Cover: Droplaugarsona saga by Óþekktur

Óþekktur

Droplaugarsona saga

 

SAGA Egmont

1. kafli

Ketill hét maður er kallaður var þrymur. Hann bjó í Skriðudal á Húsastöðum. Atli hét maður er var bróðir Ketils. Hann var kallaður Atli grautur. Þeir áttu bú báðir saman og voru fémenn miklir, fóru jafnan til annarra landa með kaupeyri og gerðust stórríkir. Þeir voru Þiðrandasynir.

Eitt vor bjó Ketill skip sitt í Reyðarfirði því að það stóð þar uppi og síðan sigldu þeir í haf. Þeir voru úti lengi og tóku Konungahellu um haustið og settu þar upp skip sitt. En síðan keypti hann sér hesta og reið austur í Jamtaland við tólfta mann til þess manns er Véþormur hét. Hann var höfðingi mikill en vinátta góð var með þeim Katli. Véþormur var Rögnvaldsson Ketilssonar raums. Véþormur átti þrjá bræður. Hét einn Grímur, annar Guttormur, þriðji Ormar. Þeir allir bræður voru hermenn miklir og voru á vetrum með Véþormi en á sumrum í hernaði. Ketill var þar um veturinn með sína menn.

Þar voru með Véþormi tvær konur ókunnar. Önnur vann allt það er hún orkaði en önnur sat að saumum og var sú eldri. Hin yngri konan vann allt vel en illa var þegið að henni. Hún grét oft. Þetta hugleiddi Ketill.

Það var einn dag er Ketill hafði þar litla stund verið að þessi kona gekk til ár með klæði og þó, og síðan þó hún höfuð sitt og var hárið mikið og fagurt og fór vel.

Ketill vissi hvar hún var og gekk þangað og mælti til hennar: "Hvað kvenna ertu?" sagði hann.

"Arneiður heiti eg," segir hún.

Ketill mælti: "Hvert er kyn þitt?"

Hún segir: "Eg ætla þig það engu skipta."

Hann gróf að vandlega og bað hana segja sér.

Hún mælti þá með gráti: "Ásbjörn hét faðir minn og var kallaður skerjablesi. Hann réð fyrir Suðureyjum og var jarl yfir eyjunum eftir fall Tryggva. Síðan herjaði Véþormur þangað með öllum bræðrum sínum og átján skipum. Þeir komu um nótt til bæjar föður míns og brenndu hann inni og allt karlafólk en konur gengu út og síðan fluttu þeir okkur móður mína hingað, er Sigríður heitir, en seldu aðrar konur allar mansali. Er Guttormur nú formaður eyjanna."

Þau skilja nú. En annan dag eftir mælti Ketill við Véþorm: "Viltu selja mér Arneiði?"

Véþormur segir: "Þú skalt fá hana fyrir hálft hundrað silfurs sakir okkarrar vináttu."

Þá bauð Ketill fé fyrir kost hennar "því að hún skal ekki vinna." En Véþormur lést mundu veita henni kost sem öðru föruneyti hans.

Á því sumri komu heim bræður Véþorms, Grímur og Ormar. Þeir höfðu herjað á Svíþjóð um sumarið. Sitt knarrarskip átti hvor þeirra og voru hlaðin með fjárhlut. Voru þeir með Véþormi um veturinn en um vorið bjuggu þeir bræður skip sín til Íslands og ætluðu þeir Ketill að halda samflota.

Og er þeir lágu fyrir Víkinni bað Arneiður Ketil að ganga á land upp að lesa sér aldin og önnur kona með henni er þar var á skipinu. Hann lofaði henni og bað hana skammt fara. Nú gengu þær á land og komu undir bakka einn. Þá gerði á regn mikið.

Arneiður mælti: "Gakk til skips og seg Katli að hann komi til mín því að mér er krankt."

Hún gerði svo og gekk Ketill einn saman til Arneiðar.

Hún heilsar honum og mælti: "Kol hefi eg hér fundið."

Þau grófu þar sandinn og fundu kistil einn fullan af silfri og fóru síðan til skips. Þá bauð Ketill henni að flytja hana til frænda sinna með þessu fé en hún kaus að fylgja honum.

Síðan létu þeir í haf og skildi með þeim. Kom Ketill skipi sínu í Reyðarfjörð og setti upp en fór síðan heim til bús síns á Húsastaði. En hálfum mánuði síðar kom Ormar skipi sínu í Reyðarfjörð og bauð Ketill honum heim en skip hans var upp sett.

Á því sumri kom Grímur skipi sínu á Eyrar í þá höfn er Knarrarsund heitir og var um veturinn með þeim manni er Þorkell hét. En um vorið eftir nam Grímur sér land það er þaðan af var kallað Grímsnes og bjó að Búrfelli alla ævi sína.

2. kafli

Nú er þar til að taka er Ketill þrymur kaupir sér land fyrir vestan vatn það er Lagarfljót heitir, sá bær heitir á Arneiðarstöðum, og bjó þar síðan. Á vorþingi kaupir Ketill land fyrir Ormar. Hét það á Ormarsstöðum. Það var nokkuru utar með vatninu og bjó Ormar þar til elli. Því næst kaupir Ketill goðorð og gaf silfur fyrir. En áður höfðu þeir Graut-Atli bróðir hans skipt með sér fé sínu. Atli kaupir land fyrir austan fljótið upp frá Hallormsstöðum, er nú heitir í Atlavík, og bjó þar til elli. En nú eru þar sauðhúsatóftir.