Cover: Ljósvetninga saga by Óþekktur

Óþekktur

Ljósvetninga saga

 

SAGA Egmont

Ljósvetninga saga

(C-gerð)

1. kafli

Þorgeir goði bjó að Ljósavatni, höfðingi mikill. Forni hét maður er bjó í Haga í Reykjadal, góður bóndi. Þá bjó Arnór í Reykjahlíð, faðir Þorfinns, kappi mikill. Þeir voru þingmenn og vinir Þorgeirs goða. Það er og sagt að þeir Þorfinnur og Grettir fundust og réð þar hvorgi á annan og má á því marka hvílíkur kappi Þorfinnur var.

Í þann tíma bjó Ófeigur Járngerðarson í Skörðum, höfðingi og garpur mikill. Ölvir hét maður er bjó að Reykjum, búandi góður.

Þeir bræður, Sölmundur og Söxólfur, bjuggu að Gnúpum, Víðarssynir, garpar miklir og ójafnaðarmenn og bjuggu fyrir austan ána í dalnum og voru óeirðarmenn miklir um kvennafar og málaferli og höfðu því mikinn yfirgang að fáir treystust að ganga í mót þeirra vilja. Ærið voru þeir frægir og þó að illu. Sölmundur var fyrir þeim. Hann venur komur sínar til Ölvis að hitta dóttur hans og í mót vilja frænda hennar og fékkst þó engi forstaða af lítilmennsku föður hennar.

Það er að segja að Ófeigur átti för inn í hérað og hitti Ölvir hann og bað að hann kæmi þar er hann færi heim aftur og sagði honum ósæmd þeirra Víðarssona.

Ófeigur mælti: "Illa mun sjatna ofsi þeirra bræðra en koma mun eg hér er eg fer heim." Ölvir þakkar Ófeigi góð orð.

Ölvir hafði átján þræla. Ófeigur kom þar um kveldið.

Nú er að segja frá þeim Víðarssonum að þeir fara heiman til Ölvis.

Þá mælti Sölmundur: "Þið bræður skuluð standa í dyrum og horfa út og vætti eg að rýr verður þrælaættin fyrir oss."

Sölmundur sótti inn eftir konunni og hafði hana á brott.

Þá mæltu þrælarnir: "Hvað gerðum vér nú átján er þeir Víðarssynir komu að þrír?"

En Ófeigur spratt upp og tók vopn sín og gekk út eftir þeim og voru þeir þá komnir að túngarðinum. Og í því er Sölmundur vill taka við henni og hefja út af garðinum kom Ófeigur að í því og grípur til hennar og kippir henni inn af garðinum.

"Hvar til ætlar þú Sölmundur," segir Ófeigur, "um þína ósæmd er þú gerir eftir bóndadætrum? Og máttu svo til ætla að menn munu það eigi þola þér og sæk hana nú þangað í Skörð ef þú vilt og reynum við með okkur."

Sölmundur mælti: "Ekki munum við til þrautar leggja."

Og skildust að því að þeir fóru í brott og tókst svo af fíflingar og ósæmd af tilkomu Ófeigs. Sat Ölvir í friði.

Síðan kom Hallvarður út Arnórsson í Húsavík og Sigurður hét maður er skip átti með honum, norrænn maður. Þeir Austmennirnir vistuðust þar um veturinn og var Sigurður með Forna í Haga. Hann seldi varning sinn um veturinn og sagði Forni hvar skuldarstaðir voru bestir. Austmaður fór og bar svo til að hann fór fyrir neðan garðinn að Sölmundar og lá hestur hans í keldu. Sölmundur sá það og fór til og bauð honum til sín og tók við honum vel og falaði varning að honum og hét verði fyrir. Austmaður fór heim og sagði Forna að hann hafði selt Sölmundi varninginn en Forni lét illa yfir og sagði að hann mundi illa gjalda. Nú var kyrrt um veturinn.

Um vorið fór Austmaðurinn að heimta varningsverðið en Sölmundur svaraði illa og kvað fúinn vera varninginn og vildi ekki gjalda. Austmaðurinn fór heim.

En bráðlega eftir það fóru þeir stefnuför til Sölmundar, Forni og Arnór. Þeir voru fimmtán saman. Þeir bræður voru þrír heima í virki einu og hlýddu til um hríð. Síðan mælti Sölmundur að einsætt væri að þola slíkt eigi. Og þá hljóp Söxólfur til og þreif spjót sitt og skaut til Austmannsins og fékk hann þegar bana. Þeir fóru við það í brott. Arnór flutti hann upp í Reykjahlíð. Þeir bjuggu málið til þings.

Þeir fóru nú á þingið og var leitað um sættir og kom þar að Söxólfur skyldi utan fara og koma eigi út en Sölmundur vera utan þrjá vetur og fóru þeir utan. Sölmundur lagðist í víking og þeir bræður og reyndist hinn hraustasti drengur.

2. kafli

Í þann tíma var Hákon jarl yfir Noregi og fór Sölmundur til hans þá er honum leiddist í víkingu að vera og mat jarl hann mikils. Hann fýstist út um sumarið en jarl kvað það óráðlegt, slíkt sem hann átti hér um að vera. Jarl kvaðst fyrr mundu senda girskan hatt Guðmundi hinum ríka en Þorgeiri Ljósvetningagoða taparöxi. Sölmundur var tvo vetur í Noregi.

Og eftir það fór hann út og hitti þá og sagði þeim vingan jarls og orð en afhenti þeim gjafarnar og gripi þá sem jarl hafði sent þeim. Þeir tóku við honum og voru honum fengnir fjórir menn til fylgdar. Hann færði Þorgeiri þá hina góðu gripi er jarl hafði sent honum.

Þorgeir mælti til Sölmundar: "Guðmundi varstu sendur því að hann er handgenginn."

Guðmundur mælti: "Þér voru gripirnir sendir og sæki hann að þitt traust. En ef þú vilt eigi það þá verum allir samt og veitumst að málum þessum."

Þorgeir svarar: "Eg em vant við kominn er þingmenn mínir eiga í hlut. En þó mun eg að styðja," sagði Þorgeir, "en þú ver fyrir málinu."

Guðmundur mælti: "Eigi kann eg í móti því að mæla er þú hefir lögin í þínu valdi."

Þorgeir mælti: "Sé eg ráðið til, að koma honum á þrjár leiðir, Eyfirðinga leið og Reykdæla leið og Ljósvetninga leið, og höldum saman leiðum öllum þó að norður séu meir mínir þingmenn og mun þá maðurinn vera friðheilagur ef svo gengur."

Þorgeir átti fjóra sonu, Tjörva, Höskuld, Finna og Þorkel. Þorfinnur var þá utan, úr Reykjahlíð, en Arnór faðir hans hittir Þorgeir og biður hann veita sonum sínum.

Þorgeir kvað: "Eigi mun eg Guðmundi í móti vera."

Arnór mælti: "Eigi veit eg hvað í slíku er fólgið. Og gakk þú eigi í móti sonum þínum er málinu vilja fylgja."

Þorgeir svarar: "Mér þykir þú illt ráð hafa upp tekið að leggja sæmd sína í virðing við eins manns mál útlends og sé sá þó látinn nú. Og mun eg Guðmundi veita."

Arnór mælti: "Kynleg veisla og að illu mun verða."

Arnór ríður á Vagla, þar bjó Höskuldur Þorgeirsson, hittir þá bræður og segir hver efni hann ætlar í vera um samband þeirra höfðingjanna.

"Það þykir mér ráð," sagði hann, "að þér bræður hittið Þórð föðurbróður yðvarn, vitran mann og yður vel viljaðan."

Og svo gera þeir.

Nú líður á sumarið og setja þeir til njósnir í lið þeirra höfðingjanna og verða þess varir að þeir ætla að koma manninum á þrjár leiðir svo að þeir mættu eigi vita. Guðmundur og Þorgeir ætla nú að fjölmenna. Þeir bræður safna nú liði. Og er þeir eiga skammt til leiðmótsins þá segir Finni Þorgeirsson að þeir munu ríða í móti liði þeirra höfðingjanna. Og svo gera þeir og stíga af baki hestum sínum hjá sauðahúsinu og láta hesta sína að húsabaki en þeir ganga inn í húsið. Svo var háttað húsinu að tvö voru vindaugu á hlöðunni en vegur þeirra Guðmundar lá fyrir dyrnar. Nú ber þá að brátt.

En Finni Þorgeirsson var maður skyggn: "Það ræð eg ef yður er hugur á að banna Sölmundi leiðina þá missið eigi klyfjahestsins er milli þeirra höfðingjanna er rekinn fram."

Höskuldur mælti: "Eg skal það annast."

Og er þá ber þar fyrir dyrnar þá skýtur Höskuldur spjóti og keyrði fyrir brjóst Sölmundi þar sem þeir fóru með hann en þeir bræður hlupu út úr húsinu og til hesta sinna og ríða til liðs síns. En þeir Guðmundur og Þorgeir bregða við skjótt þegar er þeir vissu hverjir að ollu og ríða eftir þeim. Og þegar er þeir finnast þá slær þar í bardaga með þeim. Þar fellur Arnór úr Hlíð af liði þeirra Þorgeirssona. Þar féll og húskarl Guðmundar og einn maður af þeim bræðrum. Og ná þeir Guðmundur nú eigi leiðinni. Þórður bróðir Þorgeirs gekk þar mest í millum manna og kvað Þorgeiri mjög missýnast er hann gekk í mót sonum sínum í orustu. Þeir skilja nú að sinni.

3. kafli

Eftir fundinn var Þorgeiri það sagt að Höskuldur sonur hans var mjög sár og báðu menn hann skiljast við mál þessi og vera eigi í móti sonum sínum.

Þorgeir mælti til Guðmundar að illt hlyti af málum þessum "og mun eg við skiljast," segir Þorgeir og svo gerir hann.

Guðmundur segir: "Það er nú ráð að við söfnum saman liði okkru." "Ekki mun nú af því verða," segir Þorgeir og nú fer hann heim.

En frá Höskuldi er það að segja að hann var ekki sár en höfðu þetta því til bragðs tekið að þeir vildu að Þorgeir skildist við sem var. En þeir bræður voru allir saman og óhelguðu Sölmund. Þeir lögðu nú í fjandskap við Guðmund sem lengi hélst síðan.

Þeir bræður sátu nú yfir sæmdum og áttu fund um vorið og bundu það saman að skiljast eigi við málið og búa til vígsmálið eftir Arnór og fjörráð við sig. Guðmundur átti annan fund við sína menn. Þeir bræður hittu Ófeig og báðu hann fara til leiðar til liðveislu við sig og kölluðust réttu að fylgja þótt þeir hefðu þann óhelgað er fyrstur fór með vélræði og kom fyrr út en mælt var.

Ófeigur hafði áður setið hjá málum þeim og latti hann og kvað ófallið að deila við föður sinn "en mér þykir enn eigi með öllu ráðið hvort hann skilst við málin eða eigi og vildi eg að þú sættist á málin með jafnaði og er sá bestur og mun eg ríða til með þér."

Höskuldur kveðst lítið erindi haft hafa á hans fund "og ertu kallaður drengur góður og garpur mikill en ekki má eg því hæla."

Ófeigur mælti: "Mikið tekur þú af þessu en leita mun eg um sættir fyrst með yður en skiljast þó eigi við þig í þraut. En það ræð eg að þér farið vægilega með yðru máli en takið eigi fyrr sætt en vér komum."

En hálfum mánuði fyrir þing reið Tjörvi í Goðdali fyrir því að hann var þar mægður og reið nú til þings.

Guðmundur hitti Þorgeir og spurði um afla þeirra sona hans. Þorgeir kvaðst ætla að þeir munu hafa fjölmenni.

"Er það satt," segir Guðmundur, "að til sé búið vígsmálið og Sölmundur óhelgaður?" Þorgeir mælti: "Það er vegur og munum við hafa fjölmenni í móti þeim." Og fara nú allir til þings hver með sínu liði.

4. kafli

Arnsteinn hét maður er bjó í Öxarfirði að Ærlæk. Hann átti þriðjung í goðorði við Þorgeir og synir hans hinn þriðja þriðjung. Kominn var Ófeigur til þings með fimm tigu manna, þeir Tjörvi vestan með hundrað manna og voru á þingi nótt eina.

Þá gengu þeir á fund Arnsteins, Tjörvi og Höskuldur, og kölluðu hann til máls við sig. Hann bað þá inni við talast. Þeir báðu hann út ganga og svo gerði hann.

Þá mælti Höskuldur: "Hér horfist til málaferla og horfir mjög í móti með oss frændum. Er þér vandi á báðar hendur. Og kalla þeir oss ómæta í kviðinum. Nú höfum vér þriðjung goðorðs en faðir vor annan. En þú ræður hvar þú snýrð að og þeir hafa meira hlut er þú vilt fylgja."

Arnsteinn mælti: "Það er mér vandi mikill. Mér er vel við Þorgeir og þykir mér það ráð að þér leggið á hans vald."

Höskuldur mælti: "Ekki standa svo málaefni til."

Höskuldur stóð úti fyrir búðardyrunum en Tjörvi í búðinni en Arnsteinn á milli þeirra. Tjörvi mælti: "Engi sæmd er boðin fyrir Arnór vin vorn."

Höskuldur mælti: "Það hæfir nú betur að þú gerir eftir vorum vilja en þó er nú ekki lengur að draga fyrir þér. Ger sem vér biðjum eða reyn ella hvort öxin kann bíta."

Tjörvi mælti: "Með óhöppum hefir hafist og svo mun slitna. Tak af hinn vildra hlut og er svo þetta upp hafið að eigi mun niður falla."

Hann tekur þá það til ráðs sem þeir vildu og skildust að því. Skyldi hann fara á fund þeirra bræðra um morguninn eftir. Þeir taka við mönnum hans og tjalda búð hans og ætla nú til dóma að ganga.

Þá mælti Guðmundur til Þorgeirs: "Synir þínir ganga nú fast fram en þú eldist. Eða hvort er raunar að þú vilt eigi í móti þeim ganga og þeir hafa allt málið undir sér og dómendur?"

Þorgeir mælti: "Allt mun koma fyrir eitt. Bjargað mun málinu verða að lögum."

Guðmundur mælti: "Það er nú sem tekst til við þá sem um er að eiga ef þeir koma til alþingis. Þar munu þeir fram koma þó að eigi komi þeir hér fram eða hafi eigi til fjölmenni."

Síðan mælti Höskuldur: "Hví setjið þér eigi dómendur niður?"

"Það má vera," sagði Tjörvi, "að þeir séu aflaminni en þér ætluðuð."

Höskuldur mælti: "Illt er það ef föður minn þrýtur drengskapinn. Og göngum nú að þeim Guðmundi."

Ófeigur mælti: "Eigi hæfir það. Leitum heldur um sættir. En ef þetta kemur til alþingis munu eigur yðrar upp ganga hér til. Megið þér þá eigi haldast í öðrum kostum en sættast og geri Þorgeir um mál þessi."

Höskuldur mælti: "Eigi mun það ef nokkur er annar til."

Ófeigur svarar: "Sættast munum vér Þorgeir þó að Guðmundur vilji eigi sættast því að þeir eru enn aflamiklir."

Þeir kváðust fúsastir bræður að þeir reyndu með sér.

En Höskuldur kvaðst mundu bera kviðinn í móti þeim að öðrum kosti "og mun þá fram ganga."

Ófeigur mælti: "Lítið ráð og er illt að gera þingsafglöpun er Þorgeir setur eigi niður dómendur sína."

"Stefna má honum af goðorði sínu," sagði Höskuldur. Ófeigur mælti: "Hver mun það gera? Eigi sé eg þar mann til." Höskuldur mælti: "Eg mun stefna honum af goðorðinu." Ófeigur mælti: "Þá mun atgangur takast."

Höskuldur mælti: "Vér skulum rjóða oss í goðablóði að fornum sið" og hjó hrút einn og kallaði sér goðorð Arnsteins og rauð hendurnar í blóði hrútsins.

Arnsteinn nefndi sér votta en vildi eigi nefna sér dóma fyrir því að hann vildi eigi ber verða í málum þessum. Síðan gekk Höskuldur í þingbrekku og stefndi Þorgeiri af goðorðinu og nefndi votta þar að og síðan dóma.

Þeir áttu þá þing í Fjósatungu upp frá Illugastöðum því að þeir komu eigi fram að vorþingi og riðu ofan á þingið að finna Þorgeir, en létu standa dóminn á meðan, og horfðist þá til atgöngu.

Þá gekk að Snorri Hlíðarmannagoði með fjölmenni og mælti: "Óvænt efni horfist hér til. Nú eru tveir kostir fyrir hendi, að láta þá Höskuld dæma mál sín og kann vera að þeir komi því fram með sínum afla að Þorgeir missi goðorðsins, hinn er annar að sættast. Og erum vér þess fúsari því að með kappi voru málin upp tekin og kann vera að af þeim aukist vandræðin. Er það nú einráðið að sættast."

Var nú þetta ráð tekið og gerðu þeir það mest fyrir bænastað vina og frænda. Voru nú handsöluð mál í dóm og menn til gerðar nefndir. Höfðu þeir Höskuldur virðingarhlut af málum þessum. Sölmundur féll óhelgur. Mikil voru fégjöld ger eftir Arnór en þó eigi á kveðin. Arnsteinn fékk eigi aftur goðorð sitt.

Sörla þáttur