Cover: Grettis saga by Óþekktur

Óþekktur

Grettis saga

 

SAGA Egmont

1. kafli

Önundur hét maður. Hann var Ófeigsson burlufóts Ívarssonar beytils. Önundur var bróðir Guðbjargar, móður Guðbrands kúlu, föður Ástu, móður Ólafs konungs hins helga. Önundur var upplenskur að móðurætt en föðurkyn hans var mest um Rogaland og Hörðaland.

Önundur var víkingur mikill og herjaði vestur um haf. Með honum var í hernaði Bálki Blængsson af Sótanesi og Ormur hinn auðgi. Hallvarður hét hinn þriðji félagi þeirra. Þeir höfðu fimm skip og öll vel skipuð. Þeir herjuðu um Suðureyjar og er þeir komu í Barreyjar var þar fyrir konungur sá er Kjarvalur hét. Hann hafði og fimm skip. Þeir lögðu til bardaga við hann og varð þar hörð hríð. Voru Önundar menn hinir áköfustu. Féll margt af hvorumtveggjum en svo lauk að konungur flýði einskipa. Tóku menn Önundar þar bæði skip og fé mikið og sátu þar veturinn. Þrjú sumur herjuðu þeir um Írland og Skotland. Síðan fóru þeir til Noregs.

2. kafli

Í þenna tíma var ófriður mikill í Noregi. Braust þar til ríkis Haraldur lúfa son Hálfdanar svarta. Hann var áður konungur á Upplöndum. Síðan fór hann norður í land og átti hann margar orustur. Herjaði hann svo suður eftir landinu og lagði undir sig hvar sem hann fór. En er hann kom upp á Hörðaland kom í móti honum múgur og margmenni. Voru þar formenn Kjötvi hinn auðgi og Þórir haklangur og þeir Suður-Rygirnir og Súlki konungur.

Geirmundur heljarskinn var þá fyrir vestan haf og var hann ekki við þenna bardaga og þó átti hann ríki á Hörðalandi.

Þetta haust komu þeir vestan um haf, Önundur og hans félagar. En er þeir fréttu það, Þórir haklangur og Kjötvi konungur, þá sendu þeir menn til móts við þá og báðu þá liðs og hétu þeim sæmdum. Réðust þeir þá í lið með Þóri því að þeim var mikil forvitni á að reyna sig og sögðust þeir vildu þar vera sem ströngust væri orustan.

Fundur þeirra Haralds konungs varð á Rogalandi, í firði þeim er heitir í Hafursfirði. Höfðu þeir hvorirtveggju mikið lið. Þessi orusta hefir einhver verið mest í Noregi. Koma hér og flestar sögur við, því að frá þeim er flest sagt er þá segir helst frá. Kom þar og lið um allt landið og margt úr öðrum löndum og fjöldi víkinga.

Önundur lagði skip sitt á annað borð skipi Þóris haklangs. Var það mjög í miðjum hernum. Haraldur konungur lagði að skipi Þóris haklangs því að Þórir var hinn mesti berserkur og fullhugi. Var þar hin harðasta orusta af hvorumtveggjum. Þá hét konungur á berserki sína til framgöngu. Þeir voru kallaðir úlfhéðnar en á þá bitu engi járn. En er þeir geystust fram þá hélst ekki við. Þórir barðist alldjarflega og féll á skipi sínu með mikilli hreysti. Var þá hroðið með stöfnum skipið og höggvið úr tengslum skipið. Seig það þá aftur milli skipanna. Lögðu konungsmenn þá að skipi Önundar. Hann var fram á skipið og barðist djarflega.

Þá mæltu konungsmenn: "Þessi gengur fast fram í söxin. Látum hann hafa nokkurar vorar minjar að hann hafi komið í nokkurn háska."

Önundur stóð út á borðið öðrum fæti og hjó til manns og í því var lagið til hans. Og er hann bar af sér lagið kiknaði hann við. Þá hjó einn af stafnbúum konungs á fót Önundar fyrir neðan kné og tók af fótinn. Önundur varð þegar óvígur. Féll þá mestur hluti liðs hans.

Önundi varð komið á skip til þess manns er Þrándur hét. Hann var Bjarnarson, bróðir Eyvindar austmanns. Hann var á móti Haraldi konungi og lá á annað borð skipi Önundar.

Þessu næst brast sjálfur meginflóttinn. Þeir Þrándur og aðrir víkingar höfðu sig þá í burt hver sem mátti, sigldu síðan vestur um haf. Önundur fór með honum og Bálki og Hallvarður súgandi.

Önundur varð græddur og gekk við tréfót síðan alla ævi. Var hann af því kallaður Önundur tréfótur meðan hann lifði.

3. kafli

Þá voru fyrir vestan haf margir ágætir menn þeir sem flúið höfðu óðul sín úr Noregi fyrir Haraldi konungi því að hann gerði alla útlæga, þá sem í móti honum höfðu barist, og tók undir sig eignir þeirra.

Þá er Önundur var gróinn sára sinna fóru þeir frændur tíu í móts við Geirmund heljarskinn, því að hann var þá frægastur af víkingum fyrir vestan haf, og spurðu hvort hann vildi ekki leita aftur til ríkis þess er hann átti á Hörðalandi og buðu honum fylgd sína. Þóttust þeir eiga eftir eignum sínum að sjá því að Önundur var stórættaður og ríkur. Geirmundur kvað þá orðinn svo mikinn styrk Haralds konungs að honum þótti það lítil von að þeir fengju þar sæmdir með hernaði að menn fengu þá ósigur er að var dreginn allur landslýður, og kveðst eigi nenna að gerast konungsþræll og biðja þess er hann átti áður sjálfur, kveðst heldur mundu leita sér annarra forráða. Var hann þá og af æskuskeiði. Fóru þeir Önundur aftur til Suðureyja og hittu þar marga vini sína.

Ófeigur hét maður og var kallaður grettir. Hann var son Einars Ölvissonar barnakarls. Hann var bróðir Óleifs breiðs, föður Þormóðar skafta. Steinólfur var og sonur Ölvis barnakarls, faðir Unu er átti Þorbjörn laxakarl. Steinmóður var enn son Ölvis barnakarls, faðir Konals, föður Álfdísar hinnar barreysku. Son Konals var Steinmóður, faðir Halldóru er átti Eilífur son Ketils hins einhenda. Ófeigur grettir átti Ásnýju Vestarsdóttur Hængssonar. Ásmundur skegglaus og Ásbjörn voru synir Ófeigs grettis en dætur hans voru þær Aldís, Æsa og Ásvör.

Ófeigur hafði stokkið um haf vestur fyrir ófriði Haralds konungs svo og Þormóður skafti frændi hans og höfðu með sér skuldalið sitt. Þeir herjuðu víða fyrir vestan haf.

Þrándur og Önundur tréfótur ætluðu til Írlands vestur á fund Eyvindar austmanns, bróður Þrándar. Hann hafði landvörn fyrir Írlandi. Móðir Eyvindar var Hlíf, dóttir Hrólfs Ingjaldssonar Fróðasonar konungs, en móðir Þrándar var Helga dóttir Öndótts kráku.

Björn var faðir Þrándar og Eyvindar, son Hrólfs frá Ám. Hann stökk úr Gautlandi fyrir það að hann brenndi inni Sigfast, mág Sölva konungs. Síðan hafði hann farið til Noregs um sumarið og var með Grími hersi um veturinn, syni Kolbjarnar sneypis. Hann vildi myrða Björn til fjár. Þaðan fór Björn til Öndótts kráku er bjó í Hvinisfirði á Ögðum. Hann tók vel við Birni og var hann með honum á vetrum en herjaði á sumrum þar til er Hlíf kona hans lést. Eftir það gifti Öndóttur Helgu dóttur sína Birni og lét Björn þá enn af herförum.

Eyvindur hafði þá tekið við herskipum föður síns og var nú orðinn höfðingi mikill fyrir vestan haf. Hann átti Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.

En er þeir Þrándur og Önundur komu í Suðureyjar fundu þeir þá Ófeig gretti og Þormóð skafta og gerðist með þeim vinátta mikil því að hver þóttist annan úr helju heimtan hafa, þann er eftir hafði verið í Noregi meðan ófriður var sem mestur.

Önundur var hljóður mjög. Og er Þrándur fann það spurði hann eftir hvað honum bjó í skapi.

Önundur svaraði og kvað vísu:

Glatt erat mér síð mættum,

mart hremmir til snemma,

oss stóð geigr af gýgi

galdrs, élþrumu, skjaldar.

Hykk að þegnum þykki,

það er mest, koma flestum,

oss til yndis missu

einhlítt, til mín lítið.

Þrándur kvað hann þar mundu þykja röskvan mann sem hann væri "er þér sá til að staðfesta ráð þitt og kvænast. Skal eg og leggja orð mín til og liðsinni ef eg veit hvar þú hefir hug á."

Önundur kvað honum drengilega fara en kvað kvonföngin horft hafa vænna þau er slægur sé til.

Þrándur svarar: "Ófeigur á dóttur er Æsa heitir. Megum við þar til leita ef þú vilt."

Önundur lést það og vilja.

Síðan töluðu þeir þetta við Ófeig. Hann svarar vel og kveðst vita að maður var stórættaður og ríkur að lausafé "en jarðir hans legg eg ódýrt. Þykir mér hann og eigi heill til ganga en dóttir mín er barn að aldri."

Þrándur kvað Önund röskvara en marga þá er heilfættir væru. Og með liðveislu Þrándar var þessu keypt og skyldi Ófeigur gefa dóttur sinni heiman lausafé því að jarðir þær sem í Noregi voru vildu hvorigir fé kaupa.

Litlu síðar fékk Þrándur dóttur Þormóðar skafta. Skyldu þær sitja í festum þrjá vetur. Síðan fóru þeir í hernað á sumrum en voru í Barreyjum á vetrum.

4. kafli

Vígbjóður og Vestmar hétu víkingar. Þeir voru suðureyskir og lágu úti bæði vetur og sumar. Þeir höfðu átta skip og herjuðu um Írland og gerðu mörg illvirki þar til að Eyvindur austmaður tók landvörn þar. Síðan stukku þeir í Suðureyjar og herjuðu þar og allt inn í Skotlandsfjörðu.

Þeir Þrándur og Önundur fóru í móts við þá og spurðu að þeir höfðu siglt inn til eyjar þeirrar er Bót hét.

Nú koma þeir Önundur þar með sjö skipum. Og er víkingar sjá skip þeirra og vita hversu mörg eru þykjast þeir hafa nógan liðsafla og taka til vopna sinna og leggja skipunum í móti. Önundur bað þá leggja skip sín milli hamra tveggja. Þar var mjótt sund og djúpt. Þar mátti einum megin að leggja og eigi fleirum en fimm senn. Önundur var maður vitur og lét leggja fimm skip fram í sundið svo að þeir máttu þegar láta síga á hömlu er þeir vildu því að rúmsævi var mikið að baki þeim. Var og hólmur nokkur á annað borð. Lét hann þar liggja undir eitt skipið og færðu þeir grjót mikið fram á hamarinn þar er eigi mátti sjá af skipunum.

Víkingar lögðu að alldjarflega og þóttu hinir komnir í stilli. Vígbjóður spurði hverjir þessir væru er þar voru svo kvíaðir.

Þrándur segir að hann var bróðir Eyvindar austmanns "og síðan er hér félagi minn Önundur tréfótur."

Þá hlógu víkingar og mæltu þetta:

Tröll hafi Tréfót allan,

tröllin steypi þeim öllum.

"Og er oss það fáséð að þeir menn fari til orustu er ekki mega sér."

Önundur kvað það eigi vita mega fyrr en reynt væri.

Eftir það lögðu þeir saman skipin. Tókst þar mikill bardagi og gengu hvorirtveggju vel fram. Og er festist bardaginn lét Önundur sígast að hamrinum. Og þá er víkingar sáu það hugðu þeir að hann mundi flýja vilja og lögðu að skipi hans og undir hamarinn sem þeir máttu við komast. Í því bili komu þeir á bjargið er til þess voru settir. Færðu þeir á víkingana svo stórt grjót að ekki hélst við. Féll þá fjöldi liðs af víkingum en sumir meiddust svo að ekki voru vopnfærir. Þá vildu víkingar frá leggja og máttu eigi því að skip þeirra voru þá komin þar mjóst var sundið. Þröngdi þeim þá bæði skipin og straumur en þeir Önundur sóttu að með kappi þar er Vígbjóður var fyrir en Þrándur lagði að Vestmari og vannst þar lítið að.

Þá er fækkaðist fólkið á skipi Vígbjóðs réðu menn Önundar til uppgöngu og hann sjálfur. Það sá Vígbjóður og eggjaði með ákafa lið sitt. Sneri hann þá í móti Önundi og stukku flestir frá. Önundur bað sína menn sjá hversu færi með þeim því að Önundur var rammur að afli. Þeir skutu stubb nokkurum undir kné Önundi og stóð hann heldur fast. Víkingurinn sótti aftan eftir skipinu allt þar til er hann kom að Önundi og hjó að Önundi með sverði og kom í skjöldinn og tók af það er nam. Síðan hljóp sverðið í stubbann þann er Önundur hafði undir knénu og varð fast sverðið. Vígbjóður laut er hann kippti að sér sverðinu. Í því hjó Önundur á öxlina svo að af tók höndina. Þá varð víkingurinn óvígur. Þá er Vestmar vissi að félagi hans var fallinn hljóp hann á það skip er yst lá og flýði og allir þeir er því náðu. Eftir það rannsökuðu þeir valinn.

Vígbjóður var þá kominn að bana.

Önundur gekk að honum og kvað:

Sjáðu hvort sár þín blæða,

sástu nökkuð mig hrökkva?

Auðslöngvir fékk öngva

einfættr af þér skeinu.

Meir er mörgum, snerru,

málskalp lagið, Gjalpar

brjótr erat þegn í þrautir

þrekvandr, en hyggjandi.

Þeir tóku þar herfang mikið og fóru aftur í Barreyjar um haustið.

5. kafli

Annað sumar bjuggust þeir að fara vestur til Írlands. Þá réðust þeir Bálki og Hallvarður vestan um haf og fóru út til Íslands því að þaðan voru sagðir landskostir góðir. Bálki nam land í Hrútafirði. Hann bjó á Bálkastöðum hvorumtveggjum. Hallvarður nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga og bjó þar.

Þeir Þrándur og Önundur komu á fund Eyvindar austmanns og tók hann vel við bróður sínum. En er hann vissi að Önundur var þar kominn þá varð hann reiður og vildi veita honum atgöngu. Þrándur bað hann eigi það gera, kvað það eigi standa að gera ófrið norrænum mönnum, allra síst þeim er með öngri óspekt fara. Eyvindur kvað hann farið hafa fyrr og gert ófrið Kjarval konungi, sagði hann nú þess skyldu gjalda. Áttu þeir bræður lengi um þetta að tala allt þar til er Þrándur kvað eitt skyldu ganga yfir þá Önund báða. Lét þá Eyvindur sefast. Dvöldust þeir þar lengi um sumarið og fóru þeir með Eyvindi í herfarir. Þótti honum Önundur hinn mesti hreystimaður. Fóru þeir til Suðureyja um haustið. Gaf Eyvindur Þrándi arf allan eftir föður þeirra ef Björn andaðist fyrr en Þrándur. Voru þeir nú í Suðureyjum þar til er þeir kvæntust og nokkura vetur síðan.

6. kafli

Það bar næst til tíðinda að Björn andaðist, faðir Þrándar. Og er það frétti Grímur hersir fór hann til móts við Öndótt kráku og kallaði til fjárins eftir Björn en Öndóttur kvað Þránd eiga arf eftir föður sinn. Grímur kvað Þránd fyrir vestan haf en Björn gauskan að ætt og kvað konung eiga að erfa alla útlenda menn. Öndóttur kvaðst halda mundu fénu til handa Þrándi dóttursyni sínum. Fór Grímur við það á brott og fékk ekki af fjárheimtum.

Þrándur spurði nú lát föður síns og bjóst þegar af Suðureyjum og Önundur tréfótur með honum en þeir Ófeigur grettir og Þormóður skafti fóru út til Íslands með skuldalið sitt og komu út á Eyrum fyrir sunnan landið og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli. Síðan námu þeir Gnúpverjahrepp. Ófeigur nam hinn ytra hlut, á milli Þverár og Kálfár. Hann bjó á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti. En Þormóður nam hinn eystra hlut og bjó hann í Skaftaholti. Dætur Þormóðar voru þær Þórvör, móðir Þórodds goða á Hjalla, og Þórvé, móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka.

Nú er að segja frá þeim Þrándi og Önundi að þeir sigldu vestan um haf til Noregs og fengu svo mikið hraðbyri að engi njósn fór um ferð þeirra fyrr en þeir komu til Öndótts kráku.

Hann tók vel við Þrándi og sagði honum frá tilkalli því er Grímur hersir hafði haft um arf Bjarnar "líst mér betur komið frændi að þú erfir föður þinn en konungsþrælar. Hefir þér og gæfusamlega til tekist er engi maður veit um ferðir þínar. En grunar mig að Grímur stefni að öðrum hvorum okkrum ef hann má. Vil eg að þú takir arfinn undir þig og hafir þig til annarra landa."

Þrándur kveðst svo gera mundu. Tók hann þá við fénu og bjóst sem skyndilegast í brott úr Noregi.

Áður Þrándur sigldi á haf þá spurði hann Önund tréfót hvort hann vildi ekki leita til Íslands.

Önundur kveðst áður vilja finna frændur sína og vini suður í landi.

Þrándur mælti: "Þá munum við nú skilja. Vildi eg að þú sinnaðir frændum mínum því að þangað mun hefndum snúið ef eg kemst undan. Mun eg fara út til Íslands og svo vildi eg að þú færir."

Önundur hét því. Skildu þeir með kærleikum. Fór Þrándur út til Íslands. Tóku þeir Ófeigur og Þormóður skafti vel við honum. Þrándur bjó í Þrándarholti. Það er fyrir vestan Þjórsá.

7. kafli

Önundur fór suður á Rogaland og hitti þar marga frændur sína og vini. Dvaldist hann þar á laun með þeim manni er Kolbeinn hét. Hann spurði að Haraldur konungur hafði tekið undir sig eignir hans og skipað þeim manni er Hárekur hét. Hann var ármaður konungs. Önundur fór til hans um nótt og tók hús á honum. Var Hárekur til höggs leiddur. Önundur tók þar allt lausafé það er þeir náðu en brenndu bæinn. Hafðist hann þá við í ýmsum stöðum um veturinn.

Þetta haust drap Grímur hersir Öndótt kráku fyrir það er hann náði eigi fénu til handa konungi en Signý kona Öndótts bar á skip allt lausafé þeirra þegar hina sömu nótt og fór með sonu sína, Ásmund og Ásgrím, til Sighvats föður síns. Litlu síðar sendi hún sonu sína í Sóknadal til Héðins fóstra síns og undu þeir þar litla hríð og vildu fara aftur til móður sinnar. Fóru þeir síðan og komu til Ingjalds tryggja í Hvini að jólum. Hann tók við þeim fyrir áeggjan Gyðu konu sinnar. Voru þeir þar um veturinn.

Um vorið kom Önundur á Agðir norður því að hann hafði spurt fráfall Öndótts og að hann var drepinn. En er hann fann Signýju spurði hann hana hverja liðveislu þau vildu af honum þiggja. Hún sagði að þau vildu gjarna hefna Grími hersi fyrir víg Öndótts. Var þá sent eftir Öndóttssonum og er þeir fundu Önund tréfót lögðu þeir saman lag sitt og héldu fréttum um athafnir Gríms.

Um sumarið var ölhita mikil að Gríms því að hann hafði boðið heim Auðuni jarli. Og er það fréttu þeir Önundur og Öndóttssynir fóru þeir til bæjar Gríms og báru þar eld að húsum, því að þeir komu á óvart, og brenndu Grím hersi inni og nær þrjá tigu manna. Þeir tóku þar marga góða gripi. Önundur fór til skógar en þeir bræður tóku bát Ingjalds fóstra síns og reru í brott og lágu í leyni skammt frá bænum.

Auðunn jarl kom til veislu sem ætlað var og saknaði þar vinar í stað. Safnaði hann að sér mönnum og dvaldist þar nokkurar nætur og fréttist ekki til Önundar og þeirra félaga. Jarl svaf í lofti einu við þrjá menn.

Önundur vissi öll tíðindi af bænum og sendi eftir þeim bræðrum. Og er þeir fundust spurði Önundur hvort þeir vildu heldur geyma bæinn eða ganga að jarli. Þeir kjöru að ganga að jarli. Þeir skutu stokki á loftsdyrnar svo að hurðin brotnaði. Síðan greip Ásmundur þá tvo er voru með jarli og rak niður svo hart að þeim hélt við bana. Ásgrímur hljóp að jarli og bað hann greiða sér föðurgjöld því að hann hafði verið í atför og ráðum með Grími hersi þá er Öndóttur var drepinn. Jarl kveðst ekki fé hafa hjá sér og bað fresta um gjaldið. Ásgrímur setti þá spjótsoddinn fyrir brjóst jarli og bað hann greiða í stað. Jarl tók þá men af hálsi sér og þrjá gullhringa og guðvefjarskikkju. Ásgrímur tók við fénu og gaf jarli nafn og kallaði hann Auðun geit.

Þá er bændur og héraðsmenn urðu varir við að ófriður mundi að kominn gengu þeir út og vildu veita lið jarli. Varð þar hörð hríð því að Önundur hafði margt manna. Þar féllu margir góðir bændur og hirðir menn jarls. Nú komu þeir bræður og sögðu hversu farið hafði með þeim jarli.

Önundur kvað það illa er jarl var eigi drepinn "væri það Haraldi konungi hefnd nokkur fyrir það er vér höfum misst fyrir honum."

Þeir kváðu jarli þetta meiri smán og fóru síðan á brott og inn í Súrnadal til Eiríks ölfúss, lends manns. Hann tók við þeim öllum um veturinn.

Þá höfðu þeir samdrykkju um jólin við þann mann er Hallsteinn hét og kallaður hestur og veitti Eiríkur fyrr vel og trúlega. Síðan veitti Hallsteinn og varð þeim þá að áskilnaði. Hann laust Eirík með dýrshorni. Eiríkur gat eigi hefnt sín og fór heim við það.

Þetta líkaði stórilla Öndóttssonum og nokkuru síðar fór Ásgrímur til bæjar Hallsteins og gekk inn einn og veitti Hallsteini mikinn áverka. Þeir hlupu upp sem inni voru og sóttu að Ásgrími. Ásgrímur varðist vel og komst úr höndum þeim í myrkrinu en þeir þóttust drepa hann.

Það fréttu þeir Önundur og Ásmundur og hugðu að Ásgrímur væri dauður og þóttust ekki mega að gera. Réð Eiríkur þeim að þeir leituðu til Íslands, kvað þeim ekki mundu duga að vera þar í landi þegar konungur mætti sér svo við koma. Þeir gerðu svo, bjuggust nú til Íslands og hafði sitt skip hvor þeirra. Hallsteinn lá í sárum og lést áður þeir Önundur sigldu. Kolbeinn réðst í skip með Önundi, sá er fyrr er getið.

8. kafli

Þeir Önundur og Ásmundur létu í haf er þeir voru búnir og höfðu samflota.

Þá kvað Önundur þetta:

Þótti eg hæfr að Hrotta

hreggvindi fyrr seggjum,

þá er geirhríðar gnúði

grand hvasst, Og Súgandi.

Nú verðr á skæ skorðu,

skáldi sígr, að stíga

út með einum fæti

Íslands á vit, þvísa.

Þeir höfðu útivist harða og veður þver mjög af suðri. Bar þá norður í haf. Þeir fundu Ísland og voru þá komnir fyrir norðan Langanes er þeir kenndust við. Þá var svo skammt í milli þeirra að þeir töluðust við. Sagði Ásmundur að þeir mundu sigla til Eyjafjarðar og því játuðu hvorirtveggju. Beittu þeir þá undir landið. Þá tók veðrið að styrma af landsuðri. En er þeir Önundur lögðu í nauðbeitu þá lestist ráin. Felldu þeir þá seglið og í því rak þá til hafs undan. Ásmundur komst undir Hrísey og beið til þess er honum byrjaði inn á Eyjafjörð. Honum gaf Helgi hinn magri Kræklingahlíð alla. Hann bjó að Glerá hinni syðri.

Ásgrímur bróðir hans kom út nokkurum vetrum síðar. Hann bjó að Glerá hinni nyrðri. Hann var faðir Elliða-Gríms, föður Ásgríms.

9. kafli

Nú er að segja frá Önundi tréfót að þá rak nokkur dægur. Síðan gekk veðrið á haf. Sigldu þeir þá að landinu. Kenndust þá við þeir er áður höfðu farið að þeir voru komnir vestur um Skaga. Sigldu þeir inn á Strandaflóa og nær Suður-Ströndunum. Þá reru að þeim sex menn á teinæringi og kölluðu út á hafskipið hver fyrir réði. Önundur nefndi sig og spurði hvaðan þeir væru. Þeir kváðust vera húskarlar Þorvalds frá Dröngum.

Önundur spurði hvort numin væru öll lönd um Strandirnar. Þeir kváðu lítið ónumið á Inn-Ströndum en ekki norður þangað. Önundur spurði skipverja sína hvort þeir vildu leita fyrir vestan landið eða hafa slíkt er þeim var til vísað. Þeir kjöru að hafa landið fyrst, sigldu inn eftir flóanum og lögðu fyrst á víkina fyrir Árnesi, skutu þar báti og reru til lands.

Þá bjó þar ríkur maður, Eiríkur snara, er land hafði numið milli Ingólfsfjarðar og Ófæru í Veiðileysu. En er Eiríkur vissi að Önundur var þar kominn bauð hann honum af sér að þiggja slíka hluti sem hann vildi en kvað lítið það er eigi væri numið áður. Önundur kveðst sjá vilja hvað það væri fyrst.

Fóru þeir þá inn yfir fjörðu og er þeir komu inn til Ófæru mælti Eiríkur: "Hér er á að líta. Héðan frá er ónumið og inn til landnáms Bjarnar."

Þá gekk fjall mikið fram þeim megin fjarðanna og var fallinn á snjór.

Önundur leit á fjallið og kvað vísu þessa:

Réttum gengr, en ranga

rennr sæfarinn, ævi,

fákr, um fold og ríki

fleinhvessanda þessum.

Hefi eg lönd og fjöld frænda

flýið en hitt er nýjast.

Kröpp eru kaup ef hreppig

Kaldbak en læt akra.

Eiríkur svarar: "Margur hefir svo mikils misst í Noregi að menn fá þess ekki bætur. Hygg eg og að numin séu flest öll lönd í meginhéruðum. Kann eg því eigi að fýsa þig héðan í brott. Mun eg það halda að þú hafir af mínum jörðum það er þér hentar."

Önundur kveðst það þiggja mundu og nam síðan land frá Ófæru og þær þrjár víkur, Byrgisvík og Kolbeinsvík og Kaldbaksvík til Kaldbakskleifar. Síðan gaf Eiríkur honum Veiðilausu alla og Reykjarfjörð og Reykjanes allt út þeim megin. En um rekann var ekki skilið því að þeir voru svo nógir þá að hver hafði það er vildi.

Önundur gerði bú í Kaldbak og hafði mannmart. En er fé hans tók að vaxa átti hann annað bú í Reykjarfirði.

Kolbeinn bjó í Kolbeinsvík og sat Önundur um kyrrt nokkura vetur.

10. kafli

Önundur var svo frækinn maður að fáir stóðust honum þótt heilir væru. Hann var og nafnkunnigur um allt land af foreldrum sínum.

Þessu næst hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar laxakappa og lauk svo að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfót og reið hann suður um vorið og gisti í Hvammi að Auðar hinnar djúpauðgu. Hún tók allvel við honum því að hann hafði verið með henni fyrir vestan haf.

Þá var Ólafur feilan sonarson hennar fullroskinn. Mjög var Auður þá elligömul. Hún veik á við Önund að hún vildi kvæna Ólaf frænda sinn og vildi að hann bæði Álfdísar hinnar barreysku. Hún var bræðrunga Æsu er Önundur átti. Önundi þótti það vænlegt og reið Ólafur suður með honum.

Og er Önundur hitti vini sína og mága þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og voru lögð til Kjalarnessþings því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lagin í gerð og komu miklar bætur fyrir vígin en Þorbjörn jarlakappi var sekur ger. Hans son var Sölmundur, faðir Sviðu-Kára. Voru þeir frændur lengi utanlands síðan.

Þrándur bauð heim Önundi og þeim Ólafi og svo Þormóður skafti. Fluttu þeir þá bónorðið Ólafs. Var það auðsótt því að menn vissu hver rausnarkona Auður var. Var þessu keypt. Riðu þeir Önundur heim við svo búið. Auður þakkaði Önundi liðveislu við Ólaf.

Þetta haust fékk Ólafur feilan Álfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpauðga sem segir í sögu Laxdæla.

11. kafli

Þau Önundur og Æsa áttu tvo syni. Hét hinn eldri Þorgeir en hinn yngri Ófeigur grettir. Litlu síðar andaðist Æsa. Eftir það fékk Önundur þeirrar konu er Þórdís hét. Hún var dóttir Þorgríms frá Gnúpi í Miðfirði, skyld Miðfjarðar-Skeggja. Við henni átti Önundur þann son er Þorgrímur hét. Hann var snemma mikill maður og sterkur, búsýslumaður mikill og vitur maður.

Önundur bjó í Kaldbak til elli. Hann varð sóttdauður og liggur í Tréfótshaugi. Hann hefir fræknastur verið og fimastur einfættur maður á Íslandi.

Þorgrímur var fyrir sonum Önundar þótt aðrir væru eldri. En er hann var hálfþrítugur að aldri þá hafði hann hærur í höfði. Því var hann kallaður hærukollur. Þórdís móðir hans giftist síðan norður í Víðidal Auðuni skökli. Þeirra son var Ásgeir að Ásgeirsá. Þeir Þorgrímur hærukollur og bræður hans áttu eignir miklar allir saman og skiptu engu með sér.

Eiríkur bjó í Árnesi sem fyrri var getið. Hann átti Ólöfu, dóttur Ingólfs úr Ingólfsfirði. Flosi hét sonur þeirra. Hann var efnilegur maður og átti marga frændur. Þeir komu út hingað þrír bræður, Ingólfur og Ófeigur og Eyvindur, og námu þeir þá þrjá fjörðu er við þá eru kenndir og byggðu þar síðan. Ólafur hét son Eyvindar. Hann bjó fyrst í Eyvindarfirði en síðan að Dröngum og var mikill maður fyrir sér.

Engi varð áskilnaður með mönnum þar meðan hinir eldri menn lifðu. En þá er Eiríkur var látinn þótti Flosa Kaldbeklingar eigi hafa löglegar heimildar á jörðum þeim er Eiríkur hafði gefið Önundi. Af því gerðist sundurþykki mikið meðal þeirra en þó héldu þeir Þorgrímur sem áður. Ekki máttu þeir þá leika saman eiga.

Þorgeir var fyrir búi þeirra bræðra í Reykjarfirði og reri jafnan til fiska því að þá voru firðirnir fullir af fiskum.

Nú gera þeir ráð sitt í Víkinni. Maður hét Þorfinnur. Hann var húskarl Flosa í Árnesi.

Þenna mann sendi Flosi til höfuðs Þorgeiri. Hann leyndist í naustinu. Þenna morgun bjóst Þorgeir á sjá að róa og tveir menn með honum og hét annar Brandur. Þorgeir gekk fyrst. Hann hafði á baki sér leðurflösku og í drykk. Myrkt var mjög. Og er hann gekk ofan frá naustinu þá hljóp Þorfinnur að honum og hjó með öxi á milli herða honum og sökk öxin og skvakkaði við. Hann lét lausa öxina því að hann ætlaði að eigi mundi þurfa um að binda og vildi forða sér sem skjótast.

Er það af Þorfinni að segja að hann hljóp norður í Árnes og kom þar áður en alljóst var og sagði víg Þorgeirs og kveðst mundu þurfa ásjá Flosa, kvað það og eitt til að bjóða sættir "og bætir það helst vort mál svo mikið sem að er orðið."

Flosi kveðst fyrst mundu hafa fréttir "og ætla eg að þú sért allhræddur eftir stórvirkin."

Nú er að segja frá Þorgeiri að hann snaraðist við höggið og kom öxin í flöskuna en hann varð ekki sár. Þeir leituðu ekki mannsins því að myrkt var að. Reru þeir út eftir fjörðum og komu í Kaldbak og sögðu atburð þenna.

Þeir gerðu að þessu kalls mikið og kölluðu hann Þorgeir flöskubak og svo hét hann síðan. Þá var þetta kveðið:

Fyrr lauguðu frægir

fránhvítinga rítar

rausnarmenn í ranni

ræfrhvössu bensævar.

Nú rauð, sá er var víða,

vómr, frá tekinn sóma,

benja skóðs af bleyði

bæði hlýr í sýru.

12. kafli

Í þann tíma kom hallæri svo mikið á Ísland að ekki hefir jafnmikið komið. Þá tók af nálega allan sjávarafla og reka. Það stóð yfir mörg ár.

Á einu hausti urðu þangað sæhafa kaupmenn á hafskipi og brutu þar í Víkinni. Flosi tók við þeim fjórum eða fimm. Steinn hét sá er fyrir þeim var. Víða vistuðust þeir þar um Víkina og ætluðu að gera sér skip úr skipbrotunum og varð þeim það óhægt. Skipið varð lítið til skutanna en breitt um miðbyrðið.

Um vorið kom veður mikið af norðri. Það hélst nær viku. Eftir veðrið könnuðu menn reka sína.

Þorsteinn hét maður er bjó á Reykjanesi. Hann fann hval rekinn innan fram á nesinu þar sem hét að Rifskerjum. Það var reyður mikil. Hann sendi þegar mann til Flosa í Vík og svo til næstu bæja.

Einar hét sá maður er bjó að Gjögri. Hann var landseti Kaldbeklinga og skyldi geyma reka þeirra þeim megin fjarða. Hann varð var við að hvalurinn var rekinn. Hann tók þegar skip sitt og reri yfir um fjörðuna til Byrgisvíkur. Þaðan sendi hann mann í Kaldbak. Og er þetta spurði Þorgrímur og þeir bræður bjuggust þeir sem hvatast og voru tólf á teinæringi. Þeir Kolbeinssynir fóru og með þeim, Ívar og Leifur, og voru sex saman. Allir bændur þeir er við komust fóru til hvalsins.

Nú er að segja frá Flosa að hann sendi eftir frændum sínum norður í Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð og eftir Ólafi Eyvindarsyni er þá bjó að Dröngum. Flosi kom fyrst og þeir Víkurmenn. Þeir tóku þegar til skurðar og var dreginn á land sá er skorinn var. Þeir voru nær tuttugu menn í fyrstu en skjótt fjölgaðist fólkið.

Í því komu Kaldbeklingar með fjögur skip. Þorgrímur veitti tilkall til hvalsins og fyrirbauð Víkurmönnum skurð og skipti og brautflutning á hvalnum. Flosi bað hann sýna ef Eiríkur hefði gefið Önundi tréfót með ákveðnum orðum rekann ella kveðst hann mundu vígi verja. Þorgrímur þóttist liðfár og réð því eigi til atgöngu.

Þá reri skip innan yfir fjörðu og sóttu knálega. Þeir komu að brátt. Þar var Svanur af Hóli úr Bjarnarfirði og húskarlar hans. Og þegar hann kom bað hann Þorgrím eigi láta ræna sig. En þeir voru áður vinir miklir og bauð Svanur honum lið sitt. Þeir bræður kváðust það þiggja mundu. Lögðu þeir þá að rösklega. Þorgeir flöskubakur réð fyrst upp á hvalinn að húskörlum Flosa. Þorfinnur, er fyrr var getið, skar hvalinn. Hann var fram við höfuðið og stóð í spori er hann hafði gert sér.

Þorgeir mælti: "Þar færi eg þér öxi þína."

Síðan hjó hann á hálsinn svo að af tók höfuðið.

Flosi var uppi á mölinni er hann sá þetta. Hann eggjaði þá sína menn til móttöku. Nú berjast þeir lengi og veitti Kaldbeklingum betur. Fáir menn höfðu þar vopn nema öxar þær er þeir skáru með hvalinn og skálmir. Hrukku Víkurmenn af hvalnum í fjöruna. Austmenn höfðu vopn og urðu skeinuhættir. Steinn stýrimaður hjó fót undan Ívari Kolbeinssyni en Leifur bróðir Ívars laust félaga Steins í hel með hvalrifi. Þá var með öllu barið því er til fékkst og féllu þar menn af hvorumtveggjum.

Þessu næst komu þeir Ólafur frá Dröngum með mörgum skipum. Þeir veittu Flosa. Urðu Kaldbeklingar þá bornir ofurliði. Þeir höfðu áður hlaðið skip sín. Svanur bað þá ganga á skip sín. Létu þeir þá berast fram að skipunum. Víkurmenn sóttu þá eftir. Og er Svanur var kominn að sjánum hjó hann til Steins stýrimanns og veitti honum mikinn áverka. Síðan hljóp hann á skip sitt. Þorgrímur særði Flosa miklu sári og komst við það undan. Ólafur hjó til Ófeigs grettis og særði hann til ólífis. Þorgeir þreif Ófeig í fang sér og hljóp með hann á skip. Reru þeir Kaldbeklingar inn yfir fjörðu. Skildi þá með þeim.

Þetta var kveðið um fundinn:

Hörð frá eg heldr að yrðu

hervopn að Rifskerjum

mest því að marglr lustu

menn slyppir hvalklyppum.

En málm-Gautar móti

mjög fast hafa kastað,

oss líst ímun þessi

óknyttin, þvestslyttum.

Síðan varð komið á með þeim griðum og lögðu þeir málin til alþingis. Veittu þeir Kaldbeklingum Þóroddur goði og Miðfjarðar-Skeggi og margir Sunnlendingar. Varð Flosi sekur og margir þeir er að höfðu verið með honum. Varð honum þá féskylft mjög því að hann vildi einn halda upp fébótum. Þeir Þorgrímur gátu eigi sýnt að þeir hefðu fé lagið fyrir jarðirnar og rekann er Flosi kærði eftir.

Þorkell máni hafði þá lögsögu. Var hann þá beiddur úrskurðar. Honum kveðst það lög sýnast að nokkuð hefði fyrir komið þótt eigi væri fullt verð "því að svo gerði Steinunn hin gamla við Ingólf afa minn að hún þá af honum Rosmhvalanes allt og gaf fyrir heklu flekkótta og hefir það ekki rift orðið. Munu þar stærri rið í vera. En hér legg eg til ráð," segir hann, "að skipað sé brotgeiranum og hafi hvorirtveggju að jafnaði. Síðan sé það lögtekið að hver eigi reka fyrir sinni jörðu."

Þetta var gert. Var þá svo skipt til að þeir Þorgrímur létu Reykjarfjörð og allt út þeim megin en þeir skyldu eiga Kamb. Ófeigur var bættur miklu fé. Þorfinnur var ógildur. Þorgeiri var bætt fyrir fjörráð. Síðan sættust þeir.

Flosi réðst til Noregsferðar með Steini stýrimanni en seldi jarðir sínar í Víkinni Geirmundi hvikatimbur. Bjó hann þar síðan. Skip það er kaupmenn höfðu gert var mjög breiðvaxið. Það kölluðu menn Trékylli og þar er víkin við kennd. Á því fór Flosi utan og varð afturreka í Öxarfjörð. Þaðan af gerðist saga Böðmóðs og Grímólfs og Gerpis.

13. kafli

Eftir þetta skiptu þeir Þorgrímur bræður fé með sér. Tók Þorgrímur lausafé en Þorgeir löndin. Réðst Þorgrímur þá inn til Miðfjarðar og keypti land að Bjargi með ráði Skeggja. Þorgrímur átti Þórdísi dóttur Ásmundar undan Ásmundargnúpi er numið hafði Þingeyrasveit.

Þau Þorgrímur og Þórdís áttu son er Ásmundur hét. Hann var mikill maður og sterkur og vitur og hærður manna best. Hann hafði snemma hærur í höfði. Því var hann kallaður hærulangur eða hærulagður.