SAGA Egmont
Fóstbræðra saga
Cover image: Shutterstock
Copyright © 1997, 2020 Óþekktur and SAGA Egmont
All rights reserved
ISBN: 9788726225563
1. e-book edition, 2020
Format: EPUB 2.0
All rights reserved. No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.
SAGA Egmont www.saga-books.com – a part of Egmont, www.egmont.com
Á dögum hins helga Ólafs konungs voru margir höfðingjar undir hans konungdæmi, eigi aðeins í Noregi heldur í öllum löndum, þeim er hans konungdómur stóð yfir, og voru þeir allir mest virðir af guði er konungi líkaði best við.
Í þann tíma var höfðingi ágætur á Íslandi í Ísafirði er Vermundur hét. Hann var Þorgrímsson, bróðir Víga-Styrs. Vermundur hafði bústað í Vatnsfirði. Hann var vitur og vinsæll. Hann átti konu þá Þorbjörg hét. Hún var kölluð Þorbjörg digra, dóttir Ólafs pá. Hún var vitur kona og stórlynd. Jafnan er Vermundur var eigi heima þá réð hún fyrir héraði og fyrir mönnum og þótti hverjum manni sínu máli vel komið er hún réð fyrir.
Það barst að einhverju sinni þá er Vermundur var eigi heima að Grettir Ásmundarson kom í Ísafjörð þá er hann var sekur, og þar sem hann kom hafði hann það nær af hverjum er hann kallaði. Og þó að hann kallaði það gefið eða þeir er laust létu féið þá voru þær gjafir þann veg að margir menn mundu sitt fé eigi laust láta fyrir honum ef þeim sýndist eigi tröll fyrir dyrum. Því söfnuðu bændur sér liði og tóku Gretti höndum og dæmdu hann til dráps og reistu honum gálga og ætluðu að hengja hann. Og er Þorbjörg veit þessa fyrirætlan fór hún með húskarla sína til þess mannfundar er Grettir var dæmdur. Og þar kom hún að sem gálginn var reistur og snaran þar við fest og Grettir þegar til leiddur og stóð það eitt fyrir lífláti hans er menn sáu för Þorbjargar. Og er hún kom til mannfundar þess þá spyr hún hvað menn ætluðust þar fyrir. Þeir sögðu sína fyrirætlan.
Hún segir: "Óráðlegt sýnist mér það að þér drepið hann því að hann er ættstór maður og mikils verður fyrir afls sakir og margrar atgervi þó að hann sé eigi gæfumaður í öllum hlutum og mun frændum hans þykja skaði um hann þótt hann sé við marga menn ódæll."
Þeir segja: "Ólífismaður sýnist oss hann vera því að hann er skógarmaður og sannur ránsmaður."
Þorbjörg mælti: "Eigi mun hann nú að sinni af lífi tekinn ef eg má ráða."
Þeir segja: "Hafa muntu ríki til þess að hann sé eigi af lífi tekinn hvort sem það er rétt eða rangt."
Þá lét Þorbjörg leysa Gretti og gaf honum líf og bað hann fara þangað sem hann vildi. Af þessum atburð kvað Grettir kviðling þenna:
Mundi eg sjálfr
í snöru egnda
helsti brátt
höfði stinga
ef Þorbjörg
þessu skáldi,
hún er allsnotr,
eigi byrgi.
Í þessum atburði má hér sýnast hversu mikill skörungur hún var.
Hávar hét maður. Hann var Kleppsson. Hann bjó á bæ þeim er heitir að Jökulskeldu. Hávar var kynjaður sunnan af Akranesi og hafði farið þaðan fyrir víga sakir því að hann mikill vígamaður og hávaðamaður og ódæll. Hann átti konu þá er Þórelfur hét. Hún var breiðfirsk að kyni. Hún var dóttir Álfs úr Dölum, göfugs manns og ágæts. Hávar og Þórelfur áttu son þann er Þorgeir hét. Hann var bráðger maður og mikill vexti og sterkur og kappsfullur. Hann nam á unga aldri að hlífa sér með skildi og vega með vopnum.
Bersi hét maður er bjó í Ísafirði. Hann bjó á bæ þeim er á Dyrðilmýri heitir. Hann átti þá konu er Þorgerður hét. Son þeirra hét Þormóður. Hann var þegar á unga aldri hvatur maður og hugprúður, meðalmaður vexti, svartur á hárslit og hrokkinhærður.
Í þenna tíma bjó á Reykjahólum á Reykjanesi Þorgils Arason. Hann var mikill höfðingi, vitur og vinsæll, ríkur og ráðvandur. Illugi hét bróðir hans, hirðmaður hins heilaga Ólafs konungs. Hann var farmaður mikill og var jafnan annan vetur með Ólafi konungi en annan á Reykjahólum. Hann hafði út kirkjuvið og skálavið.
Þeir bræður, Þorgils og Illugi, voru synir Ara Mássonar, Atlasonar, Úlfssonar hins skjálga er nam Reykjanes, Högnasonar hins hvíta, Ótryggssonar, Óblauðssonar, Hjörleifssonar konungs. Þorgerður hét móðir þeirra Þorgils og Illuga. Hún var dóttir Álfs úr Dölum. Móðir Álfs var Þórhildur Þorsteinsdóttir hins rauða, Óleifssonar hins hvíta, Ingjaldssonar, Fróðasonar. Móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga. Móðir Sigurðar var Áslaug, dóttir Sigurðar Fáfnisbana. Þorgeir Hávarsson var systrungur Þorgils Arasonar.
Þorgeir og Þormóður óxu upp í Ísafirði og var snemmendis vingan með þeim því að þeir voru í mörgu skaplíkir. Snemmendis sagði þeim svo hugur um, sem síðar bar raun á, að þeir myndu vopnbitnir verða því að þeir voru ráðnir til að láta sinn hlut hvergi eða undir leggja við hverja menn sem þeir ættu málum að skipta. Meir hugðu þeir jafnan að fremd þessa heims lífs en að dýrð annars heims fagnaðar.
Því tóku þeir það ráð með fastmælum að sá þeirra skyldi hefna annars er lengur lifði. En þó að þá væru menn kristnir kallaðir þá var þó í þann tíð ung kristni og mjög vanger svo að margir gneistar heiðninnar voru þó þá eftir og í óvenju lagðir. Hafði sú siðvenja verið höfð frægra manna, þeirra er það lögmál settu sín í milli, að sá skyldi annars hefna er lengur lifði. Þá skyldu þeir ganga undir þrjú jarðarmen og var það eiður þeirra. Sá leikur var á þá lund að rista skyldi þrjár torfur úr jörðu langar. Þeirra endar skyldu allir fastir í jörðu og heimta upp lykkjurnar svo að menn mættu ganga undir. Þann leik frömdu þeir Þormóður og Þorgeir í sínum fastmælum.
Þormóður var nokkuru eldri en þó var Þorgeir sterkari. Uppgangur þeirra gerðist brátt mikill. Fara þeir víða um héruð og voru eigi vinsælir. Töldu margir þá ekki vera jafnaðarmenn. Höfðu þeir hald og traust hjá feðrum sínum sem von var að. Virtu margir menn sem þeir héldu þá til rangs.
En þeir menn sem vanhluta þóttust verða fyrir þeim fóstbræðrum fóru á fund Vermundar og báðu hann koma af sér þessum vandræðum.
Vermundur bauð Hávari og Bersa á sinn fund og sagði þeim að mönnum líkaði lítt til sona þeirra. "Ertu, Hávar, utanhéraðsmaður, sagði hann, "og hefir sest hér niður að engis manns leyfi. Höfum vér ekki amast við byggð þína hér til en nú sýnist mér standa af Þorgeiri syni þínum órói og stormur. Viljum vér nú að þú færir bústað þinn og byggð brott úr Ísafirði en Bersa og son hans munum vér af því eigi á brott reka að þeir eru hér kynjaðir. Væntum vér og að minni stormur standi af Þormóði ef þeir Þorgeir skiljast."
Hávar segir: "Ráða muntu því Vermundur að vér munum ráðast í brott úr Ísafirði með fé vort en eigi veit eg nema Þorgeir vilji ráða vistum sínum."
Nú eftir þessa þeirra ráðagerð færði Hávar bústað sinn suður til Borgarfjarðar og byggði þar sem nú heita Hávarstóftir. Þorgeir var þá ýmist með föður sínum eða vestur í Ísafirði með Þormóði og var hann mörgum mönnum nokkur andvaragestur þar sem hann kom þó að hann væri á ungum aldri. Löngum var hann á Reykjahólum með Þorgilsi frænda sínum og hafði af honum gott yfirlæti. Mikið vinfengi var með þeim Ara Þorgilssyni þegar á unga aldri og hélst þeirra vinfengi meðan þeir lifðu báðir.
Jöður hét maður er bjó á bæ þeim er heitir á Skeljabrekku. Hann var garpur mikill og höfðingi, ódæll og lítill jafnaðarmaður við marga menn, ríkur í héraðinu og stórráður, vígamaður mikill og bætti menn sjaldan fé þótt hann vægi.
Það bar að einn vetur að Jöður og húskarlar hans fóru út á Akranes að mjölkaupum. Í þeirri för kom hann til Hávars og bað að hann mundi ljá honum hest út á Nes.
Hann léði honum hestinn "og vil eg að þú látir hestinn hér eftir er þú ferð aftur og hafir þú eigi lengra."
Jöður kvað svo vera skyldu. Síðan fór hann út á Nes og keypti mjöl sem hann ætlaði og fór heimleiðis þá er hann hafði það annast að honum bar nauðsyn til. Og þá er hann fór utan með Grunnafirði um bæ Hávars þá ræddu förunautar hans um við hann að þeir mundu koma þar til húss og láta þar eftir hestinn.
Jöður segir: "Eigi nenni eg að dveljast að því. Mun eg nú hafa hestinn heim undir klyfjum og senda honum þegar aftur er eg hefi haft í mína nauðsyn."
Þeir segja: "Gera máttu það ef þú vilt en eigi hefir Hávari jafnan líkað ef af því væri brugðið er hann vildi vera láta."
"Ekki mun nú fyrir það gert," segir Jöður.
Hávar sér ferð þeirra og kennir mennina, fer til fundar við þá og heilsar þeim og mælti: "Nú munuð þér láta hér eftir hestinn."
Jöður segir: "Þú munt vilja lána mér hestinn heim til Skeljabrekku."
Hávar segir: "Eigi vil eg að nú fari hesturinn lengra."
Jöður segir: "Þó munum vér hafa hestinn þóttú viljir eigi ljá."
Hávar segir: "Svo má vera að það sé."
Hann hleypur að hestinum og hjó ofan klyfjarnar og tók í tauma hestsins og sneri heim á leið. Jöður hafði krókaspjót í hendi. Hann snarar þá að Hávari og leggur spjóti í gegnum hann. Af því sári lét Hávar líf sitt. Jöður tók hestinn og hafði með sér og fór leið sína til þess er hann kom heim. Heimamönnum Hávars þótti honum seint heim verða. Þeir leituðu hans og fundu hann dauðan þar sem hann hafði veginn verið. Þeim þótti þau tíðindi mikil vera.
Í þann tíma var Þorgeir vestur í Ísafirði. Víg Hávars spurðist skjótt víða um héruð og er Þorgeir spurði víg föður síns þá brá honum ekki við þá tíðindasögn. Eigi roðnaði hann því að eigi rann honum reiði í hörund. Eigi bliknaði hann því að honum lagði eigi heift í brjóst. Eigi blánaði hann því að honum rann eigi í bein reiði. Heldur brá hann sér engan veg við tíðindasögnina því að eigi var hjarta hans sem fóarn í fugli. Eigi var það blóðfullt svo að það skylfi af hræðslu heldur var það hert af hinum hæsta höfuðsmið í öllum hvatleik.
Svo er sagt að Þorgeir væri lítill kvennamaður. Sagði hann það vera svívirðing síns krafts að hokra að konum. Sjaldan hló hann. Óblíður var hann hversdaglega við alþýðu. Mikill var hann vexti og drengilegur í ásjónu, rammur að afli. Þorgeir átti exi breiða, stundar mikla sköfnungsexi.
Hún var snarpegg og hvöss og fékk mörgum manni exin náttverð. Hann átti og mikið fjaðurspjót. Það var með hörðum oddi og hvössum eggjum, mikill falurinn og digurt skaft. Í þann tíð var á Íslandi sverð ótíð mönnum til vopnabúnings.
Nú er Þorgeir spurði víg föður síns þá fór hann á Reykjahóla til Þorgils og sagði honum að hann vildi fara suður í Borgarfjörð að hitta móður sína og bað að hann skyldi fá honum flutning yfir Breiðafjörð. Þorgils gerði sem hann bað. Nú fer hann suður í Borgarfjörð og er ekki getið um náttstaði hans. Færðir voru góðar og snælaust í héraðinu. Vötnin lágu öll. Og er hann kom suður yfir Hvítá þá lagði hann leið sína til Skeljabrekku. Veður var þykkt og hlætt, myrkt úti bæði fyrir veðurs sakir og nætur. Þorgeir kom til Skeljabrekku síð um aftan og er hann kom á bæinn þá voru dyr aftur loknar og menn nýkomnir í stofu frá eldi. Ljós brann í stofunni. Þorgeir drap á dyr.
Jöður tók til orða: "Á dyr er drepið. Gangið út nokkur sveina."
Þá sá út húskarl einn og sér mann úti fyrir dyrunum standa með vopnum og spyr hver hann væri.
Hann svarar: "Vigfús heiti eg."
Húskarlinn mælti: "Gakk inn þú. Heimul mun þér gisting."
Þorgeir segir: "Eigi þigg eg gisting að þrælum. Mæl þú að Jöður gangi út."
Húskarl gengur inn er Þorgeir stóð úti.
Bóndi spurði húskarl er hann kom í stofu: "Hver kom maður úti?"
Húskarl svarar: "Veit eg að síður hver hann er að eg ætla að hann viti eigi sjálfur."
Jöður segir: "Hvað bauðst þú honum hér gisting?"
Hann svarar: "Bauð eg."
Jöður mælti: "Hverju svaraði hann?"
"Eigi lést hann vilja þiggja gistingarboð að þrælum. Bað hann þig út koma."
Jöður tók spjót í hönd sér og setti hjálm á höfuð sér og gengur út í dyr og tveir húskarlar með honum, sér mann standa fyrir dyrum og snýr spjótinu og setti spjótsoddinn í þröskuldinn. Hann spurði hver hinn komni maður væri.
Sá sagði: "Eg heiti Þorgeir."
Jöður segir: "Hver Þorgeir ertu?"
"Eg er Hávarsson."
Jöður mælti: "Hvert er erindi þitt hingað?"
Hann sagði: "Eigi veit eg hvað til tíðinda verður en eftir vil eg leita ef þér viljið nokkuru bæta víg það er þú vóst Hávar föður minn."
Jöður mælti: "Eigi veit eg hvort þú hefir það spurt að eg hefi mörg víg vegið og eg hefi ekki bætt."
"Ókunnigt er mér það," segir Þorgeir. "En hvað sem um það er þá kemur þetta til mín að leita eftir þessum vígsbótum því að mér er nær hoggið."
Jöður segir: "Eigi er mér allfjarri skapi að minnast þín í nokkuru. En fyrir því mun eg eigi þetta víg bæta þér Þorgeir að þá þykir öðrum skylt að eg bæti fleiri víg."
Þorgeir svarar: "Þér munuð ráða hvern sóma þér viljið gera en vér munum ráða þykkju vorri."
Nú ræddust þeir þessi orð við og stóð Þorgeir eigi allnær dyrunum. Hann hefir spjót í hægri hendi og sneri fram oddinum en exi í vinstri hendi. Jöður og hans menn áttu dimmt út að sjá þar sem þeir voru frá ljósi komnir en Þorgeiri var nokkuru hægra að sjá þá sem stóðu í dyrunum. Nú er þá varir síst þá gengur Þorgeir að dyrunum og lagði spjóti á honum miðjum og þegar í gegnum hann svo að hann féll í dyrnar inn í fang þeim fylgdarmönnum sínum.
Þorgeir snýr í brott þegar í náttmyrkrinu en húskarlar Jöðurs stamba honum. Þá var Þorgeir fimmtán vetra gamall er víg þetta varð sem Þormóður kvað í erfidrápu Þorgeirs:
Starf hófst upp þá er arfa
auðveitir lét dauðan,
hestrennir var hlunna
hugsnjallr, Klæings falla.
Efnd tókst Hávars hefndar
hafstóðs þá var Móði,
hann varð happ að vinna
hvettr, fimmtían vetra.
Þorgeir fór um nóttina og nam eigi fyrr staðar en á Hávarsstöðum. Hann drap þar á dyr og var seint til hurðar gengið. Þórelfur kvaddi til húskarl einn út að ganga.
Hann vaknar og gnýr fast augun og lætur illa við upp að standa og mælti: "Eigi veit eg að nauðsyn sé út að ganga þótt menn fari um nætur."
Þórelfur mælti: "Sá einn mun um nætur fara í miklu myrkri að nauðsyn mun á þykja."
"Eigi veit eg það," segir húskarl og rís upp og heldur seint og gengur til hurðar og sér mann úti fyrir dyrum í náttmyrkri og heilsar honum eigi, snýr inn aftur til rekkju sinnar og leggst niður og breiðir á sig klæði sín. Þorgeir gengur inn og lýkur aftur hurðina eftir sér og snýr til stofu.
Þórelfur tók til orða: "Hver kom maður?"
Húskarl svarar: "Það er bæði að eg veit eigi hver hann er enda þykir mér ekki undir."
Hún mælti: "Óforvitinn maður ertu."
Hún mælti þá við griðkonu eina: "Rís upp þú og gakk til stofu og vit hver maður sá er að þangað gekk."
Griðkona reis upp og gekk til stofu og lýkur upp hurðinni lítt að og spyr að hvort nokkuð sé manna í stofunni.
Henni var sagt: "Hér er maður víst."
Hún spyr hver hann væri.
Hann svarar: "Þorgeir heiti eg."
Hún lýkur aftur hurðina og gekk í skála.
Þórelfur mælti: "Hver kom maður?"
Hún svarar: "Það ætla eg að kominn sé Þorgeir son þinn."
Þórelfur rís þá upp og kveikir ljós, gengur til stofunnar og fagnar vel syni sínum, spyr tíðinda.
Þorgeir segir: "Áverki nokkur gerðist í kveld að Skeljabrekku."
Þórelfur spyr: "Hverjir áttu hlut í því?"
Þorgeir svarar: "Eigi má eg það af mér bera."
Þórelfur segir: "Hversu mikill áverki var það?"
Þorgeir svarar: "Eigi ætla eg að þar muni umbanda þurfa er hann fékk af mér. Það sá eg á spjóti mínu að út mundi tekið hafa í gegnum hann og féll hann á bak aftur í fang fylgdarmönnum sínum."
Þórelfur mælti þá með glöðu brjósti: "Óbernslegt bragð var það og njóttu heill handa, son minn. En hví lögðu þeir eigi eftir þér, fylgdarmenn hans?"
Þorgeir svarar: "Fengin voru þeim í fyrstu önnur verkaefni en brátt fal sýn meðal vor fyrir myrkurs sakir."
Þórelfur segir: "Svo má vera."
Þá var settur náttverður fyrir Þorgeir og er hann var mettur þá mælti Þórelfur: "Það sýnist mér ráð að þú leggist niður til svefns en rís upp ofanverða nátt og stíg þá á bak hesti þínum og ríð vestur til Breiðafjarðar. Húskarlar mínir skulu fylgja þér svo langt sem þú vilt. Hér munu menn koma á morgun að leita þín og höfum vér eigi ríki til að halda þig fyrir fjölmenni. Vötn mun og skjótt leysa ef þeyrinn helst og er þá verra að fara ef þau leysir. Hefir þú nú unnið það hér er mest nauðsyn bar til. Berðu Þorgilsi frænda mínum orð til þess að hann taki mér nokkurn ráðstafa vestur þar hjá sér. Eg mun selja jarðir mínar hér. Vil eg ráðast þangað í átthaga minn."
Þorgeir gerði sem móðir hans gaf ráð til, lagðist til svefns og reis upp ofanverða nótt og reið eftir það í brott. Og er eigi getið um hans ferð fyrr en hann kom vestur í Breiðafjörð, fékk sér þar skip og fór á því vestur á Reykjanes og segir þar víg Jöðurs.