Cover: Bjarnar saga Hítdælakappa by Óþekktur

Óþekktur

Bjarnar saga Hítdælakappa

 

SAGA Egmont

1. kafli

Nú skal segja nokkuð af þeim íslensku mönnum sem uppi voru um daga Ólaf konungs Haraldssonar og hans urðu heimulegir vinir. Nefnir þar til fyrstan ágætan mann, Þorkel Eyjólfsson er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur, því að í þenna tíma var Þorkell í förum og var jafnan með Ólafi konungi vel virður þá er hann var utanlands.

Í þenna tíma bjó Þórður Kolbeinsson á Hítarnesi á Íslandi. Hann var skáld mikið og hélt sér mjög fram til virðingar. Var hann jafnan utanlands vel virður af meira háttar mönnum sakir menntanar sinnar. Þórður var hirðmaður Eiríks jarls Hákonarsonar og af honum vel metinn. Ekki var Þórður mjög vinsæll af alþýðu því að hann þótti vera spottsamur og grár við alla þá er honum þótti dælt við.

Sá maður óx upp með Skúla Þorsteinssyni að Borg er Björn hét og var Arngeirsson og Þórdísar, dóttur Þorfinns stranga og Sæunnar, dóttur Skalla-Gríms. Björn var snemma mikill vexti og rammur að afli, karlmannlegur og sæmilegur að sjá. Björn hafði enn sem margir aðrir orðið fyrir spotti Þórðar og áleitni. Var hann því með Skúla frænda sínum meðan hann var ungur að hann þóttist þar betur kominn sakir áleitni Þórðar Kolbeinssonar en hjá föður sínum. En því get eg eigi þeirra smágreina sem milli fóru þeirra Bjarnar og Þórðar áður Björn kom til Skúla að þær heyra ekki til þessi sögu. Skúli var vel til Bjarnar og virti hann mikils því að hann sá með sinni visku hver sæmdarmaður hann mundi verða í þeirra ætt. Undi Björn allvel sínu ráði meðan hann var með Skúla.

Þá bjó í Hjörsey fyrir Mýrum Þorkell, son Dufgusar hins auðga úr Dufgusdal. Þorkell var auðigur maður að fé og góður bóndi. Hann átti dóttur er Oddný hét, kvenna vænst og skörungur mikill. Hún var kölluð Oddný eykyndill. Björn vandi þangað komur sínar og sat jafnan að tali við Oddnýju Þorkelsdóttur og féllst hvort þeirra öðru vel í skap. Það var talað af mörgum mönnum að það væri jafnræði þó að Björn fengi hennar sér til eiginkonu því að hann var hinn skörulegasti maður og vel menntur.

2. kafli

Þá er Björn hafði verið fimm vetur með Skúla frænda sínum bar það til tíðinda að skip kom í Gufárós. Það skip áttu norrænir menn. Skúli bóndi reið til skips og bauð þegar kaupmönnum til sín því að hann hafði vana til þess að taka við kaupmönnum og eiga gott vinfengi við þá. Fóru þá enn þrír til vistar með honum þegar þeir höfðu upp sett skip sitt. Björn var viðfeldinn við kaupmenn bæði í fylgd og þjónustu og líkaði þeim til hans vel.

Björn kom að máli við Skúla frænda sinn og beiddi að hann mundi koma honum utan með kaupmönnum þessum. Skúli tók því vel, sagði sem satt var að þeir menn fengu margir framkvæmd að miklu voru síður á legg komnir en hann, segist og til skulu leggja með honum slíkt er hann þykist þurfa. Björn þakkaði honum gott tillag við sig bæði þá og fyrr.

Réðst Björn þá í skip með kaupmönnum þessum. Fékk Skúli frændi hans og faðir hans honum góðan farareyri svo að hann var vel sæmdur af að fara með góðum mönnum. Ekki varð sögulegt um þarvist kaupmanna. Fóru þeir nú til skips er voraði og bjuggu og lágu svo til hafs.

Björn reið nú til Borgar að finna Skúla frænda sinn. Og er þeir finnast segir Björn honum að hann vill eigi annað en fá Oddnýjar Þorkelsdóttur áður hann fór brott. Skúli frétti hvort hann hefði nokkuð þetta við hana talað. Hann sagði það víst.

"Þá skulum við fara," segir Skúli og svo gera þeir, koma í Hjörsey og finna Þorkel og dóttur hans Oddnýju.

Hefir Björn þá uppi orð sín og biður Oddnýjar. Þorkell tók þessu vel og skaut mjög til ráða dóttur sinnar. En sakir þess að henni var Björn kunnigur áður og þau höfðu elskast sín á millum mjög kærlega þá játaði hún. Fóru þá þegar festar fram og skyldi hún sitja í festum þrjá vetur og þó að Björn sé samlendur fjórða veturinn og megi eigi til komast að vitja þessa ráðs þá skal hún þó hans bíða. En ef hann kemur eigi til á þriggja vetra fresti af Noregi þá skyldi Þorkell gifta hana ef hann vildi. Björn skyldi og senda menn út að vitja þessa ráðs ef hann mætti eigi sjálfur til koma. Lagði Skúli fram með Birni svo mikið fé að það var eigi minna góss en allt það er Þorkell átti og mundur Oddnýjar dóttur hans.

Skildu þau að þessu og fylgdi Skúli Birni til skips og þá mælti Skúli: "Þá er þú kemur til Noregs Björn og finnur Eirík jarl vin minn, þá ber honum kveðju mína og orðsending til að hann taki við þér og vil eg ætla að hann geri þetta og fær honum gull þetta til jartegna því að þá má hann eigi við dyljast að mér þykir betur."

Björn þakkar Skúla allan þann góðvilja sem hann hafði honum téð síðan hann kom til hans og skildust síðan. Þetta var ofarlega á dögum Eiríks jarls.

Þeir sigldu snemma sumars. Tókst þeim ferð sín greiðlega og komu við Noreg. Fann Björn brátt Eirík jarl og bar honum kveðjur Skúla og jartegnir.

Jarl tók því vel og kveðst gjarna skyldu gera hans erindi "og skaltu, Björn, vera velkominn."

Björn kveðst það gjarnan vilja. Fór hann til hirðar jarls og var með honum í góðu haldi.

3. kafli

Það sama sumar kom skip af Noregi snemma sumars í Straumfjörð. Þórður Kolbeinsson reið til skips og var vís að kaupmenn ætluðu að fara tvívegis og því keypti hann part í skipi og lýsti yfir utanferð sinni.

Þórður átti frænda þann í Danmörk er Hrói hinn auðgi hét. Hann var í Hróiskeldu og átti þar garð. Átti Þórður að taka arf allan eftir hann. Býst hann nú til utanferðar og urðu síðbúnir. Spurðist það til hirðar jarls að Þórður var kominn til Noregs af Íslandi á því skipi sem tvívegis hafði farið um sumarið og það með að hann var stýrimaður og ætlaði að færa jarli kvæði.

Jarl spurði Björn ef honum væri kunnleiki á Þórði.

Björn kveðst gjörla kenna Þórð og kvað hann vera skáld gott "og mun það kvæði rausnarsamlegt er hann flytur."

Jarl mælti: "Þykir þér það ráð Björn að eg hlýði kvæðinu?"

"Það þykir mér víst," segir Björn, "því það mun báðum ykkur til sæmdar."

Og litlu síðar kom Þórður á fund jarls og kvaddi hann sæmilega. Jarl tók því vel og spurði hver hann væri.

Hann kveðst Þórður heita og vera maður íslenskur "og vildi eg að þér hlýdduð kvæði því er eg hefi ort um yður."

Jarl kvað það vel mega. Þórður flutti kvæðið og var það drápa og gott kvæði. Jarl lét vel yfir og bauð honum með sér að vera um veturinn og það þekktist Þórður og var honum vel veitt. Voru þeir Björn báðir með jarli þann vetur.

Þeir menn voru innan hirðar er það fluttu fyrir jarl að þeir mundu engir vinir vera, Björn og Þórður.

Og einn tíma er það sagt að Eiríkur jarl kallaði Þórð fyrir sig og spurði eftir ef Björn væri kunnigur honum eða hví Skúli mundi hafa sent honum þenna mann.

En Þórður segir að Björn væri hinn röskvasti maður "og mér að góðu kunnur og því sendi Skúli yður þenna mann að hann átti eigi annan frænda sæmilegra til."

"Það mun satt vera," segir jarl.

Þórður mælti: "Hafið þér nokkuð spurt eftir hversu gamall maður Björn er?"

"Ekki," segir jarl.

Þórður mælti: "Hann er nú átján vetra og margir röskvir drengir eru hér með yður og mun Björn þeim að fylgja sem fræknastir eru."

Jarli féll það vel í eyru. Ekki lét Þórður það á finna að eigi hefði alla tíma vel verið með þeim Birni.

Og einn dag um veturinn gekk Þórður að Birni og bað hann drekka með sér "erum við nú þar komnir að vist að okkur samir eigi annað en vel sé með okkur og það eitt missætti hafir hér í millum verið að lítils er virðanda og því látum nú vel vera héðan af."

Björn tók því vel. Leið svo framan til jóla.

Og hinn átta dag jóla gaf Eiríkur jarl mála mönnum sínum sem siður er höfðingja til í öðrum löndum. Hann gaf Birni gullhring þann er stóð hálfa mörk og naut hann að því vaskleika síns og Skúla frænda síns. Þórði gaf hann sverð, góðan grip, að kvæðislaunum.

Það var enn eitt kveld um veturinn að Þórður talaði til Bjarnar og voru þeir þá drukknir báðir og þó Björn meir: "Hvað ætlar þú ráða þinna er vorar eða ætlar þú til Íslands?"

"Eigi mun eg í sumri út," segir Björn, "því að eg ætla að biðja orlofs Eirík jarl að hann lofi mér að fara í hernað og afla mér fjár og sæmdar ef svo vill verða."

Þórður svarar: "Það sýnist mér óráðlegt, fengið nú áður góða sæmd og virðing en hætta sér nú svo og far þú miklu heldur með mér í sumar út til Íslands til frænda þinna göfugra og vitja ráðahags þíns."

Björn svarar: "Eigi mun eg þetta sumar út."

Þórður mælti: "Óráðleg sýnist mér þín atferð að fara úr landi með fé mikið en vita eigi hvort þú kemur aftur eða eigi."

"Hefir sá er hættir," segir Björn, "og mun eg í hernað fara."

Þórður mælti: "Send þú þá Oddnýju festarkonu þinni hringinn jarlsnaut og fá mér í hönd því að þá veit hún enn gerr elsku þína og alvöru til sín ef þú sendir henni þvílíkan grip og mun henni þú þá enn hugkvæmri en áður og þér því síður afhuga verða. En ef þú kemur til Íslands út sem vér væntum þá tekur þú bæði hring og konu og allan fjárhlut er þér var með henni heitið, og satt er það, " segir Þórður, "að slíkt kvonfang getur eigi á Íslandi sem Oddný er."

Björn mælti: "Satt segir þú það Þórður að Oddný er hin sæmilegasta kona og fullboðin mér í alla staði og hefðir þú jafnvel verið til mín þá er við vorum á Íslandi sem nú þá mundi eg þetta allt gera sem nú beiðir þú. En vant ætla eg að mér verði að trúa þér og það mun mælt að eg haldi laust jarlsgjöfinni ef eg læt hringinn koma þér í hendur."

Þórður bað hann vitja ráðsins.

Björn kveðst hafa setta menn til þess að gæta "og seg þú Þórður satt til um ferðir mínar er þú kemur út. En eg þykist enn of lítt reynt mig hafa í framgöngu og óvíða kannað hafa góðra manna siðu. En ef eg fer þegar til Íslands þá mun eg eigi nenna að fara svo skjótt frá ráðahag mínum."