Cover: Færeyinga saga by Óþekktur

Óþekktur

Færeyinga saga

 

SAGA Egmont

1. kafli

Maður er nefndur Grímur kamban; hann byggði fyrstur manna Færeyjar. En á dögum Haralds hins hárfagra flýðu fyrir hans ofríki fjöldi manna; settust sumir í Færeyjum og byggðu þar, en sumir leituðu til annarra eyðilanda.

Auður hin djúpauðga fór til Íslands og kom við Færeyjar og gifti þar Ólöfu dóttur Þorsteins rauðs, og er þaðan kominn hinn mesti kynþáttur Færeyinga, er þeir kalla Götuskeggja, er byggðu í Austurey.

2. kafli

Þorbjörn hét maður; hann var kallaður Götuskeggur. Hann bjó í Austurey í Færeyjum. Guðrún hét kona hans. Þau áttu tvo sonu; hét Þorlákur hinn ellri, en Þrándur hinn yngri. Þeir voru efnilegir menn. Þorlákur var bæði mikill og sterkur; Þrándur var og með því móti þá er hann þroskaðist, en miseldri þeirra bræðra var mikið.

Þrándur var rauður á hár og freknóttur í andliti, fríður sýnum.

Þorbjörn var auðigur maður og var þá gamall, er þetta var tíðenda.

Þorlákur kvændist þar í eyjunum og var þó heima með föður sínum í Götu. Og bráðlega er Þorlákur var kvæntur andaðist Þorbjörn Götuskeggur, og var hann heygður og út borinn að fornum sið, því að þá voru heiðnar allar Færeyjar. Synir hans skiptu arfi með sér, og vildi hvortveggi hafa heimabólið í Götu, þvíað það var hin mesta gersimi. Þeir lögðu hluti á, og hlaut Þrándur.

Þorlákur beiddi Þránd eftir skiptið að hann mundi hafa heimabólið, en hann lausafé meira, en Þrándur vildi það eigi. Fór Þorlákur þá í burt og fékk sér annan bústað þar í eyjunum.

Þrándur seldi á leigu landið í Götu mörgum mönnum og tók leigu sem mesta, en hann réðst til skips um sumarið og hafði lítinn kaupeyri og fór til Noregs og hafði bæjarsetu um veturinn og þótti jafnan myrkur í skapi. Þá réð fyrir Noregi Haraldur gráfeldur.

Um sumarið eftir fór Þrándur með byrðingsmönnum suður til Danmerkur og kom á Haleyri um sumarið. Þar var þá fjölmenni sem mest, og svo er sagt, að þar kemur mest fjölmenni hingað á norðurlönd meðan stendur markaðurinn. Þá réð fyrir Danmörk Haraldur konungur Gormsson er kallaður var blátönn. Haraldur konungur var á Haleyri um sumarið og fjölmenni mikið með honum.

Tveir hirðmenn konungsins eru nefndir, er þar voru þá með honum; hét annar Sigurður, en annar Hárekur. Þessir bræður gengu um kaupstaðinn jafnan og vildu kaupa sér gullhring þann er bestan fengu þeir og mestan. Þeir komu í eina búð þar er harðla vel var um búist. Þar sat maður fyrir og fagnaði þeim vel og spurði hvað þeir vildi kaupa. Þeir sögðust vilja kaupa gullhring mikinn og góðan. Hann kvað og gott val mundu á vera. Þeir spyrja hann að nafni, en hann nefndist Hólmgeir auðgi. Brýtur hann nú upp gersimar sínar og sýnir þeim einn digran gullhring, og var það gersimi sem mest, og mat svo dýrt að þeir þóttust eigi sjá hvort þeir munu allt það silfur fá, er hann mælti fyrir, þegar í stað, og beiddu hann fresta til morgins, en hann játaði því. Nú gengu þeir í burt við svo búið, og leið af sú nótt.

En um morguninn gengur Sigurður í brott úr búðinni, en Hárekur var eftir.

Og litlu síðar kemur Sigurður utan að tjaldskörum og mælti: "Hárekur frændi," sagði hann; "seldu mér sjóðinn skjótt, þann er silfrið er í, það er við ætluðum til hringskaupsins, þvíað nú er samið kaupið, en þú bíð hér meðan og gæt hér búðarinnar."

Nú fær hann honum silfrið út í gegnum tjaldskarirnar.

3. kafli

Nú litlu síðar kemur Sigurður í búðina til bróður síns og mælti: "Tak þú nú silfrið; nú er samið kaupið."

Hann svarar: "Eg fékk þér silfrið skömmu."

"Nei," segir Sigurður; "eg hefi ekki á því tekið."

Nú þræta þeir um þetta. Eftir það segja þeir konungi til. Konungur skilur nú, og aðrir menn, að þeir eru stolnir fénu. Nú leggur konungur farbann, svo að engi skip skulu sigla burt svo búið. Þetta þótti mörgum manni vanhagur mikill, sem var, að sitja um það fram, er markaðurinn stóð.

Þá áttu Norðmenn stefnu sín á milli um ráðagjörðir. Þrándur var á þeirri stefnu og mælti svo:

"Hér eru menn mjög ráðlausir."

Þeir spyrja hann: "Kanntu hér ráð til?"

"Svo er víst," segir hann.

"Lát fram þá þína ráðagjörð," sögðu þeir.

"Eigi mun það kauplaust," segir hann.

Þeir spyrja hvað er hann mælir til.

Hann svarar: "Hver yðvar skal fá mér eyri silfurs," segir hann.

Þeir kváðu það mikið, en það varð kaup þeirra að hver maður fékk honum hálfan eyri þá í hönd, en annan hálfan eyri ef þetta yrði framgengt.

Og hinn næsta dag eftir átti konungur þing og talaði svo, að menn skyldu aldri þaðan lausir meðan eigi yrði víst um töku þessa.

Þá tekur til orða einn ungur maður, vaxið hár af kolli rauður á hárslit og freknóttur og heldur grepplegur í ásjónu, og mælti svo: "Hér eru menn heldur ráðlausir mjög," segir hann.

Ráðgjafar konungsins spyrja, hvert ráð hann sæi til.

Hann svarar: "Það er mitt ráð, að hver maður sá er hér er kominn leggi fram silfur slíkt sem konungur kveður á, og er það fé kemur saman í einn stað, þá bæti þeim er fyrir skaðanum er orðinn, en konungur hafi það sér til sæmdar, er af fram gengur. Veit eg að hann mun vel fyrir sjá, því er hann hlýtur, en menn liggi hér eigi veðurfastir, múgur manns sem hér er saman komið, til svo mikils vanhags."

Hér var skjótt undir tekið af alþýðu, og sögðust gjarna vilja fé fram leggja konungi til sæmdar, heldur en sitja þar sér í vanhag. Og þetta var ráðs tekið, og var þessu fé saman komið; var það óf fjár.

Og þegar eftir þetta sigldi í brottu mikill fjöldi skipa. Konungur átti þá þing, og var þá litið á hið mikla fé, og var þá bræðrum bættur skaði sinn af þessu fé.

Þá talaði konungur um við menn sína hvað af skyldi gjöra þessu hinu mikla fé. Þá tekur til orða einn maður og mælti: "Herra minn," sagði hann; "hvers þykir yður sá verður er þetta ráð gaf til?" segir hann.

Þeir sjá nú að sjá hinn ungi maður hafði þetta ráð til gefið, er þá var þar fyrir konungi.

Þá mælti Haraldur konungur: "Þessu fé skal öllu skipta í helminga; skulu mínir menn hafa helming annan, en þá skal enn skipta öðrum helmingi í tvo staði, og skal þessi ungi maður hafa annan hlut þessa helmings, en eg skal enn sjá fyrir öðrum."

Þrándur þakkaði þetta konunginum með fögrum orðum og blíðum. Varð það svo mikið ófa fé er Þrándur hlaut, er trautt kom markatali á. Sigldi Haraldur konungur í brott og allur saman múgur er þar hafði verið.

Þrándur fór til Noregs með kaupmönnum þeim hinum norrænum er hann hafði þangað með farið, og greiddu þeir honum það fé er hann hafði mælt, og keypti hann sér þar einn byrðing, mikinn og góðan, leggur þar á hið mikla fé er hann hafði fengið í þessi ferð; heldur nú þessu skipi til Færeyja, kemur þar með heilu og höldnu öllu fé sínu og setur nú bú saman í Götu um vorið og skortir nú eigi fé.

4. kafli

Hafgrímur hét maður; hann bjó í Suðurey í Færeyjum. Hann var ríkur maður og harðfengur, auðigur að fé. Guðríður hét kona hans og var Snæúlfsdóttir. Hafgrímur var höfðingi yfir helmingi eyjanna og hélt þeim helmingi í lén af Haraldi konungi gráfeldi, er þá réð fyrir Noregi. Hafgrímur var ákafamaður mikill í skaplyndi og ekki kallaður vitur maður. Einar hét heimamaður hans og var kallaður Suðureyingur. Annar maður hét Eldjárn kambhöttur, er þar var enn með Hafgrími. Hann var margorður og illorður, heimskur og illgjarn, dáðlaus og tilleitinn, lyginn og rógsamur.

Bræður tveir eru nefndir til sögunnar og bjuggu í Skúfey; hét annar Brestir, en annar Beinir. Þeir voru Sigmundarsynir. Sigmundur faðir þeirra og Þorbjörn Götuskeggur, faðir Þrándar, voru bræður.

Þeir Brestir og Beinir voru ágætir menn og voru höfðingjar yfir helmingi eyjanna og héldu þann í lén af Hákoni jarli Sigurðarsyni, er þá hafði ríki nokkuð inn í Þrándheimi, og voru þeir Brestir hirðmenn Hákonar jarls og hinir kærstu vinir. Brestir var allra manna mestur og sterkastur og hverjum manni betur vígur, er þá var í Færeyjum. Hann var sjálegur maður; fimur við alla leika. Beinir var og líkur bróður sínum um marga hluti og komst þó eigi til jafns við hann.

Fátt var með þeim Þrándi, þóað frændsemi væri mikil.

Eigi voru þeir kvongaðir bræður; friðlur áttu þeir; Cecilía hét friðla Brestis, en hin hét Þóra, er fylgdi Beini. Sigmundur hét son Brestis og var snemma mannvænlegur; Þórir hét son Beinis og var tveim vetrum ellri en Sigmundur.

Annað bú áttu þeir bræður í Dímun, og var það minna búið.

Synir þeirra bræðra voru þá ungir mjög er þetta var.

Snæúlfur, mágur Hafgríms, bjó í Sandey og var suðureyskur maður að ætt og flýði úr Suðureyjum fyrir víga sakir og ódældar og til Færeyja. Hann hafði verið í víkingu hinn fyrra hluta ævi sinnar. Hann var þá enn ódæll og harður viðureignar.

5. kafli

Bjarni hét maður er bjó í Svíney, og var kallaður Svíneyjar-Bjarni. Hann var einn gildur bóndi og hafði mikið fé; undirhyggjumaður mikill. Hann var móðurbróðir Þrándar úr Götu.

Þingstöð þeirra Færeyinga var í Straumsey, og þar er höfn sú er þeir kalla Þórshöfn.

Hafgrímur er bjó í Suðurey á þeim bæ er heitir að Hofi, hann var blótmaður mikill, þvíað þá voru heiðnar allar Færeyjar.

Það var eitt haust að Hafgríms bónda í Suðurey, að þeir sátu við sviðelda, Einar Suðureyingur og Eldjárn kambhöttur. Þeir fóru í mannjöfnuð; fylgdi Einar þeim frændum sínum Bresti og Beini, en Eldjárn fylgdi Hafgrími og kallaði Hafgrím framar. Þessu kom svo, að Eldjárn hljóp upp og laust til Einars með tré því er hann hélt á; kom það á öxl Einari, og varð honum illt við. Einar fékk eina öxi og laust í höfuð Kambhött svo að hann lá í óviti, og sprakk fyrir.

En er Hafgrímur varð þessa var, rak hann Einar á brott og bað hann nú fara til Skúfeyinga frænda sinna, er þó hafði hann þeim fylgt; - "og svo mun fara," segir Hafgrímur, "hvort sem er fyrr eða síðar, að vér munum til krækjast og þeir Skúfeyingar."

Einar fór í brott og kom til þeirra bræðra og segir þeim til hversu farið hafði. Þeir tóku við honum vel, og var hann þar um veturinn vel haldinn.

Einar biður Bresti frænda sinn taka við máli sínu, og svo gjörir hann. Brestir var vitur maður og lögkænn.

Og um veturinn fer Hafgrímur á skipi til Skúfeyjar og finnur þá bræður og spurði hverju þeir vildi um svara vansa þann er Einar hafði veitt Eldjárni kambhetti. Brestir svarar, að þeir skulu leggja það mál í hinna bestu manna dóm, svo að það sé jafnsætti. Hafgrímur svarar: "Ekki mun af sættum vorum verða nema eg ráða einn."

Brestir svarar: "Ekki er það jafnsætti, og mun ekki af því verða."

Þá stefndi Hafgrímur Einari til Straumseyjarþings, og skildu við svo búið.

Brestir hafði lýst þegar frumhlaupi því er Kambhöttur hafði veitt Einari, þá er nýorðið var.

Nú koma hvorir tveggju til þings og fjölmenna.

En er Hafgrímur gekk að dómum og ætlaði að hafa fram málið á hendur Einari, þá gengu þeir bræður að öðrum megin, Brestir og Beinir, með miklum flokki, og ónýtti Brestir málið fyrir Hafgrími og óhelgaði Kambhött að fornum landslögum, er hann barði saklausan mann, og hleypti upp dóminum fyrir Hafgrími, en þeir sóttu Eldjárn til útlegðar og fullra sekta. Hafgrímur sagði að þessa mundi hefnt verða. Brestir kveðst þess mundu búinn bíða og kvíða ekki hótum hans.

Skildu nú við svo búið.

6. kafli

Litlu eftir þetta fer Hafgrímur heiman og sex menn með honum og Guðríður kona hans með honum, og hafa eitt skip; fóru til Sandeyjar. Þar bjó Snæúlfur mágur hans, faðir Guðríðar konu hans.

Og er þeir komu að eyjunni sá þeir ekki manna úti á bænum og ekki úti á eyjunni; ganga nú upp til bæjarins og inn í húsin og verða ekki við menn varir; til stofu ganga þau, og er þar sett upp borð og bæði á matur og drykkur, en við menn verða þau ekki vör. Þetta þótti þeim undarlegt, og eru þar um nóttina.

En um morgininn eftir búast þeir í brott og fóru með eyjunni. Þá reri skip í móti þeim annan veg með eyjunni, hlaðið af mönnum, og kenndu þar Snæúlf bónda og hjón hans öll. Hafgrímur reri þá fyrir þá og heilsaði Snæúlfi mági sínum, en hann þagði við. Þá spurði Hafgrímur hver ráð hann legði til með honum um mál þeirra Brestis, að hann mætti fá sæmd sína. Snæúlfur svarar: "Illa er þér farið," segir hann; "leitar á þér betri menn um sakleysi, en ber þó ofvallt lægra hlut."

"Annars þóttumst eg meir þurfi en ávíta af þér," segir hann, "og vil eg eigi heyra þig."

Snæúlfur þreif upp spjót og skaut til Hafgríms. Hafgrímur kom fyrir sig skildi, og stóð þar fast í spjótið, en hann varð ekki sár. Skilja þeir við svo búið, og fer Hafgrímur heim í Suðurey og unir illa sínum hluta.

Þau Hafgrímur og Guðríður kona hans áttu son er Össur hét; hann var þá níu vetra er þetta var tíðenda og hinn efnilegsti maður.

Og nú líða stundir. Fer Hafgrímur heiman og í Austurey til Þrándar, og fagnar Þrándur honum vel. Og nú leitar Hafgrímur ráða við Þránd, hvað hann legði til með honum um mál þeirra Skúfeyinga, Brestis og Beinis; kvað hann mann vitrastan í eyjunum og kveðst gjarna vilja við hann nokkuð til vinna. Þrándur kvað slíks undarlega leitað, að hann mundi vilja vera í nokkurum vélræðum við frændur sína, - "enda mun þér eigi alvara vera. Skil eg og að þér er svo háttað, að þú vildir aðra menn hafa í ráðum með þér, en tímir ekki til að vinna að þú fáir nokkura framkvæmd."

"Svo er eigi," sagði Hafgrímur, "og vil eg þar mikið til vinna að þú sér í ráðum með mér, að eg næða lífi þeirra bræðra."

Þrándur svarar: "Koma mun eg þér í færi við þá bræður" sagði hann, "en þú skalt það til vinna við mig að fá mér tvö kúgildi hvert vor og tvö hundruð hvert haust, og skal sjá skyld vera ævinleg og svo eigi síður eftir þinn dag, og er eg þó eigi þessa búinn, nema fleiri bindist í. Vil eg að þú finnir Bjarna móðurbróður minn í Svíney og haf hann í ráðum með þér."

Hafgrímur játar þessu og fer þaðan til Svíneyjar og finnur Bjarna og beiðir hann þessa hins sama sem Þrándur hafði til lagt með honum. Bjarni svarar svo, að hann mun ekki í það ganga, nema hann hafi nokkur gæði í aðra hönd. Hafgrímur bað hann segja sér sitt skaplyndi. Bjarni mælti: "Þú skalt fá mér hvert vor þrjú kúgildi og hvert haust þrjú hundruð í slátrum."

Hafgrímur játar þessu og fer nú heim við svo búið.

7. kafli