Cover: Finnboga saga ramma by Óþekktur

Óþekktur

Finnboga saga ramma

 

SAGA Egmont

1. kafli

Ásbjörn hét maður. Hann var kallaður dettiás. Hann var Gunnbjarnarson Ingjaldssonar. Mikill maður var hann og sterkur og vænn að áliti. Hann bjó í Flateyjardal á bæ þeim er heitir á Eyri. Ásbjörn var kvæntur maður og átti Þorgerði systur Þorgeirs Ljósvetningagoða. Hún var kvenna vænst og skörungur mikill. Var þá ríki Þorgeirs bróður hennar sem mest og sona hans. Ásbjörn var norrænn að ætt og hinna ágætustu manna. Hann hafði stokkið út hingað fyrir valdsmönnum og þoldi eigi þeirra ójafnað og endemi sem margur annar gildur maður. Ásbjörn hafði goðorð um Flateyjardal og upp til móts við Þorgeir mág sinn.

Brettingur hét maður. Hann bjó á Brettingsstöðum í Flateyjardal. Hann átti þá konu er Þóra hét.

Þeirra son hét Þorsteinn, annar Grímur, þriðji Sigurður.

Maður hét Ingi. Hann bjó að Jökulsá í dalnum. Sigríður hét kona hans. Þau áttu tvo sonu. Hét annar Þórir en annar Grímur. Þessir voru allefnilegir og gervilegir menn og hraustra manna. Var Ásbjörn landnámsmaður og svo þeir er fyrr voru nefndir.

Ásbjörn átti dóttur er Þórný hét. Hennar bað Austmaður sá er Skíði hét. Ásbjörn vildi eigi gifta hana. Þá er Ásbjörn var riðinn til þings um sumarið hafði Skíði tekið í brott meyna með ráði Þorgerðar móður hennar. Hann flutti hana til Noregs og gerði þar brullaup til hennar. Var hann mikilhæfur maður og átti frændur ágæta og hina bestu kosti. En þá er Ásbjörn kom heim af þingi varð hann reiður mjög að mærin var brott tekin, bæði Þorgerði og Austmanninum. Var hann fályndur og fastlyndur og hinn mesti ólundarmaður ef hann yrði reiður.

2. kafli

Nú líða nokkur misseri frá því og eitthvert sinn reið Ásbjörn til þings með menn sína.

Þá mælti hann til Þorgerðar: "Nú ætla eg til þings ríða eftir vanda en eg veit að þú ert með barni og mjög framað. Nú hvort sem það er þá skal eigi upp ala heldur skal bera út þetta barn."

Hún sagði að hann mundi það eigi gera "svo vitur og ríkur sem þú ert því að þetta væri hið óheyrilegasta bragð þó að fátækur maður gerði en nú allra helst er yður skortir ekki góss."

Ásbjörn segir: "Það var mér þá í hug er þú fékkst í hendur Skíða austmanni Þórnýju dóttur okkra utan mína vitand að eg skyldi eigi fleiri börn upp ala til þess að þú gæfir í brott fyrir utan minn vilja. Og ef þú gerir eigi eftir því sem eg segi muntu missmíði á sjá og allir þeir er af mínu boði bregða eða eigi sem eg vil vera láta."

Síðan reið hann til þings. Litlu síðar fæðir Þorgerður sveinbarn. Það var mikið og þriflegt og fagurt mjög. Allir lofuðu það, þeir er sáu, bæði konur og karlar. Nú þótt Þorgerði þætti barnið fagurt og ynni mikið þá vildi hún þó láta út bera því að hún vissi lyndi Ásbjarnar bónda síns að eigi mundi vel duga utan hann réði. Síðan fékk hún menn til að bera út barnið og búa um sem vandi var á. Þessir menn báru barnið úr garði út og lögðu niður milli steina tveggja og ráku yfir hellu mikla og létu flesk í munninn barninu og gengu síðan brott.

3. kafli

Maður hét Gestur. Hann bjó þar sem heitir að Tóftum. Syrpa hét kona hans. Hún hafði fóstrað Þorgerði fyrr meir þá er hún var barn. Og unni hún henni mikið og lét hana fara með sér þá er hún var gift þangað á Eyri. Var hún vel kunnandi allt það er hún skyldi gera. Hverju kykvendi var hún leiðilegri að sjá og lítið var Ásbirni um hana og þótti hún ærið nær ganga Þorgerði. Fyrir því lét hún Syrpu brott fara og gifti hana Gesti. Átti hún lítið fé eða ekki áður, annað en það er Þorgerður lagði til hennar, en hann átti þó eigi mikið. Gestur hafði hið mesta kvonríki því að hann var mannæli mikið og veslingur.

Svo er sagt að þann sama dag er Þorgerður varð léttari sendi Syrpa bónda sinn að vita sér um brúngras því að hún gerði mart fóstru sinni það er hún þurfti að hafa. Svo bar til þann dag að hann hljóp um grjót og haga. Þá heyrði hann barnsgrát, fer nú og snoðrar einart um hvern stein og þar til er hann finnur barnið, þrífur upp síðan og sýnist allfagurt. Hann kastar í stakkblað sitt og hleypur heim til Syrpu slíkt sem hann getur farið og hirðir ekki um það er hann var eftir sendur.

Syrpa spurði hví hann færi svo geystur. Hann kvaðst fundið hafa barn nýfætt "og hefi eg ekki séð jafnfagurt."

Syrpa bað hann sýna sér. Og er hún sá þóttist hún vita hver hans ætt var. Síðan bað hún að hann tæki skinnfeld þeirra og bæri innar á stofu "og skal eg leggjast niður og láta sem við eigum barn þetta."

Hann kvað engan því mundu trúa "og er það miklu þriflegra að sjá en okkur sé líkt."

Hún bað hann þegja og eigi þora annað að segja en það er hún vill. Síðan bað hún hann fara á Eyri og biðja Þorgerði fá sér það er hún þurfti að hafa. Og hann fór þegar.

4. kafli

Gestur kom á Eyri og sagði Þorgerði að Syrpa fóstra hennar hefði barn fætt og kvað hvorki vera mat né hvíluklæði. Þorgerður undraði þetta mjög og hugði að fóstra hennar mundi svo gömul að hún mundi eigi barn mega eiga, hefir um þetta fátt orða en lætur fara slíkt er hún þurfti. Syrpa var hin hraustasta og vildi ekki að aðrar konur þjónuðu henni. Tekur hún af allan búnað af barninu þann sem á var og var sá miklu ágætari en hún þyrði að hafa. Tók hún tötra og bjó um sem herfilegast.

Það fréttist nú hvorttveggja að barn þeirra Ásbjarnar og Þorgerðar var út borið og þótti það óheyrilegt bragð svo ríkra manna og göfugra sem þau voru, svo það að Syrpa hafði barn fætt og þótti þeim mönnum það ólíkindi er vissu aldur hennar. Ásbjörn kom heim af þingi og voru honum sögð þessi tíðindi. Lét hann vel yfir og var nú gott samþykki með þeim hjónum.

Svo er sagt að þau Gestur og Syrpa ala upp barnið. Vex hann svo skjótt að varla þótti líkindi á. Svo var það barn fagurt og frítt að allir hugðu það að aldrei ættu þau Gestur það barn. Þá spurði Gestur Syrpu hvað sveinn þeirra skyldi heita. Hún kvað það maklegt að hann héti Urðarköttur þar sem hann var í urðu fundinn. Hann óx dagvöxtum. Syrpa gerði honum söluvoðarbrækur og hettu. Hana gyrti hann í brækur niður. Krækil hafði hann í hendi og hljóp svo úti um daga. Hann var þeim þarfur í öllu því er hann mátti. Þau höfðu mikla ást á honum. Þá er hann var þrevetur var hann eigi minni en þeir að sex vetra voru gamlir. Urðarköttur rann oft til fjöru og voru fiskimenn vel til hans og hentu mikið gaman að honum. Hafði hann jafnan góðar hjálpir heim til fóstru sinnar Syrpu. Oft kom hann á Eyri og var þar óvinsæll fyrir griðkonum Þorgerðar. Barði hann á þeim eða krækti fætur undan þeim með staf sínum en þær báðu honum ills og voru harðorðar mjög. Oft sögðu þær Þorgerði. Hún lagði fátt til og bað að hann skyldi njóta fóstru sinnar Syrpu og vera vel við hann. Aldrei ber hann svo fyrir augu Ásbjarnar að hann láti sem hann sjái hann og æmtir honum hvorki vel né illa. En allir aðrir undruðu hann ef hann væri sonur þeirra Gests og Syrpu svo ámátleg sem þau voru bæði en hann var bæði mikill og fríður og vel knár.

Oft bað Syrpa að hann skyldi eigi koma á Eyri "því að mér segir það hugur að þar muni eg nokkuð illt af hljóta en mér tjóar það eigi að banna þér."

Urðarköttur kvað eigi svo vera mundu. Líður nú þar til að hann var sex vetra. Þá var hann eigi minni en þeir að tólf vetra voru og að engu óþroskulegri.

5. kafli

Svo var sagt að Urðarköttur rann til fjöru einn dag sem hann var vanur að finna fiskimenn. Voru þá flestir að komnir en sumir reru að utan. Þeir höfðu vel fiskt og köstuðu af skipum.

Þeir höfðu tekið einn ferelning, bæði mikinn og góðan, og köstuðu honum í flæðarmál og mæltu:

"Urðarköttur félagi, taktu og drag upp fiskinn."

Hann mælti: "Viljið þér gefa mér fiskinn ef eg fæ upp dregið?"

Þeir kváðu hann verðan vera að hafa ef hann léki það og jáðu því allir. Urðarköttur var í skinnstakki og söluvoðarbrókum og allt af neðan. Gekk hann berfættur hvern dag. Hann hafði snæri um sig hvern dag og hettu sína yfir utan. Hann hleypur út í lárnar og bregður í fiskinn öðrum enda á snærinu en annan hefir hann um herðar sér, streitist nú mjög og gengur stundum á en stundum ekki. Allir horfðu á og hlæja að honum. Hann fer ekki að því. Svo lengi sem hann hefir að verið gengur honum betur og betur þar til er hann fær upp dregið. Var þar bratt er hann fór upp. Síðan hljópu þeir að og tóku af honum fiskinn og vilja eigi halda við hann en hann undi illa við. Fór hann og sagði Brettingssonum og bað þá duga sér. Þeir gengu þegar til fiskimanna og báðu þá lausan láta fiskinn og halda sammæli við Urðarkött. Þótti öllum hann vel hafa til unnið og þó með ólíkindum. Varð svo með atgangi þeirra að hann nær fiskinum og verður feginn mjög, streitist nú af nýju við fiskinn og dregur heim í tún til Syrpu fóstru sinnar. Hann færir þeim fiskinn. Urðu þau stórlega fegin.

Þetta fór víða um sveitir og var mikið orð á syni þeirra Syrpu og Gests. Undruðust allir hví þau skyldu eiga svo ágætan son sem öllum sýndist sjá maður og fannst mönnum mikið um er hann sáu og heyrðu sagt frá. Leituðu þau alla vega við að torkenna hann sem þau máttu. Og líður nú svo fram nokkura vetur.

6. kafli

Svo er sagt að vinskapur mikill var með þeim Ásbirni og Þorgeiri goða og mágsemd. Gerði hvor öðrum veislur og skiptust þeir góðum gjöfum við. Og svo ber að eitthvert haust að Ásbjörn bauð Þorgeiri mági sínum til sín og hann kemur með marga menn og tók Ásbjörn við honum vel með mikilli blíðu. Var þar veisla hin besta.

Urðarköttur hafnar ekki vanda sínum um komur á Eyri. Hleypur hann þangað hvern dag og svo gerði hann enn þenna dag er þeir sátu að veislunni. Hann er nú umfangsmikill og glímir við griðkonur. Þær taka nú fast á móti honum og ganga að honum fjórar og varð nú mikið hark. Hann dregur þær innar í stofuna og gangast þar að fast. Þetta þótti mönnum mikið gaman að sjá atgang þeirra. Svo lauk hann við að hann felldi þær allar og lék þær illa. Og þá er þau höfðu lokið leik sínum stóð hann á gólfinu í búnaði sínum. Var það skinnstakkur og krækill er hann hafði hvern dag í hendi.

Þorgeir horfði á hann langa stund og mælti síðan við Ásbjörn: "Hver er sveinn sjá er hér er kominn?"

Ásbjörn segir: "Það ætla eg son þeirra Gests og Syrpu frá Tóftum."

Þorgeir mælti: "Það er ólíklegt og má það ekki vera."

Þá kallar hann á Urðarkött. Hann gekk þegar til hans og settist niður á einn stokk er stóð fyrir honum.

Þorgeir mælti: "Hver ertu skinnstakkssveinn?"

Hann segir: "Eg heiti Urðarköttur og er eg son þeirra Gests og Syrpu er búa hér út að Tóftum."

Þorgeir segir: "Hversu gamall maður ertu Urðarköttur?"

Hann sagði, hann kveðst vera tólf vetra gamall.

Þorgeir mælti: "Þú ert mikill maður og gervilegur og svo vel skapaður að jöfnum aldri að eg hefi engan höfðingjason séð jafnan þér fyrir allra hluta sakir."

Þá mælti Ásbjörn bóndi: "Það muntu þá mæla mágur er þú sérð Syrpu og Gest, feðgin hans, að þau séu allóhöfðingleg því að engi mun séð hafa slík svín sem þau eru bæði. Og er það undur er þú talar við engan mann nema Urðarkött. Skil eg það að þér þykir mikils um vert það er hann er fagurt skapaður."

Þorgeir roðnaði mjög og mælti: "Það hygg eg mér mikla þörf að tala hér um nokkuð en þó er það mitt hugboð að þér liggi eigi minna við hér um að tala."

Þorgeir frétti enn Urðarkött: "Viltu fara eftir þeim Gesti og Syrpu? Seg að eg vil finna þau."