SAGA Egmont
Laxdæla saga
Cover image: Shutterstock
Copyright © 1997, 2020 Óþekktur and SAGA Egmont
All rights reserved
ISBN: 9788726225679
1. e-book edition, 2020
Format: EPUB 2.0
All rights reserved. No part of this publication may be reproduced, stored in a retrievial system, or transmitted, in any form or by any means without the prior written permission of the publisher, nor, be otherwise circulated in any form of binding or cover other than in which it is published and without a similar condition being imposed on the subsequent purchaser.
SAGA Egmont www.saga-books.com – a part of Egmont, www.egmont.com
ásamt Bolla þætti Bollasonar
Ketill flatnefur hét maður son Bjarnar bunu. Hann var hersir ríkur í Noregi og kynstór. Hann bjó í Raumsdal í Raumsdælafylki. Það er milli Sunnmærar og Norðmærar. Ketill flatnefur átti Yngvildi dóttur Ketils veðurs, ágæts manns. Þeirra börn voru fimm. Hét einn Björn hinn austræni, annar Helgi bjólan. Þórunn hyrna hét dóttir Ketils er átti Helgi hinn magri son Eyvindar austmanns og Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs. Unnur hin djúpúðga var enn dóttir Ketils er átti Ólafur hvíti Ingjaldsson Fróðasonar hins frækna er Svertlingar drápu. Jórunn manvitsbrekka hét enn dóttir Ketils. Hún var móðir Ketils hins fiskna er nam land í Kirkjubæ. Hans son var Ásbjörn faðir Þorsteins, föður Surts, föður Sighvats lögsögumanns.
Á ofanverðum dögum Ketils hófst ríki Haralds konungs hins hárfagra svo að engi fylkiskonungur þreifst í landinu né annað stórmenni nema hann réði einn nafnbótum þeirra. En er Ketill fréttir þetta, að Haraldur konungur hafði honum slíkan kost ætlað sem öðrum ríkismönnum, að hafa frændur sína óbætta en ger þó að leigumanni sjálfur, síðan stefnir hann þing við frændur sína og hóf svo mál sitt: "Kunnig hafa yður verið skipti vor Haralds konungs og þarf eigi þau að inna því að oss ber meiri nauðsyn til að ráða um vandkvæði þau er vér eigum fyrir höndum. Sannspurðan hefi eg fjandskap Haralds konungs til vor. Sýnist mér svo að vér munum eigi þaðan trausts bíða. Líst mér svo sem oss séu tveir kostir gervir, að flýja land eða vera drepnir hver í sínu rúmi. Er eg og þess fúsari að hafa slíkan dauðdaga sem frændur mínir en eigi vil eg yður leiða í svo mikið vandkvæði með einræði mínu því að mér er kunnigt skaplyndi frænda minna og vina, að þér viljið eigi við oss skiljast þótt mannraun sé í nokkur að fylgja mér."
Björn son Ketils svarar: "Skjótt mun eg birta minn vilja. Eg vil gera að dæmum göfugra manna og flýja land þetta. Þykist eg ekki af því vaxa þótt eg bíði heiman þræla Haralds konungs og elti þeir oss af eignum vorum eða þiggja af þeim dauða með öllu."
Að þessu var ger góður rómur og þótti þetta drengilega talað. Þetta ráð var bundið, að þeir mundu af landi fara því að synir Ketils fýstu þessa mjög en engi mælti í móti. Björn og Helgi vildu til Íslands fara því að þeir þóttust þaðan margt fýsilegt fregnt hafa, sögðu þar landskosti góða og þurfti ekki fé að kaupa. Kölluðu vera hvalrétt mikinn og laxveiðar en fiskastöð öllum misserum.
Ketill svarar: "Í þá veiðistöð kem eg aldregi á gamals aldri."
Sagði Ketill þá sína ætlan, að hann var fúsari vestur um haf, kvaðst þar virðast gott. Voru honum þar víða lönd kunnig því að hann hafði þar víða herjað.
Eftir þetta hafði Ketill boð ágætt. Þá gifti hann Þórunni hyrnu dóttur sína Helga hinum magra, sem fyrr var ritað. Eftir það býr Ketill ferð sína úr landi vestur um haf. Unnur dóttir hans fór með honum og margir aðrir frændur hans.
Synir Ketils héldu það sama sumar til Íslands og Helgi magri mágur þeirra. Björn Ketilsson kom skipi sínu vestur í Breiðafjörð og sigldi inn eftir firðinum og nær hinu syðra landinu þar til er fjörður skarst inn í landið en fjall hátt stóð á nesinu fyrir innan fjörðinn en ey lá skammt frá landinu. Björn segir að þeir mundu eiga þar dvöl nokkura. Björn gekk á land upp með nokkura menn og reikaði fram með sjónum. Var þar skammt í milli fjalls og fjöru. Honum þótti þar byggilegt. Þar fann Björn reknar öndvegissúlur sínar í einni vík. Þótti þeim þá á vísað um bústaðinn.
Síðan tók Björn sér þar land allt á millum Stafár og Hraunfjarðar og bjó þar er síðan heitir í Bjarnarhöfn. Hann var kallaður Björn hinn austræni. Hans kona var Gjaflaug dóttir Kjallaks hins gamla. Þeirra synir voru þeir Óttar og Kjallakur. Hans son var Þorgrímur, faðir Víga-Styrs og Vermundar, en dóttir Kjallaks hét Helga. Hana átti Vestar á Eyri son Þórólfs blöðruskalla er nam Eyri. Þeirra son var Þorlákur faðir Steinþórs á Eyri.
Helgi bjólan kom skipi sínu fyrir sunnan land og nam Kjalarnes allt á milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar og bjó að Esjubergi til elli. Helgi hinn magri kom skipi sínu fyrir norðan land og nam Eyjafjörð allan á milli Sigluness og Reynisness og bjó í Kristnesi. Frá þeim Helga og Þórunni er komið Eyfirðingakyn.
Ketill flatnefur kom skipi sínu við Skotland og fékk góðar viðtökur af tignum mönnum, því að hann var frægur maður og stórættaður, og buðu honum þann ráðakost þar sem hann vildi hafa. Ketill staðfestist þar og annað frændlið hans nema Þorsteinn dótturson hans. Hann lagðist þegar í hernað og herjaði víða um Skotland og fékk jafnan sigur. Síðan gerði hann sætt við Skota og eignaðist hálft Skotland og varð konungur yfir. Hann átti Þuríði Eyvindardóttur systur Helga hins magra. Skotar héldu eigi lengi sættina því að þeir sviku hann í tryggð. Svo segir Ari Þorgilsson hinn fróði um líflát Þorsteins að hann félli á Katanesi.
Unnur djúpúðga var á Katanesi er Þorsteinn féll, son hennar. Og er hún frá það að Þorsteinn var látinn en faðir hennar andaður þá þóttist hún þar enga uppreist fá mundu. Eftir það lætur hún gera knörr í skógi á laun. Og er skipið var algert þá bjó hún skipið og hafði auð fjár. Hún hafði í brott með sér allt frændlið sitt það er á lífi var og þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.
Unnur hafði og með sér marga þá menn er mikils voru verðir og stórættaðir. Maður er nefndur Kollur er einna var mest verður af föruneyti Unnar. Kom mest til þess ætt hans. Hann var hersir að nafni. Sá maður var og í ferð með Unni er Hörður hét. Hann var enn stórættaður maður og mikils verður.
Unnur heldur skipinu í Orkneyjar þegar er hún var búin. Þar dvaldist hún litla hríð. Þar gifti hún Gró dóttur Þorsteins rauðs. Hún var móðir Grélaðar er Þorfinnur jarl átti, son Torf-Einars jarls, sonar Rögnvalds Mærajarls. Þeirra son var Hlöðvir faðir Sigurðar jarls, föður Þorfinns jarls, og er þaðan komið kyn allra Orkneyingajarla.
Eftir það hélt Unnur skipi sínu til Færeyja og átti þar enn nokkura dvöl. Þar gifti hún aðra dóttur Þorsteins. Sú hét Ólöf. Þaðan er komin sú ætt er ágæst er í því landi er þeir kalla Götuskeggja.
Nú býst Unnur í brott úr Færeyjum og lýsir því fyrir skipverjum sínum að hún ætlar til Íslands. Hún hefir með sér Ólaf feilan son Þorsteins rauðs og systur hans þær er ógiftar voru. Eftir það lætur hún í haf og verður vel reiðfara og kemur skipi sínu fyrir sunnan land á Vikrarskeið. Þar brjóta þau skipið í spón. Menn allir héldust og svo fé.
Síðan fór hún á fund Helga bróður síns með tuttugu menn. Og er hún kom þar gekk hann á mót henni og bauð henni til sín við tíunda mann. Hún svarar reiðulega og kvaðst eigi vitað hafa að hann væri slíkt lítilmenni og fer í brott.
Ætlar hún nú að sækja heim Björn bróður sinn í Breiðafjörð. Og er hann spyr til ferða hennar þá fer hann í mót henni með fjölmenni og fagnar henni vel og bauð henni til sín með öllu liði sínu því að hann kunni veglyndi systur sinnar. Það líkaði henni allvel og þakkaði honum stórmennsku sína. Hún var þar um veturinn og var veitt hið stórmannlegasta því að efni voru nóg en fé eigi sparað.
Og um vorið fór hún yfir Breiðafjörð og kom að nesi nokkuru og átu þar dagverð. Þar er síðan kallað Dögurðarnes og gengur þar af Meðalfellsströnd. Síðan hélt hún skipi sínu inn eftir Hvammsfirði og kom þar að nesi einu og átti þar dvöl nokkura. Þar tapaði Unnur kambi sínum. Þar heitir síðan Kambsnes. Eftir það fór hún um alla Breiðafjarðardali og nam sér lönd svo víða sem hún vildi. Síðan hélt Unnur skipi sínu í fjarðarbotninn. Voru þar reknar á land öndvegissúlur hennar. Þótti henni þá auðvitað hvar hún skyldi bústað taka. Hún lætur bæ reisa þar er síðan heitir í Hvammi og bjó þar.
Það sama vor er Unnur setti bú saman í Hvammi fékk Kollur Þorgerðar dóttur Þorsteins rauðs. Það boð kostaði Unnur. Lætur hún Þorgerði heiman fylgja Laxárdal allan og setti hann þar bú saman fyrir sunnan Laxá. Var Kollur hinn mesti tilkvæmdarmaður. Þeirra son var Höskuldur.
Eftir það gefur Unnur fleirum mönnum af landnámi sínu. Herði gaf hún Hörðadal allan út til Skrámuhlaupsár. Hann bjó á Hörðabólstað og var mikill merkismaður og kynsæll. Hans son var Ásbjörn auðgi er bjó í Örnólfsdal á Ásbjarnarstöðum. Hann átti Þorbjörgu dóttur Miðfjarðar-Skeggja. Þeirra dóttir var Ingibjörg er átti Illugi hinn svarti. Þeirra synir voru þeir Hermundur og Gunnlaugur ormstunga. Það er kallað Gilsbekkingakyn.
Unnur mælti við sína menn: "Nú skuluð þér taka ömbun verka yðvarra. Skortir oss nú og eigi föng til að gjalda yður starf yðvart og góðvilja. En yður er það kunnigt að eg hefi frelsi gefið þeim manni er Erpur heitir, syni Melduns jarls. Fór það fjarri um svo stórættaðan mann að eg vildi að hann bæri þræls nafn."
Síðan gaf Unnur honum Sauðafellslönd á millum Tunguár og Miðár. Hans börn voru þau Ormur og Ásgeir, Gunnbjörn og Halldís er átti Dala-Álfur. Sökkólfi gaf hún Sökkólfsdal og bjó hann þar til elli. Hundi hét lausingi hennar. Hann var skoskur að ætt. Honum gaf hún Hundadal. Vífill hét þræll Unnar hinn fjórði. Hún gaf honum Vífilsdal.
Ósk hét hin fjórða dóttir Þorsteins rauðs. Hún var móðir Þorsteins surts hins spaka er fann sumarauka. Þórhildur hét hin fimmta dóttir Þorsteins. Hún var móðir Álfs í Dölum. Telur margt manna kyn sitt til hans. Hans dóttir var Þorgerður, kona Ara Mássonar á Reykjanesi, Atlasonar, Úlfssonar hins skjálga, og Bjargar Eyvindardóttur, systur Helga hins magra. Þaðan eru komnir Reyknesingar. Vigdís hét hin sétta dóttir Þorsteins rauðs. Þaðan eru komnir Höfðamenn í Eyjafirði.
Ólafur feilan var yngstur barna Þorsteins. Hann var mikill maður og sterkur, fríður sýnum og atgervimaður hinn mesti. Hann mat Unnur umfram alla menn og lýsti því fyrir mönnum að hún ætlaði Ólafi allar eignir eftir sinn dag í Hvammi. Unnur gerðist þá mjög ellimóð.
Hún kallar til sín Ólaf feilan og mælti: "Það hefir mér komið í hug frændi að þú munir staðfesta ráð þitt og kvænast."
Ólafur tók því vel og kveðst hennar forsjá hlíta mundu um það mál.
Unnur mælti: "Svo hefi eg helst ætlað að boð þitt muni vera að áliðnu sumri þessu því að þá er auðveldast að afla allra tilfanga því að það er nær minni ætlan að vinir vorir muni þá mjög fjölmenna hingað því að eg ætla þessa veislu síðast að búa."
Ólafur svarar: "Þetta er vel mælt. En þeirrar einnar konu ætla eg að fá að sú ræni þig hvorki fé né ráðum."
Það sama haust fékk Ólafur feilan Álfdísar. Þeirra boð var í Hvammi. Unnur hafði mikinn fékostnað fyrir veislunni því að hún lét víða bjóða tignum mönnum úr öðrum sveitum. Hún bauð Birni bróður sínum og Helga bróður sínum bjólan. Komu þeir fjölmennir. Þar kom Dala-Kollur mágur hennar og Hörður úr Hörðadal og margt annað stórmenni. Boðið var allfjölmennt og kom þó hvergi nær svo margt manna sem Unnur hafði boðið fyrir því að Eyfirðingar áttu farveg langan.
Elli sótti þá fast að Unni svo að hún reis ekki upp fyrir miðjan dag en hún lagðist snemma niður. Engum manni leyfði hún að sækja ráð að sér þess á milli er hún fór að sofa á kveldið og hins er hún var klædd. Reiðulega svarar hún ef nokkur spurði að mætti hennar.
Þann dag svaf Unnur í lengra lagi en þó var hún á fótum er boðsmenn komu og gekk á mót þeim og fagnaði frændum sínum og vinum með sæmd, kvað þá ástsamlega gert hafa er þeir höfðu sótt þangað langan veg, "nefni eg til þess Björn og Helga og öllum vil eg yður þakka er hér eruð komnir."
Síðan gekk Unnur inn í skála og sveit mikil með henni. Og er skálinn var alskipaður fannst mönnum mikið um hversu veisla sú var sköruleg.
Þá mælti Unnur: "Björn kveð eg að þessu bróður minn og Helga og aðra frændur vora og vini: Bólstað þenna með slíkum búnaði sem nú megið þér sjá sel eg í hendur Ólafi frænda mínum til eignar og forráða."
Eftir það stóð Unnur upp og kvaðst ganga mundu til þeirrar skemmu sem hún var vön að sofa í, bað að það skyldi hver hafa að skemmtan sem þá væri næst skapi en mungát skyldi skemmta alþýðunni. Svo segja menn að Unnur hafi bæði verið há og þrekleg. Hún gekk hart utar eftir skálanum. Fundust mönnum orð um að konan var enn virðuleg. Drukku menn um kveldið þangað til að mönnum þótti mál að sofa.
En um daginn eftir gekk Ólafur feilan til svefnstofu Unnar frændkonu sinnar. Og er hann kom í stofuna sat Unnur upp við hægindin. Hún var þá önduð. Gekk Ólafur eftir það í skálann og sagði tíðindi þessi. Þótti mönnum mikils um vert hversu Unnur hafði haldið virðingu sinni til dauðadags. Var nú drukkið allt saman, brullaup Ólafs og erfi Unnar. Og hinn síðasta dag boðsins var Unnur flutt til haugs þess er henni var búinn. Hún var lögð í skip í hauginum og mikið fé var í haug lagt með henni. Var eftir það aftur kastaður haugurinn.
Ólafur feilan tók þá við búi í Hvammi og allri fjárvarðveislu að ráði þeirra frænda sinna er hann höfðu heim sótt. En er veisluna þrýtur gefur Ólafur stórmannlegar gjafir þeim mönnum er þar voru mest verðir áður á brott fóru.
Ólafur gerðist ríkur maður og höfðingi mikill. Hann bjó í Hvammi til elli. Börn þeirra Ólafs og Álfdísar voru Þórður gellir er átti Hróðnýju dóttur Miðfjarðar-Skeggja. Þeirra synir voru Eyjólfur grái, Þórarinn fylsenni, Þorkell kuggi. Dóttir Ólafs feilans var Þóra er átti Þorsteinn þorskabítur son Þórólfs Mostrarskeggs. Þeirra synir voru Börkur hinn digri og Þorgrímur faðir Snorra goða. Helga hét önnur dóttir Ólafs. Hana átti Gunnar Hlífarson. Þeirra dóttir var Jófríður er átti Þóroddur son Tungu-Odds en síðan Þorsteinn Egilsson. Þórunn hét enn dóttir hans. Hana átti Hersteinn son Þorkels Blund-Ketilssonar. Þórdís hét hin þriðja dóttir Ólafs. Hana átti Þórarinn Ragabróðir lögsögumaður.
Í þenna tíma er Ólafur bjó í Hvammi tekur Dala-Kollur mágur hans sótt og andaðist.
Höskuldur son Kolls var á ungum aldri er faðir hans andaðist. Hann var fyrr fullkominn að hyggju en vetratölu. Höskuldur var vænn maður og gervilegur. Hann tók við föðurleifð sinni og búi. Er sá bær við hann kenndur er Kollur hafði búið á. Hann var kallaður síðan á Höskuldsstöðum. Brátt varð Höskuldur vinsæll í búi sínu því að margar stoðar runnu undir, bæði frændur og vinir er Kollur faðir hans hafði sér aflað.
En Þorgerður Þorsteinsdóttir móðir Höskulds var þá enn ung kona og hin vænsta. Hún nam eigi yndi á Íslandi eftir dauða Kolls. Lýsir hún því fyrir Höskuldi syni sínum að hún vill fara utan með fjárhlut þann sem hún hlaut. Höskuldur kvaðst það mikið þykja ef þau skulu skilja en kvaðst þó eigi mundu þetta gera að móti henni heldur en annað.
Síðan kaupir Höskuldur skip hálft til handa móður sinni er uppi stóð í Dögurðarnesi. Réðst Þorgerður þar til skips með miklum fjárhlutum. En eftir það siglir Þorgerður á haf og verður skip það vel reiðfara og kemur við Noreg.
Þorgerður átti í Noregi mikið ætterni og marga göfga frændur. Þeir fögnuðu henni vel og buðu henni alla kosti þá sem hún vildi með þeim þiggja. Hún Þorgerður tók því vel, segir að það er hennar ætlan að staðfestast þar í landi.
Þorgerður var eigi lengi ekkja áður maður varð til að biðja hennar. Sá er nefndur Herjólfur. Hann var lendur maður að virðingu, auðigur og mikils virður. Herjólfur var mikill maður og sterkur. Ekki var hann fríður maður sýnum og þó hinn skörulegsti í yfirbragði. Allra manna var hann best vígur.
Og er að þessum málum var setið átti Þorgerður svör að veita er hún var ekkja. Og með frænda sinna ráði veikst hún eigi undan þessum ráðahag og giftist Þorgerður Herjólfi og fer heim til bús með honum. Takast með þeim góðar ástir. Sýnir Þorgerður það brátt af sér að hún er hinn mesti skörungur. Þykir ráðahagur hans nú miklu betri en áður og virðulegri er hann hefir fengið slíkrar konu sem Þorgerður var.
Þau Herjólfur og Þorgerður höfðu eigi lengi ásamt verið áður þeim varð sonar auðið. Sá sveinn var vatni ausinn og nafn gefið og var kallaður Hrútur. Hann var snemmendis mikill og sterkur er hann óx upp. Var hann og hverjum manni betur í vexti, hár og herðibreiður, miðmjór og limaður vel með höndum og fótum. Hrútur var allra manna fríðastur sýnum eftir því sem verið höfðu þeir Þorsteinn móðurfaðir hans eða Ketill flatnefur. Hinn mesti var hann atgervimaður fyrir allra hluta sakir.
Herjólfur tók sótt og andaðist. Það þótti mönnum mikill skaði. Eftir það fýstist Þorgerður til Íslands og vildi vitja Höskulds sonar síns því að hún unni honum um alla menn fram en Hrútur var eftir með frændum sínum vel settur.
Þorgerður bjó ferð sína til Íslands og sækir heim Höskuld son sinn í Laxárdal. Hann tók sem hann kunni best við móður sinni. Átti hún auð fjár og var með Höskuldi til dauðadags. Nokkurum vetrum síðar tók Þorgerður banasótt og andaðist og var hún í haug sett en Höskuldur tók fé allt en Hrútur bróðir hans átti hálft.
Í þenna tíma réð Noregi Hákon Aðalsteinsfóstri. Höskuldur var hirðmaður hans. Hann var jafnan sinn vetur hvort með Hákoni konungi eða að búi sínu. Var hann nafnfrægur maður bæði í Noregi og á Íslandi.
Björn hét maður. Hann bjó í Bjarnarfirði og nam þar land. Við hann er kenndur fjörðurinn. Sá fjörður skerst í land norður frá Steingrímsfirði og gengur þar fram háls í milli. Björn var stórættaður maður og auðigur að fé. Ljúfa hét kona hans. Þeirra dóttir var Jórunn. Hún var væn kona og ofláti mikill. Hún var og skörungur mikill í vitsmunum. Sá þótti þá kostur bestur í öllum Vestfjörðum.
Af þessi konu hefir Höskuldur fréttir og það með að Björn var bestur bóndi á öllum Ströndum. Höskuldur reið heiman með tíunda mann og sækir heim Björn bónda í Bjarnarfjörð. Höskuldur fékk þar góðar viðtökur því að Björn kunni góð skil á honum. Síðan vekur Höskuldur bónorð en Björn svarar því vel og kvaðst það hyggja að dóttir hans mundi eigi vera betur gift en veik þó til hennar ráða.
En er þetta mál var við Jórunni rætt þá svarar hún á þá leið: "Þann einn spurdaga höfum vér til þín Höskuldur að vér viljum þessu vel svara því að vér hyggjum að fyrir þeirri konu sé vel séð er þér er gift en þó mun faðir minn mestu af ráða því að eg mun því samþykkjast hér um sem hann vill."
En hvort sem að þessum málum var setið lengur eða skemur þá var það af ráðið að Jórunn var föstnuð Höskuldi með miklu fé. Skyldi brullaup það vera á Höskuldsstöðum.
Ríður Höskuldur nú í brott við svo búið og heim til bús síns og er nú heima til þess er boð þetta skyldi vera. Sækir Björn norðan til boðsins með fríðu föruneyti. Höskuldur hefir og marga fyrirboðsmenn, bæði vini sína og frændur, og er veisla þessi hin skörulegasta. En er veisluna þraut þá fer hver heim til sinna heimkynna með góðri vináttu og sæmilegum gjöfum.
Jórunn Bjarnardóttir situr eftir á Höskuldsstöðum og tekur við búsumsýslu með Höskuldi. Var það brátt auðsætt á hennar högum að hún mundi vera vitur og vel að sér og margt vel kunnandi og heldur skapstór jafnan. Vel var um samfarar þeirra Höskulds og ekki margt hversdaglega.
Höskuldur gerist nú höfðingi mikill. Hann var ríkur og kappsamur og skortir eigi fé. Þótti hann í engan stað minni fyrir sér en Kollur faðir hans. Höskuldur og Jórunn höfðu eigi lengi ásamt verið áður þeim varð barna auðið. Son þeirra var nefndur Þorleikur. Hann var elstur barna þeirra. Annar hét Bárður. Dóttir þeirra hét Hallgerður er síðan var kölluð langbrók. Önnur dóttir þeirra hét Þuríður. Öll voru börn þeirra efnileg. Þorleikur var mikill maður og sterkur og hinn sýnilegsti, fálátur og óþýður. Þótti mönnum sá svipur á um hans skaplyndi sem hann mundi verða engi jafnaðarmaður. Höskuldur sagði það jafnan að hann mundi mjög líkjast í ætt þeirra Strandamanna. Bárður var skörulegur maður sýnum og vel sterkur. Það bragð hafði hann á sér sem hann mundi líkari verða föðurfrændum sínum. Bárður var hægur maður í uppvexti sínum og vinsæll maður. Höskuldur unni honum mest allra barna sinna.
Stóð nú ráðahagur Höskulds með miklum blóma og virðingu.
Þenna tíma gifti Höskuldur Gró systur sína Véleifi gamla. Þeirra son var Hólmgöngu-Bersi.
Hrappur hét maður er bjó í Laxárdal fyrir norðan ána, gegnt Höskuldsstöðum. Sá bær hét síðan á Hrappsstöðum. Þar er nú auðn. Hrappur var Sumarliðason og kallaður Víga-Hrappur. Hann var skoskur að föðurætt en móðurkyn hans var allt í Suðureyjum og þar var hann fæðingi. Mikill maður var hann og sterkur. Ekki vildi hann láta sinn hlut þó að manna munur væri nokkur. Og fyrir það er hann var ódæll sem ritað var en vildi ekki bæta það er hann misgerði þá flýði hann vestan um haf og keypti sér þá jörð er hann bjó á. Kona hans hét Vigdís og var Hallsteinsdóttir. Son þeirra hét Sumarliði. Bróðir hennar hét Þorsteinn surtur er þá bjó í Þórsnesi, sem fyrr var ritað. Var þar Sumarliði að fóstri og var hinn efnilegsti maður.
Þorsteinn hafði verið kvongaður. Kona hans var þá önduð. Dætur átti hann tvær. Hét önnur Guðríður en önnur Ósk. Þorkell trefill átti Guðríði er bjó í Svignaskarði. Hann var höfðingi mikill og vitringur. Hann var Rauða-Bjarnarson. En Ósk dóttir Þorsteins var gefin breiðfirskum manni. Sá hét Þórarinn. Hann var hraustur og vinsæll og var með Þorsteini mági sínum því að Þorsteinn var þá hniginn og þurfti umsýslu þeirra mjög.
Hrappur var flestum mönnum ekki skapfelldur. Var hann ágangssamur við nábúa sína. Veik hann á það stundum fyrir þeim að þeim mundi þungbýlt verða í nánd honum ef þeir héldu nokkurn annan fyrir betra mann en hann. En bændur allir tóku eitt ráð, að þeir fóru til Höskulds og sögðu honum sín vandræði. Höskuldur bað sér segja ef Hrappur gerir þeim nokkuð mein "því að hvorki skal hann ræna mig mönnum né fé."
Þórður goddi hét maður er bjó í Laxárdal fyrir norðan á. Sá bær heitir síðan á Goddastöðum. Hann var auðmaður mikill. Engi átti hann börn. Keypt hafði hann jörð þá er hann bjó á. Hann var nábúi Hrapps og fékk oft þungt af honum. Höskuldur sá um með honum svo að hann hélt bústað sínum.
Vigdís hét kona hans og var Ingjaldsdóttir, Ólafssonar feilans. Bróðurdóttir var hún Þórðar gellis en systurdóttir Þórólfs rauðnefs frá Sauðafelli. Þórólfur var hetja mikil og átti góða kosti. frændur hans gengu þangað jafnan til trausts. Vigdís var meir gefin til fjár en brautargengis.
Þórður átti þræl þann er út kom með honum. Sá hét Ásgautur. Hann var mikill maður og gervilegur en þótt hann væri þræll kallaður þá máttu fáir taka hann til jafnaðar við sig þótt frjálsir hétu og vel kunni hann að þjóna sínum meistara. Fleiri átti Þórður þræla þó að þessi sé einn nefndur.
Þorbjörn hét maður. Hann bjó í Laxárdal hið næsta Þórði, upp frá bæ hans, og var kallaður skrjúpur. Auðigur var hann að fé. Mest var það í gulli og silfri. Mikill maður var hann vexti og rammur að afli. Engi var hann veifiskati við alþýðu manns.
Höskuldi Dala-Kollssyni þótti það ávant um rausn sína að honum þótti bær sinn húsaður verr en hann vildi. Síðan kaupir hann skip að hjaltneskum manni. Það skip stóð uppi í Blönduósi. Það skip býr hann og lýsir því að hann ætlar utan en Jórunn varðveitir bú og börn þeirra.
Nú láta þeir í haf og gefur þeim vel og tóku Noreg heldur sunnarlega, komu við Hörðaland þar sem kaupstaðurinn í Björgvin er síðan. Hann setur upp skip sitt og átti þar mikinn frænda afla þótt eigi séu hér nefndir. Þá sat Hákon konungur í Víkinni. Höskuldur fór ekki á fund Hákonar konungs því að frændur hans tóku þar við honum báðum höndum. Var kyrrt allan þann vetur.
Það varð til tíðinda um sumarið öndvert að konungur fór í stefnuleiðangur austur í Brenneyjar og gerði frið fyrir land sitt eftir því sem lög stóðu til hið þriðja hvert sumar. Sá fundur skyldi vera lagður höfðingja í milli að setja þeim málum er konungar áttu um að dæma. Það þótti skemmtileg för að sækja þann fund því að þangað komu menn nær af öllum löndum þeim er vér höfum tíðindi af. Höskuldur setti fram skip sitt. Vildi hann og sækja fund þenna því að hann hafði eigi fundið konung á þeim vetri. Þangað var og kaupstefnu að sækja. Fundur þessi var allfjölmennur. Þar var skemmtan mikil, drykkjur og leikar og alls kyns gleði. Ekki varð þar til stórtíðinda. Marga hitti Höskuldur þar frændur sína þá sem í Danmörku voru.
Og einn dag er Höskuldur gekk að skemmta sér með nokkura menn sá hann tjald eitt skrautlegt fjarri öðrum búðunum. Höskuldur gekk þangað og í tjaldið og sat þar maður fyrir í guðvefjarklæðum og hafði gerskan hatt á höfði. Höskuldur spurði þann mann að nafni.
Hann nefndist Gilli "en þá kannast margir við ef heyra kenningarnafn mitt. Eg er kallaður Gilli hinn gerski."
Höskuldur kvaðst oft hafa heyrt hans getið, kallaði hann þeirra manna auðgastan sem verið höfðu í kaupmannalögum.
Þá mælti Höskuldur: "Þú munt hafa þá hluti að selja oss er vér viljum kaupa." Gilli spyr hvað þeir vilja kaupa förunautar.
Höskuldur segir að hann vill kaupa ambátt nokkura "ef þú hefir að selja."
Gilli svarar: "Þar þykist þér leita mér meinfanga um þetta er þér falið þá hluti er þér ætlið mig eigi til hafa. En það er þó eigi ráðið hvort svo ber til."
Höskuldur sá að um þvera búðina var fortjald. Þá lyfti Gilli tjaldinu og sá Höskuldur að tólf konur sátu fyrir innan tjaldið. Þá mælti Gilli að Höskuldur skyldi þangað ganga og líta á ef hann vildi nokkura kaupa af þessum konum. Höskuldur gerir svo.
Þær sátu allar saman um þvera búðina. Höskuldur hyggur að vandlega að konum þessum. Hann sá að kona sat út við tjaldskörina. Sú var illa klædd. Höskuldi leist konan fríð sýnum ef nokkuð mátti á sjá.
Þá mælti Höskuldur: "Hversu dýr skal sjá kona ef eg vil kaupa?" Gilli svarar: "Þú skalt reiða fyrir hana þrjár merkur silfurs."
"Svo virði eg," segir Höskuldur, "sem þú munir þessa ambátt gera heldur dýrlagða því að þetta er þriggja verð."
Þá svarar Gilli: "Rétt segir þú það að eg met hana dýrra en aðrar. Kjós nú einhverja af þessum ellefu og gjalt þar fyrir mörk silfurs en þessi sé eftir í minni eign."
Höskuldur segir: "Vita mun eg fyrst hversu mikið silfur er í sjóð þeim er eg hefi á belti mér," biður Gilla taka vogina en hann leitar að sjóðnum.
Þá mælti Gilli: "Þetta mál skal fara óvélt af minni hendi því að á er ljóður mikill um ráð konunnar. Vil eg að þú vitir það Höskuldur áður við sláum kaupi þessu."
Höskuldur spyr hvað það væri.
Gilli svarar: "Kona þessi er ómála. Hefi eg marga vega leitað mála við hana og hefi eg aldrei fengið orð af henni. Er það að vísu mín ætlan að þessi kona kunni eigi að mæla."
Þá segir Höskuldur: "Lát fram reisluna og sjáum hvað vegi sjóður sá er eg hefi hér."
Gilli gerir svo. Reiða nú silfrið og voru það þrjár merkur vegnar.
Þá mælti Höskuldur: "Svo hefir nú til tekist að þetta mun verða kaup okkar. Tak þú fé þetta til þín en eg mun taka við konu þessi. Kalla eg að þú hafir drengilega af þessu máli haft því að vísu vildir þú mig eigi falsa í þessu."
Síðan gekk Höskuldur heim til búðar sinnar. Það sama kveld rekkti Höskuldur hjá henni.
En um morguninn eftir er menn fóru í klæði sín mælti Höskuldur: "Lítt sér stórlæti á klæðabúnaði þeim er Gilli hinn auðgi hefir þér fengið. Er það og satt að honum var meiri raun að klæða tólf en mér eina."
Síðan lauk Höskuldur upp kistu eina og tók upp góð kvenmannsklæði og seldi henni. Var það og allra manna mál að henni semdi góð klæði.
En er höfðingjar höfðu þar mælt þeim málum sem þá stóðu lög til var slitið fundi þessum. Síðan gekk Höskuldur á fund Hákonar konungs og kvaddi hann virðulega sem skaplegt var.
Konungur sá við honum og mælti: "Tekið mundum vér hafa kveðju þinni Höskuldur þótt þú hefðir nokkuru fyrr oss fagnað og svo skal enn vera."
Eftir þetta tók konungur með allri blíðu Höskuldi og bað hann ganga á sitt skip "og ver með oss meðan þú vilt í Noregi vera."
Höskuldur svarar: "Hafið þökk fyrir boð yðvart en nú á eg þetta sumar margt að starfa. Hefir það mjög til haldið er eg hefi svo lengi dvalið að sækja yðvarn fund að eg ætlaði að afla mér húsaviðar."
Konungur bað hann halda skipinu til Víkurinnar. Höskuldur dvaldist með konungi um hríð. Konungur fékk honum húsavið og lét ferma skipið.
Þá mælti konungur til Höskulds: "Eigi skal dvelja þig hér með oss lengur en þér líkar en þó þykir oss vandfengið manns í stað þinn."
Síðan leiddi konungur Höskuld til skips og mælti: "Að sómamanni hefi eg þig reyndan og nær er það minni ætlan að þú siglir nú hið síðasta sinn af Noregi svo að eg sé hér yfirmaður."
Konungur dró gullhring af hendi sér, þann er vó mörk, og gaf Höskuldi og sverð gaf hann honum annan grip, það er til kom hálf mörk gulls. Höskuldur þakkaði konungi gjafirnar og þann allan sóma er hann hafði fram lagið.
Síðan stígur Höskuldur á skip sitt og siglir til hafs. Þeim byrjaði vel og komu að fyrir sunnan land, sigldu síðan vestur fyrir Reykjanes og svo fyrir Snæfellsnes og inn í Breiðafjörð. Höskuldur lenti í Laxárósi, lætur þar bera farm af skipi sínu en setja upp skipið fyrir innan Laxá og gerir þar hróf að og sér þar tóftina sem hann lét gera hrófið. Þar tjaldaði hann búðir og er það kallaður Búðardalur.
Síðan lét Höskuldur flytja heim viðinn og var það hægt því að eigi var löng leið. Ríður Höskuldur eftir það heim við nokkura menn og fær viðtökur góðar sem von er. Þar hafði og fé vel haldist síðan. Jórunn spyr hver kona sú væri er í för var með honum.
Höskuldur svarar: "Svo mun þér þykja sem eg svari þér skætingu. Eg veit eigi nafn hennar."
Jórunn mælti: "Það mun tveimur skipta að sá kvittur mun loginn er fyrir mig er kominn eða þú munt hafa talað við hana jafnmargt sem spurt hafa hana að nafni."
Höskuldur kvaðst þess eigi þræta mundu og segir henni hið sanna og bað þá þessi konu virkta og kvað það nær sínu skapi að hún væri heima þar að vistafari.
Jórunn mælti: "Eigi mun eg deila við frillu þína þá er þú hefir flutt af Noregi þótt hún kynni góðra návist en nú þykir mér það allra sýnst ef hún er bæði dauf og mállaus."
Höskuldur svaf hjá húsfreyju sinni hverja nótt síðan hann kom heim en hann var fár við frilluna. Öllum mönnum var auðsætt stórmennskumót á henni og svo það að hún var engi afglapi.
Og á ofanverðum vetri þeim fæddi frilla Höskulds sveinbarn. Síðan var Höskuldur þangað kallaður og var honum sýnt barnið. Sýndist honum sem öðrum að hann þóttist eigi séð hafa vænna barn né stórmannlegra. Höskuldur var að spurður hvað sveinninn skyldi heita. Hann bað sveininn kalla Ólaf því að þá hafði Ólafur feilan andast litlu áður, móðurbróðir hans. Ólafur var afbragð flestra barna. Höskuldur lagði ást mikla við sveininn.