Cover: Ronin 5 - Uppgjörið by Jesper Nicolaj Christiansen

Jesper Nicolaj Christiansen

Ronin 5 - Uppgjörið

 

SAGA

Ronin 5 - Uppgjörið

 

 

FLJÓTIÐ

 

Báturinn rann í gegnum svart vatnið. Þeir voru umluktir þögn. Það var eins og öll hljóð heimsins hefðu horfið. Enginn þeirra þorði að tala af ótta við að raddir þeirra yrðu svo háværar að þær myndu brjóta þögnina eins og gler. Og ef þeir hreyfðu sig örlítið myndi braka í bátnum og brakið myndi hljóma eins og þruma. Ekki einu sinni Daigoro, sem synti við hlið bátsins, gaf frá sér hljóð.

Okami stóð við skutstöngina í bátnum. Hann starði út á sjóndeildarhringinn sem var kolsvartur. Rétt fyrir aftan Okami sat hinn handalausi Akama. Hann var með ör á milli tannanna og bogann við fætur sér. Gegnt honum sat Yeo og starði ofan í svart og kalt vatnið, með spjótið til reiðu.  

Goseki sat fyrir framan Ronin og hreinsaði klærnar. Ronin þoldi þögnina ekki lengur.  “Goseki?” Hvíslið í honum hljómaði eins og hávært stríðsöskur. Allir horfðu á hann og síðan aftur á lygnt vatnið.

Goseki kinkaði kolli.

“Ég barðist einu sinni við mann, Shogun. Hann sagðist vera frá Goseki-ryû. Þekkir þú hann?”

Goseki kinkaði aftur kolli. “Þegar ég fór frá Daimyo stofnaði ég minn eigin skóla en var fljótur að loka honum þegar ég komst að því að nemendurnir mínir notuðu nýfengna þekkingu sína sjálfum sér í hag. Shogun var einn af nemendunum mínum.

“En kenndirðu ekki nemendunum þínum að berjast?” spurði Ronin.

Goseki horfði vonsvikinn á hann. “Heldurðu að það sé málið? Að berjast? Þetta er lífsstíll, drengur minn. Við höfum allir valið okkur leið í lífinu og leiðirnar hafa leitt okkur aftur á upphafsreit. Nú er komið að því að ljúka því sem við byrjuðum á.”

“Uss.” Heyrðist frá Okami í skutnum.