Cover: Eyrbyggja saga by Óþekktur

Óþekktur

Eyrbyggja saga

 

SAGA Egmont

Eyrbyggja saga

Saga Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga

1. kafli

Ketill flatnefur hét einn ágætur hersir í Noregi. Hann var sonur Bjarnar bunu Grímssonar hersis úr Sogni. Ketill var kvongaður. Hann átti Yngveldi, dóttur Ketils veðurs hersis af Raumaríki. Björn og Helgi hétu synir þeirra en dætur þeirra voru þær Auður hin djúpúðga, Þórunn hyrna og Jórunn mannvitsbrekka.

Björn sonur Ketils var fóstraður austur á Jamtalandi með jarli þeim er Kjallakur hét, vitur maður og ágætur. Jarlinn átti son er Björn hét en Gjaflaug hét dóttir hans.

Þetta var í þann tíma er Haraldur konungur hinn hárfagri gekk til ríkis í Noregi. Fyrir þeim ófriði flýðu margir göfgir menn óðul sín af Noregi, sumir austur um Kjölu, sumir um haf vestur. Þeir voru sumir er héldu sig á vetrum í Suðureyjum eða Orkneyjum en um sumrum herjuðu þeir í Noreg og gerðu mikinn skaða í ríki Haralds konungs. Bændur kærðu þetta fyrir konungi og báðu hann frelsa sig af þessum ófriði.

Þá gerði Haraldur konungur það ráð að hann lét búa her vestur um haf og kvað Ketil flatnef skyldu höfðingja vera yfir þeim her. Ketill taldist undan en konungur kvað hann fara skyldu. Og er Ketill sá að konungur vill ráða réðst hann til ferðarinnar og hafði með sér konu sína og börn, þau sem þar voru.

En er Ketill kom vestur um haf átti hann þar nokkurar orustur og hafði jafnan sigur. Hann lagði undir sig Suðureyjar og gerðist höfðingi yfir. Sættist hann þá við hina stærstu höfðingja fyrir vestan haf og batt við þá tengdir en sendi austur aftur herinn.

Og er þeir komu á fund Haralds konungs sögðu þeir að Ketill flatnefur var höfðingi í Suðureyjum en eigi sögðust þeir vita að hann drægi Haraldi konungi ríki fyrir vestan haf. En er konungur spyr þetta þá tekur hann undir sig eignir þær er Ketill átti í Noregi.

Ketill flatnefur gifti Auði dóttur sína Ólafi hvíta er þá var mestur herkonungur fyrir vestan haf.

Hann var sonur Ingjalds Helgasonar en móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar.

Þórunni hyrnu gifti hann Helga hinum margra, syni Eyvindar austmanns og Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.

2. kafli

Björn, sonur Ketils flatnefs, var á Jamtalandi þar til er Kjallakur jarl andaðist. Hann fékk Gjaflaugar, dóttur jarls, og fór síðan austan um Kjöl, fyrst til Þrándheims og síðan suður um land og tók undir sig eignir þær er faðir hans hafði átt, rak í braut ármenn þá er Haraldur konungur hafði yfir sett.

Haraldur konungur var þá í Víkinni er hann spurði þetta og fór þá hið efra norður til Þrándheims. Og er hann kom í Þrándheim stefndi hann átta fylkja þing og á því þingi gerði hann Björn Ketilsson útlaga af Noregi, gerði hann dræpan og tiltækjan hvar sem hann væri fundinn.

Eftir þetta sendi hann Hauk hábrók og aðra kappa sína að drepa hann ef þeir fyndu hann. En er þeir komu suður um Staði urðu vinir Bjarnar við varir ferð þeirra og gerðu honum njósn.

Björn hljóp þá á skútu eina er hann átti með skuldalið sitt og lausafé og fór undan suður með landi því að þá var vetrarmegn og treystist hann eigi á haf að halda. Björn fór þar til er hann kom í ey þá er Mostur heitir og liggur fyrir Sunnhörðalandi og þar tók við honum sá maður er Hrólfur hét Örnólfssonur fiskreka. Þar var Björn um veturinn á laun.

Konungsmenn hurfu aftur þá er þeir höfðu skipað eignir Bjarnar og setta menn yfir.

3. kafli

Hrólfur var höfðingi mikill og hinn mesti rausnarmaður. Hann varðveitti þar í eyjunni Þórshof og var mikill vinur Þórs og af því var hann Þórólfur kallaður. Hann var mikill maður og sterkur, fríður sýnum og hafði skegg mikið. Því var hann kallaður Mostrarskegg. Hann var göfgastur maður í eyjunni.

Um vorið fékk Þórólfur Birni langskip gott og skipað góðum drengjum og fékk Hallstein son sinn til fylgdar við hann og héldu þeir vestur um haf á vit frænda Bjarnar.

En er Haraldur konungur spurði að Þórólfur Mostrarskegg hafði haldið Björn Ketilsson, útlaga hans, þá gerði hann menn til hans og boðaði honum af löndum og bað hann fara útlægan sem Björn vin hans nema hann komi á konungs fund og leggi allt sitt mál á hans vald.

Það var tíu vetrum síðar en Ingólfur Arnarson hafði farið að byggja Ísland og var sú ferð allfræg orðin því að þeir menn er komu af Íslandi sögðu þar góða landakosti.

4. kafli

Þórólfur Mostrarskegg fékk að blóti miklu og gekk til fréttar við Þór, ástvin sinn, hvort hann skyldi sættast við konung eða fara af landi brott og leita sér annarra forlaga en fréttin vísaði Þórólfi til Íslands.

Og eftir það fékk hann sér mikið hafskip og bjó það til Íslandsferðar og hafði með sér skuldalið sitt og búferli. Margir vinir hans réðust til ferðar með honum. Hann tók ofan hofið og hafði með sér flesta viðu þá er þar höfðu í verið og svo moldina undan stallanum þar er Þór hafði á setið.

Síðan sigldi Þórólfur í haf og byrjaði honum vel og fann landið og sigldi fyrir sunnan, vestur um Reykjanes. Þá féll byrinn og sáu þeir að skar í landið inn fjörðu stóra.

Þórólfur kastaði þá fyrir borð öndvegissúlum sínum, þeim er staðið höfðu í hofinu. Þar var Þór skorinn á annarri. Hann mælti svo fyrir að hann skyldi þar byggja á Íslandi sem Þór léti þær á land koma. En þegar þær hóf frá skipinu sveif þeim til hins vestra fjarðarins og þótti þeim fara eigi vonum seinna.

Eftir það kom hafgola. Sigldu þeir þá vestur fyrir Snæfellsnes og inn á fjörðinn. Þeir sjá að fjörðurinn er ákaflega breiður og langur og mjög stórfjöllótt hvorumtveggja megin. Þórólfur gaf nafn firðinum og kallaði Breiðafjörð.

Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum, og lagði skipið á vog þann er þeir kölluðu Hofsvog síðan. Eftir það könnuðu þeir landið og fundu á nesi framanverðu er var fyrir norðan voginn að Þór var á land kominn með súlurnar. Það var síðan kallað Þórsnes.

Eftir það fór Þórólfur eldi um landnám sitt, utan frá Stafá og inn til þeirrar ár er hann kallaði Þórsá, og byggði þar skipverjum sínum.

Hann setti bæ mikinn við Hofsvog er hann kallaði á Hofsstöðum. Þar lét hann reisa hof og var það mikið hús. Voru dyr á hliðvegginum og nær öðrum endanum. Þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar og voru þar í naglar. Þeir hétu reginnaglar. Þar var allt friðarstaður fyrir innan. Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum og stóð þar stalli á miðju gólfinu sem altari og lá þar á hringur einn mótlaus, tvítugeyringur, og skyldi þar að sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallanum skyldi og standa hlautbolli og þar í hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð er sæfð voru þau kvikindi er goðunum var fórnað. Umhverfis stallann var goðunum skipað í afhúsinu. Til hofsins skyldu allir menn tolla gjalda og vera skyldir hofgoðanum til allra ferða sem nú eru þingmenn höfðingjum en goði skyldi hofi upp halda af sjálfs síns kostnaði, svo að eigi rénaði, og hafa inni blótveislur.

Þórólfur kallaði Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs. Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.

Þar sem Þór hafði á land komið, á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.

Þórólfur gerðist rausnarmaður mikill í búi og hafði fjölmennt með sér því að þá var gott matar að afla af eyjum og öðru sæfangi.

5. kafli

Nú skal segja frá Birni Ketilssyni flatnefs að hann sigldi vestur um haf þá er þeir Þórólfur Mostrarskegg skildu sem fyrr segir. Hann hélt til Suðureyja.

En er hann kom vestur um haf þá var andaður Ketill faðir hans en hann fann þar Helga bróður sinn og systur sínar og buðu þau honum góða kosti með sér.

Björn varð þess vís að þau höfðu annan átrúnað og þótti honum það lítilmannlegt er þau höfðu hafnað fornum sið, þeim er frændur þeirra höfðu haft og nam hann þar eigi yndi og enga staðfestu vildi hann þar taka. Var hann þó um veturinn með Auði systur sinni og Þorsteini syni hennar.

En er þau fundu að hann vildi eigi áhlýðast við frændur sína þá kölluðu þau hann Björn hinn austræna og þótti þeim illa er hann vildi þar ekki staðfestast.

6. kafli

Björn var tvo vetur í Suðureyjum áður hann bjó ferð sína til Íslands. Með honum var í ferð Hallsteinn Þórólfsson. Þeir tóku land í Breiðafirði og nam Björn land út frá Stafá, milli og Hraunsfjarðar, með ráði Þórólfs. Björn bjó í Borgarholti í Bjarnarhöfn. Hann var hið mesta göfugmenni.

Hallsteini Þórólfssyni þótti lítilmannlegt að þiggja land að föður sínum og fór hann vestur yfir Breiðafjörð og nam þar land og bjó á Hallsteinsnesi.

Nokkurum vetrum síðar kom út Auður djúpúðga og var hinn fyrsta vetur með Birni bróður sínum. Síðan nam hún öll Dalalönd í Breiðafirði, í milli Skraumuhlaupsár og Dögurðarár, og bjó í Hvammi. Á þessum tímum byggðist allur Breiðafjörður og þarf hér ekki að segja frá þeirra manna landnámum er eigi koma við þessa sögu.

7. kafli

Geirröður hét maður er nam land inn frá Þórsá til Langadals og bjó á Eyri. Með honum kom út Úlfar kappi, er hann gaf land umhverfis Úlfarsfell, og Finngeir sonur Þorsteins öndurs. Hann bjó í Álftafirði. Hans sonur var Þorfinnur, faðir Þorbrands í Álftafirði.

Vestar hét maður, sonur Þórólfs blöðruskalla. Hann kom til Ísland með föður sinn gamlan og nam land fyrir utan Urthvalafjörð og bjó á Öndverðri-Eyri. Hans sonur var Ásgeir er þar bjó síðan.

Björn hinn austræni andaðist fyrst þessa landnámsmanna og var heygður við Borgarlæk. Hann átti eftir tvo sonu. Annar var Kjallakur gamli er bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn. Kjallakur átti Ástríði, dóttur Hrólfs hersis, systur Steinólfs hins lága, þau áttu þrjú börn. Þorgrímur goði var sonur þeirra og Gerður dóttir er átti Þormóður goði, sonur Odds hins rakka. Þriðja var Helga er átti Ásgeir á Eyri. Frá börnum Kjallaks er komin mikil ætt og eru það kallaðir Kjalleklingar.

Óttar hét annar sonur Bjarnar, Hann átti Gró Geirleifsdóttur, systur Oddleifs af Barðaströnd.

Þeirra synir voru þeir Helgi, faðir Ósvífurs hins spaka, og Björn, faðir Vigfúss í Drápuhlíð.

Vilgeir hét hinn þriðji sonur Óttars Bjarnarsonar.

Þórólfur Mostrarskegg kvongaðist í elli sinni og fékk þeirrar konu er Unnur hét. Segja sumir að hún væri dóttir Þorsteins rauðs en Ari Þorgilsson hinn fróði telur hana eigi með hans börnum.

Þau Þórólfur og Unnur áttu son er Steinn hét. Þenna svein gaf Þórólfur Þór, vin sínum, og kallaði hann Þorstein og var þessi sveinn allbráðger.

Hallsteinn Þórólfsson fékk Óskar, dóttur Þorsteins rauðs. Þorsteinn hét sonur þeirra. Hann fóstraði Þórólfur og kallaði Þorstein surt en sinn son kallaði hann Þorstein þorskabít.

8. kafli

Í þenna tíma kom út Geirríður, systir Geirröðar á Eyri, og gaf hann henni bústað í Borgardal fyrir innan Álftafjörð. Hún lét setja skála sinn á þjóðbraut þvera og skyldu allir menn ríða þar í gegnum. Þar stóð jafnan borð og matur á, gefinn hverjum er hafa vildi. Af slíku þótti hún hið mesta göfugkvendi.

Geirríði hafði átta Björn, sonur Bölverks blindingatrjónu, og hét þeirra sonur Þórólfur. Hann var víkingur mikill. Hann kom út nokkuru síðar en móðir hans og var með henni hinn fyrsta vetur.

Þórólfi þótti það lítið búland og skoraði á Úlfar kappa til landa og bauð honum hólmgöngu því að hann var við aldur og barnlaus. Úlfar vildi heldur deyja en vera kúgaður af Þórólfi. Þeir gengu á hólm í Álftafirði og féll Úlfar en Þórólfur varð sár á fæti og gekk jafnan haltur síðan. af þessu var hann kallaður bægifótur.

Hann gerði bú í Hvammi í Þórsárdal. Hann tók lönd eftir Úlfar og var hinn mesti ójafnaðarmaður. Hann seldi lönd leysingjum Þorbrands í Álftafirði, Úlfari Úlfarsfell en Örlygi Örlygsstaði og bjuggu þeir þar lengi síðan.

Þórólfur bægifótur átti þrjú börn. Arnkell hét sonur hans en Gunnfríður dóttir er átti Þorbeinir á Þorbeinisstöðum inn á Vatnshálsi, inn frá Drápuhlíð. Þeirra synir voru þeir Sigmundur og Þorgils en hans dóttir var Þorgerður er átti Vigfús í Drápuhlíð. Önnur dóttir Þórólfs bægifóts hét Geirríður er átti Þórólfur, sonur Herjólfs hölkinrassa, og bjuggu þau í Mávahlíð. Þeirra börn voru þau Þórarinn svarti og Guðný.

9. kafli

Þórólfur Mostrarskegg andaðist á Hofsstöðum. Þá tók Þorsteinn þorskabítur föðurleifð sína. Hann gekk að eiga Þóru, dóttur Ólafs feilans, systur Þórðar gellis er þá bjó í Hvammi. Þórólfur var heygður í Haugsnesi út frá Hofsstöðum.

Í þenna tíma var svo mikill ofsi Kjalleklinga að þeir þóttust fyrir öðrum mönnum þar í sveit. Voru þeir og svo margir ættmenn Bjarnar að engi frændbálkur var þá jafnmikill í Breiðafirði.

Þá bjó Barna-Kjallakur, frændi þeirra, á Meðalfellsströnd þar sem nú heitir á Kjallaksstöðum. Hann átti marga sonu og vel mennta. Þeir veittu allir frændum sínum fyrir sunnan fjörðinn á þingum og mannfundum.

Það var eitt vor á Þórsnessþingi að þeir mágar, Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir á Eyri, gerðu orð á að þeir mundu eigi leggja drag undir ofmetnað Þórsnesinga og það að þeir mundu ganga þar örna sinna sem annars staðar á mannfundum á grasi þótt þeir væru svo stolts að þeir gerðu lönd sín helgari en aðrar jarðir í Breiðafirði. Lýstu þeir þá yfir því að þeir mundu eigi troða skó til að ganga þar í útsker til álfreka.

En er Þorsteinn þorskabítur varð þessa var vildi hann eigi þola að þeir saurguðu þann völl er Þórólfur faðir hans hafði tignað umfram aðra staði í sinni landeign. Heimti hann þá að sér vini sína og ætlaði að verja þeim vígi völlinn ef þeir hygðust að saurga hann. Að þessu ráði hurfu með honum Þorgeir kengur, sonur Geirröðar á Eyri, og Álftfirðingar, Þorfinnur og Þorbrandur sonur hans, Þórólfur bægifótur og margir aðrir þingmenn Þorsteins og vinir.

En um kveldið er Kjalleklingar voru mettir tóku þeir vopn sín og gengu út í nesið. En er þeir Þorsteinn sáu að þeir sneru af þeim veg er til skersins lá þá hljópu þeir til vopna og runnu eftir þeim með ópi og eggjan. Og er Kjalleklingar sáu það hljópu þeir saman og vörðu sig. En Þórsnesingar gerðu svo harða atgöngu að Kjalleklingar hrukku af vellinum og í fjöruna. Snerust þeir þá við og varð þar hinn harðasti bardagi með þeim. Kjalleklingar voru færri og höfðu einvalalið.

Nú verða við varir Skógstrendingar, Þorgestur hinn gamli og Áslákur úr Langadal. Þeir hljópu til og gengu í milli, en hvorirtveggju voru hinir óðustu, og fengu eigi skilið þá áður en þeir hétu að veita þeim er þeirra orð vildu heyra til skilnaðarins, og við það urðu þeir skildir og þó með því móti að Kjalleklingar náðu eigi að ganga upp á völlinn og stigu þeir á skip og fóru brott af þinginu.

Þar féllu menn af hvorumtveggjum og fleiri af Kjalleklingum en fjöldi varð sár. Griðum varð engum á komið því að hvorgir vildu þau selja og hétu hvorir öðrum aðförum þegar því mætti við koma. Völlurinn var orðinn alblóðugur þar er þeir börðust og svo þar er Þórsnesingar stóðu meðan barist var.

10. kafli

Eftir þingið höfðu hvorirtveggju setur fjölmennar og voru þá dylgjur miklar með þeim. Vinir þeirra tóku það ráð að senda eftir Þórði gelli er þá var mestur höfðingi í Breiðafirði. Hann var frændi Kjalleklinga en námágur Þorsteins. Þótti hann líkastur til að sætta þá.

En er Þórði kom þessi orðsending fór hann til við marga menn og leitar um sættir. Fann hann að stórlangt var í millum þeirra þykkju en þó fékk hann komið á griðum með þeim og stefnulagi.

Þar urðu þær málalyktir að Þórður skyldi gera um með því móti að Kjalleklingar skildu það til að þeir mundu aldrei ganga í Dritsker örna sinn en Þorsteinn skildi það til að Kjalleklingar skyldu eigi saurga völlinn nú heldur en fyrr. Kjalleklingar kölluðu alla þá hafa fallið óhelga, er af Þorsteini höfðu fallið, fyrir það er þeir höfðu fyrr með þann hug að þeim farið að berjast. En Þórsnesingar sögðu Kjalleklinga alla óhelga fyrir lagabrot það er þeir gerðu á helguðu þingi. En þó að vandlega væri undir skilið gerðina þá játaði Þórður að gera og vildi heldur það en þeir skildu ósáttir.

Þórður hafði það upphaf gerðarinnar að hann kallar að sá skal hafa happ er hlotið hefir, kvað þar engi víg bæta skulu þau er orðið höfðu á Þórsnesi eða áverka, en völlinn kallar hann spilltan af heiftarblóði er niður hafði komið og kallar þá jörð nú eigi helgari en aðra og kallar þá því valda er fyrri gerðust til áverka við aðra. Kallaði hann það eitt friðbrot verið hafa, sagði þar og eigi þing skyldu vera síðan. En til þess að þeir væru vel sáttir og vinir þaðan af þá gerði hann það að Þorgrímur Kjallaksson skyldi halda uppi hofinu að helmingi og hafa hálfan hoftoll og svo þingmenn að helmingi, veita og Þorsteini til allra mála þaðan af og styrkja hann til hveriga helgi sem hann vill á leggja þingið þar sem næst verði sett. Hér með gifti Þórður gellir Þorgrími Kjallakssyni Þórhildi frændkonu sína, dóttur Þorkels meinakurs, nábúa síns. Var hann af því kallaður Þorgrímur goði.

Þeir færðu þá þingið inn í nesið þar sem nú er. Og þá er Þórður gellir skipaði fjórðungaþing lét hann þar vera fjórðungsþing Vestfirðinga. Skyldu menn þangað til sækja um alla Vestfjörðu. Þar sér enn dómhring þann er menn voru dæmdir í til blóts. Í þeim hring stendur Þórs steinn er þeir menn voru brotnir um er til blóta voru hafðir og sér enn blóðslitinn á steininum. Var á því þingi hinn mesti helgistaður en eigi var mönnum þar bannað að ganga örna sinna.

11. kafli

Þorsteinn þorskabítur gerðist hinn mesti rausnarmaður. Hann hafði með sér jafnan sex tigu frelsingja. Hann var mikill aðdráttamaður og var jafnan í fiskiróðrum. Hann lét fyrst reisa bæinn að Helgafelli og færði þangað bú sitt og var þar hinn mesti hofstaður í það mund. Hann lét og bæ gera þar í nesinu, nær því sem þingið hafði verið. Þann bæ lét hann og mjög vanda og gaf hann síðan Þorsteini surt, frænda sínum. Bjó hann þar síðan og varð hinn mesti spekingur að viti.

Þorsteinn þorskabítur átti son er kallaður var Börkur digri. En sumar það er Þorsteinn var hálfþrítugur fæddi Þóra sveinbarn og var Grímur nefndur er vatni var ausinn. Þann svein gaf Þorsteinn Þór og kvað vera skyldu hofgoða og kallar hann Þorgrím. Það sama haust fór Þorsteinn út í Höskuldsey til fangs.

Það var eitt kveld um haustið að sauðamaður Þorsteins fór að fé fyrir norðan Helgafell. Hann sá að fjallið laukst upp norðan. Hann sá inn í fjallið elda stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl. Og er hann hlýddi ef hann næmi nokkur orðaskil heyrði hann að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og förunautum hans og mælt að hann skal sitja í öndvegi gegnt föður sínum.

Þenna fyrirburð sagði sauðamaður Þóru konu Þorsteins um kveldið. Hún lét sér fátt um finnast og kallar vera mega að þetta væri fyrirboðan stærri tíðinda.

Um morguninn eftir komu menn utan úr Höskuldsey og sögðu þau tíðindi að Þorsteinn þorskabítur hafði drukknað í fiskiróðri og þótti mönnum það mikill skaði.

Þóra hélt þar bú eftir og ræðst sá maður til með henni er Hallvarður hét. Þau áttu son er Már hét.

12. kafli

Synir Þorsteins þorskabíts uxu þar upp heima með móður sinni og voru hinir efnilegustu menn og var Þorgrímur fyrir þeim í öllu og var þegar hofgoði er hann hafði aldur til.

Þorgrímur kvongaðist vestur í Dýrafjörð og fékk Þórdísar Súrsdóttur og réðst hann þangað vestur til mága sinna, Gísla og Þorkels. Þorgrímur drap Véstein Vésteinsson að haustboði í Haukadal. En annað haust eftir þá er Þorgrímur var hálfþrítugur sem faðir hans þá drap Gísli mágur hans hann að haustboði á Sæbóli. Nokkurum nóttum síðar fæddi Þórdís kona hans barn og var sá sveinn kallaður Þorgrímur eftir föður sínum.

Litlu síðar giftist Þórdís Berki hinum digra, bróður Þorgríms, og réðst til bús með honum til Helgafells. Þá fór Þorgrímur sonur hennar í Álftafjörð og var þar að fóstri með Þorbrandi. Hann var heldur ósvífur í æskunni og var hann af því Snerrir kallaður og eftir það Snorri.

Þorbrandur í Álftafirði átti Þuríði, dóttur Þorfinns Sel-Þórissonar frá Rauðamel. Þeir voru börn þeirra: Þorleifur kimbi elstur, annar Snorri, þriðji Þóroddur, fjórði Þorfinnur, fimmti Þormóður. Þorgerður hét dóttir þeirra. Þeir voru allir fóstbræður Snorra Þorgrímssonar.

Í þann tíma bjó Arnkell sonur Þórólfs bægifótar á Bólstað við Vaðilshöfða. Hann var manna mestur og sterkastur, lagamaður mikill og forvitri. Hann var góður drengur og umfram alla menn aðra þar í sveit að vinsældum og harðfengi. Hann var og hofgoði og átti marga þingmenn.