Cover: Tolkien - ævisaga by Michael White

Michael White

Tolkien

Ævisaga

SAGA Egmont

Cakk

M argir hafa lagt hönd á plóginn við útgáfu bókarinnar. Sérstaklega vil ég þakka umboðsmanni mínum Russ Galen sem tókst á erfiða samninga og útgefendum mínum báðum megin Atlandshafsins, Alan Samson hjá Little & Brown í

London og Gary Goldstein hjá Alpha i New York. Ég hef fengið ómælda aðstoð frá Jude Fischer og Peter Schneider sem veittu bókmenntalegar upplýsingar og frá Josephina Miruvin sem sýndi ómældan áhuga og gaf mér góða tengiliði á Internetinu.

Einnig fær Michael Crichton þakkir mínar, því án hans hjálpar hefði bókin verið skrifuð af allt öðrum rithöfundi. Að lokum, kærar þakkir til konunnar minnar Lísu, fyrir mikilvæga og hlutlausa sýn á Tolkien sem ég hefði annars ekki skilið.

Michael White, september 2001.

Inngangur

E g kynntist verkum Tolkiens frekar seint, miðað við það sem gengur og gerist. Ég var 17 ára þegar skólafélagi minn færði mér lúið og þvælt eintak af Hringadróttinssögu og sagði mér að þessa bók yrði ég að lesa. En þó að ég hafi slegist frekar seint í harðasta aðdáendahóp Tolkiens þá má segja að ég hafi unnið það upp með því að lesa frægasta verk hans átta sinnum. Ég varð svo heltekinn af þessari hetjusögu og harmleik, þessu tímalausa ævintýri, að um leið og ég hafði lokið við síðasta kaflann þurfti ég að byrja aftur á þeim fyrsta.

Fyrr en varði var ég farinn að safna saman öllum þeim upplýsingum um Tolkien sem ég gat komist yfir. Ég las auðvitað Hobbitann og þýðingu Tolkiens á Bjólfskviðu, ég las bækur hans Farmer Giles of Ham, Leaf By Niggle og fleiri minna þekkt verk. Síðan gerðist það árið 1977, ári eftir að ég hafði komist í kynni við Hringadróttinssögu, að ég fékk fréttir af því að verkið Silmarillion væri loksins að koma út. Á útgáfudaginn stóð ég í biðröð við bókabúðina í hverfinu mínu kl. 8 að morgni, til að ná í eintakið mitt sem ég hafði pantað fyrir fram. Klukkustund síðar var ég á leiðinni á biðstöðina til að taka vagninn heim, byrjaður að lesa um álfa og menn og rakst utan í vegfarendur sem voru að flýta sér í vinnuna.

Um þetta leyti var ég byrjaður að sinna tónlist. Ég var að læra á gítar og spilaði með skólahljómsveitum á fyrsta ári mínu í háskóla. Í fullkominni andstöðu við tískusveiflur þessarra ára (pönkið var í algleymingi) stofnaði ég hljómsveitir sem hétu nöfnum á borð við Palantir og samdi söngtexta um persónur eins og Galadriel. Minningin um þetta fyllir mig hryllingi. En þegar ég reyni að horfa á þetta úr fjarlægð virðist mér ljóst að aðdáun mín á verkum Tolkiens hafi sprottið af einhverju afskaplega áhrifamiklu og merkilegu. Pað hlýtur að hafa verið eitthvað einstaklega aðlaðandi við Miðgarð sem hafði þessi áhrif.

Löngu seinna uppgötvaði ég að milljónir annarra höfðu farið sömu leið og orðið gríðarlega miklir Tolkien-aðdáendur; sumir höfðu jafnvel stofnað hljómsveitir sem sungu lög um Miðgarð. Vinurinn sem kynnti mér Hringadróttinssögu í upphafi var stúlka og á fyrsta ári mínu í háskóla þótti það góð aðferð til að kynnast stúlkum að hafa eintak af þessari sögu í höndunum þegar gengið var um skólagangana. Og ég veit um eina manneskju sem lagði það á sig að læra íslensku vegna áhrifa frá Tolkien og verkum hans. En kannski fór sá hópur óhjákvæmilega vaxandi sem var í nöp við verk Tolkiens einfaldlega vegna þess að hann átt sér svo marga einlæga aðdáendur. Andtískuviðbröð þeirra eru skiljanleg. Þegar einhver verður heltekinn af einhverju áhugamáli þá verður viðkomandi leiðinlegur þeim sem standa utan við. Tolkien höfðar ekki til allra og þeim sem fannst lítið til Hringadróttinssögu koma hlutu að bregðast við með hryssingi og kaldhæðni.

Árið sem ég uppgötvaði Tolkien ákvað einn af bestu vinum mínum í skólanum að snúast af hörku gegn Tolkienmenningunni sem honum fannst vera orðin ógnvænleg.

Hann reyndi ekki í eitt einasta skipti að lesa Hringadróttinssögu en þess í stað stúderaði hann af alúð grínútgáfu National Lampoonshópsins á sögunni, Bored of the Rings. Hann svaraði mér ekki þegar ég spurði hvernig hann gæti haft gaman af skopstælingu á bók sem hann hefði ekki lesið.

Vitaskuld róaðist ég með tímanum. Smám saman dró úr Tolkien áhrifunum á mig og ég byrjaði að semja lög og texta um ástina, kynlífið og dauðann en það sem var mikilvægara, ég fór að lesa fjölbreyttara efni. En ég yfirgaf Tolkien aldrei alveg, alltaf skipaði Hringadróttinssaga ákveðinn sess í huga mér og hjarta og ég minntist bókarinnar með hlýhug. Laust eftir tvítugt flutti ég til Oxford og innan fárra ára hafði ég rutt mér braut sem rithöfundur. Ég vissi um líf Tolkiens í borginni og að hann hefði hitt C.S. Lewis og fleiri á krá sem heitir “Örninn og barnið“. Þar settist ég oft sjálfur niður með bjórglas í von um innblástur af þeirri fortíð sem bjó í veggjunum. Eins og nærri má geta þótti mér verkefnið, að skrifa ævisögu Tolkiens, afar aðlaðandi.

En blekið á útgáfusamningnum var vart þornað þegar efasemdir læddust að mér. Núna þyrfti ég að lesa Hringadróttinssögu aftur, næstum því 25 árum eftir að ég hafði lesið hana í áttunda skiptið. Öðrum þræði hlakkaði ég til en með mér bærðist ótti: Hvernig myndi mér líka bókin núna eftir allan þennan tíma?

Þegar ég lauk við síðasta kafla bókarinnar í áttunda skiptið árið 1977 var ég í þann veginn að hefja háskólanám, hlustaði á Yesplötur og var með hár niður á herðar. Núna var ég orðinn miðaldra með konu og þrjú börn, hafði lesið þúsundir annarra bóka síðan þetta var og núna hlustaði ég bara af og til á Yes. Kæmi ég núna til með að eiga samleið með Aragorni? Myndi ég áfram vilja vita um Gandálf og aðra Istara?

Átti mér kannski eftir að standa á sama um hvað yrði um þá Fróða og Sám? Það hafði nefnilega hent mig áður að endurlesa gamlar uppáhaldsbækur og komast að því að þær höfðuðu ekki lengur til mín. Átti Hringadróttinssaga eftir að fara sömu leið? Kæmi ég til með að halla mér að kaldhæðnisstefnunni og kjósa fremur Bored of the Rings?

Ég keypti nýtt eintak af Hringadróttinssögu og fór með bókina heim. Dögum saman lá hún óopnuð á borðstofuborðinu. Bókin fluttist inn í svefnherbergi og síðan inn á baðherbergi án þess að henni væri flett. Ég byrjaði að rannsaka söguna og afla mér á ný upplýsinga um ævi og samtíma Tolkiens og loks, eftir margra vikna undanbrögð, fékk ég mig til að opna aftur þetta meistaraverk hans.

Auðvitað hreifst ég á ný. Bókin hafði litlu glatað af töfrum sínum og raunar tók ég að finna ný sjónarhorn á söguna og ýmislegt opnaðist mér sem hafði verið hulið við fyrri lesturinn eða vakið lítinn áhuga unglingsins sem ég var. Ég varð kampakátur við þessar uppgötvanir og þungu fargi af mér létt, því hvernig hefði ég átt að geta skrifað um Tolkien ef mér féllu ekki verk hans lengur?

Og nú þegar ég hef aftur sökkt mér niður í veröld Miðgarðs og er endurnærður eftir þá reynslu þá átta ég mig á að kvíði minn var ástæðulaus. Mín trú er sú að annars vegar séu þeir til sem unna af heilum hug veröld Tolkiens og munu ávallt gera og hins vegar séu þeir sem aldrei munu kunna að meta hana.

Vinur minn sem þoldi ekki Tolkien er líka miðaldra núna eins og ég og hann er enn að fussa yfir aðdáun minni á Hringadróttinssögu. Hann hefur ekki lesið bókina ennþá og ætlar aldrei að gera. Sem er kannski eins gott því Tolkien er ávanabindandi.

Við frumrannsóknir mínar á Tolkien lyftist brúnin á mér þegar leitarvélin á Netinu kallaði fram 450 þúsund vefsíður með efni um Tolkien eða Hringadróttinssögu, og margar þessar síður voru furðu fagmannlega unnar og skemmtilegar. Hins vegar undraðist ég hvað margt af hinu svokallaða “opinbera“ efni um Tolkien var fullkomlega laust við hlutlægni og gegnsýrt dýrkun. Ég lít á sjálfan mig sem einlægan aðdáanda Tolkiens en mér blöskrar þögn og verndarhyggja þeirra sem skrifa um hann. Þetta opinbera útgefna efni innihélt engar upplýsingar um einkalíf hans. Allt sem snerti persónuhagi jöfursins var sveipað dulúð, svo sem samband hans við eiginkonu sína og vináttan við C.S. Lewis og aðra kollega. Ekkert af þessu efni lýsir innra lífi Tolkiens eða reynir að skilgreina þá ára sem sóttu á hann. Og það sem er enn verra, tilfinningar Tolkiens, það sem rak hann áfram og skoðanir hans, er sjaldan rannsakað. Eins og þessi bók leiðir í ljós var Tolkien góður maður með gott siðgæði, heiðarlegur og afar gáfaður maður, en hann ber ekki að taka í dýrlingatölu.

Ég hef áður séð menn nánast tekna í guðatölu á þennan hátt. Við rannsóknarvinnu við undirbúning ævisögu minnar um Sir Isaak Newton komst ég að raun um að lærisveinar hans höfðu séð til þess að öldum saman leyndist efni um hann sem sýndi persónuna á bak við manninn sem við lásum um í skólabókunum. Þetta gildir líka um annað viðfangsefni mitt, Stephen Hawking, en sumir samstarfsmenn hans reyna enn að draga upp þá mynd af honum að þar fari persóna sem sé ofar mannlegum skilningi. Í báðum tilvikum kafaði ég undir yfirborðið og fann mun litríkari og líflegri mynd en þá sem haldið hafði verið fram.

Við ritun þessarar bókar gerði ég mér ekki far um að leita að skrímslum og þau einu sem ég fann voru ímyndaðar verur í verkum Tolkiens. En skapandi manneskjur eru sjaldan lausar við sálarstríð þrátt fyrir viðleitni verndara þeirra til að lita lita svo út. Ég leyfi mér að trúa því að einlægir aðdáendur vilji sjá eitthvað meira en bara glansmyndina af hetjunum sínum. Sem aðdáandi Tolkiens vona ég að mér hafi tekist að draga upp nokkuð litríka mynd af þessum vinsælasta rithöfundi sögunnar.

1. kafli

Barnæska

T olkien prófessor stígur hjólhest sinn kröftuglega og finnur fyrir svitanum undir stífum flibbanum. Það er hlýtt í veðri, þetta er eftirmiðdagur snemma sumars rétt eftir lok annar í háskólanum og umferðin eftir aðalbrautinni er strjál. Í hádeginu hitti hann nemanda sinn og aðstoðaði hana í vanda sem hún átti í við að túlka engilsaxneskan texta, keypti blek og pappír í verslun á Turlstræti, skilaði bók á háskólabókasafnið og fann blað með ljóði sem hann hafði verið að skrifa en týnt innan um pappíra í kennslustofunni viku áður. Vanalega gætir hann þess að vera heima í hádeginu og snæða með fjölskyldunni en í dag þurfti hann að mæta á kennarafund og þar með að borða hádegisverð í háskólanum. Núna er hann á heimleið og ætlar að blaða í haug af prófúrlausnum gagnfræðinga sem legið hafa á skrifborðinu hans síðan í byrjun vikunnar.

Þegar hann fer fram hjá Carfaxturninum í miðborg Oxford slær klukkan þrjú og hann byrjar að hjóla hraðar; hann hefur í mesta lagi tvær klukkustundir aflögu í vinnuherberginu þar til hann þarf að hjóla aftur inn í bæinn til að mæta á annan fund í setustofu prófessora í Mertonsháskóla og í huga sér reiknar hann út að honum muni í besta falli takast að yfirfara þrjár prófúrlausnir á þessum tíma. 1

Hann hjólar upp eftir Banburyveginum, beygir til hægri og síðan til vinstri, þá er hann kominn á Northmoorveg þar sem Tolkienfjölskyldan hefur búið í húsi númer 20 síðan snemma á þessu ári, 1930. Tolkien sveiflar sér af reiðhjólinu á meðan það er enn á ferð í innkeyrslunni fyrir utan hús hans. Hann heilsar konu sinni Edith, með því að teygja höfuðið inn um eldhúsgættina og brosa. En þá tekur hann eftir því að fimm mánaða gömul dóttir hans Priscilla, er vakandi og hjalar í fangi móður sinnar. Hann gengur til þeirra, kyssir konuna á kinnina og kitlar Priscillu undir hökunni. Snýr síðan inn í vinnuherbergið, sem er í öðrum enda hússins.

Vinnuherbergi Tolkiens er hugguleg vistarvera, þakin bókahillum sem mynda göng við gættina. Skrifborð prófessorsins er þannig staðsett að hann hefur útsýni til suðurs, nágrannagarðurinn beint fyrir utan gluggann og á hægri hönd er annar stór gluggi sem snýr að götunni fyrir aftan vel snyrta garðflöt. Á borðplötunni er skrifblokk og pennasafn í krukku og til beggja handa eru pappírsstaflar. Vinstra megin eru prófúrlausnir sem á eftir að yfirfara (hár stafli) og hægra megin eru þær úrlausnir sem búið er að yfirfara (mun lægri stafli).

Tolkien kemur sér vel fyrir, dregur pípu sína upp úr jakkavasa, fyllir hana af tóbaki og kveikir í með ýkjukenndri natni. Með pípuna í munninum teygir hann sig eftir efsta blaðinu í staflanum vinstra megin, leggur það niður fyrir framan sig og byrjar að lesa.

Það að yfirfara úrlausnir gagnfræðaprófa, sem eru verkefni 16 ára gamalla ungmenna, er erfitt og leiðinlegt verkefni, en þar sem Tolkien hefur fyrir eiginkonu og fjórum börnum að sjá, veitir honum ekki af að drýgja prófessorslaunin. Þó að þetta sé sálarlaust verkefni yfirfer Tolkien úrslausnirnar samviskusamlega og veitir hverju smáatriði athygli. Hann eyðir hálfri klukkustund í hverja prófúrlausn. Af og til ritar hann athugasemdir á spássíur og einstaka sinnum gerir hann lítið hak við enda málsgreina. Hann flettir blaðsíðunum hægt og allt í kring er friðsæld og þögn sem aðeins er rofin af fugli sem sest á gluggasylluna og golu sem berst inn um opinn gluggann.

Eftir drykklanga stund er Tolkien sáttur við mat sitt á prófúrlausninni og leggur hana efst í staflann til hægri, dregur síðan aðra prófúrlausn ofan af vinstri bunkanum. Tolkien til undrunar er fyrsta blaðsíða úrlausnarinnar auð. Hann finnur til léttis og telur sér hafa verið umbunað fyrir erfiði dagsins: einni blaðsíðu færra að leiðrétta. Hann hallar sér aftur í stólnum og horfir í kringum sig. Skyndilega beinist athygli hans að gólfteppinu hjá einum skrifborðsfætinum. Hann tekur eftir dálítilli holu í teppinu. Hann starir í draumkenndri leiðslu á gatið. Síðan snýr hann sér að auðu blaðinu fyrir framan sig og skrifar: “Í holu í jörðinni bjó hobbiti…“

Þó að Tolkien hafi ekki haft hugmynd um hvers vegna hann skrifaði þetta og ekki minnsta grun um til hvers þetta pár hans ætti eftir að leiða fyrir hann og fjölskyldu hans og framtíðar enskra bókmennta, þá vissi hann að með þessari einföldu setningu hafði hann skrifað eitthvað áhugavert. Honum fannst þetta svo áhugavert eins og hann skýrði síðar frá fann hann sig knúinn til að komast að því “hvernig hobbitar eru“.

Með þessari setningu sem kannski var skrifuð í eintómum leiðindum varð til það sæði sem síðar spruttu af verkin Hobbitinn og Hringadróttinssaga. Þessi verk ásamt Silmarillion og fjölda greinargerða um Miðgarð, áttu í fyllingu tímans eftir að öðlast heimsfrægð, veita milljónum manna ánægju og innblástur og eiga stóran þátt í að stofna nýja bókmenntagrein, fantasíubókmenntir. Innan fárra ára eftir þetta örlagaríka síðdegi vissu þúsundir manna heilmikið um Hobbita og um 1960 var veröld Hobbitanna orðin jafnþekkt og Hollywoodstjörnur eða meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar. Í margra augum er Miðgarður meira en vettvangur fantasíu. Upp frá því sem hefði getað endað sem tilgangslaust krot á blað spruttu hetjusögur í sínum tilbúna heimi; goðafræði nútímans.

 

Saga Tolkienfjölskyldunnar er að mörgu leyti hefðbundin og litlaus. Faðir hans, Arthur Tolkien, var bankagjaldkeri hjá Lloyds í Birmingham. Faðir Arthurs John, hafði framleitt píanó og selt nótnablöð en um það leyti sem Arthur óx úr grasi hættu Tolkienpíanóin að seljast og John Tolkien varð gjaldþrota.

Arthur gerði sér því rækilega grein fyrir þeim hættum sem fylgdu því að vera sjálfs síns herra í atvinnulegu tilliti og mun það hafa átt sinn þátt í því að hann sóttist eftir öruggu starfi í staðarbankanum. En það gekk hægt að vinna sig upp innan bankakerfisins í Birmingham, þrátt fyrir einlægan áhuga og metnað Arthurs. Einu stöðurnar sem losnuðu voru störf þeirra sem létust. Pegar honum bauðst starf handan hafsins var hann ekki lengi að ákveða sig og þiggja það.

Staðan var í útjaðri Bloemfontein í Suður-Afríku hjá The Bank of Africa. Starfið bauð upp á mikla framtíðarmöguleika fyrir ungan og metnaðarfullan mann. Bloemfontein var höfuðstaðurinn í Orangefríríkinu og var að verða mikilvægt námusvæði vegna gullog demantaleitar, og leiddi til fjárfestinga evrópskra og bandarískra auðmanna. Vandamál Arthurs var, að ári áður en hann lagði af stað í förina varð hann ástfanginn af 18 ára stúlku, Mabel Suffield að nafni, og þetta skref á framabrautinni táknaði að hann varð að skilja hana eftir.

Fjölskylda Mabelar var ekki fyllilega sátt við hinn unga Arthur og taldi dóttur sína eiga skilið betra mannsefni. Pessi skoðun var þó grundvölluð á snobbi en ekki persónuleika Arthurs. Suffieldfjölskyldan áleit Tolkienfólkið vera slyppa og snauða innflytjendur (þó að þau síðarnefndu gætu rakið ættir sínar á Englandi margar aldir aftur í tímann) en þó var ekki allt fullkomið hjá Suffieldliðinu. Faðir Mabelarvar sonurvefnaðarvörukaupmanns sem hafði átt sinä eigin verslun en síðar orðið gjaldþrota rétt eins og Tolkien. Um það leyti sem Arthur og Mabel kynntust var John farandsölumaður hjá fyrirtæki sem hét Jeyes og seldi sótthreinsunarvörur.

Þetta hafði lítil áhrif á Arthur og Mabel, fyrir utan það að Hr. Suffield bannaði dóttur sinni að giftast ástinni sinni í það minnsta í tvö ár eftir að hann hafði beðið hennar.

Sem þýddi að Mabel þurfti að bíða frétta af unnusta sínum og vona að aðstæður hans leyfðu, að hún tækist á hendur ferðalag til hans svo þau gætu látið gefa sig saman.

Arthur varð ekki fyrir vonbrigðum. Árið 1890 var hann gerður að framkvæmdastjóra Bloemfonetindeildar Afríkubankans og var á hraðri uppleið. Hann taldi sig vera búinn að koma sér vel fyrir og skrifaði Mabel Suffield bréf og bað hana að koma til sín svo að þau gætu látið gefa sig saman. Mabel var nú orðin 21 árs og parið hafði haldið sambandinu blómstrandi fram yfir þau tímamörk sem faðir Mabelar hafði sett varðandi hjónaband. Mabel lét nú allar mótbárur fjölskyldu sinnar sem vind um eyru þjóta og í marsmánuði árið 1891 keypti hún sér farmiða með gufuskipinu Roslin Castle til Góðrarvonarhöfða.

Í dag er Bloemfontein, sem er staðsett í hjarta Orange-fríríkisins, fremur tilkomulítil borg, en undir lok 18. aldar, þegar Tolkien kom til staðarins, var þetta lítið meira en samansafn nokkur hundruð bygginga. Úr eyðimörkinni blása sterkir vindar yfir bæinn. Íbúar svæðisins í dag njóta loftkældra verslanamiðstöðva og heimila en á þessum tíma voru lífsþægindi lítil í Bloemfontein og lífið lítið betra hjá aðkomufólkinu sem settist að í bænurn en hjá svörtu Afríkubúunum sem bjuggu í hreysum sínum fyrir utan hann.

Parið var gefið saman í heilagt hjónaband í Dómkirkju Höfðaborgar þann 16. apríl árið 1891 og eyddu sínum fáu hveitibrauðsdögum á hóteli nálægt Sea Point. Þegar spennan og nýjabrumið höfðu dvínað gerði Mabel sér grein fyrir því að lífið á þessum stað yrði erfitt.

Hún varð brátt afskaplega einmana og átti erfitt með að eignast vini meðal annarra aðkomumanna í bænum.

Meirihluti bæjarbúa voru Afríkumenn, afkomendur hollenskra aðkomumanna og þeir samlöguðust Englendingunum sem þarna voru fremur treglega. Tolkienhjónin hittu aðra Englendina og Mabel komst oft í hlutverk gestgjafans en hins vegar þótti henni bæinn skorta flest sem máli skipti. Hún hafði líka óbeit á loftslaginu þarna, brennheit sumur með raka í lofti og ískalda vetur.

Hún átti hins vegar ekki annars úrkosta en aðlagast. Arthur vann myrkranna á milli til að styrkja stöðu sína innan Afríkubankans og var sárasjaldan heima. Hann virtist skemmta sér hið besta og það bætti ekki andrúmsloftið. Arthur átt sína vini í vinnunni og var sífellt önnum kafinn og því trufluðu vankantar bæjarlífsins í Bloemfontein hann nánast ekkert. Hann virðist lítið hafa hugsað út í óhamingju Mabelar og leit á hana sem tímabundið þunglyndi.

Mabel reyndi að gera það besta úr öllu og vissulega helgaði hún sig eiginmanni sínum. Af og til tókst henni að draga hann út úr bankanum og fá hann með sér í langar gönguferðir eða tennisleik í eina tennisklúbbi bæjarins. Stundum sátu þau bara saman í stofunni á kvöldin og lásu hvort fyrir annað.

Og þó að Mabel hafi leiðst til að byrja með þá breyttist það snarlega þegar hún skynjaði að hún var ófrísk. Bæði urðu himinlifandi við þessi tíðindi en Mabel hafði áhyggjur af því að bæjarfélagið gæti ekki boðið henni og barninu fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Hún gaf í skyn við Arthur að e.t.v. væri fyrir bestu að þau gerðu hlé á dvöl sinni, færu aftur til Englands og yrðu þar þangað til barnið væri fætt, en Arthur tók það alls ekki í mál. Mabel ákvað því að illskárra væri að vera um kyrrt í Bloemfontein en takast á hendur langa heimferð og fæða barnið án nærveru og stuðnings eiginmannsins.

Sonur þeirra fæddist þann 3. janúar árið 1892. Þau kölluðu hann John en ágreiningur varð um fullt nafn drengsins. Arthur krafðist þess að fjölskylduhefð hans yrði fylgt með því að drengurinn bæri millinafnið Reuel en Mabel kaus frekar Ronald sem millinafn. Hjónin komust að samkomulagi og þann 31. janúar árið 1892 var drengurin skírður í Dómkirkjunni í Bloemfontein John Ronald Reuel Tolkien. Hann var hins vegar aldrei kallaður John. Skólafélagar hans í æsku kölluðu hann oft John Ronald og í háskólanum var hann oft kallaður “Tollers“ sem var nokkuð dæmigert viðurnefni fyrir tíðarandann. Kollegar hans kölluðu hann J.R.R.T. eða stundum formlegar, Tolkien prófessor. Heimurinn hefur þekkt hann undir nafninu J.R.R. Tolkien eða einfaldlega Tolkien.

Æska hans í Suður-Afríku var vissulega framandi og ævintýraleg og gjörólík öllu því sem hann hefði kynnst ef uppvöxturinn hefði verið heima í Birmingham. Nokkrar fjölskyldusögur varðveittust fram á fullorðinsár Tolkiens og hann sagði börnum sínum þær. Ein segir frá því þegar gæluapi nágrannanna strauk inn fyrir girðinguna hjá Tolkienfjölskyldunni og tók að tæta í sundur þrjár barnasvuntur drengsins sem héngu úti á snúru. Öðru sinni ákvað einn af þjónunum, stráklingur að nafni Ísak, að fara með hinn kornunga Ronald heim til sín en fjölskyldan bjó í útjaðri bæjarins. Merkilegt nokk ráku Tolkienhjónin hann ekki á staðnum.

Þetta var vissulega hættulegt umhverfi fyrir barnauppeldi. Veðráttan fór öfganna á milli og fyrsta suðurafríska sumar barnsins var þolraun fyrir Mabel. Allt morandi í flugum og hitinn óbærilegur. Í garðinum þrifust banvænir snákar og mikið var af hættulegum skordýrum. Ársgamalt var barnið bitið af eitraðri könguló. Skjót viðbrögð barnfóstrunnar björguðu lífi drengsins því henni tókst að staðsetja bitið og sjúga eitrið úr líkamanum. 2

Líf Mabelar batnaði til muna við fæðingu barnsins. Arthur var enn önnum kafinn í bankanum en vorið 1892 komu systir og mágur Mabelar, May og Walter Incledon, til Bloemfontein. Walter hafði viðskiptalegan áhuga á S-Afríku og ákvað að kanna gullnámur á svæðinu. Mabel hafði núna nægan félagsskap og fékk hjálp við uppeldi barnsins, en engu að síður var hún komin með heimþrá og líkaði sífellt verr að Arthur skyldi eyða öllum tíma sínum fjarriheimilinu.

Og staðan varð enn snúnari þegar Mabel varð þess vör að hún var vanfær af öðru barni sínu.

Hilary Tolkien fæddist þann 17. febrúar árið 1894 og seinna mátti það ekki vera fyrir Mabel sem hafði gengið í gegnum erfiða meðgöngu. Fljótlega eftir fæðinguna lagðist hún aftur í þunglyndi. Systir hennar og mágur höfðu snúið aftur til Evrópu og núna þurfti hún að ala upp tvö börn í erfiðu umhverfi og án hjálpar eiginmanns síns. Sem betur fór varð Hilary hraustur drengur en Ronald var sífellt veikur og hafði gallað brjósthol sem þoldi illa hitann og rykið á sumrin og kaldan vindinn á veturna. Hann fékk líka húðofnæmi og augnsýkingar. Í nóvember árið 1894 var Mabel orðin örmagna af þrá eftir nýju umhverfi og ferskara lofti; hún fór þá með drengina í löngu tímabært frí til Höfðaborgar. Arthur, sem svo sannarlega þurfti á fríi að halda en gat ekki viðurkennt það, var ósveigjanlegur í þeirri afstöðu að frí gæti hann ekki leyft sér, ekki einu sinni örstutt.

Hann varð eftir í Bloemfontein enn eitt óþolandi svækju sumarið. Mabel var nú orðin harðákvehin í því að fjölskyldan þyrfti að komast í frá rykinu og vindinum. Hún reyndi ákaft að fá Arthur til að taka sér tíma til að heimsækja fjölskyldu sína á Englandi. Hann hafði verið að heiman í næstum sex ár og henni fannst hann a.m.k. eiga rétt á sabbatsári, þ.e. launuðu ársleyfi. En hann vildi ekki heyra á það minnst og taldi að slíkt gæti skaðað stöðu hans í bankanum. Hins vegar komust þau að samkomulagi, að Mabel færi með börnin til Englands og eyddi þar þeim tíma ársins sem taldist til sumars í Afríku. Ef allt færi á besta veg ætlaði Arthur að koma síðar.

í apríl árið 1895 sigldu Mabel, Ronald og Hilary frá Höfðaborg með SSGuelph. Premur vikum síðar komu þau til hafnar í Southampton þar sem Emily Jane, yngsta systir Mabelar, tók á móti þeim, en hún var kynnt drengjunum sem Jane frænka. Pau fóru til Birmingham með lest og var útvegað herbergi á litla Suffieldheimilinu í King’s Heathhverfi borgarinnar.

Prengslin voru mikil, Mabel og drengirnir deildu rúmi. Fimm aðrir fullorðnir bjuggu í húsinu: foreldrar Mabelar, systir hennar, yngri bróðir þeirra Vilhjálmur, og leigjandi, ungur ljóshærður starfsmaður tryggingafélags. Hann hét Edwin Neave og þegar hann var ekki að daðra við Jane kenndi hann Ronald að spila á banjó og syngja dægurlög. Prátt fyrir þrengslin var þetta þægindalíf samanborið við vistina í Orangefríríkinu, veðurfar var milt og vindurinn kveinaði ekki undir upsirnar svo að húsið virtist vera að hrynja. Og það voru hvorki eiturköngulær né snákar í garðinum. Mabel saknaði eiginmanns síns en hann var búinn að ákveða að koma ekki til þeirra. En velferð drengjanna gekk fyrir öllu í huga Mabelar.

Sem vænta mátti saknaði Arthur fjölskyldu sinnar. Hann skrifaði oft og lýsti yfir sorg sinni við aðskilnaðinn en engu að síður var hann staðfastur í að taka sér ekki starfsleyfi, ekki einu sinni í nokkra mánuði, hann virðist hafa verið haldinn þráhyggjukenndum ótta um að aðrir gætu skaðað stöðu hans í fyrirtækinu og bundið enda á framavonir ef hann slakaði á hið minnsta.

Um þessar mundir ríkti pólitísk ringulreið í allri S-Afríku. Undir forystu Pauls Kruger hótuðu Búar uppreisn gegn Bretum. Við höfuðstöðvar sínar í Transvaal höfðu þeir myndað sterkan skæruliðaher. Árið 1895 sá Arthur Tolkien um fjármál ríkra Evrópubúa í Bloemfontein en á sama tíma myndaði Kruger hernaðarbandalag með Transwaal og Orangefríríkinu og átti það eftir að þrýsta Bretum út í styrjöld um gjörvalla S-Afríku. Þetta var ekki þægilegur tími fyrir breska íbúa á viðskiptasvæðum á borð við Bloemfontein og að vissu leyti var Arthur feginn því að fjölskylda hans var fjarri þessum væringum og í öruggu skjóli í Bretlandi.

En í nóvember árið 1895 komu enn slæmar fréttir. Arthur skýrið Mabel frá því í bréfi að hann væri kominn með gigt. Mabel grátbað Arthur um að taka sér frí frá vinnu og sameinast fjölskyldunni í Englandi um stundarsakir. En hann neitaði og bar því nú við að hann gæti ekki þolað kaldan breskan vetur með þetta heilsufar.

Sumarið rann upp í Bloemfontein og heilsu Arthurs Tolkien hrakaði mjög. Við þær fréttir ákvað Mabel að snúa aftur til S-Afríku með drengina. Seint í janúar árið 1896 var heimferð hennar með farþegaskipi undirbúin og pantað far fyrir tiltekinn dag. Þann 14. febrúar árið 1896 las Ronald, sem þá var fjögurra ára, fyrir bréf til föður síns og var það skrifað fyrir hann. Í bréfinu sagði hann föður sínum hve mikið hann saknaði hans og hve hann hlakkaði mikið til að hitta hann eftir svo langan aðskilnað.

Bréfið var aldrei sent því næsta dag bárust þær fréttir til Suffield að Arthur hefði látist eftir mikla blæðingu. Mabel var heltekin sorg. Hún pakkaði niður í skyndi, setti drengina í umsjá foreldra sinna og tók sér far með næsta skipti til Góðrarvonarhöfða. Um það leyti sem hún náði höfn í Bloemfontein hafði eiginmaður hennar til fimm ára verið jarðsettur í kirkjugarðinum á staðnum.

Líf Tolkiens tók þar nýja stefnu, núna þegar hann var fjögurra ára gamall. Óbyggðir Bloemfontein voru úr sögunni og iðnaðarumhverfi í Birmingham tók við í næststærstu borg Englands og ein af undirstöðum Bretaveldis. Fjarrænn sjóndeildarhringur, rauð sól lágt á lofti yfir fjarlægum hæðum, leikir í skugga af rykugu hitakófi janúarsíðdaga allt var þetta nú horfið úr lífi hins unga Tolkiens. Hið nýja umhverfi Ronalds samanstóð af húsum með veröndum og múrsteinsreykháfum, steinsteyptum bakgörðum og verksmiðjureyk.

Prátt fyrir þá staðreynd að Arthur hafði unnið langan vinnudag, eyðilagt heilsu sína með striti og dáið sannfærður um að hann hefði ekki tíma aflögu fyrir fjölskyldu sína, þá skildi hann lítið eftir handa eiginkonu sinni og sonum til að hefja nýtt líf. Fé sitt hafði hann fest í Bonanza-námunum og afgangurinn færði Mabel ekki nema 30 shillinga á viku í framfærslueyri, en sú upphæð árið 1896 dugði varla til að sjá fyrir fjölskyldunni þrátt fyrir sparsemi. Mágur Mabelar Walter Incledon, veitti piltunum dálítinn fjárstyrk en hvorki Suffieldfjölskyldan né foreldrar Arthurs gátu látið nokkuð af hendi rakna. Um það leyti sem Arthur dó höfðu Mabel og drengirnir búið í 9 mánuði í hinum þröngu húsakynnum Suffieldfjölskyldunnar og engum líkaði þrengslin sem sköpuðust af þessu fyrirkomulagi; nú þurfti að finna ódýrt leiguhúsnæði í snatri.

Um sumarið fann Mabel lítið stakt íbúðarhús fyrir fjölskylduna, við Gracewellveg 5, í smáþorpinu Sarehole, um það bil eina og hálfa mílu suður af borginni. Núna er Sarehole úthverfi í Birmingham, steinsteypt og þéttbýlt svæði, en þegar Tolkien-fjölskyldan setti sig þarna niður, var þetta kyrrlátur og fallegur staður í faðmi náttúrunnar, fjarri ys og þys Birminghamborgar. Smáhýsið var fallegt múrsteinshús og Ronald fann sig undir eins heimakominn þar.

Sem gamall maður gat hann enn rifjað upp í smáatriðum ýmsar minningar frá lífinu með bróður sínum og móður í þessari sveitasælu. Húsið var lítið en þægilegt og rosknir nágrannar fjölskyldunnar voru vingjarnlegir og hjálplegir. Hilary var aðeins tveggja og hálfs árs um það leyti sem flutningurinn átti sér stað en áður en langt um leið var hann farinn að leika sér með bróður sínum úti í náttúrunni og saman fóru þeir í langar og ævintýralegar gönguferðir. Stundum fóru þeir alla leið í næsta þorp, Hall Green, og smám saman eignuðust þeir vini meðal barna sem bjuggu þar.

Drengirnir voru óvenjulega samrýndir. Föðurlausir höfðu þeir bara hvor annan sem karlkyns félagsskap eins og nærri má geta voru báðir mjög háðir móðurinni. Þessir æskudagar voru hlaðnir tilbúnum leikjum og riku hugarflugi. Drengirnir ímynduðu sér að bóndi í nágrenninu væri vondur galdrakarl og þeir breyttu þessari kyrrlátu og íhaldssömu ensku sveit í leikjagarð hugans þar sem góðir og illir töframenn háðu harattu um yfirráð. Þeir fóru í herferðir til furðulanda (skógarsvæðið í nágrenninu) til að vernda sakleysingja fyrir illmennum. Stundum tíndu þeir brómber við á sem þeir skírðu Kvosina. Annað atriði er mjög áhugavert í ljósi verka Tolkiens en það er mylla sem staðsett var nálægt Gracewell.

Mylluna ráku feðgar sem báðir virðast hafa verið lítt félagslyndir. Eldri malarinn hafði sítt svart skegg og var fremur hlédrægur en sonur hans, sem drengirnir kölluðu Hvíta tröllið (því hann var alltaf þakinn hveiti), virðist hafa verið sérlega óvinsamlegur og skelfilegur. Næstum því hálfri öld síðar gengu þessir tveir í endurnýjun lífdaga sem malarinn Sandyman og hinn óviðkunnanlegi sonur hans, Ted.

Órar Ronalds um tröll og dreka urðu skýrari við aukinn bóklestur. Móðir hans hvatti hann til lestrar og kynnti honum verk á borð við Lísu í Undralandi og Gulleyjuna. En mikilvægust Ronaldi reyndist Rauða œvintýrabókin eftir Andrew Lang. Hann var skoskur fræðimaður sem safnaði, umbreytti og samdi sin eigin ævintýri og ritröð hans naut mikilla vinsælda. Ronald dáði bækur hans og las af áfergju hverja söguna af annarri svo lengi sem þar var minnst á dreka og sæskrímsli, þar sem goðsöguleg ævintýri áttu sér stað og riddarar drýgðu hetjudáðir.

Tolkien varð snemma mikill bókaormur og Mabel varð fljótt vör við áhuga hans og það sem virtist vera meðfædd næmni fyrir tungumálinu. Hún annaðist kennslu drengjanna og þegar Ronald var sjö ára byrjaði hún að kenna honum frönsku og undirstöðuatriði í latínu, nokkuð sem hann var fljótur að nema. Mabel var frambærilegur og sjálflærður píanóleikari og hún reyndi líka að vekja áhuga drengjanna á tónlist. Hilary var áhugasamur en Ronald gaf píanóinu lítinn gaum.

Það er sérkennileg staðreynd að þó að Tolkien hafi ort mikið af ljóðum, textum sem hann lagði í munn álfa sinna og hobbita, þá hafði hann nánast engan áhuga á tónlist.

Hann fór sárasjaldan á tónleika. Eiginkona hans Edith, var hæfleikaríkur píanóleikari, en hann hlustaði bara einstaka sinnum á hana spila og honum þóttu djazz, djæf og síðar popptónlist móðgandi og pirrandi. Tónlistin átti greinilega enga hlutdeild í listrænum smekk hans. 3

Þetta voru hamingjutímar í lífi Tolkiens. Hann elskaði Sarehole og ímyndunaraflið varð frjótt af bóklestri. Þetta var tímabil sem átti eftir að lifa í minningu hans alla ævi sem bjart og fagurt. Hann mundi lítið frá tímanum í S-Afríku, faðir hans (sem hann hafði í rauninni lítið þekkt) varð að skugga í hugskotinu og dofnaði sífellt meira. Fyrir Tolkien var barnæskan tíminn í Sarehole með bróðurnum og ástkærri móður; það var eins og ekkert markvert hefði gerst fyrir þann tíma.

En svo breyttist allt aftur. Dýrðarárin í Sarehole gátu ekki varað endalaust og í lok ársins 1900, þegar 9. afmælisdagur Ronalds nálgaðist, þurfti Mabel að flytja aftur með drengina til Birmingham.

Margar ástæður lágu til þessa flutnings. Mabel vildi að drengirnir gengju fremur í skóla í borginni en sveitinni. Ronald hafði tekið inntökupróf í hinn virðulega skóla Játvarðs konungs, skólann sem faðir hans hafði gengið í. Hann féll í fyrstu tilraun en tók prófið aftur næsta ár og fékk þá inngöngu. Námið hófst í september árið 1900. En skólinn var í fjögurra mílna fjarlægð frá Sarehole og Mabel hafði ekki efni á daglegum lestarferðum og því þurfti Ronald að ganga fram og til baka.

Það var þvi augljóst óhagræði af því að fjölskyldan byggi áfram í sveitinni, einu gilti hve sársaukafullur flutningurinn var drengjunum.

En önnur og e.t.v. veigameiri ástæða var fyrir flutningnum. Mabel hafði nýlega kynnst kaþólskra trú og varð henni mjög handgengin. Næsta kaþólska kirkja var í miðbæ Birmingham.

Fram að hinum ótímabæra dauða eiginmanns síns hafði Mabel fylgt Réttrúnaðarkirkjunni en það er auðvelt að átta sig á því hvers vegna kaþólskan tók að höfða til hennar. Drengirnir Ronald og Hilary höfðu hvor annan en Mabel átti fáa vini og þó að hún væri í nánum tengslum við eigin fjölskyldu, sérstaklega Jane systur sína, þá hafði hún ekki þekkt fjölskyldu eiginmanns síns vel. John Tolkien, afi Ronalds í föðurætt, hafði látist innan hálfs árs eftir dauða sonar síns og Mabel átti fátt sameiginlegt með tengdamóður sinni, Mary Tolkien.

Að auki virðist Mabel ekki hafa haft minnstan áhuga á að giftast aftur. Vitaskuld voru tækifæri til ástarævintýra fá. Hún bjó í sveitinni með tveimur sonum, var bláfátæk og að nálgast þrítugt: hún var því ekki hið eftirsóttasta kvonfang. Staðreyndin var einnig sú að hún vildi ala drengina upp eftir sinu höfði, hún var sjálfstæð og viljasterk kona og hefði átt erfitt með að sætta sig við föðurímynd drengjanna sem hefði fylgt nýju sambandi.

4

Fljótlega eftir þá gleði sem fylgdi fermingu Ronalds hlóðust upp óveðursský í byrjun árs 1904.

Mabel var úrvinda af þreytu og nú kom á daginn að það var ekki vegna álagsins sem fylgdi því að ala drengina upp né var þetta afleiðing af því að þurfa að búa í hverfi sem var lítið skárra en fátækrahverfi: hún var með sykursýki.

Árið 1904 var ekki til nein árangursrík meðferö við sykursýki og læknavísindin vissu enn ekki um virkni insúlíns. Mabel versnaði stöðugt og í apríl mánuði þurfti hún að leggjast inn á spítala.

Til að byrja með var enginn viss um hvað gera ætti við drengina. Húsið við Oliver Road var tæmt og leigusamningnum sagt upp. Mabel var haldið á sjúkrahúsinu en læknarnir gátu ekkert fyrir hana gert nema vona að hún endurheimti eitthvað af styrk sínum. Enginn í fjölskyldunni gat séð um báða Tolkienbræðurna og því voru þeir aðskildir um tíma. Hilary var komið fyrir hjá afa sínum og ömmu en Ronald fluttist til Jane frænku sem hafði gifst tryggingastarfsmanninum sem spilaði á banjó, Edwin Neave. Pau bjuggu núna í Hove, nálægt Brighton á suðurströndinni og því þurfti Ronald að gera hlé á námi sínu í King Edwards snemma á þessari skólaönn og gera sitt besta til að halda í við samnemendur með því að lesa tilteknar bækur og æfa sig í tungumálum með því að skrifa í stílabækur.

Gagnstætt því sem ætla mátti hafði Mabel skánað svo mjög í júnímánuði þetta ár að hún gat farið af sjúkrahúsinu og með hjálp séra Francis sameinuðust móðir og synir á meðan hún var að jafna sig. Prestinum hafði tekist að finna tveggja herbergja vistarveru í smáhýsi einu sem Bænareglan átti og leigði út til póstmannsins á staðnum.

Smáhýsið var á landareign reglunnar og keypt í þessum tilgangi hálfri öld fyrr, fyrir tilstuðlan stofnanda hennar, John Henry Newman. Fyrir lága þóknun sá kona póstmannsins um fjölskylduna og eldaði fyrir hana.

Sumarið 1904 átti eftir að ljóma lengi í minningu Tolkiens, æskuparadís var þessi enska sveitasæla og dvölin gaf innblástur í skáldskapinn síðar á ævinni. Hann gerði sér ekki fulla grein fyrir því hve veik móðir hans var og taldi líka að hún væri á batavegi. Ronald hafði þráð Sarehole allar götur frá því þau voru tilneydd að flytja þaðan fjórum árum áður. Litla huggulega smáhýsið sem þau höfðu búið í þá og skógurinn í kring höfðu verið sannkallaður paradísarmissir. Daglega fóru Hilary og Ronald í langar gönguferðir inn í skóginn þetta sumar, þar sem þeir klifruðu í trjám og létu flugdreka á loft.

Um sumarið urðu drengirnir nákomnari séra Francis. Hann heimsótti þá oft og slóst gjarnan í för með þeim á gönguferðunum. Í heimsóknum sínum til þeirra reykti hann oft pípu, sem átti eftir að verða hvatning fyrir Tolkien til pípureykinga síðar á ævinni.

Pví miður entist þetta fyrirkomulag stutt. Í september þurfti Ronald aftur að fara í skólann en Hilary var áfram kennt heima.

Gönguferðin til og frá lestarstöðinni tók hálfa klukkustund og þegar haustaði tók Hilary á móti Ronald þegar hann kom úr skólanum og bar lukt sem lýsti þeim leiðina heim í rökkrinu.

Hvorugur drengjanna hafði gert sér grein fyrir því hve veik móðir þeirra var. Sykursýki Mabelar versnaði og þann 14. nóvember hneig hún niður fyrir framan drengina.

Skelfingu lostnir og hjálparvana horfðu drengirnir á móður sína falla í dá, sem lést sex dögum síðar, 34 ára. Einungis Francis og May Incledon systir Mabelar, voru við dánarbeðinn þegar hún safnaðist til feðra sinna.