Cover: Flóamanna saga by Óþekktur

Óþekktur

Flóamanna saga

 

SAGA Egmont

1. kafli

Haraldur konungur gullskeggur réð fyrir Sogni. Hann átti Sölvöru, dóttur Hundólfs jarls, systur Atla jarls mjóva. Þeirra dætur voru þær Þóra er átti Hálfdan konungur svarti Upplendingakonungur og Þuríður er átti Ketill helluflagi. Haraldur konungur ungi var son þeirra Hálfdanar og Þóru. Honum gaf Haraldur konungur gullskeggur nafn sitt. Haraldur konungur gullskeggur andaðist fyrst þeirra en þá Þóra, þá Haraldur ungi síðast og bar svo ríkið undir Hálfdan svarta en hann setti þar yfir Atla jarl hinn mjóva. Síðan fékk Hálfdan konungur Ragnhildar, dóttur Sigurðar konungs hjartar. Áslaug var móðir Sigurðar hjartar, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar. Móðir Sigurðar orms í auga var Áslaug, dóttir Sigurðar Fáfnisbana, Sigmundarsonar, Völsungssonar, Rerissonar, Sigarssonar, Óðinssonar er réð fyrir Ásgarði. Móðir Áslaugar var Brynhildur Buðladóttir. Son Hálfdanar svarta og Ragnhildar var Haraldur er fyrst var kallaður Dofrafóstri, þá Haraldur lúfa en síðast Haraldur hinn hárfagri.

Þá er Haraldur hinn hárfagri gekk til ríkis í Noregi mægðist hann við Hákon jarl Grjótgarðsson og fékk hann þá Sygnafylki Hákoni mági sínum en Haraldur konungur fór í Vík austur. En Atli jarl vildi eigi laust láta ríkið fyrr en hann fyndi Harald konung. Jarlarnir þreyttu þetta með kappi svo að hvortveggi dró lið saman. Þeir fundust á Fjölum í Stafanesvogi og fékk Hákon jarl sigur en Atli jarl varð sár og var fluttur í Atlaey og dó þar úr sárum.

Atli jarl átti eftir þrjá sonu. Hét einn Hallsteinn, hann var elstur og vitrastur þeirra bræðra, þá Hersteinn og Hólmsteinn. Hallsteinn átti Þóru Ölvisdóttur. Þeir bræður lágu í hernaði.

2. kafli

Björnólfur hét maður en annar Hróaldur. Þeir voru ágætir menn. Þeir voru synir Hrómundar Gripssonar. Þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Son Björnólfs hét Örn er réð fyrir Firðafylki. Hans son var Ingólfur en dóttir Helga. Bæði voru þau fríð að sjá. En son Hróalds var Hrómundur, faðir Leifs. Þeir Ingólfur og Leifur voru frændur og fóstbræður. Móðir Leifs var Hróðný, dóttir Ketils bifru Hörða-Kárasonar. Þá var Ingólfur tuttugu vetra er þetta var en Leifur átján vetra.

Ingólfur gekk fyrir föður sinn og segir honum að hann vill halda í hernað og bað hann afla nokkurs. Leifur gekk og fyrir sinn föður, biðjandi hann slíks hins sama og voru þeim gefin mörg langskip. Biðja nú síðan samlags við sonu Atla jarls. Þeir voru fúsir þessa við Ingólf. Það voru lög í þann tíma að eigi skyldi yngri maður vera í herförum en tuttugu vetra en ellegar vildu þeir gjarna Leif í lög taka.

Leifur svarar: "Ef vér komum í nokkura raun sjáum þá ef eg stend að baki öðrum. Gefist eg eigi verr en aðrir þá á eg ekki að gjalda æsku minnar."

Ingólfur sagði þá báða fara skyldu ella hvorugan. Verður það af kjörum að þeir fara allir saman og leggjast í hernað og er svo sagt að Leifur var hvatur og röskur í öllum mannraunum. Ingólfur var vitur maður og ágætur í öllum atlögum og allri karlmennsku. Þeim varð gott til fjár um sumarið og komu heim um haustið. Hrómundur var þá andaður, faðir Leifs.

Nú mæla þeir mót með sér annað sumar og héldu þá enn í hernað allir saman og fengu þá miklu meira herfang en hið fyrra sumarið. Og sem þeir komu heim um haustið var Örn faðir Ingólfs andaður.

Hallsteinn býður þeim fóstbræðrum Ingólfi og Leifi heim til veislu og það þágu þeir. Og að skilnaði gaf hann þeim góðar gjafir.

Síðan buðu þeir fóstbræður þeim jarlssonum til veislu. Þeir bjóða og að sér miklu fjölmenni og vilja eiga undir sjálfum sér meira en öðrum ef nokkuð kann í að skerast. Nú koma þeir bræður til veislunnar og er mönnum skipað í sæti. Helga bar öl að veislunni. Hún var allra kvenna vænst og kurteisust.

Svo er sagt að Hersteinn lítur oft til hennar blíðlega og að þessari veislu strengdi hann þess heit að annaðhvort skyldi hann Helgu eiga eða enga konu ella. Kvaðst hann nú fyrstur hafið hafa þenna leik "og áttu nú Ingólfur," segir hann.

Ingólfur svarar: "Hallsteinn skal nú fyrst um mæla því að hann er vor vitrastur og vor formaður að öllu."

Hallsteinn mælti: "Þess strengi eg heit þó að mér sé vandi á við menn að eg skal eigi halla réttum dómi ef mér er trúað til dyggðar um."

Hersteinn mælti: "Eigi er þessi heitstrenging þín þeim mun skýrlegri sem þú ert reiknaður vitrari en vér eða hversu muntu gera ef þú átt við vini þína um eða óvini?"

Hallsteinn svarar: "Þar ætla eg mér sjálfum fyrir að sjá."

"Þess strengi eg heit," segir Ingólfur, "að skipta við engan mann erfð nema Leif."

"Eigi skiljum vér þetta," segir Hersteinn.

Hallsteinn kvaðst gerla kunna þetta að sjá, "Leifi vill hann gifta Helgu systur sína."

Leifur strengdi þess heit að vera eigi verrfeðrungur.

Hallsteinn svarar: "Eigi mun mikið fyrir því, því að faðir þinn fór fyrir illvirkja sakir af Þelamörk og hingað."

Nú þrýtur veisluna og er ekki til samfara mælt af Hersteins hendi. Fóru jarlssynir heim frá veislunni og sátu í búum sínum um veturinn og svo þeir fóstbræður og er nú allt kyrrt.

3. kafli

Um vorið vill Leifur í hernað en Ingólfur latti þess og sagði þeim vera mál að setjast um kyrrt að búum sínum "og muntu muna heitstrengingar þær er fram fóru."

Leifur svarar: "Þú ræður fóstbróðir þínum ferðum en fara mun eg. Held eg skjótt undan ef ófriðlegt er."

Ingólfur kvað hann slíku mundu ráða. Skilja þeir nú við þetta. Fer Leifur í hernað og fundust þeir jarlssynir, Hersteinn og Hólmsteinn, við Hísargafl. Þeir leggja að Leifi þegar og slær þar þegar í bardaga. Hafði Leifur þrjú skip en þeir bræður sex skip. Vinna þeir nú skjótt skip af Leifi.

Af stundu sjá þeir að sigla að þeim fimm skip. Stendur maður á mesta skipinu við siglu, mikill og fríður, í grænum kyrtli og hafði gylltan hjálm á höfði, og mælti: "Við mikinn liðsmun áttu nú að etja frændi," sagði hann "og mun það drengilegra að veita þér lið Leifur frændi."

Þar var kominn Ölmóður hinn gamli Hörða-Kárason. Hann berst þá með Leifi og voru þau orustulok að Hersteinn fellur en Hólmsteinn verður sár og flýr.

Ölmóður mælti þá: "Far þú heim með mér eftir stórvirki þessi."

Leifur mælti: "Skammt er heim í Fjörðu og hefir þú mikið lið og gott mér veitt frændi. Vildi eg gjarna að þú færir heim með mér."

Eftir þetta skildu þeir og heldur Leifur til móts við Ingólf og sagði honum allt hversu farið hafði. Ingólfur segir mikið vera að orðið og biður þá báða saman vera og svo gerðu þeir og héldu fjölmennt um veturinn. Þann sama vetur fór Hólmsteinn að þeim Ingólfi og Leifi og vildi drepa þá. En þeir fengu njósn af ferð hans og fóru í móti honum. Varð þá enn orusta mikil og féll þar Hólmsteinn. Eftir það dreif lið að þeim fóstbræðrum, vinir þeirra og frændur úr Firðafylki. Voru þá sendir menn til Hallsteins og bjóða sættir með því móti að þeir vilja leggja undir dóm Hallsteins. Sagðist Ingólfur honum vel trúa til réttdæmis og bað hann muna heitstrenging sína.

Hallsteinn kvað nú mikið að orðið "og er nú mikill vandi í að dæma þetta mál," og hefur svo sína ræðu: "Hersteinn bróðir minn líst mér sem unnið hafi til óhelgi sér og vil eg eigi fé fyrir hann dæma né mannsektir en Hólmsteinn fór til hefnda eftir bróður sinn og því dæmi eg fyrir dráp hans fallnar eignir ykkrar og báða ykkur burtu héðan úr Firðafylki áður þrír vetur eru liðnir ella fallið þið óhelgir."

"Slíks var að von," sagði Ingólfur.

Síðan bjuggust þeir bræður út til Íslands sem segir í Landnámabók. Við Ingólf er kenndur Ingólfshöfði sunnanlands. Og lýkur þar nú þeirra viðskiptum.

4. kafli

Eftir fall Atla jarls mjóva safnaði liði Sigurður jarl, son Hákonar gamla, með ráði Haralds konungs hins hárfagra og vildi drepa Hallstein. Við þetta stökk Hallsteinn undan og út til Íslands fyrir þessum ófriði sem þá gerðu margir gildir menn, að þeir flýðu óðul sín fyrir ofríki Haralds konungs og unnu áður stórvirki nokkur. Hallsteinn skaut setstokkum fyrir borð í hafi til heilla sér eftir fornum sið. Þeim sveif á land þar sem síðan heitir Stokkseyri en skipið kom í Hallsteinssund fyrir austan Stokkseyri og braut þar. Setstokkarnir komu fyrir dyr á Stálfjöru fram frá Stokkseyri. Víða höfðu menn þá land numið.

Hallsteinn nam land milli Rauðár og Ölfusár upp allt til Fúlalækjar, Breiðamýri alla upp að Holtum og bjó að Stjörnusteinum. Hallsteinn átti Þóru Ölvisdóttur. Atli og Ölvir voru synir þeirra. Hallsteinssund er fyrir austan Stokkseyri þar sem braut skip Hallsteins. Öllum mönnum þótti mikils vert um Hallstein. Sagðist hann skyldu hér ílendast. Var mönnum mikil aufúsa á því þeim er í nánd honum voru og þótti mikill höfuðburður að honum sakir ættar hans. Varð Hallsteinn mikilmenni og andaðist hann í elli sinni.

Og eftir andlát hans skiptu þeir bræður með sér erfðum. Bjó Ölvir að Stjörnusteinum. Það heita nú Ölvistóftir. Hafði Atli í móti allt landnám milli Rauðár og Ölfusár, Traðarholt og Baugsstaði.

Ölvir andaðist ungur. Tók Atli þá allan arf eftir hann og gerðist mikilhæfur maður. Þræll hans hét Brattur. Hann var honum hollur í sýslu sinni. Honum gaf Atli frelsi. Hann bjó í Brattsholti. Slíkt sama gerði hann við annan er Leiðólfur hét. Hann bjó á Leiðólfsstöðum. Þeir voru mikilhæfir menn og vel vingaðir og hollir mjög Atla.

5. kafli

Hallsteinn hét maður. Hann fór úr Sogni til Íslands. Hann var mágur Hallsteins Atlasonar. Honum gaf hann hinn ytra hlut Eyrarbakka. Hann bjó á Framnesi. Hans son var Þorsteinn er veginn var að fauskagreftri. Hans son var Þorbjörn er bjó á Framnesi.

Í þenna tíma kom út Loftur son Orms Fróðasonar.

Nú er að segja frá Atla að hann var ríkur maður og hlutdeilinn og líkur í mörgu lagi frændum sínum.

Loftur fór af Gaulum til Íslands ungur að aldri og nam land á milli Þjórsár og Rauðár upp til Skúfslækjar, Breiðamýri upp til Súluholts, og bjó í Gaulverjabæ og Oddný móðir hans, dóttir Þorbjarnar hins gaulverska. Loftur fór utan hið þriðja hvert sumar fyrir hönd þeirra Flosa beggja móðurbróður síns að blóta að hofi því er Þorbjörn móðurfaðir hans hafði varðveitt að Gaulum. Frá Lofti er mart stórmenni komið. Þá kom út Þorviður bróðir hans af Vörs. Loftur gaf honum land á Breiðamýri og bjó hann í Ossabæ. Hans börn voru þau Hrafn og Hallveig. Þessir menn voru nú allir samtíða.

6. kafli

Flosi Þorbjarnarson móðurbróðir Eyrar-Lofts drap þrjá sýslumenn fyrir Haraldi konungi hárfagra og fór eftir það til Íslands. Hann nam land fyrir austan Þjórsá, Rangárvöllu alla hina eystri austur frá Rangá. Hans dóttir var Ásný móðir Þuríðar er átti Valla-Brandur. Son þeirra var Kolbeinn, faðir Þórunnar, móður Lofts prests, föður Jóns, föður Sæmundar, föður Margrétar, móður Brands, föður Kálfs.

Össur hét maður hinn hvíti, son Þorleifs úr Sogni. Össur vó víg í véum á Upplöndum þá er hann var í brúðferð með Sigurði hrísa. Fyrir það varð hann landflótti til Íslands og nam fyrst öll Holtalönd á milli Þjórsár og Hraunslækjar. Þá var hann fimmtán vetra er hann vó vígið. Hann fékk Hallveigar dóttur Þorviðar. Þeirra son var Þorgrímur kampi. Hann var faðir Össurar, föður Þorbjarnar, föður Þórarins, föður Gríms Jórusonar. Össur bjó í Kampholti. Hann andaðist þá er Þorgrímur var ungur. Þá tók við fjárvarðveislu Hrafn móðurbróðir hans.