðsdal. Með honum var systir hans er Þuríður hét. Hún var fríð sýnum og auðig að fé. Þessar konu bað Helgi til handa Andríði og þessi konu var honum heitið. Þetta sumar var og heitið Þorgrími Helgasyni Arndísi dóttur Þórðar Skeggjasonar af Skeggjastöðum og voru brullaupin bæði saman að Hofi og var veitt með hinu mesta kappi. Var þar og allfjölmennt.
Eftir boðið fór Þuríður í Brautarholt og tók við búi fyrir innan stokk. Var það brátt auðsætt að hún var mikill skörungur. Þau höfðu mart ganganda fjár og gekk allt nær sjálfala úti í skóginum um nesið. Þetta haust var honum vant kvígu þrevetrar myrkrar. Hún hét Mús. Þessi kvíga fannst þrem vetrum síðar á nesi því er liggur til vesturs undan Brautarholti og hafði hún þá með sér tvo dilka, annan veturgamlan en annan sumargamlan. Því kölluðu þeir það Músarnes.
Þann vetur er Andríður bjó fyrstan í Brautarholti andaðist Helgi bjóla. Það þótti mönnum hinn mesti skaði því að hann var hinn vinsælasti maður.